04. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Þetta eru orðin, nú haldið þið mér við verkin! - Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ræddi við troðfullan sal af læknum á fundi læknaráðs Landspítalans

Það var eftirvænting í loftinu þegar læknar fylltu Hringsal Landspítala einn föstudagsmorgun í mars. Þangað var von á Óttari Proppé heilbrigðisráðherra í tveggja mánaða gamalli ríkisstjórn til skrafs og ráðagerða um stöðu og horfur í þessum stóra málaflokki. Hvað gat hann sagt þeim, svona glænýr í embætti og fjarri því að vera hokinn af reynslu á sviði heilbrigðismála?

                  
                Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra skiptist á skoðunum við lækna og annað starfsfólk
                Landspítalans. Við hlið hans stendur Reynir Arngímsson formaður læknaráðs, en sitjandi fjærst
                í fremstu röð eru aðstoðarmenn ráðherra, Unnsteinn Jóhannsson og Sigrún Gunnarsdóttir. Mynd ÞH.

Ráðherra gekk í salinn ásamt aðstoðarfólki sínu, þeim Sigrúnu Gunnarsdóttur og Unnsteini Jóhannssyni. Þá gat fundur hafist og Reynir Arngrímsson formaður læknaráðs spítalans ávarpaði ráðherra, bauð hann velkominn og minnti á tveggja ára gamalt samkomulag lækna og fyrri ríkisstjórnar um að ráðast í átak til að bæta heilbrigðisþjónustu „með virkum stuðningi lækna og öflugri þátttöku þeirra í stefnumótun sem byggist á bættri starfsaðstöðu og betri nýtingu fjármuna“ eins og þar segir í 1. grein.

Reynir hélt áfram: „Allt eru þetta mál sem enn brenna á þjóðinni og okkur læknum, mál sem þú ráðherra heilbrigðismála færð í fangið. Skipulagsmál innan heilbrigðiskerfisins, aðgengi að læknisþjónustu, uppbyggingin og  endurreisnin ásamt fullnægjandi og tryggri fjármögnun með langtíma fjárhagsáætlun. Hjúkrunarrýmin og heimaþjónustan og lyfjamálin. Heilsugæslu í hers höndum. Niðurstöður úttektar OECD sem sýnir skelfilega frammistöðu okkar á síðustu árum í innviðauppbyggingu þar sem við spilum í neðstu deild.

Afgreiðsla síðustu fjárlaga og barátta fyrir fjárframlögum til Landspítala og ummæli forstjóra spítalans í þeirri orrahríð bendir til að enn sé nokkuð í land að markmið yfirlýsingarinnar náist. Að minnsta kosti er útlit fyrir að ekki verði stór framfaraskref stigin  á yfirstandandi ári, þó á sumum sviðum þokist mikilvæg mál áfram.“ Þannig brýndi hann ráðherra og vísaði meðal annars í nýlega skýrslu um stöðu Landspítala sem ráðuneyti hans gaf út á síðastliðnu hausti.

                                            

Í brattri lærdómskúrfu

Óttarr Proppé fékk svo orðið og fagnaði þessu tækifæri til að ræða við lækna. Hann sagðist vera í nokkuð sérkennilegri stöðu sem oddviti síns flokks og um leið ráðherra í þessu annasama embætti. En þetta hafi hann viljað og því fylgdi afar brött lærdómskúrfa sem hann væri enn staddur í. – Ég er að læra á landslag íslenska heilbrigðiskerfisins og erfi þar mörg verkefni. Sem stendur erum við að móta fjármálaáætlun til næstu 5 ára. Við njótum þess að efnahagur landsins er góður um þessar mundir en þurfum að varast að bæta ekki of miklu við þá þenslugleði sem ríkir, sagði hann.

Hann vitnaði í stjórnarsáttmálann þar sem fram kæmi skýr vilji um að hraða uppbyggingu nýs meðferðarkjarna Landspítala og taka heilbrigðismál út fyrir sviga við gerð fjárlaga. Þótt stjórn hans hafi ekki verið sest að völdum þegar fjárlög voru afgreidd sjái þessa þó stað þar sem almenn útgjöld hækka um 8% á milli ára en útgjöld til heilbrigðismála um 10%. En það væri af mörgu að taka og bygging spítalans bara eitt verkefni af mörgum sem þyrfti að sinna. Nefndi hann þar til öldrunarþjónustu, heimaþjónustu, heilsugæsluna og geðheilbrigðismál sem öll þyrftu á auknu fjármagni að halda.

Ráðherra sagðist vera hliðhollur spítalanum og vilja ýta undir uppbygginguna. En samhliða því þyrfti starfsemin að halda áfram um sinn í gömlu húsnæði og þar þyrfti að endurnýja og bæta tækjabúnaðinn. – Góðu fréttirnar eru þær að hér er stunduð öflug starfsemi í miklu húsnæði, þrátt fyrir að það leki sums staðar, sagði Óttarr.

Í lokin svaraði hann tilvitnun Reynis í skýrsluna Lykill að fullnýtingu tækifæra Landspítalans á þann hátt að hann og aðstoðarmennirnir hefðu ákveðið að hefja nýtt átak í ráðuneytinu sem þau kalla „Upp úr skúffunum“. Það felst í því að í stað þess að skipa fleiri starfs- og stefnumótunarhópa ætluðu þau að skoða þær mörgu skýrslur sem gerðar hafa verið undanfarin ár um vanda heilbrigðiskerfisins, leita að góðum hugmyndum en fleygja þeim vondu. Hvatti hann lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk til að hjálpa til við þetta starf, koma með ábendingar og ráð og vinna með ráðuneytinu við að þróa heilbrigðiskerfið í rétta átt.

                               

Margar fyrirspurnir

Að loknu ávarpi ráðherra var opnað fyrir umræður og þá kom fram að læknar vildu ræða ýmis mál við hann. Meðal þess fyrsta sem fram kom var spurningin hvort ekki væri hægt að flýta byggingu nýs spítala og búa sem fyrst til „mulningsvél fyrir biðlistana“ eins og Pálmi Jónsson orðaði það.

Ráðherra sagði að bygging spítalans væri langtímaverkefni sem hefði verið í undirbúningi í rúmlega 40 ár, eða frá árinu 1975. Núverandi áætlun kveður á um að byggingu meðferðarkjarna skuli lokið 2023 og ekki mætti draga í efa vilja ríkisstjórnarinnar til að flýta því verki eins og hægt væri. Þar væri hins vegar sá vandi á höndum að hér ríkti húsnæðisskortur, auk þess sem ferðamannastraumurinn kallaði á þvílíka uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli að vandséð væri að íslenskur byggingariðnaður réði við mikið annað á næstu árum.

Spurningarnar dundu á ráðherra sem var krafinn svara um hvernig hann vildi leysa mönnunarvanda spítalans, hvort hann ætlaði að breyta meðferð kærumála, hvort sveitarfélögin réðu nokkuð við öldrunarþjónustuna, hvort hann hefði kynnt sér mygluna á fæðingardeildinni og í aðalbyggingunni, hvort ekki þyrfti að efla rannsóknir á spítalanum og koma upp hugmyndabanka eða því sem á ensku nefnist Think Tank.

Jú, ráðherra vildi gjarnan koma upp hugmyndabanka, það væri eiginlega tilgangurinn með verkefninu „Upp úr skúffunum“. Þar vildi hann gjarnan eiga gott samstarf við lækna. Hann eyddi talsverðu púðri í að svara fyrirspurn Vilhelmínu Haraldsdóttur um hvernig hann hygðist bregðast við auknum lyfjakostnaði sem bitnar jafnt á spítalanum sem sjúklingum, ekki síst þeim sem takast á við krabbamein. Hann sagðist strax hafa fengið um það ábendingu að lyfjakaup spítalans væru vanfjármögnuð og lyfin alltaf að verða dýrari. Þetta væri sami hausverkurinn í öllum löndum og eitt af stóru verkefnunum sem þyrfti að taka á.

Loks kom fyrirspurn frá Ragnari Frey Ingvarssyni um fráflæðivanda spítalans og hvort ekki væri brýnt að byggja eins og eitt hjúkrunarheimili í snatri. Jú, það vantar fleiri en eitt, sagði Óttarr og bætti því við að um það eins og byggingu nýs spítala gilti það sem hann hefði áður sagt að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins lyki aldrei, það væri eilífðarverkefni. En nú var klukkutíminn sem fundinum var skammtaður á enda og lokaorð nýs heilbrigðisráðherra voru þessi:

– Þetta eru orðin, nú haldið þið mér við verkin. Takk fyrir mig! Svo kvaddi hann lækna í Hringsal og líka þá sem fylgdust með úr Blásölum. Þeir kvöddu hann á móti með dúndrandi lófaklappi.

 

SaveÞetta vefsvæði byggir á Eplica