09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Dögg Pálsdóttur svarað

Í 6. tölublaði Læknablaðsins skrifaði ég opið bréf til kjörnefndar LÍ. Tilefni bréfsins var að kjörnefndin neitaði þeim félagsmönnum um kosningarétt, sem orðnir voru 70 ára og  greiddu ekki árgjald til félagsins. Ég sýndi fram á í bréfinu að ákvörðun kjörnefndar var í andstöðu við lög LÍ.

Dögg Pálsdóttir lögfræðingur ritaði grein í sama tölublað sem hét: „Að loknum fyrstu rafrænu stjórnarkosningum LÍ“. Þótt þess sé ekki getið í greininni má ætla að henni sé að hluta til ætlað að svara gagnrýni minni á framkvæmd stjórnarkjörsins. Málið snýst um tvær málsgreinar í lögum LÍ. Í 12. grein segir: Læknar sem eru sjötugir eða eldri skulu vera gjaldfríir. Og í 9. grein er eftirfarandi ákvæði, sem samþykkt var á síðasta aðalfundi LÍ: Kosningarétt hafa þeir sem eru með félagsgjöld sín í skilum miðað við síðustu mánaðamót áður en allsherjaratkvæðagreiðsluna skal halda. Þetta er vel orðuð málsgrein og það er furðulegt að kjörnefndin skuli skilja þessar tvær setningar saman þannig að læknar sjötugir og eldri séu með félagsgjöld sín í vanskilum. Hvergi í lögunum er eitt orð um það að eldri læknar eigi að þola skert félagsréttindi. Dögg leggur mikla áherslu á að samkvæmt gömlum hefðum í svæðafélögunum hafi  læknar eldri en 70 ára ekki talist með þegar fulltrúafjöldi svæðisfélaganna  á aðalfundi var ákvarðaður.  Það væri vissulega fróðlegt að vita hvort einhver gögn finnast hjá LÍ sem rökstyðja þessa hefð, ef um hefð var að ræða. Hins vegar eru það alveg óskyld mál hvort aðildarfélögin hafa afsalað sér réttum fulltrúafjölda á aðalfundi LÍ  eða hvort þau hafa svift félagsmenn sína kosningarétti. Að vitna til gamallar hefðar stenst hins vegar ekki því greinin sem kjörnefndin studdist við var samþykkt á síðasta aðalfundi og kom því fyrst til álita á þessu ári. Sú lagasmíð væri ótrúleg handarbakavinna ef greinin á að merkja allt annað en orðanna hljóðan.

Í upphafi greinar sinnar segir Dögg að horft hafi verið til lagabreytinga þeirra fáu stéttarfélaga sem  þegar hafa innleitt rafræna kosningu við stjórnarkjör. Ef horft er til þeirra félaga sem standa okkur næst, Tannlæknafélags Íslands og Dýralæknafélags Íslands, þá verða félagsmenn þessara félaga gjaldfríir við 70 ára aldur og ekki verður séð annað en að þeir haldi fullum félagsréttindum þrátt fyrir það. Sama má sjá í samþykktum Lögmannafélags Íslands og í lögum Eflingar stéttarfélags. Í lögum VR segir hins vegar í 3. gr um félagsaðild: Eldri félagsmenn sem fá greiddan ellilífeyri og sem verið hafa í félaginu a.m.k. 5 ár fyrir töku eftirlauna, við 67 ára aldur, teljast áfram félagsmenn í VR en njóta ekki kjörgengis. Þarna þótti ástæða til að taka sérstaklega fram að þeir sem hættir væru að greiða gjöld til félagsins gætu ekki boðið sig fram til starfa sem kosið er til. Þetta er eina skerðingarákvæðið sem ég gat fundið hjá áður nefndum félögum á réttindum þeirra sem hættir voru að greiða árgjöld til félaganna.

Þessi skrif mín hafa ekkert með niðurstöðu formannskosninganna að gera. Ég hafði í fáfræði minni litið svo á að ákvæðið í 12. grein laga LÍ væri viðurkenning á langri og góðri þjónustu við félagið. Ef hins vegar er vilji í LÍ til að reka hnýflana í elstu og reyndustu félagsmenn sína, án þess að læðupokast eins og kjörnefndin, þá er hægur vandi að breyta einni setningu í 12. grein laganna sem myndi þá hljóða svona: Læknar sem eru sjötugir eða eldri skulu vera gjaldfríir, enda njóti þeir hvorki kjörgengis né kosningaréttar í félaginu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica