04. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Verður Lækningaminjasafn á Seltjarnarnesi að veruleika?

            

              
              Þakið á Lækningaminjasafninu er með betri stöðum á höfuðborgarsvæðinu til
              norðurljósa- og stjörnuskoðunar. Myndir: –ÞH

Það hefur ekki farið mikið fyrir Lækningaminjasafninu í fréttum að undanförnu. Kannski engin furða, því eins og Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands orðaði það við blaðamann Læknablaðsins gufaði það eiginlega upp eftir að Seltjarnarnesbær neitaði að endurnýja samning um byggingu og rekstur safnsins sem rann út í árslok 2012. En nú er svo að heyra að eitthvað gæti gerst í fokhelda safnhúsinu hjá Nesstofu á næstunni.

Saga Lækningaminjasafnsins hefur áður verið rakin hér í blaðinu, síðast í marsblaði ársins 2013. Það er í raun sorgarsaga því safnið varð í raun Hruninu að bráð eins og svo margt annað í íslensku samfélagi. Sitthvað vantaði upp á raunhæfa áætlanagerð um byggingu safnhússins og rekstur þess ef marka má úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á safninu árið 2014. Þegar það varð ljóst voru menn að kljást við afleiðingar Hrunsins og engir peningar fengust til safnsins.

Nýjar hugmyndir gætu hleypt nýju lífi í hugmyndina sem virtist vera að deyja drottni sínum.

 

Margar hindranir

Svo er allt hljótt fram á vor 2016. Þá gengu forsvarsmenn Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar á fund stjórnar LÍ og báðu hana að gera nú úrslitatilraun til þess að blása lífi í safnið. Þá var staðan sú að húsið lá – og liggur enn – undir skemmdum en safngripirnir og húsið sem keypt var yfir þá í Bygggörðum 7 á Seltjarnarnesi eru í eigu Þjóðminjasafnsins. Safnhúsið er enn formlega í eigu Seltjarnarnesbæjar því engar sögur fara af því að samningaviðræður bæjarfélagsins við menntamálaráðuneytið hafi farið fram, hvað þá borið árangur.

Raunar var það dæmigert fyrir þennan söguþráð að á hann kom sú lykkja árið 2013 að málefni „íslenskrar þjóðmenningar“ færðust úr ráðuneyti menntamála yfir í forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sú breyting er nú gengin til baka en þetta flækti sögu Lækningaminjasafnsins óneitanlega og dró hana á langinn.

Eftir fundinn með áhugamönnum um sögu læknisfræðinnar ákvað stjórn LÍ að gera enn eina tilraunina til þess að leiða þetta mál til lykta. Skipaður var starfshópur sem í áttu sæti fjórir læknar: Steinunn Þórðardóttir, Jón Jóhannes Jóhannsson, Steinn Jónsson og Högni Óskarsson. Og viti menn: Þann 14. október 2016 birtist viljayfirlýsing fjögurra aðila um málefni Lækningaminjasafns Íslands. Þar voru áfram Seltjarnarnesbær, LÍ og LR en í stað Þjóðminjasafns og menntamálaráðuneytisins var nú komið Listasafn Íslands.

       

Viljayfirlýsing

Meginefni þeirrar yfirlýsingar er á þessa leið:

„Það er einlægur vilji allra aðila yfirlýsingar þessarar að byggingarframkvæmdum við húsið verði fram haldið en þær hafa legið niðri í nokkur ár. Sökum þess fagna aðilar því að viðræður standa nú yfir á milli Seltjarnarnesbæjar og ríkisins sem ganga út á kaup ríkisins á fasteigninni enda er markmið viðræðnanna að húsið verði klárað og þar verði menningar- og safnatengd starfsemi í framtíðinni.

Tekið er fram í 7. gr. samningsins um safnahúsið [upphaflega samningsins frá 2007 – innskot] kemur fram að komi til þess að Seltjarnarnesbær óski eftir því að nýta safnabygginguna undir aðra starfsemi en Lækningaminjasafn Íslands skuli bærinn, nema um annað semjist, endurgreiða læknafélögunum tveimur stofnframlag þeirra að viðbættri vísitöluhækkun miðað við byggingarvísitölu. Í ljósi þessa ákvæðis lýsa læknafélögin því yfir að kaupi ríkið eignina verður ekki um skilyrðislausa uppgreiðslu að ræða á stofnframlagi læknafélaganna, heldur séu læknafélögin þá til í viðræður um takmarkaða nýtingu á fasteigninni fyrir sýningarhald sem tengist lækningaminjum og sögu læknisfræðinnar og einnig verði þar möguleiki á fyrirlestrahaldi og ráðstefnum á vegum læknafélaganna. Náist skriflegt samkomulag um slík afnot læknafélaganna mun ekki koma til endurgreiðslu á stofnframlagi þeirra.

Með undirritun sinni á yfirlýsingu þessari lýsir Listasafn Íslands því yfir að það hafi áhuga á að koma að uppbyggingu safnastarfs í byggingunni í samstarfi við ofangreinda aðila.“

 

Ekki eitt safn, heldur tvö

Svo mörg voru þau orð í október, en hvað hefur gerst eftir að þau voru sett á blað? Högni Óskarsson sagði blaðamanni að ýmislegt hefði gerst bæði fyrir og eftir að yfirlýsingin varð til.

– Þegar nefndin var skipuð lá þetta mál dautt, hafði rekið upp á sker. Svo gerist það að Oliver Luckett kemur til sögunnar. Hann er bandarískur nýsköpunarfrömuður sem tengist bæði listaheiminum og þróun samfélagsmiðla en tók ástfóstri við Ísland. Hann kom ásamt sambýlismanni sínum til að kaupa sér íbúðarhús og hafði meðal annars skoðað Lækningaminjasafnið. Honum leist vel á húsið en fannst það of stórt til að búa í því. Hann fór hins vegar á flug þegar við hittumst og hann fór að velta fyrir sér möguleikum þessa húss, sagði Högni.

Luckett sá fyrir sér fjölnotahús þar sem hægt yrði að vera með sýningar af ýmsu tagi, allt frá læknis- og líffræði, lýðheilsu og náttúruvernd yfir í norðurljósa- og stjörnuskoðun sem þakið á húsinu hentar vel fyrir. Einnig væri hægt að koma þar fyrir veitingahúsi. – Hann kynnti þessar hugmyndir fyrir bæjarstjórn Seltjarnarness og benti þeim meðal annars á að það mætti spara töluvert í innréttingum hússins með því að nota tölvutækni til þess að skipta húsinu upp í stað þess að kaupa dýrar innréttingar, sagði Högni.    

                 
                           Þegar blaðamaður var á ferð hafði Hönnunarmars lagt húsið undir textílsýningu.

Samtímadeild Listasafnsins

Þá kemur að hlut Listasafns Íslands. Halldór Björn Runólfsson sem lét af stöðu forstjóra Listasafnsins í byrjun ársins tók þátt í hugmyndasmíðinni með Luckett, Högna og fleirum. Hann hafði sótt myndlistarsýningu á Nesinu sumarið 2015 sem bar nafnið Listería sem hljómar kunnuglega í eyrum lækna. Þar voru meðal annars sýnd verk eftir Finnboga Pétursson hljóðlistamann og þá blasti við honum lausn á ákveðnum vanda sem Listasafnið glímir við.

– Við höfum verið að leita að hentugu húsnæði fyrir nýja deild við safnið sem við köllum Samtímadeild Listasafnsins, sagði Halldór Björn við blaðamann. – Þar gætum við sýnt nútímaverk eins og þau sem Finnbogi gerir og einnig verk sem gerð eru í margmiðlun, svonefnd vídeólistaverk og fleira í þeim dúr. Þetta hús er kjörið fyrir slíka deild og getur vel rúmast þar ásamt lækningaminjasafni. Reyndar var ég beðinn um að sýna fram á hvernig hægt væri að nýta húsið og átti ekki í neinum vandræðum með að koma þar fyrir tveimur söfnum, aðstöðu fyrir kennslu og ráðstefnuhald ásamt kaffi- og veitingasölu, sagði Halldór Björn. Hann bætti því við að hann hefði rætt þessar hugmyndir við fjölda listamanna sem hefðu hrifist af þeim. Einnig sagði hann ráðamenn Seltjarnarnesbæjar sjá talsverða möguleika í því að fá veitingasölu í húsið, hún gæti nýst til að efla útivist og heimsóknir ferðafólks á útivistarsvæðið vestast á Nesinu.

– Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta hús væri of stórt fyrir Lækningaminjasafnið eitt en með því að tryggja meiri nýtingu kæmi það læknafélögunum til góða, sagði Halldór Björn Runólfsson.

                                   
                                 Afgamlir fætur í formalíni. Úr safni Níelsar Dungal sem er innan vébanda
                                 Lækningaminjasafnsins. Dæmi um holdsveiki á höndum og fæti,
                                 líklega frá Holdsveikispítalanum í Laugarnesi.

Enn tefst málið …

Að sögn þeirra Högna og Halldórs Björns hefur þessi hugmynd um fjölnotahús verið kynnt fyrir ýmsum framámönnum, bæði ráðherrum, safnamönnum, fulltrúum Seltjarnarnesbæjar og fólki sem tengist veitingarekstri, og alls staðar fengið góðar undirtektir. Ýmislegt hefur þó orðið til að tefja fyrir.

– Kosningarnar þýddu það að öllum ákvörðunum varð að slá á frest og eftir það tók við óvenju tímafrek stjórnarmyndun, segir Högni. – Svo er Halldór Björn hættur en arftaki hans, Harpa Þórsdóttir, kemur ekki til starfa fyrr en í maí. Við höfum reynt að reka á eftir því að fá fund með núverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannessyni, en það hefur gengið erfiðlega að finna tíma. Við vitum hins vegar að bæði hann og forsætisráðherra sýna þessum hugmyndum velvilja, segir hann.

                 
                                 Þá er bara að bíða og sjá hvað setur, erum við ekki orðin vön því?

 

SaveÞetta vefsvæði byggir á Eplica