07/08. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Ferð öldungadeildar LÍ að Veiðivötnum 9.-10. júní 2017. Páll Ásmundsson

Haldið var frá Reykjavík árdegis. Í förinni voru 42 auk bílstjóra og fyrri daginn slóst í för sem leiðsögumaður Guðni Ágústsson fyrrum alþingismaður og ráðherra. Reyndist hann hinn skemmtilegasti og lét marga góða sögu fjúka auk ómælds fróðleiks. Fyrst var ekið um Þrengsli og Eyrarbakka til Stokkseyrar en þar skoðuðum við Veiðisafnið. Undruðumst við þann fjölda uppstoppaðra dýra sem þar er að finna, allt frá ljónum til hvítabjarnar.

 

                                        
                                                                    Frá Hraunvötnum. Ljósm. P.Á.

 

                                         
                                                      Hluti hópsinsvið skálann í Veiðivötnum. Ljósm. P.Á.

 

Nú var ekið að Austari-Meðalholti í Flóa. Þar hefur bóndinn og listamaðurinn Hannes Lárusson ásamt konu sinni Kristínu endurbyggt torfbæ þann sem hann fæddist í. Hér er allt af natni gert og gaman að setjast inn á rúm  í gömlu baðstofunni og lifa sig inn í gamla tíma. Þarna er einnig frábært safn ljósmynda af gömlum torfbæjum.

 

                                       
                                                   Hekla gnæfir yfir Bjólfell séð frá Svínhaga. Ljósm. P.Á

 

                                                 .

                                      
                                                               Flóðgátt Flóaáveitunnar. Ljósm. P.Á.

                                                                                                                                    

                                      
                                                       Gamli bærinn í Austari Meðalholti. Ljósm. P.Á.

 

Héðan var ekið upp að Selfossi og að kirkjunni í Laugardælum. Þar messaði Guðni yfir okkur og sagði frá Bobby Fischer sem þar er jarðaður fyrir kirkjudyrum. Að því búnu var haldið í aðalstöðvar Mjólkursamsölunnar. Þar gæddum við okkur á skyri og rjóma og gæðaostum meðan við hlustuðum á fyrirlestur um fyrirtækið.

Frá Selfossi var haldið að upptökum Flóaáveitunnar nálægt Brúnastöðum, fæðingarstað Guðna. Áveitan var grafin á árunum 1922-1928 og var þá mannvirki á heimsmælikvarða, um 300 km löng, að mestu handgrafin. Skoðuðum við flóðgáttina sem hleypir vatninu úr Hvítá og þótti mikið til koma.

Frá Brúnastaðaflötum héldum við að brugghúsinu í Ölvisholti og fengum að smakka á nokkrum þeirra 7 bjórtegunda sem þar eru framleiddar meðan við fræddumst um bjórgerð. Héldu menn þaðan glaðir og reifir. Guðni kvaddi nú hópinn og var þökkuð frábær leiðsögn.

Var nú ekið um Skeið og Hreppa allt að Hafinu norðan við Búrfell en þar hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur til raforkuframleiðslu. Áform eru um að reisa þarna „vindmyllugarð“ með allt að 58 myllum með 200 MW framleiðslugetu. Um þetta fræddi okkur ungur verkfræðinemi á vegum Landsvirkjunar. Virtist okkur sem þetta væri kjörinn staður fyrir slíkan skóg og tiltölulega lítil sjónmengun yrði af honum.

Nú var haldið rakleiðis upp í Hrauneyjar þar sem eru tvö hótel á vegum Friðriks Pálssonar. Hópnum var skipt niður á hótelin en ágætur kvöldverður var snæddur á Hótel Hálandi.

Morguninn eftir höfðum við fengið nýjan leiðsögumann, Gylfa Pál Hersi jarðeðlisfræðing hjá ÍSOR, sem fylgdi okkur seinni daginn. Reyndist hann jafnágætur og Guðni þótt ekki séu þeir líkir.

Ekið var af stað kl. 10 sem leið liggur inn í Veiðivötn. Þótt ekki væri formlega búið að opna veginn þangað voru landverðir þegar komnir á staðinn og í óðaönn að gera klárt fyrir sumarið. Fært var um helstu vegi við vötnin en víða ófært milli vatna. Að ráði landvarða var fyrst ekið að Hraunvötnum sem eru efsti hluti vatnanna og að margra áliti sá fegursti.

Veiðivötn eru álitin hafa fengið núverandi mynd í gosi sem varð kringum árið 1477. Gosið varð í lægð sem liggur frá norðaustri til suðausturs og er hluti af Bárðarbungukerfinu. Gosið byrjaði með þeytigosi með gífurlegu gjóskumagni. Síðan tók við hraungos úr mörgum gígum er olli myndun fjölda gervigíga þar sem hraunið rann yfir votlendi. Úr varð hin fjölbreytilega fegurð sem við nú dáumst að.

Er við höfðum skoðað Hraunvötn um sinn var ekið að Fossvötnum en þaðan var svo ekið að skálanum við Tjaldvatn. Þar bauðst okkur að setjast inn og snæða nesti okkar. Þegar allir voru mettir var enn ekið af stað, fyrst upp á ölduna ofan við skálann og notið góðs útsýnis yfir svæðið en síðan ekið vatnahring hinn minni og svæðið síðan yfirgefið. Þóttist enginn svikinn af dvölinni í Veiðivötnum. Veðrið var indælt en mý var nokkuð til ama.

Með stuttu stoppi í Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum var nú ekið niður að Svínhaga á Rangárvöllum en þar býr býflugnabóndinn Gísli Vigfússon svæfingalæknir ásamt konu sinni Sigríði -Níelsdóttur. Var okkur þar tekið af mikilli gestrisni og sýndi Gísli okkur býflugnabúið og aldintrjárækt er hann stundar auk fiskeldis.

Kvöddum við þau hjón með þökkum og héldum til Reykjavíkur. Voru allir hæstánægðir með frábærlega skipulagða ferð.Þetta vefsvæði byggir á Eplica