04. tbl. 103. árg. 2017

Ritstjórnargrein

Doktorsnám við læknadeild Háskóla Íslands

Helga M. Ögmundsdóttir‚ prófessor við læknadeild formaður rannsóknarnámsnefndar læknadeildar

doi: 10.17992/lbl.2017.04.129

Fáeinum dögum eftir að læknadeild fagnaði 140 ára afmæli læknanáms á Íslandi fór fram 120. doktorsvörnin hjá deildinni eftir að komið var á skipulögðu doktorsnámi. Það var árið 1994 og fyrsta doktorsvörnin var strax árið 1995, sem felur í sér að þá þegar voru nokkrir að vinna að doktorsverkefnum og ritun doktorsritgerðar undir leiðsögn þótt ekki væri komin formleg umgjörð. Eins og sést á myndinni hefur verið jöfn stígandi í doktorsnámi og doktorsvörnum; fór frekar rólega af stað en um og eftir 2010 hafa innritanir verið 15-20 ári og doktorsvarnirnar um og yfir 10 á ári. Það er gaman og vert að geta þess að Helgi Valdimarsson var einn helst hvatamaður þess að farið væri af stað með doktorsnám við læknadeild og hafði leiðbeint fyrsta doktorsnemanum. Það var svo 12. og síðasti doktorsneminn hans sem varði ritgerð sína núna rétt fyrir jólin 2016. Innan Háskóla Íslands var læknadeild brautryðjandi í skipulögðu doktorsnámi.

Doktorar frá læknadeild skiptast í tvo nokkuð jafnstóra hópa, annan sem hefur klínískan bakgrunn, og af þeim eru 43 læknar, og í hinum hópnum er fólk úr greinum sem tengjast grunngreinum læknisfræðinnar, langflestir líffræðingar. Fyrsta doktorsvörn lífeindafræðings var í árslok 2016 en sú næsta verður á þessu ári. Úr þessari sögu má lesa að skipulagt doktorsnám hefur verið hvati til rannsókna og ýtt undir metnað til að fá vísindaþjálfun sem vottast með æðstu menntagráðu háskóla.

Hlutfall kvenna meðal háskólanema hefur farið sívaxandi undanfarna áratugi og er nú um það bil 2/3 í mörgum evrópskum háskólum. Þessi þróun kemur greinilega fram meðal doktorsnema læknadeildar. Af fyrstu 25 útskrifuðu doktorunum voru 7 konur, en á tímabilinu 1995-2010 í heild var kynjahlutfallið hnífjafnt. Af þeim 62 sem hafa varið doktorsritgerðir sínar frá og með árinu 2011 eru 37 konur (60%). Meðal þeirra sem nú eru innritaðir er meirihlutinn konur (64%). Það er umhugsunarefni hvers vegna karlar sækja í síminnkandi mæli í æðri menntun og vísindarannsóknir.

Það gefur augaleið að fjölbreyttur bakgrunnur doktorsnema endurspeglast í viðfangsefnunum sem spanna allt svið líf- og læknavísinda, frá grunnvísindum til klínískra rannsókna, faraldsfræði og lýðheilsu. Í drjúgum þriðjungi verkefna er nýttur efniviður og aðstæður sem á einhvern hátt eru sérstakar hér á landi og orðið „Ísland“ kemur fyrir í allnokkrum titlum. Þar koma við sögu Hjartavernd, Íslensk erfðagreining og Krabbameinsfélagið, eins og við var að búast, en einnig er vert að nefna sérstaklega íslenskar augnrannsóknir. Önnur verkefni hefði verið unnt að vinna við hvaða rannsóknarháskóla sem var en það segir þá jafnframt til um það að hér séu aðstæður sem standast alþjóðlegar kröfur.

Hvað hefur svo orðið af doktorum læknadeildar? Það er orðið vel þekkt og viðurkennt að nú er það af sem áður var að doktorsgráða leiði beint til akademísks ferils í vísindum, og er það nú sjaldgæft. Stór hluti þeirra sem ljúka doktorsprófi eru þó enn í einhvers konar akademísku starfi og læknarnir eru langflestir virkir í rannsóknum. Því má segja að markmiðinu með vísindalegri þjálfun hafi verið náð.

Við getum leyft okkur að vera stolt af því sem vel hefur verið gert. Vorið 2016 fékk doktorsnámið vottun frá ORPHEUS, sem eru Evrópusamtök um doktorsnám í heilbrigðisvísindum, að undangenginni úttekt og mati. Eins þykir okkur alltaf vænt um að heyra erlenda andmælendur fara lofsamlegum orðum um ritgerðir og framkvæmd doktorsvarna. En þegar vel gengur er einmitt ástæða til að huga að því hvar úrbóta gæti verið þörf. Með það í huga leitum við svara hjá doktorsnemunum með könnunum. Ein slík var gerð nú í febrúar. Almennt er útkoman góð hvað varðar til dæmis gæði leiðbeininga og aðstöðu. En svör við spurningu um samskipti vekur athygli. Þar kemur fram að 7 doktorsnemar hitta aldrei aðra doktorsnema. Þarna er eitthvað að. Fyrir 5 árum var komið á laggirnar Lífvísindasetri með þátttöku rannsóknarhópa í Læknagarði, á Keldum, við Háskólann í Reykjavík og víðar. Þar finnur fjöldi doktorsnema frjótt og skemmtilegt umhverfi til óformlegra og formlegra samskipta, með mörgum tímaritaklúbbum og málstofum. Á þessum vettvangi eru fyrst og fremst líffræðingar. En hvað um læknana? Margir þeirra sem innrituðust í doktorsnám á fyrri árum voru þegar komnir af stað með rannsóknarverkefni og jafnvel orðnir sérfræðingar. Nú byrja menn fyrr í doktorsnámi og sumir áður en þeir ljúka læknanámi. Eitt af verkefnum okkar nú er einmitt að skapa skilyrði við læknadeild til að byggja betur undir vísindalega þjálfun þessara nemenda. Og nú þarf að hvetja háskólasjúkrahúsið til að rísa undir nafni og efla akademískt umhverfi til að laða til sín verðandi sérfræðinga og upprennandi vísindamenn  og hlúa að þeim. Þetta er fólkið sem mun bera uppi læknanám og læknavísindi á komandi tímum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica