07/08. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 19. pistill. Áhrif lyfjagagnagrunns á ávísanir tauga- og geðlyfja

Lyf eru öflug tæki sem geta gert mikið gagn sé þeim beitt af skynsemi. En hvenær er lyfjanotkun skynsamleg og hvenær ekki? Ein af mörgum nothæfum aðferðum er að bera heildarnotkun lyfs eða lyfjaflokks á Íslandi saman við notkun í nálægum löndum. Ef mismunur er mikill á milli landa kallar það á skýringar.

Tauga- og geðlyfjanotkun hefur verið að aukast mikið á Íslandi undanfarin ár en árið 1996 voru seldir 178 dagsskammtar á 1000 íbúa á dag en árið 2015 voru þeir 380.1,2 Árið 1996 var notkun þessara lyfja meiri bæði í Svíþjóð og í Danmörku en á Íslandi en í dag er notkunin mest á Íslandi. Á 20 árum hefur átt sér stað aukning um 113% á Íslandi og er notkun tauga- og geðlyfja orðin næstum 30% meiri en í Svíþjóð sem kemur næst á eftir Íslandi af Norðurlandaþjóðunum.

Aðgengi lækna að lyfjagagnagrunni á að geta komið í veg fyrir að einstaklingar sæki sömu lyfin hjá mörgum læknum. Grunnurinn auðveldar læknum að hafa yfirsýn og utanumhald yfir lyfjaávísanir skjólstæðinga sinna. Aðgangurinn var opnaður að hluta árið 2015 en 2016 er fyrsta heila árið sem grunnurinn var opinn öllum læknum og fagna ber því hve margir nota grunninn.

Töflur I-IV sýna fjóra helstu lyfjaflokka tauga- og geðlyfja og þann fjölda einstaklinga sem fékk lyfjunum ávísað í tilteknu magni fyrstu 5 mánuði áranna 2014-2017.3 Eins og sést eru ópíóíðar eini flokkurinn þar sem dró úr heildarfjölda einstaklinga árið 2017 miðað við árið á undan. Til að útskýra tölurnar betur fengu 272 einstaklingar ávísað 500 til 999 dagsskömmtum (DDD) af svefnlyfjum þessa fyrstu 5 mánuði ársins 2017 sem þýðir að þeir fengu um 3-6 dagsskammta á dag að meðaltali. Læknar eru að nýta upplýsingar úr grunninum og það dregur úr fjölda einstaklinga sem fá ávísað stórum skömmtum svefnlyfja og verkjalyfja. Þessa fyrstu mánuði ársins 2016 fengu 136 einstaklingar yfir 500 dagsskammta af ópíóíðum en í ár voru þeir 109. Fjöldi einstaklinga sem fær ávísað þunglyndis- og örvandi lyfjum eykst verulega og virðist tilkoma lyfjagagnagrunns hafa lítil áhrif á notkun þessara lyfja.

Enn eru margir sem fá ávísað of stórum skömmtum af tauga- og geðlyfjum á Íslandi, miðað við klínískar leiðbeiningar. Þá er heildarfjöldi einstaklinga sem fá lyfin mun meiri hér á landi en þekkist á hinum Norðurlöndunum (tafla V). Munurinn er mestur fyrir ADHD-lyf en þrefalt fleiri fá ávísað lyfjunum hér en í Svíþjóð og ekki er vitað hvort munurinn sé vegna þess að fleiri séu greindir eða hvort meira sé verið að nota önnur úrræði en lyf í hinum löndunum. Hvort aðgengi lækna að lyfjasögu sjúklinga komi til með að færa lyfjanotkun nær því sem þekkist meðal hinna Norðurlandanna á eftir að koma betur í ljós en fyrstu vísbendingar gefa til kynna að það gerist aðeins að takmörkuðu leyti.

 

Heimildir

 

Notkun lyfja á Íslandi 1990-1996 og samanburður á Norðurlöndunum, Rit heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Október 1997.Þetta vefsvæði byggir á Eplica