04. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Að reykja eða rafreykja, þar er efinn

Heilbrigðisráðherra boðar nýtt frumvarp um rafrettur sem voru til umræðu á málþingi um tóbaksvarnir

 

                 
                Charlotte Pisinger í pallborði að loknum erindum. Með henni eru Birgir Jakobsson landlæknir
                og hinir frummælendurnir tveir, Ángel Lopez og Jónas Atli Gunnarsson frá Hagfræðistofnun
                Háskóla Íslands.

Um miðjan mars var efnt til málþings um tóbaksvarnir í Hörpu undir heitinu Hættu nú alveg! Að því stóðu Háskóli Íslands, Læknafélag Íslands, Krabbameinsfélagið og landlæknir. Tveir erlendir fyrirlesarar fluttu erindi, greint var frá rannsókn á kostnaði íslensks samfélags af reykingum og heilbrigðisráðherra ávarpaði samkomuna, en þurfti svo að flýta sér á annan fund.

Í stuttu ávarpi sem hann flutti kom fram að nýtt frumvarp um rafrettur verði væntanlega lagt fram á Alþingi á næstu vikum og ef marka má það sem á eftir fór fer ekki hjá því að margir bíði spenntir eftir því hvernig þar verður tekið á þessari nýjung sem hefur breiðst hratt út á undanförnum árum. En eins og fram hefur komið í fréttum hefur dregið ört úr reykingum á undanförnum árum hér á landi, svo ört að áðurnefnd könnun Hagfræðistofnunar á kostnaði samfélagsins við reykingar studdist við gamlar og úreltar tölur. Þar var sagt að 12% Íslendinga reyki daglega, en nýjustu tölur sýna að sú tala hefur lækkað í 10%. Svo bætist raunar við álíka stór hópur sem stundar það sem stunduð er kallað „félagslegar reykingar“, það er reykir bara á tyllidögum og í mannfögnuðum.

 

Að gera út á smugurnar í skattalögunum

Því er sem sé ekki að leyna að Íslendingar hafa náð umtalsverðum árangri í tóbaksvörnum, eru jafnvel komnir fram úr Svíum sem enn glíma við munntóbakið þótt reykingar hafi minnkað mikið. Spænski hagfræðingurinn Ángel López frá háskólanum í Cartagena lýsti því skiljanlegum áhyggjum sínum af því hvað hann gæti sagt þessari þjóð sem stæði sig svona vel.

Eins og titill hans gefur til kynna er hann upptekinn af fjárhagslegri hlið tóbaksvarna og hann ætlaði að brýna fyrir okkur ákveðna breytingu sem þyrfti að gera á skattlagningu tóbaksvara, en fann svo út rétt áður en hann kom til landsins að Íslendingar breyttu skattlagningunni í rétta átt um síðustu áramót!

Hann lýsti ágætlega átökum tóbaksfyrirtækja gegn öllum hömlum á útbreiðslu tóbaks á Spáni og víðar í heiminum sem er síður en svo á undanhaldi. Meðal annars þurftu tóbaksfyrirtækin að bregðast við efnahagshruninu sem olli því að ríkisstjórnir margra landa ákváðu að draga úr fjárlagahallanum með því að auka skattlagningu á tóbaki. Í þeirri orrahríð fundu tóbaksfyrirtækin leið framhjá skattagleði stjórnvalda sem höfðu einblínt á tilbúnar sígarettur í pökkum. Álögurnar á reyktóbak sem menn gátu notað til að rúlla sínar eigin sígarettur stóðu hins vegar í stað svo þar var sóknarfæri.

Þessu hafði hann ætlað að koma til skila við Íslendinga, sem sé að búa ekki til smugur fyrir tóbaksframleiðendur í skattakerfinu með því að vera með misháa skatta á hinum ýmsu gerðum tóbaks. Nema hvað íslensk stjórnvöld höfðu einmitt breytt reglugerðinni um síðustu áramót svo þar eru þessar smugur hvergi finnanlegar.

 

Æsingur á málþingum vísindamanna

Það sem viðstaddir hlýddu á með hvað mestri andakt var þó erindi danskrar konu, Charlotte Pisinger, en hún hefur starfað að rannsóknum á sviði reykinga og tóbaksvarna undanfarna tvo áratugi. Hún fjallaði um rafretturnar sem valdið hafa miklum átökum og umróti á síðustu árum. Hún sagðist aldrei hafa upplifað annan eins æsing í fólki síðan hún hóf afskipti af tóbaksvörnum og í umræðunum um rafretturnar. – Dagfarsprúðir vísindamenn og starfsfólk lýðheilsustofnana öskrar hvert á annað á málþingum, sagði hún.

– Ég var spennt fyrir rafrettunum þegar þær komu fram en með tímanum hafa áhyggjur mínar aukist. Staðhæfingar rafrettuframleiðenda eru á þá leið að þetta sé eiginlega bara hreint vatn, gufa, með góðu ávaxtabragði, hættulaust fyrir nærstadda, heilsusamlegur valkostur við reykingar, stórkostleg aðstoð við reykingafólk sem vill hætta að reykja og kemur í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja. Auglýsingarnar ganga flestar út á það sama og tóbak, þetta auðveldar þér að ná þér í elskendur eða maka, styrkir félagslega stöðu þína og eykur sjálfstraust. Eitt hefur svo bæst við: öryggið. Nú geturðu óhræddur reykt með barnið þitt í fanginu, sagði Charlotte.

 

Þörf á meiri og betri rannsóknum

Hún hefur á undanförnum árum unnið að safngreiningu á þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum rafretta, fyrst á eigin vegum en frá 2014 á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofunarinnar, WHO. Í þeirri vinnu hefur hún greint vel á þriðja hundrað rannsókna, en er þó engan veginn komin að endanlegri niðurstöðu um það hvort rafrettur eru jákvæð viðbót við vöruframboðið eða lítið skárri en tóbakið sjálft sem er með því eitraðasta sem manninum hefur dottið í hug að setja ofan í sig.

Hún hefur komist að því að mikil þörf er fyrir frekari – og betri – rannsóknir á rafrettum áður en dómur er kvaddur upp. Fyrirbærið er það nýtt að ekki hefur verið hægt að gera rannsóknir á langtímaáhrifum þess á heilsufar fólks. En þótt rafretturnar séu ungar er fjölbreytni þeirra ótrúleg. Nú eru yfir 500 vörumerki á markaði í heiminum og greinst hafa yfir 8.000 mismunandi bragðefni. Loks er það ekki til að auka gildi rannsóknanna að framleiðendur rafrettanna, sem margir hafa raunar verið keyptir upp af tóbaksfyrirtækjunum, hafa verið iðnir við að kosta rannsóknir sem sýna bara sparihliðar framleiðslunnar.

 

Tvöföld neysla algengust

Hún tíundaði ýmsar rannsóknir sem ekki pössuðu alveg við ofantaldar staðhæfingar framleiðenda. Þær sýna til dæmis að 70-80% þeirra sem reykja rafrettur hafa ekkert dregið úr hefðbundnum tóbaksreykingum heldur nota rafretturnar einungis sem viðbót við þær, hentugar til að geta reykt þar sem ekki má reykja.

Önnur rannsókn sýndi að þeir sem ekki hafa reykt en eru forvitnir um rafrettur eru fyrst og fremst ungmenni, börn og unglingar sem sjá fyrirmyndir á borð við Leonardo di Caprio og Kim Kardashian totta rafrettur. – Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir samfélög sem hafa eytt miklu púðri áratugum saman í að koma í veg fyrir að ungt fólk og börn byrji að reykja, bætti hún við.

Hún fjallaði töluvert um efnin í rafrettunum sem sum hver eru hættuleg og jafnvel eitruð, þótt rannsóknir á áhrifum þeirra í þessu samhengi séu enn misvísandi. Hún sagðist hins vegar ekki treysta sér til að fordæma rafretturnar fyrr en frekari rannsóknir lægju fyrir.

– En við þurfum að ræða fleira en eituráhrif rafretta. Við þurfum að taka með í reikninginn tvöfalda neyslu þar sem reykingamenn skipta ekki um lið heldur nota rafretturnar sem viðbót. Eru þær gott tæki til að draga úr reykingum? Draga þær úr áhuganum á að hætta? Hvaða áhrif hafa þær á félagslega hlið reykinga? Munu þær auka veg reykinganna á nýjan leik? Við verðum að muna að tóbaksfyrirtækin hafa mikla hagsmuni í þessari þróun og að tvöföld neysla er draumsýn þeirra, sagði Charlotte Pisinger.

Það verður forvitnilegt að sjá nýtt frumvarp Óttars Proppé um rafretturnar og ef marka má málþingið verður eflaust lífleg umræða um þennan bjargvætt eða bölvald á vordögum.

 

SaveÞetta vefsvæði byggir á Eplica