07/08. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Kandídatar ársins 2017 - Alls 70 kandídatar eru nú lausir úr viðjum námsins og komnir út á akurinn

Það er órækt vitni um að það sé alveg að fara að fara að bresta á sumarfrí þegar fundarsalur Læknafélagsins í Hlíðasmára fyllist af ungu prúðbúnu og skælbrosandi fólki sem er boðið velkomið í hóp lækna. Þetta er útskriftarboð og viðeigandi rafmögnuð gleðistund, - öll plögg klár, deildarforseti kemur askvaðandi með bókina með læknaeiðnum, snittuframleiðandinn mætir með nokkur bretti af kræsingum og það er alltaf á nippinu með að blómin gleymist!

 

                                  
                                  Stór og glaðvær og bráðmyndarlegur hópur kandídata gefur góða
                                  von um öfluga heilbrigðisþjónustu á næstu áratugum!
                                                                   

Alls voru 70 kandídatar boðnir í hóf til Læknafélagsins á dögunum til að fagna útskrift úr læknadeild. Læknadeild Háskóla Íslands útskrifaði 47 kandídata í júní og tvo í febrúar. Síðustu ár hafa íslenskir krakkar sótt sér læknismenntun víðar, - og í ár komu 13 kandídatar frá Ungverjalandi, 6 frá Danmörku, einn frá Svíþjóð og einn frá Póllandi. Kynjahlutföll voru 38 stelpur og 32 strákar, - sem sagt jafnara en oft áður.

 

                                
                                              Unga fólkið hlýðir á boðskap sér eldri og reyndari.

 

                                                                 
                                                                  Þorbjörn formaður bauð viðstadda
                                                                  velkomna. 

 

Þorbjörn Jónsson formaður bauð alla velkomna háa og lága, og ítrekaði við unga fólkið að þessi áfangi væri sá merkasti sem þau næðu í lífinu,  - ekkert myndi toppa það að ná kandídatsprófi, hvorki barnsfæðingar né brúðkaup.

 

                                                           
                                                           Engilbert minnti á að líf vort hratt
                                                           fram hleypur, hafandi enga bið eins
                                                           og Hallgrímur Pétursson kvað forðum.                                             

                                             
Kandídatar meðtóku þetta og röðuðu sér síðan stillt og prúð upp fyrir myndatöku og skráðu svo nöfn sín í þá bók sem geymir sjálfan læknaeiðinn, og öll nöfn íslenskra lækna eru rituð.

Engilbert Sigurðsson forseti læknadeildar þakkaði kandídötum góða viðkynningu og bað þau að minnast þess að lífið væri núna, það að njóta dagsins væri mikilvægast af öllu og ekki eftir neinu að bíða með það. Kristján Erlendsson, Páll Matthíasson og Ólafur Ólafsson ávörpuðu líka viðstadda og óskuðu hinum útskrifuðu alls hins besta í hinum krefjandi en gefandi heimi læknisstarfsins.

 

                             
                             Kristján sagðist hlakka til að vinna með þessu góða nýútskrifaða fólki.

                             
                             Kristján Erlendsson, Páll Matthíasson, Óskar Reykdalsson,
                             Sigurbjörn Sveinsson og Kristófer Þorleifsson fögnuðu nýjum kollegum.

 Texti og myndir Védís.Þetta vefsvæði byggir á Eplica