10. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Enn um skipulagsbreytingar hjá Læknafélagi Íslands. Björn Gunnarsson

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um mögulegar skipulagsbreytingar hjá Læknafélagi Íslands, breytingar sem kynntar verða á næsta aðalfundi félagsins og aðalfundarfulltrúar síðan greiða atkvæði um. Arna Guðmundsdóttir, formaður Læknafélags Reykjavíkur  og Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, hafa skrifað um þessar breytingartillögur í síðustu tölublöðum Læknablaðsins og rakið það ferli sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði. Þetta eru talsverðar breytingar, ákveðin uppstokkun á gamalgrónu félagi og því ekki óeðlilegt að margir aðilar fjalli þar um.

Undirritaður er formaður Læknafélags Vesturlands, sem er eitt af svæðafélögum LÍ sem hafa undanfarin ár  verið  hornsteinarnir í skipulagi félagsins. Ég sat einnig í nefnd þeirri sem Arna Guðmundsdóttir stýrði og dró upp fyrirhugaðar breytingatillögur.

Af svæðafélögum LÍ hefur LR, Læknafélag Reykjavíkur, borið höfuð og herðar yfir hin svæðafélögin, enda mestur fjöldi lækna þar innanborðs en félagið hefur, auk almennrar félagsstarfsemi, einnig haft hlutverk sem eins konar samingsaðili gagnvart ríkisvaldinu um launakjör sjálfstætt starfandi lækna, að vissu leyti í umboði annarra svæðafélaga. Næststærsta félagið hefur svo verið Læknafélag Akureyrar og hin félögin minni. Starfsemi allra þessara svæðafélaga hefur verið afar lítil síðustu áratugi, leyfi ég mér að segja, og sums staðar engin. Jafnvel félagsfundir í Læknafélagi Reykjavíkur hafa verið fremur illa sóttir;  það er helst ef einhver deilumál koma upp sem mæting hefur verið ákjósanleg. Þær breytingar hafa svo orðið síðustu mánuði að félagsmenn nokkurra sérgreinafélaga hafi viljað flytja atkvæði frá LR yfir í sérgreinafélagið. Staða  LR hefur því veikst nokkuð upp á síðkastið. Formenn sumra svæðafélaga hafa lagt til að viðkomandi félag verði lagt niður. Í mínu félagi, Læknafélagi Vesturlands, hafa verið haldnir einn til tveir fundir á ári og um 10-12 læknar komið á fundina. Fáir læknar búa á svæðinu.  Breytt skipan læknisþjónustunnar kemur einnig inn í þessi mál. Meira er um verktakastarfsemi innan heilsugæslunnar og þeir læknar sem koma til starfa á heilsugæslustöðvum úti á landi tilheyra kannski öðru svæðafélagi eða sérgreinafélagi eins og félagi heimilislækna. Þeir hafa því ekki nein félagsleg tengsl inn á viðkomandi svæði. Breytt skipan heilsugæsluumdæma speglar heldur ekki þessa gömlu skiptingu í svæðafélög. Á upptökusvæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands starfa nú læknar sem í raun tilheyra þremur svæðafélögum og sumir mögulega einu sérgreinafélagi, til dæmis Skurðlæknafélagi  Íslands. Í raun má því segja að skipting félagsins sé úrelt.

Eins og komið hefur fram þá vann Kristján Vigfússon aðjúnkt við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík tillögurnar um breytta skipan læknasamtakanna. Honum til hjálpar var þriggja manna nefnd undir forystu Örnu Guðmundsdóttur, eins og áður segir, en með henni voru Tryggvi Helgason, barnalæknir auk undirritaðs. Starfsmenn Læknafélagsins og ýmsir forystumenn LÍ lögðu einnig gjörva hönd á plóg. Skoðuð var uppbygging norrænu læknasamtakanna og reynt að finna kosti og galla hvers skipulags fyrir sig. Eftir mikla yfirlegu var ákveðið að leggja einkum  til grundvallar skipulag dönsku læknasamtakanna, sem segja má að byggi á ákveðinni blöndu af fulltrúalýðræði og beinni einstaklingsaðild.

 

Tillaga að breyttu skipulagi LÍ

Samkvæmt tillögum um breytta skipan læknasamtakanna hafa félagsmenn áhrif í gegnum sitt aðildarfélag með því að kjósa fulltrúa á aðalfund og fá félögin aðalfundarfulltrúa í hlutfalli við fjölda félagsmanna viðkomandi félags. Aðildarfélögin yrðu fjögur og hvert þeirra  fengi tvo menn í stjórn LÍ, óháð fjölda félagsmanna. Formaður Lí  er kosinn í beinni rafrænni kosningu.  
Í stjórn LÍ sætu því 9 læknar, með formanni, líkt og nú er.

Þessar tillögur að breyttu skipulagi eru að mínum dómi unnar af fagmennsku. Stjórn LÍ mun á næstunni kynna þessar breytingatillögur fyrir læknum. Á aðalfundi Læknafélags Íslands sem haldinn verður dagana 19. og 20.  október næstkomandi mun verða fjallað ítarlega um fram komna tillögu stjórnar LÍ um breytt skipulag læknasamtakanna og þær lagabreytingar sem gera þarf í kjölfarið.Þetta vefsvæði byggir á Eplica