06. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Lögfræði 22. pistill. Að loknum fyrstu rafrænu stjórnarkosningum LÍ
Á aðalfundi Læknafélags Íslands (LÍ) 2016 voru samþykktar breytingar á lögum LÍ þess efnis að stjórn félagsins yrði frá aðalfundi 2017 kosin rafrænni kosningu. Hingað til hefur stjórnin verið kosin á aðalfundi af atkvæðisbærum fulltrúum á aðalfundinum.
Við samningu lagabreytinga sem stjórn LÍ lagði fram vegna þessa var horft til laga þeirra fáu stéttarfélaga sem þegar hafa innleitt rafræna kosningu við stjórnarkjör. Engin þeirra félaga eru þó fulltrúafélög eins og LÍ. Nefnd aðalfundarins sem fjallaði um lagabreytingartillögurnar gerði allnokkrar breytingar á tillögum stjórnar, allar mikilvægar og sem allar voru samþykktar af aðalfundarfulltrúm.
Samkvæmt nýju fyrirkomulagi á kjörnefnd sem stjórn skipar að taka til starfa þegar stjórn hefur boðað til aðalfundar.
Fyrir lá að í fyrstu rafrænu stjórnarkosningunni yrði kosinn formaður, gjaldkeri og fjórir meðstjórnendur þar sem formaður LÍ síðustu 6 ár, Þorbjörn Jónsson, tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Kjörnefnd sendi ítarlegan tölvupóst til félagsmanna þar sem framkvæmd og ferli kosningarinnar var lýst.
Að loknum 15 daga framboðsfresti lá fyrir að þrír læknar gáfu kost á sér til formennsku, enginn gaf kost á sér til embættis gjaldkera og 5 gáfu kost á sér í störf fjögurra meðstjórnenda. Kjörnefnd þurfti því að finna frambjóðanda í embætti gjaldkera og auglýsti að því búnu nýjan viku framboðsfrest. Að afloknum þeim fresti voru formannsframbjóðendur áfram þrír, frambjóðendurnir í fjögur störf meðstjórnenda voru sex og sjálfkjörið var í embætti gjaldkera.
Ekkert er í lögum LÍ um kynningu frambjóðenda. Kjörnefnd ákvað þríþætta kynningu: Formannsframbjóðendur voru með kynningarpistla í maíhefti Læknablaðsins. Kynningarefni frá öllum frambjóðendum, það er til formanns og meðstjórnenda, skyldi sent út til félagsmanna með tölvupósti og halda skyldi kynningarfund þar sem allir frambjóðendur kynntu sig og formannsframbjóðendur sætu fyrir svörum fundarmanna.
Mál þróuðust síðan á þann veg að tveir af 6 frambjóðendum til meðstjórnenda drógu framboð sín tilbaka. Varð því sjálfkjörið í þau stjórnarstörf. Kynningarefnið formannsframbjóðenda var sent út og á kynningarfundinum kynntu þeir sig og sátu fyrir svörum. Sent var beint frá fundinum.
Þegar kjörnefnd hófst handa við að taka saman kjörskrá vaknaði spurning um það hvort félagsmenn eldri en 70 ára skyldu hafa kosningarétt til stjórnarkosninga. Við lagabreytinguna á aðalfundi 2016 kom inn í 9. gr. laganna ný málsgrein svohljóðandi: Kosningarétt hafa þeir sem eru með félagsgjöld sín í skilum miðað við síðustu mánaðamót áður en allsherjaratkvæðagreiðsluna skal halda. Kjörnefnd þurfti að túlka þetta ákvæði því í 12. gr. laga LÍ segir: Læknar sem eru sjötugir eða eldri, skulu vera gjaldfríir.
Það var niðurstaða kjörnefndar LÍ að orðalagið benti til að kosningaréttur fylgdi greiðslu félagsgjalda þannig að læknar undanþegnir félagsgjöldum hefðu ekki kosningarétt. Aldarfjórðungsframkvæmd varðandi ákvörðun fulltrúafjölda aðildar- og svæðafélaga á aðalfundi LÍ studdi þessa túlkun því athugasemdalaust hefur svo lengi viðhafst það fyrirkomulag að læknar eldri en 70 ára teljast ekki með félagafjölda svæðis- og aðildarfélaga þegar fulltrúafjöldi þeirra á aðalfundi hefur verið ákvarðaður. Læknar eldri en 70 ára hafa við það aldursmark verið færðir úr aðildar- eða svæðafélagi sínu yfir í öldungadeild lækna sem telst samkvæmt lögum LÍ ekki aðildarfélag og hefur því aldrei átt fulltrúa með kosningarétt á aðalfundi félagsins. Formaður félagsins hefur frá upphafi verið boðinn á aðalfund með málfrelsi og tillögurétt, en ekki kosningarétt. Við það hefur heldur aldrei nein athugasemd verið gerð. Á kjörskrá voru því ekki læknar eldri en 70 ára.
Kjörskrá var birt 9. maí og kallað eftir athugasemdum við hana. Örfáar athugasemdir bárust, einkum frá læknum eldri en 70 ára. Þeim var send sú útskýring sem að framan greinir.
Fyrri umferð formannskosninga lauk svo að enginn frambjóðenda fékk meirihluta atkvæða og þurfti því síðari umferð formannskosninga milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Þegar tveir sólarhringar voru eftir af síðari umferð formannskosningar barst formleg kvörtun yfir kjörskránni.
Fyrstu rafrænu stjórnarkosningu LÍ er nú lokið. Á aðalfundi 2017 tekur ný stjórn við, sem að mestu leyti var kosin samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi. Kjörnefnd og starfsmenn LÍ eru reynslunni ríkari og augljóst er að læra þarf af þessari reynslu.
Formleg mótmæli við kjörskránni bárust ekki fyrr en 13 dögum eftir að kjörskráin var fyrst birt og þegar tveir sólarhringar voru eftir af síðari umferð formannskosninga. Það gefur auga leið að erfitt er að bregðast við mótmælum sem berast svo seint.
Stjórn LÍ þarf í samvinnu við kjörnefnd að fara yfir reynsluna af þessari fyrstu rafrænu stjórnarkosningu hjá félaginu og mögulega leggja til lagabreytingar á næsta aðalfundi til að lög félagsins verði skýrari um þau atriði sem urðu álitamál við framkvæmdina. Allar ábendingar félagsmanna eru vel þegnar í þessu sambandi.