09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Í lok formannstíðar. Þorbjörn Jónsson

Nú í haust læt ég af starfi formanns Læknafélags Íslands eftir hartnær sex ár. Við keflinu tekur Reynir Arngrímsson erfðalæknir á Landspítalanum, en hann verður fyrsti formaður félagsins sem kjörinn er með almennri rafrænni atkvæðagreiðslu félagsmanna læknafélsgsins.

Í  þessum síðasta pistil mínum sem stjórnarmaður læknafélagsins langar mig að líta yfir farinn veg en einnig að horfa fram á veginn. Þegar ég tók við starfi formanns haustið 2011 voru meginstefnumál mín tiltölulega fá, fyrir utan að sinna þeirri hagsmunagæslu sem ávallt felst í starfi formanns. Í fyrsta lagi taldi ég að kjör lækna þyrftu að batna, í öðru lagi að efla þyrfti samstöðu í hópi lækna og í þriðja lagi að efla þyrfti lýðræði innan félagsins með því að taka upp beina kosningu á formanni félagsins – og jafnvel stjórninni allri. Eitt atriði bættist svo við eftir að ég hóf störf og rak mig á það hve gamalt skipulag læknafélagsins getur á stundum verið hamlandi fyrir starfsemi þess.

Kjaramálin voru eitt meginatriðið í upphafi formannsferils míns. Það er kunnara en frá þurfi að segja að launamál lækna sem störfuðu fyrir hið opinbera, einkum sjúkrahúss- og heimilislækna, voru alls ekki viðunandi. Þegar kjarasamningar lækna urðu lausir í ársbyrjun 2014 kusu læknar að sýna þolinmæði í stað þess að sætta sig við litla og óviðunandi hækkun. Haustið 2014 hafði ekki samist og læknar þurftu að beita því örþrifaráði að grípa til verkfallsvopnsins. Þetta var fyrsta verkfallið sem náði til allra lækna sem störfuðu á vegum hins opinbera. Verkfallið stóð með hléum í á þriðja mánuð, frá 27. október 2014 til 7. janúar 2015. Mikil og góð samstaða skapaðist meðal lækna, yngri sem eldri. Með þessari samstöðu og þrautseigju fengu læknar umtalsverða kjarabót sem við búum enn að í dag.

Annað mál er  breytt skipulag Læknafélags Íslands. Eins og nefnt var að ofan rakst ég fljótlega á það í starfi mínu sem formaður að gamaldags skipulag félagsins er á stundum hamlandi fyrir starfsemi þess. Á aðalfundi Læknafélags Íslands haustið 2014 var samþykkt ályktun um skipulagsmál og kosningar. Í framhaldinu skipaði stjórn Læknafélags Íslands nefnd sem fór yfir þessi mál og skilaði tillögum árið 2016. Önnur nefnd skipuð af stjórn fékk málið til frekari úrvinnslu og hefur hún skilað tillögu að framtíðarskipulagi Læknafélags Íslands. Núna er Læknafélag Íslands félag aðildarfélaga sem flest hver eru svæðafélög: Læknafélag Reykjavíkur, Læknafélag Vesturlands, Læknafélag Vestfjarða, Læknafélag Norðvesturlands, Læknafélag Akureyrar, Læknafélag Norðausturlands, Læknafélag Austurlands, Læknafélag  Suðurlands og Læknafélag Vestmannaeyja. Auk svæðafélaganna eru Félag almennra lækna, Skurðlæknafélag Íslands, Félag íslenskra heimilislækna og Félag bráðalækna aðildarfélög. Það má færa rök fyrir því að meginhagsmunir lækna nú séu annars konar en þeir voru á öndverðri 20. öld, þegar menn hafa væntanlega talið að hagsmunir lækna væru nátengdir búsetu þeirra. Þeir tengist nú frekar því hvort læknir starfar fyrir hið opinbera, rekur eigin starfsstöð, gerir hvort tveggja eða jafnvel hvaða sérgrein hann tilheyrir. Nýja skipulagstillagan gerir ráð fyrir því að aðildarfélög Læknafélags Íslands verði fjögur og að þau endurspegli í ríkara mæli atvinnuhagsmuni lækna. Þau verði: félag sjúkrahúslækna, félag sjálfstætt starfandi lækna, félag  heimilislækna og félag almennra lækna. Félögunum fækkar, þau stækka og verða í nánari tengslum við móðurfélagið en verið hefur. Meðal annars er gert ráð fyrir því að formenn aðildarfélaganna fjögurra sitji jafnframt í stjórn Læknafélags Íslands. Áfram verði valdir fulltrúar á aðalfund og fjöldi þeirra verði í samræmi við fjölda lækna í hverju aðildarfélagi. Mikilvægt er að aðalfundur þann 19.-20. október ræði og samþykki tillögu að nýju skipulagi, þannig verður starfsemi Læknafélags Íslands best tryggð í framtíðinni.

Ekki er hægt að ljúka þessum pistli án þess að minnast á að 14. janúar næstkomandi verða 100 ár liðin frá því að Læknafélag Íslands var stofnað. Undirbúningsnefnd hefur unnið gott verk við skipulagningu hátíðarhalda til að minnast þessara merku tímamóta, sem verður meðal annars gert á næstu Læknadögum.

Á undanförnum sex árum hafa ýmsir áfangar náðst með samstilltu átaki margra. Kjör lækna hafa batnað og kjarabaráttan þjappaði læknum saman. Í vor fór í fyrsta skipti fram rafræn kosning meðal félagsmanna á formanni og stjórn félagsins. Starfshópar hafa unnið tillögu að breyttu skipulagi Læknafélags Íslands og vonandi verður hún samþykkt.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica