06. tbl. 103. árg. 2017

Fræðigrein

Fæðuval ungra Íslendinga með geðrofssjúkdóma og þróun líkamsþyngdar þeirra á 8 til 12 mánaða tímabili

Dietary intake of young Icelanders with psychotic disorders and weight development over an 8-12 months period

doi: 10.17992/lbl.2017.06.141

Ágrip

Tilgangur: Tíðni lífsstílssjúkdóma er hærri meðal einstaklinga með geðrofssjúkdóma en almennings. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fæðuval ungs fólks með geðrofssjúkdóma, en fæðuval þessa hóps hefur aldrei verið kannað hérlendis áður.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru þjónustuþegar Laugarássins (n=48, 18-30 ára), sem sóttu þjónustu á því tímabili sem gagnaöflun fór fram (júlí- ágúst 2016). Fæðuval og næringargildi fæðu var metið með sólarhringsupprifjun á mataræði. Niðurstöður voru bornar saman við ráðleggingar Embættis landlæknis og niðurstöður landskönnunar á mataræði 2010-2011 fyrir sama aldurshóp (n=250). Þróun líkamsþyngdar síðastliðna 8-12 mánuði var metin út frá skráðum upplýsingum í sjúkraskrá (Sögu).

Niðurstöður: Neysla á ávöxtum, fiski, mjólkurvörum, jurtaolíum og lýsi var marktækt lægri meðal þjónustuþega en hjá þátttakendum í landskönnun 2010-2011, en neysla á sælgæti og gosdrykkjum hærri (p<0,001). Hlutfall viðbætts sykurs af heildarorku var hærra í fæði þjónustuþega (15% á móti 12%) og hlutfall próteina lægra (16% á móti 18%) heldur en í viðmiðunarhópnum. Hlutfall ómega-3 fitusýra í fæði og neysla D-vítamíns var lægri á meðal þjónustuþega en meðal þátttakenda í landskönnun og töluvert undir ráðleggingum (0,04 ± 0,3% ómega-3 af heildarorku á móti 1,2 ± 0,6%, p<0,001 og 3,1 ± 4,2 µg D-vítamín/dag á móti 5,6 ± 6,5 µg/dag, p<0,001). Tæplega 40% þjónustuþega hafði þyngst um >5% af upphafsþyngd sinni á 8-12 mánaða tímabili.

Ályktanir: Fæðuval ungs fólks með geðrofssjúkdóma samræmist ekki opinberum ráðleggingum um fæðuval og er lakara en fæðuval viðmiðunarhópsins. Mikilvægt er að þróa leiðir til að bæta fæðuval og þar með næringargildi fæðu hópsins.

Barst til blaðsins 22. febrúar 2017, samþykkt til birtingar 12. maí 2017.


Inngangur

Lífslíkur einstaklinga með geðrofssjúkdóma eru minni borið saman við þá sem ekki hafa sjúkdóminn  og lifa þeir að jafnaði um 10-25 árum skemur.1

Rannsóknir benda til að einstaklingar með geðrofssjúkdóma, sérstaklega geðklofa, séu tvisvar til þrisvar sinnum líklegri til að fá efnaskiptavillu (sem lýsir sér meðal annars í hækkunum á blóðfitu, blóðsykri og auknu mittismáli) en almenningur2,3 en henni fylgir aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum.4 Ástæða þess er enn ekki fullkunn, en mögulegir áhrifavaldar eru streita tengd sjúkdómnum, lyfjagjöf og lífsstíll.5 Mataræði er þekktur áhrifaþáttur í þróun hjarta- og æðasjúkdóma, en rannsóknir hafa meðal annars fundið tengsl á milli mataræðis og insúlínviðnáms, blóðfituraskana og háþrýstings.6 Mataræði sem einkennist af lítilli neyslu á fæðutrefjum, mikilli neyslu á fínunnum kolvetnum og lágu hlutfalli ein- og fjölómettaðra fitusýra hefur verið tengt við auknar líkur á efnaskiptasjúkdómum.6 Erlendar rannsóknir benda til þess að mataræði einstaklinga með geðrofssjúkdóma sé lakara en mataræði viðmiðunarhópa.7

Rannsakendur hafa í vaxandi mæli beint sjónum sínum að því hvort það feli í sér ávinning fyrir sjúklinga með alvarlegar geðraskanir að bjóða upp á einstaklingsmiðaða næringarmeðferð, sem veitt er af næringarfræðingi eða næringarráðgjafa, ásamt ráðgjöf um hreyfingu sem viðbót við hefðbundna meðferð. Niðurstöður rannsókna á því sviði lofa góðu.1,8,9 Ekki hefur áður verið gerð rannsókn hér á landi á fæðuvali ungs fólks með geðrofssjúkdóma og þar af leiðandi ekki til grunnur til að móta áherslur næringarmeðferðar fyrir þennan hóp hérlendis. Laugarásinn meðferðargeðdeild er sérhæfð deild innan geðsviðs Landspítala sem býður upp á þjónustu fyrir ungt fólk með fyrstu einkenni geðrofssjúkdóms. Unnið er eftir kenningum um snemmíhlutun í þverfaglegu teymi. Teymið samanstendur af geðlækni, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, íþróttafræðingum, sjúkraliðum, ráðgjöfum og stuðningsfulltrúum. Meðal annars er boðið upp á fræðslu um heilbrigðan lífsstíl en enginn næringarfræðingur vinnur í teyminu í dag.10

Markmið rannsóknarinnar var að kanna fæðuval og næringargildi fæðu ungra Íslendinga með geðrofssjúkdóma og bera það saman við fæðuval einstaklinga á sama aldri úr almennu þýði11 og ráðleggingar um fæðuval og neyslu næringarefna.12

 

Efniviður og aðferðir

Þátttakendur voru þjónustuþegar Laugarássins sem sóttu þjónustu á því tímabili sem gagnaöflun fór fram (júlí til ágúst 2016). Laugarásinn er meðferðargeðdeild sem tilheyrir geðsviði Landspítala og býður sérhæfða meðferð fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofssjúkdóma og er algengasta greiningin geðklofi. Af þátttakendum í þessari rannsókn voru 73% með greiningu á geðklofa, hinir voru með aðra geðrofssjúkdóma. Í heildina sóttu 87 einstaklingar á aldrinum 18-30 ára þjónustu á tímabilinu, þar af voru 68 í dagdeild og 19 í göngudeild. Þjónustuþegar í göngudeildarmeðferð eru komnir lengra á veg í sinni meðferð og koma því sjaldnar á Laugarásinn, eða um það bil einu sinni í mánuði. Þjónustuþegar í dagdeildarmeðferð koma hins vegar oftar, að jafnaði 1-5 sinnum í viku. Þjónustuþegum stendur til boða að þiggja mat á Laugarásnum við komu sína þangað, en þess á milli borðar fólk heima hjá sér.

Skilyrði fyrir þátttöku í rannsókninni voru að viðkomandi gæti rifjað upp fæðuval sitt síðasta sólarhringinn. Málastjóri hvers þátttakanda sá um að kynna rannsóknina með kynningarbréfi. Ef viðkomandi hafði áhuga á þátttöku var bókaður tími í viðtal hjá rannsakanda. Alls var 66 þjónustuþegum boðin þátttaka í rannsókninni (ekki náðist í fleiri, meðal annars vegna sumarleyfa starfsfólks og þjónustuþega), þar af vildu 18 ekki taka þátt í rannsókninni. Niðurstöður eru því birtar fyrir 48 einstaklinga, 41 karlmann og 7 konur, eða 73% af þeim þjónustuþegum sem boðin var þátttaka (55% af heildarfjölda þjónustuþega Laugarássins á því tímabili sem rannsóknin fór fram). Þátttakendur skrifuðu allir undir samþykkisyfirlýsingu vegna þátttöku í rannsókninni.

Siðanefnd Landspítala samþykkti rannsóknaráætlunina (25/2016) og framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala veitti heimild fyrir rannsókninni og aðgang að sjúkraskrám þátttakenda (44-16). Persónuvernd gerði ekki athugasemdir í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga vegna þessarar rannsóknar (25/2016).

Fæðuval og næringargildi fæðu

Notuð var ein sólarhringsupprifjun á mataræði þar sem þátttakendur voru beðnir um að rifja upp allt sem þeir borðuðu og drukku deginum áður, sem er svipuð aðferð og notuð var í landskönnun á mataræði 2010-2011 en þar var notuð endurtekin sólarhringsupprifjun.11 Þessi aðferð er talin góð til að meta meðalneyslu hópa en getur ekki gefið upplýsingar um mataræði einstaklinga þar sem mataræði einstaklings getur verið mjög breytilegt frá degi til dags.13

Niðurstöður um neyslu matar og drykkjar voru færðar inn í næringarútreikningaforritið ICEFOOD sem var hannað fyrir landskönnun á mataræði 2002 og endurbætt fyrir landskönnun á mataræði 2010-2011. Við næringarútreikninga var notaður bæði íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla, ÍSGEM, og uppskriftagagnagrunnur Embættis landlæknis (fyrrum Lýðheilsustöðvar) um samsetningu algengra rétta og skyndibita. Við útreikninga var tekið tillit til rýrnunar næringarefna við eldun.14 Niðurstöður eru birtar um neyslu á fæðu úr helstu fæðuflokkum (g/dag), heildarorku (kkal/dag), orkugefandi næringarefni (g/dag og sem hlutfall af heildarorku) og neysla vítamína og steinefna reiknuð út. Stuðst var við sama kerfi við flokkun fæðutegunda í skilgreinda fæðuflokka og lýst er í skýrslu landskönnunar á mataræði fullorðinna Íslendinga 2010-2011.11 Niðurstöður sólarhringsupprifjunar meðal þjónustuþega Laugarássins voru bornar saman við niðurstöður landskönnunar 2010-2011 á fæðumynstri Íslendinga á sama aldri (18-30 ára) og einnig við opinberar ráðleggingar um fæðuval, hlutfallslega skiptingu orkuefnanna og ráðlagða dagsskammta (RDS) næringarefna.12,15 Þegar vísað er í niðurstöður landskönnunar 2010-2011 fyrir sama aldurshóp í niðurstöðukafla hér á eftir er talað um þátttakendur í landskönnun.

Hæð, þyngd og þyngdarþróun

Samkvæmt vinnuleiðbeiningum Laugarássins á að vigta skjólstæðinga mánaðarlega eða oftar ef ástæða þykir til. Upplýsingar um þyngd við þátttöku höfðu verið skráðar í Sögu fyrir 37 af þeim 48 þjónustuþegum Laugarássins sem samþykktu þátttöku í rannsókninni. Skilgreining á þyngd við þátttöku í þessari grein miðast við skráða líkamsþyngd þátttakenda sem næst gagnasöfnun (mælingar sem fóru fram á tímabilinu 1. apríl til 1. október 2016). Upplýsingar um hæð og þyngd þátttakanda allt að 12 mánuðum aftur í tímann voru skráðar (mælingar sem fóru fram á tímabilinu 1. október 2015 til 1. október 2016). Þyngdarþróun sem birt er í þessari grein lýsir breytingum á þyngd einstaklinga yfir að minnsta kosti 8 mánaða og allt að 12 mánaða tímabili eftir því hversu ítarlegar upplýsingar höfðu verið skráðar í Sögu. Þyngdartap er skilgreint sem >5% lækkun líkamsþyngdar á tímabilinu miðað við þyngd við þátttöku og þyngdaraukning sem >5% aukning líkamsþyngdar miðað við þyngd við þátttöku. Litið er á minni breytingar í þyngd (< ± 5%) sem eðlilegt flökt á líkamsþyngd.

Tölfræði

Forritið SPSS, 24. útgáfa, var notað við tölfræðiútreikninga. Í ljósi þess að kynjahlutföll voru ekki jöfn í hópunum tveimur var reiknað út vegið meðaltal fyrir þátttakendur í landskönnun (til að leiðrétta fyrir mun milli kvenna og karla er kemur að fæðuvali og næringargildi fæðis). Birt eru meðaltöl og staðalfrávik fyrir neyslu fæðutegunda og næringarefna fyrir þjónustuþega Laugarássins og vegið meðaltal neyslu þátttakenda í landskönnun. Notað var einhliða t-próf við tölfræðilegan samanburð á neyslu þjónustuþega við vegna meðalneyslu úr landskönnun. Fyrir tölfræðigreiningu var tekinn náttúrulegur lógaritmi af þeim breytum þar sem neysla þjónustuþega var ekki normaldreifð (á við um alla fæðuflokka og sumar breytur fyrir næringargildi fæðu). Hefðbundnu t-prófi (tvíhliða) var hins vegar beitt þegar kannaður var munur á aldri og líkamsþyngdastuðli hópanna tveggja, þar sem ekki var þörf á leiðréttingu vegna kynjahlutfalls í þeim tilfellum. Marktækni var skilgreind sem p<0,05.

 

Niðurstöður

Meðalaldur hópanna tveggja sem bornir eru saman í þessari rannsókn reyndist svipaður, eða 24,5 ± 3,5 ár meðal þjónustuþega Laugarássins og 24,7 ± 3,6 ár meðal þátttakenda í landskönnun. Meðallíkamsþyngdarstuðull þjónustuþega var hærri en þátttakenda í landskönnun (31 ± 7,2 kg/m2 á móti 25 ± 4,5 kg/m2, p<0,001).

Meðalneysla valinna fæðutegunda og matvæla úr mismunandi fæðuflokkum beggja hópa er sýnd í töflu I . Marktækur munur (p<0,001) var á meðalneyslu á mjólk og mjólkurvörum milli hópanna, en þjónustuþegar neyttu að meðaltali 164 g/dag en þátttakendur í landskönnun um 357 g/dag. Meðalneysla grænmetis og ávaxta var 157 g/dag hjá þjónustuþegum samanborið við 196 g/dag hjá þátttakendum í landskönnun, en sá munur lá aðallega í minni neyslu á ávöxtum meðal þjónustuþega. Neysla á fiski og fiskafurðum, jurtaolíum og lýsi var einnig minni meðal þjónustuþega samanborið við þátttakendur í landskönnun en neysla á  gosdrykkjum, snakki og sælgæti reyndist vera hærri (p<0,001).

Skipting orkugefandi næringarefna (próteina, fitu og kolvetna) var í heildina í samræmi við ráðleggingar og nokkuð sambærileg milli hópanna tveggja  tafla II), en framlag próteina til heildarorkuneyslu var þó lægra meðal þjónustuþega (16% af heildarorku) samanborið við þátttakendur í landskönnun (18% af heildarorku). Hlutfall ómega-3 fitusýra í fæði var  marktækt lægra á meðal þjónustuþega en meðal þátttakenda í landskönnun (0,04% af heildarorku miðað við 1,2%, p<0,001) og vel undir ráðlögðu hlutfalli sem er 1% af heildarorku. Hlutfall viðbætts sykurs var yfir þeim viðmiðum sem gefin eru fyrir hámarksneyslu í ráðleggingum hjá báðum hópum og marktækt hærri (15%) meðal þjónustuþega Laugarássins samanborið við þátttakendur í landskönnun (12%). Trefjaneysla reyndist lág í báðum hópum.

Meðalneysla vítamína og steinefna var almennt lægri meðal þjónustuþega samanborið við þátttakendur í landskönnun, en þó var meðalneysla flestra vítamína og steinefna yfir áætlaðri meðalþörf hjá báðum hópum og jafnvel hærri en ráðlagður dagskammtur fyrir sum næringarefni. Aftur á móti var meðalneysla á D-vítamíni vel undir áætlaðri meðalþörf hjá báðum hópum og marktækt lægri meðal þjónustuþega Laugarássins en meðal þátttakenda í landskönnun (3,1 + 4,2 µg/dag og 5,6 + 6,5 µg/dag, p<0,001).

Mynd I sýnir hlutfallslega þyngdarbreytingu síðastliðna 8-12 mánuði meðal þjónustuþega Laugarássins sem byggir að meðaltali á 6 mælingum fyrir hvern einstakling. Þyngd hafði verið skráð í Sögu 10 sinnum eða oftar yfir 8-12 mánaða tímabil fyrir 8 einstaklinga (af 37), sem er nokkurn veginn í samræmi við vinnuleiðbeiningar Laugarássins. Fyrir 24 einstaklinga (65%) hafði þyngd einungis verið skráð þrisvar sinnum eða sjaldnar á tímabilinu. Út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir um þyngdarbreytingar þjónustuþega í þessari rannsókn sést að þyngd um helmings skjólstæðinga hafði staðið í stað á því tímabili sem skráningin náði yfir. Alls höfðu 14 einstaklingar (tæplega 40%) þyngst um meira en 5% af upprunalegri þyngd sinni, þar af höfðu fjórir einstaklingar bætt við sig >20% af upphafsþyngd sinni.

 

Umræða

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að fæðuval ungs fólks með geðrofssjúkdóma sé almennt lakara en fæðuval þátttakenda í landskönnun, sem er í  samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna.7,16 Niðurstöður sýndu að neysla hópsins er undir viðmiðum opinberra ráðlegginga, sérstaklega hvað varðar grænmeti, ávexti, mjólkurvörur, trefjar og fisk, en sykurneysla var of há.12 Neysla á D-vítamíni reyndist undir áætlaðri meðalþörf og hlutfall ómega-3 fitusýra af heildarorku var töluvert undir ráðleggingum. Mikil áskorun felst í að takast á við þyngdarstjórnun og að bæta mataræði hjá þessum hópi sjúklinga en í ljósi þess að ungt fólk með geðrofssjúkdóma virðist viðkvæmara en aðrir hópar fyrir óhollu mataræði er mikilvægt að leita leiða til úrbóta.5 Þess ber að geta að fæðuvali viðmiðunarhópsins í þessari rannsókn er einnig ábótavant miðað við ráðleggingar.

Þegar næringargildi fæðu þjónustuþega Laugarássins er borið saman við ráðleggingar blasir við að neysla á óhollum vörum á borð við gosdrykki, snakk og sælgæti er mikil, en einnig að hætta geti verið á skorti á tveimur næringarefnum. Annars vegar D-vítamíni og hins vegar ómega-3 fitusýrum. Neysla þessara efna var ekki bara minni meðal þjónustuþega Laugarássins í samanburði við þátttakendur í landskönnun heldur er ólíklegt að núverandi mataræði þeirra fullnægi þörf fyrir efnin. Hlutverk D-vítamíns í tengslum við beinheilsu er vel þekkt en vítamínið gegnir þó fjölþættu hlutverki í líkamsstarfsemi, meðal annars í taugakerfinu.17 Tengsl milli lágs styrks D-vítamíns í blóði og geðrofssjúkdóma hafa sést í rannsóknum og einhver teikn eru á lofti um að einkenni sjúkdómsins gætu verið verri við lágan styrk.18,19 Ein af þeim tilgátum sem settar hafa verið fram til að útskýra þessar niðurstöður er að D-vítamín gegni mikilvægu hlutverki við myndun á taugaboðefninu serótónín, sem meðal annars tekur þátt í ferlum tengdum félagsfærni og vitsmunagetu.20 Einkenni geðrofssjúkdóma geta meðal annars falið í sér skerta vitsmunagetu og tilhneigingu til að draga sig í hlé félagslega. Ómega-3 fitusýrur, sér í lagi eicosapentaenoic sýra (EPA) og docosahexaenoic sýra (DHA), hafa einnig verið tengdar við framleiðslu serótóníns.20 Ávinningur af D-vítamín- og ómega-3 fæðubótargjöf fyrir sjúklinga með geðrofssjúkdóma hefur verið rannsakaður að undanförnu og benda niðurstöður til þess að fæðubót geti dregið úr einkennum sjúkdómsins.20 Frekari rannsókna er þörf til að unnt sé að móta klínískar leiðbeiningar um notkun fæðubótarefna fyrir þennan hóp.20 Hins vegar er mikilvægt að tryggja næga neyslu á D-vítamíni og ómega-3 fitusýrum í fæði einstaklinga með geðrofssjúkdóma líkt og annarra hópa samfélagsins. Í ljósi niðurstaðna rannsóknar okkar mætti færa rök fyrir því að ráðleggja þyrfti fæðubót sem gefur D-vítamín og ómega-3 fitusýrur fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma á Íslandi, takist ekki að auka neyslu á feitum fiski, sem er góð uppspretta þessara efna, með einhverjum leiðum.

Neysla á ávöxtum, mjólkurvörum, fiski, jurtaolíum og lýsi var marktækt minni meðal þjónustuþega Laugarássins samanborið við þátttakendur á sama aldri í landskönnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Þessar vörur teljast hluti af hollu mataræði og veita líkamanum mikilvæg næringarefni á borð við fólat, kalk, joð, A-vítamín, D-vítamín og ómega-3 fitusýrur. Þó sú aðferðafræði sem notuð var í þessari rannsókn gefi okkur ekki tækifæri til að meta hversu stórt hlutfall einstaklinga uppfylli ekki þörf fyrir einstök næringarefni gefa niðurstöðurnar ákveðnar vísbendingar um að neysla þessara efna sé ef til vill lítil hjá hluta hópsins. En eins og fram kemur í aðferðakafla hentar sú aðferð sem notuð var í þessari rannsókn vel til að meta mataræði hópa en gefur ekki nógu góða mynd af mataræði einstaklinga innan hópsins. Frekari greiningar á næringarástandi með lífefnafræðilegum mælingum gætu því talist æskilegar til að fá nákvæmari mynd af næringar-ástandi ungs fólks með geðrofssjúkdóma.

Eins og fram kom í inngangi þessarar greinar eru einstaklingar með geðrofssjúkdóma í aukinni hættu að fá efnaskiptavillu og eru lífslíkur þeirra að jafnaði 10-25 árum styttri en almennings.5 Ekki er að fullu þekkt hvað veldur þessari auknu hættu, en nokkrar skýringar hafa verið settar fram. Má þar nefna áhrif lyfjagjafar á efnaskipti, áhrif sjúkdómstengdrar streitu og áhrif óheilbrigðs lífernis á efnaskipti.5,7 Hlutfall viðbætts sykurs af heildarorku fæðis þjónustuþega Laugaráss (15%) var vel yfir opinberum hámarksviðmiðum (<10%) í rannsókn okkar, sem skýrist fyrst og fremst af mikilli neyslu gosdrykkja og sælgætis. Eins og staðan er í dag er erfitt að greina orsakir og afleiðingar í flóknu samspili lyfja, streitu og lifnaðarhátta. Mikil neysla á fínunnum kolvetnum á borð við gosdrykki og sælgæti tengist meiri líkum á þunglyndi og kvíða21 og rannsóknir benda einnig til þess að aukin streita geti haft slæm áhrif á sykurstjórn sjúklinga með sykursýki 1 sem einnig gæti átt við um aðra sjúklingahópa.22,23 Hver svo sem ástæðan er, er mikilvægt að bregðast við og finna leiðir til að bæta fæðuval í því skyni að bæta lífsgæði og auka lífslíkur ungra einstaklinga með geðrofssjúkdóma. Nokkrar íhlutandi rannsóknir hafa verið gerðar erlendis þar sem næringarráðgjafar hafa innleitt sérstaka næringarmeðferð fyrir sjúklinga með geðrofssjúkdóma á svipuðum deildum og Laugarási. Benda þær til þess að ávinningur sé af því að veita sérhæfða næringarmeðferð fyrir þennan hóp. Mældist sá árangur meðal annars í bættu mataræði, minni þyngdaraukningu eftir upphaf lyfjagjafar og bættum blóðgildum.1,8 Þær þyngdarupplýsingar sem til voru fyrir þjónustuþega benda til þess að þeir séu að meðaltali með hærri líkamsþyngdarstuðul en þátttakendur í landskönnun og að þó nokkrir einstaklingar væru að þyngjast mikið. Út frá fyrirliggjandi skráningum á þyngd í Sögu virðist almennt vanta nokkuð upp á að skjólstæðingar væru vigtaðir mánaðarlega eins og vinnureglur Laugarássins meðferðargeðdeildar segja til um. Ekki er hægt að greina út frá fyrirliggjandi gögnum af hverju sumir eru vigtaðir oftar en aðrir.

Styrkleiki rannsóknarinnar felst fyrst og fremst í því að mikillar nákvæmni var gætt við að fá upplýsingar um fæðuval frá þátttakendum og að svipuð aðferðafræði var notuð til að kanna fæðuval og gert var í samanburðarhópnum. Allir þátttakendur voru upplýstir um að rannsóknin væri nafnlaus og að einungis væri verið að skoða hópinn í heild og þeim greint frá mikilvægi þess að réttar upplýsingar um fæðuval hvers og eins kæmu fram. Ekki er þó hægt að líta fram hjá því að ákveðin skekkja getur komið fram við sólarhringsupprifjun á mataræði þar sem aðferðin byggir á minni þátttakenda. Eins ber að taka fram að einungis var gerð ein sólarhringsupprifjun á mataræði skjólstæðinga Laugarássins en tvær í landskönnun 2010-2011. Þessi munur á þó ekki að hafa teljandi áhrif á upplýsingar um meðalneyslu fæðutegunda og næringargildi fæðu sem birtar eru í þessari grein. Eins telst það takmarkandi þáttur að við mat á þyngdarbreytingum var ekki hægt að skilgreina tímabil breytinga nákvæmar en 8-12 mánuði aftur í tímann þannig að þær niðurstöður gefa einungis grófa, en jafnframt mjög upplýsandi mynd af þyngdarþróun þátttakenda í rannsókninni mánuðina fyrir könnunina á mataræði þeirra.

Niðurstöður rannsóknar okkar benda til þess að fæðuval og þyngdarþróun ungra einstaklinga með geðrofssjúkdóma geti ýtt undir hættu á að þeir þrói með sér langvinna sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki. Niðurstöðurnar benda einnig til að hætta sé á skorti á D-vítamíni og ómega-3 fitusýrum. Mikilvægt er að leita leiða til að efla enn frekar þá þjónustu sem hópurinn fær á Laugarási í dag í því skyni að bæta fæðuval og minnka líkur á þyngdaraukningu samhliða annarri meðferð.

 

Heimildir

 

1. Curtis J, Watkins A, Rosenbaum S, Teasdale S, Kalucy M, Samaras K, et al. Evaluating an individualized lifestyle and life skills intervention to prevent antipsychotic-induced weight gain in first-episode psychosis. Early Interv Psychiatry 2016; 10: 267-76.
https://doi.org/10.1111/eip.12230

PMid:25721464

 
2. Gouveia C, Chowdhury TA. Diabetes, schizophrenia and metabolic effects of antipsychotic drugs. Ment Health Today 2013: 24-7.

PMid:24397022

 
 
3. Burghardt KJ, Ellingrod VL. Detection of metabolic syndrome in schizophrenia and implications for antipsychotic therapy : is there a role for folate? Mol Diagn Ther 2013; 17: 21-30.
https://doi.org/10.1007/s40291-013-0017-8

PMid:23341251 PMCid:PMC4077272

 
 
4. Holt RI. The prevention of diabetes and cardiovascular disease in people with schizophrenia. Acta Psychiatrica Scand 2015; 132: 86-96.
https://doi.org/10.1111/acps.12443

PMid:25976975

 
 
5. Roick C, Fritz-Wieacker A, Matschinger H, Heider D, Schindler J, Riedel-Heller S, et al. Health habits of patients with schizophrenia. Soc Psychiatry Psychiatr Epidemiol 2007; 42: 268-76.
https://doi.org/10.1007/s00127-007-0164-5

PMid:17370043

 
 
6. Hu FB, Willett WC. Optimal diets for prevention of coronary heart disease. JAMA 2002; 288: 2569-78.
https://doi.org/10.1001/jama.288.20.2569
 
 
7. Dipasquale S, Pariante CM, Dazzan P, Aguglia E, McGuire P, Mondelli V. The dietary pattern of patients with schizophrenia: a systematic review. J Psychiatr Res 2013; 47: 197-207.
https://doi.org/10.1016/j.jpsychires.2012.10.005

PMid:23153955

 
 
8. Teasdale S, Harris S, Rosenbaum S, Watkins A, Samaras K, Curtis J, et al. Individual dietetic consultations in first episode psychosis: a novel intervention to reduce cardiometabolic risk. Community Ment Health J 2015; 51: 211-4.
https://doi.org/10.1007/s10597-014-9787-7

PMid:25523060

 
 
9. Daumit GL, Dalcin AT, Jerome GJ, Young DR, Charleston J, Crum RM, et al. A behavioral weight-loss intervention for persons with serious mental illness in psychiatric rehabilitation centers. Int J Obes 2011; 35: 1114-23.
https://doi.org/10.1038/ijo.2010.224

PMid:21042323 PMCid:PMC3409245

 
 
10. Laugarásinn-meðferðargeðdeild. landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/klinisk-svid-og-deildir/deildir/endurhæfing-lr/2016 . - október 2016.  
 
11. Þorgeirsdóttir H, Valgeirsdóttir H, Gunnarsdóttir I, Gísladóttir E, Gunnarsdóttir BE, Þórsdóttir I, et al. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Embætti landlæknis, Reykjavík 2011.  
 
12. Grundvöllur ráðlegginga um mataræði og ráðlagðir dagskammtar næringarefna. Embætti landlæknis, Reykjavík 2014.  
 
13. Willett W. Nutritional Epidemiology, third edition. Oxford University Press, New York 2012.
https://doi.org/10.1093/acprof:oso/9780199754038.001.0001
 
 
14. Steingrímsdóttir L, Valgeirsdóttir H, Halldórsson ÞI, Gunnarsdóttir I, Gísladóttir E, Þorgeirsdóttir H, et al. Kannanir á mataræði og næringargildi fæðunnar á Íslandi. Læknablaðið 2014; 100: 659-64.

PMid:25519462

 
 
15. Nordic Nutrition Recommendations. Integrating nutrition and physical activity. Nordic Council of Ministers, 2012.  
 
16. Amani R. Is dietary pattern of schizophrenia patients different from healthy subjects? BMC Psychiatry 2007; 7: 15.
https://doi.org/10.1186/1471-244X-7-15

PMid:17474979 PMCid:PMC1868716

 
 
17. Lamberg-Allardt C, Brustad M, Meyer HE, Steingrimsdottir L. Vitamin D - a systematic literature review for the 5th edition of the Nordic Nutrition Recommendations. Food Nutr Res 2013; 57.  
 
18. Cieslak K, Feingold J, Antonius D, Walsh-Messinger J, Dracxler R, Rosedale M, et al. Low vitamin D levels predict clinical features of schizophrenia. Schizophrenia Res 2014; 159: 543-5.
https://doi.org/10.1016/j.schres.2014.08.031

PMid:25311777 PMCid:PMC4252834

 
 
19. Graham KA, Keefe RS, Lieberman JA, Calikoglu AS, Lansing KM, Perkins DO. Relationship of low vitamin D status with positive, negative and cognitive symptom domains in people with first-episode schizophrenia. Early Interv Psychiatry 2015; 9: 397-405.
https://doi.org/10.1111/eip.12122

PMid:24612563

 
 
20. Patrick RP, Ames BN. Vitamin D and the omega-3 fatty acids control serotonin synthesis and action, part 2: relevance for ADHD, bipolar disorder, schizophrenia, and impulsive behavior. FASEB J 2015; 29: 2207-22
https://doi.org/10.1096/fj.14-268342

PMid:25713056

 
 
21. Breymeyer KL, Lampe JW, McGregor BA, Neuhouser ML. Subjective mood and energy levels of healthy weight and overweight/obese healthy adults on high-and low-glycemic load experimental diets. Appetite 2016; 107: 253-9.
https://doi.org/10.1016/j.appet.2016.08.008

PMid:27507131

 
 
22. Haghighatdoost F, Azadbakht L, Keshteli AH, Feinle-Bisset C, Daghaghzadeh H, Afshar H, et al. Glycemic index, glycemic load, and common psychological disorders. Am J Clin Nutr 2016; 103: 201-9.
https://doi.org/10.3945/ajcn.114.105445

PMid:26607943

 
 
23. Strandberg RB, Graue M, Wentzel-Larsen T, Peyrot M, Rokne B. Relationships of diabetes-specific emotional distress, depression, anxiety, and overall well-being with HbA1c in adult persons with type 1 diabetes. J Psychosom Res 2014; 77: 174-9
https://doi.org/10.1016/j.jpsychores.2014.06.015

PMid:25149027

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica