10. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

„Samhugur um nýtt og einfaldara skipulag“ - segir Kristján Vigfússon ráðgjafi í stefnumótun

Á fyrri hluta þessa árs aflaði fyrirtækið Manifesto gagna og vann úr þeim úttekt og tillögur að úrbótum í stjórnun og skipulagi hjá Læknafélagi Íslands. Niðurstöðurnar voru kynntar á aðalfundi Læknafélags Íslands í apríl og eru þær byggðar á markmiðum núverandi laga. Kristján Vigfússon, kennari og ráðgjafi í stefnumótun, segir í viðtali við Læknablaðið að meginniðurstöður hafi leitt í ljós óskir um meiri samstöðu og einfaldara skipulag. 

 

                    

 

                                         
                                        
„Með því að jafna vægið með nýjum aðildarfélögum yrðu félögin
                                         sterkari, völdin jafnari og fjárhagsleg geta meiri til að sinna hagsmunum
                                         allra lækna, sem aftur styður enn betur við starfsemi LÍ,“ 
                                         segir Kristján Vigfússon. 

Viðtöl voru tekin við um 60 lækna, formenn allra aðildarfélaga innan LÍ, fyrrum formenn og helstu aðila sem hafa sinnt félags- og starfskjaramálum lækna, meðal annars í samninganefndum. Greiningin fól í sér mat á núverandi stöðu og á mikilvægustu þáttum í starfsemi félagsins sem hugsanlega mætti breyta til að bæta skipulag og stjórnun.

„Fyrst og fremst var mikill vilji meðal félagsmanna LÍ til að jafna valdahlutföll í félaginu. Læknarnir voru sammála um mikilvægi samstöðu og eflingar stéttarinnar og því ætti skipulag félagsins að taka mið af þeim markmiðum,“ segir Kristján, en hugsunin með breyttu skipulagi skyldi einnig verða á þá leið að hún yrði skiljanleg öllum, bæði innan félagsins og gagnvart ríkisvaldi og öðrum hagsmunaaðilum. „Breytingar eiga að samræmast tilgangi og hlutverki félagsins, stuðla að betri nýtingu á fjármunum, landsbyggðinni verði sinnt betur og samstarf skrifstofu og stjórnar Læknafélags Íslands og aðildarfélaga verði auðveldara.“ Einnig hafi komið upp umræða um betri nýtingu á húsnæði LÍ í Hlíðasmára. Aðildarfélögin gætu til dæmis verið þar með aðstöðu fyrir starfsmenn og fundaaðstöðu.

 

Fækkun aðildarfélaga og þverfagleg samvinna

Flestir voru sammála um að félagið skyldi áfram að sinna fag- og starfskjarahlutanum með sambærilegum hætti og gert er í dag. „Það væri til dæmis hægt að vinna að því á skýrari hátt á skrifstofu LÍ hver myndi sinna hverju og þess vegna þurfti að einfalda skipulagið. Helsta breytingin sem lögð er til er sú að Læknafélag Íslands yrði áfram æðsta stofnun lækna og áfram yrði boðið uppá einstaklingsaðild að félaginu en aðildarfélögum sem nú skiptast í svæðisbundin félög og í sumum tilfellum sérgreinafélög yrði fækkað mjög mikið eða í 4 félög. Eftir breytingu yrði til aðildafélag almennra lækna, aðildarfélag stofulækna, aðildarfélag heimilislækna og loks aðildarfélag sjúkrahúslækna. Með þessu væri verið að jafna betur styrk og tekjur hvers félags en í dag eru sum aðildarfélaögin bara með örfáa meðlimi og litla sem enga starfsemi. Þessum fjórum félögum yrði ætlað að sinna öllu landinu. Sérgreinafélögin og önnur félög yrðu svo rekin með óbreyttu sniði.“  

 

Sterkari félög og jafnari völd

Kristján segir að viðmælendur hafi verið sammála um að hingað til hafi Læknafélag Reykjavíkur dálítið borið höfuð og herðar yfir önnur aðildarfélög LÍ og því getað haft mikil áhrif á starfsemina ef því sýndist svo. „Aftur á móti hafa svæðafélögin á landsbyggðinni verið lítið virk, börn síns tíma, og þar sjái flestir ekki tilgang í að halda starfseminni áfram í óbreyttri mynd. Með því fyrirkomulagi að læknar geti verið í mörgum félögum og valið hvert tíundin, félagsgjaldið, sé greitt, er verið að tvístra kröftum og erfitt að koma skilaboðum skýrt á framfæri, tryggja framgang og fagmennsku. Þess vegna vilji læknar færri félög þar sem hagsmunir fara betur saman. Með því að jafna vægið með nýjum aðildarfélögum yrðu félögin sterkari, völdin jafnari og fjárhagsleg geta meiri til að sinna hagsmunum allra lækna, sem aftur styður enn betur við starfsemi LÍ,“ segir Kristján.    

 

Eitt félag og eitt félagsgjald

Þá voru starfsemi og skipulag Læknafélags Íslands borin saman við hin Norðurlöndin í úttektinni. „Þar var sambærilegt fyrirkomulag í Svíþjóð, Danmörku og Noregi að reyna að halda félagsmönnum saman og vera með sterk og fá aðildarfélög. Finnar eru eina landið með einstaklingsaðild allra lækna og eitt svæði. Íslendingar hafa verið með níu svæði auk annarra minni félaga inni í LÍ. „Með nýja fyrirkomulaginu yrðu til dæmis skurðlæknar að ákveða hvort þeir ætla að vera í aðildarfélagi sjúkahúslækna eða stofulækna (gamla LR). Þeir meta sjálfir hvar hagsmunum þeirra er best borgið.“

 

Fjórir starfsmenn í stað eins

Kristján segir að könnunin hafi leitt í ljós mikinn samhug um að standa áfram vörð um kjaramál lækna því í krafti stærðar og samtakamáttar náist meiri árangur. Hvert félag myndi kjósa sér stjórn og formann og setja vinnureglur og lög um starfsemina sem myndu gilda fyrir allt landið. „Hvert félag fengi líka hlutdeild í aðildargjöldum LÍ (sem eru um 120 milljónir á ári) og gæti innheimt að auki eigin aðildargjöld ef vilji yrði fyrir því. Ef þau fengju 12% af aðildargjöldum LÍ þá yrðu það fjórar milljónir á ári á hvert félag sem gæti dugað fyrir starfsmann í hverju félagi í hálfu starfi. Hvert félag yrði þá með formann á launum sem myndi bæði styrkja viðkomandi félag og samstarfið við LÍ og hefði auk þess tvo fulltrúa í stjórn LÍ. Formaðurinn yrði kosinn í beinni kosningu. Þá gætu fulltrúarnir mætt á læknaþingið og unnið í baráttumálum hvers félags fyrir sig,“ segir Kristján að endingu.

Kosið verður um breytingu á lögum og skipuriti Læknafélags Íslands í október næstkomandi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica