06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Tillaga að nýju skipuriti Læknafélags Íslands

                 

Í grein Örnu Guðmundsdóttur hér að framan er þeim breytingum lýst sem stýrihópur undir forystu hennar hefur lagt til á skipulagi læknasamtakanna. Tillögur hópsins voru fyrst kynntar á formannaráðstefnu LÍ nú í apríl og sá ráðgjafi hópsins, Kristján Vigfússon kennari við Háskólann í Reykjavík, að mestu um kynninguna. Meðal þess sem hann sýndi var þessi mynd af skipuriti LÍ eins og það verður ef tillögur stýrihópsins ná fram að ganga.

Lagt er til að í stað þess að grunneiningar LÍ séu svæðafélög eins og verið hefur skiptist læknar í fjögur félög eftir því hvar þeir starfa: félög almennra lækna, heimilislækna, stofulækna og sjúkrahúslækna. Hvert þessara félag skipar tvo stjórnarmenn í LÍ.

Þetta er töluverð breyting á uppbyggingu félagsins og miðast að verulegu leyti við kjarasamninga og aðra hagsmuni hinna mismunandi hópa lækna. Ljóst var á umræðum á formannaráðstefnunni að þótt sátt ríki um þetta skipulag í stórum dráttum setji margir spurningamerki við skiptingu lækna í félög og að þeir verði að velja á milli en geti ekki tilheyrt fleiri en einu. Það er ekki síst skiptingin á milli stofulækna og sjúkrahúslækna sem menn festa augun á. Fram kom á fundinum að skurðlæknar gera athugasemdir við þetta fyrirkomulag og leggja til að læknar geti skipt sér á milli félaga.

Á fundinum kom fram að nú fari þessar tillögur til umfjöllunar í stjórn LÍ og að sögn Þorbjörns Jónssonar formanns verða þær teknar til umræðu á stjórnarfundi snemma í júní. Hann kvaðst eiga von á því að stjórnin myndi gera tillögurnar að sínum. Þá tekur við kynningarferli og vinna við að semja þær lagabreytingartillögur sem þarf til þess að nýja skipulagið geti tekið gildi. Þess er vænst að því starfi verði lokið í haust svo hægt verði að taka nýtt skipulag í gagnið á aðalfundi Læknafélags Íslands í áliðnum október. Þá kemur í ljós hvert læknar vilja stefna með skipulag samtaka sinna.Þetta vefsvæði byggir á Eplica