03. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Læknisprófið í Reykjavík árið 1863. Ólafur Jónsson

Í blaðinu Þjóðólfi þann 5. nóvember 1863 er frásögn af nokkuð óvenjulegum og fágætum atburði. Læknaneminn Þorvaldur Jónsson (1837-1916) þreytti lokapróf í læknisfræði. Það var lærifaðir hans, Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir, sem prófaði hann. Prófið var bæði skriflegt og munnlegt. Þess má geta að Þorvaldur hafði lesið læknisfræði við Hafnarháskóla árin 1857-1860 en síðan stundaði hann nám sitt hjá Jóni landlækni sem árið 1860 hafði fengið leyfi yfirvalda til þess að hefja hér kennslu læknisefna. Þorvaldur var fyrsti nemandi hans og jafnframt sá fyrsti sem hann prófaði. Fram til þessa hafði kennsla eða fræðsla í lækningum hérlendis verið ómarkviss og brotakennd allt frá því að fyrsti lærði læknirinn, Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir, annaðist kennslu nokkurra læknisefna.

                                                     
                                                               Nemandinn: Þorvaldur Jónsson læknir

                                                                                             

                                           

                                                                Kennarinn: Jón Hjaltalín landlæknir

 

 

Hefst nú frásögn blaðsins eftir Jón Hjaltalín, talsvert stytt:

Það er nú svo sem sjálfsagt, að þegar siðr sá, sem fallinn er niðr fyrir nærfelt 100 árum verðr tekinn upp aptr, þá verðr það að verða með nokkrum umbreytingum, og þann veg var það og með læknispróf það, er hér nú aptr eptir lánga dvöl var haldið í miðjum fyrra mánuði, er kandidatus medicinae og chirurgiae Þorvaldr Jónsson var prófaðr í læknisfræði samkvæmt konúngsúrskurði 29. Ágúst f.á. og bréfi lögreglustjórnarinnar af 28. Maí þ.á.

Sem prófdómendr við þetta læknispróf voru af stip[t]amtmanninum kvaddir þessir menn:  kanselliráð og fyrrum héraðslæknir herra G. Hjálmarsson; yfirkennari herra B. Gunnlögsen, apothekari franskr konsúll herra A. Randrup, kennari við hinn lærða skóla herra H. Guðmundsson. Hin skriflegu spursmál voru fjögr, og hafði kandídatinn til að svara hverju þeirra, hérumbil 5 tíma;  þau voru útvalin á examensstaðnum, en einn af kennurum lærða skólans var jafnan fenginn til að sitja yfir kandídatnum meðan hann svaraði þeim.

Hin skriflegu spursmál voru svo hljóðandi:

1. Í Anatomie og Líffræði (Physiologie):
Kandidatinn skýri ljóslega frá legu lúngnanna í mannlegum líkama; segi af hverju þau samanstandi, og til hvers þau þéni (deres physiologiske Function)?

2. Í dómsmála-læknisfræði (Medicina forensis):
Hver meiðsli eru það á mannlegum líkama, sem verða að álítast sem óumflýanlega drepandi (laesiones absolute letales) og hvernig geta minni meiðsli, vegna kringumstæðanna, orðið banvæn á ýmsan hátt?

3. Í handlæknisfræði (Chirurgie):
Kandídatinn skýri frá þeim mátum og meðölum, með hverjum menn stöðva allar ytri blóðrásir (alle ydre Forblödninger) bæði frá slagæðum og blóðæðum?

4. Í innvortis sjúkdómafræði (Therapie):

Hvað er vatnssýki (Ascites)? hvor eru hennar sérstöku kennimerki? hvernig getr hún lyktað (Prognosis)? og hvernig á hún að meðhöndlast?

Þessi 2 seinustu spursmál valdi herra Dr. Medicinae Krabbe, því hann var hér viðstaddr meðan lærdómsprófið fram fór. [Harald Krabbe (1831-1917), danskur læknir sem rannsakaði sullaveikina 1863].

Þegar kandídatinn var búinn að svara þeim skriflegu spursmálum, byrjaði hið munnlega lærdómspróf, sem stóð yfir í 3 daga. Fyrst var kandídatinn yfirheyrðr í grasafræði (Botanik) og varaði sú yfirheyrsla í 1 tíma; þá í efnafræði, sömuleiðis í heilan tíma; þá í anatomie 1 1/2 tíma; því næst í chirugie líka í 1 1/2 tíma; þá í yfirsetukvennafræði í 1 tíma; í innvortis sjúkdómafræði og almennri heilbrigðisfræði í hverju um sig í 1 1/2 tíma, og loksins var hann í 1 tíma látinn yfirheyra sjúkling, skýra frá sjúkdómi hans og segja hvern veg hann skyldi meðhöndla. Hið munnlega próf fram fór á alþíngissalnum í heyranda hljóði, og í viðrvist prófdómendanna, en að afloknu prófi komu prófdómendrnir saman og ákváðu einkunnirnar í hverri lærdómsgrein út af fyrir sig, því öll spursmálin og andsvör kandídatsins höfðu samstundis verið uppskrifuð í sérskilinn „Examens-protocol“ löggiltan af stiptamtmanninum. Einkunnirnar féllu þannig, fyrir öll skriflegu spursmálin fékk kandídatinn einkunnina dável eða laudabilis; í grasafræði og yfirsetukvennafræði ágætlega (prae ceteris) í efnafræði, chirurgie og heilbrigðisfræði dável; en í meðalafræði og sjúkrayfirheyrslu vel til dável. Þannig fékk kandídatinn 1. aðaleinkunn eða laudabilis með 87. tröppum.

Eptir afstaðið embættispróf, var kandídatinn í votta viðurvist látinn vinna hið lögboðna heiti um það, að hann af alefli skyldi jafnan verja kunnáttu sinni meðbræðrum sínum til hjálpar, og framvegis láta sér vera ant um, að auka þekkingu sína í öllum greinum læknisfræðinnar samkvæmt framförum vísinda þeirra, er hún er á bygð.

Jón Hjaltalín, Dr.

Í lok frásagnar sinnar hrósar Jón Þorvaldi mjög og segir hann hafa stundað námið með hinni mestu iðni, hafa opnað 12 lík undir forsjá sinni og æft sig vel að þekkja sjúkleika með hlustpípunni (stethoscopie). Hann væri vel að sér í sullaveikinni og grasafræðinni og hefði séð fjölda sjúklinga í landfarsóttum. Strax að loknu prófi varð Þorvaldur Jónsson héraðslæknir í Norðurhéraði vesturamtsins (Barðastrandarsýslu, Ísafjarðarsýslum og Strandasýslu) og sat á Ísafirði. Ekki er vitað annað en hann hafi verið farsæll í störfum sínum í þessu víðlenda og erfiða héraði.  

Jón Hjaltalín var merkur maður. Hann hafði menntað sig vel og stundað fjölbreytt læknisstörf erlendis þegar hann varð landlæknir árið 1855. Hann hélt uppi læknakennslu 1860-1876. Var skipaður fyrsti forstöðumaður Læknaskólans við stofnun hans 1876. Alþingismaður. Ritaði heilmikið um læknisfræðileg efni og heilbrigðismál. Hann var heiðraður á margan hátt.

Þegar Þorvaldur var prófaður voru íbúar Reykjavíkur aðeins um 1500 talsins þannig að telja má að þetta hafi vakið nokkra athygli í bæjarlífinu. Þjóðólfur var um tíma eina blaðið sem gefið var út á Íslandi en það kom út á árunum 1848-1912. Kom fyrst út hálfsmánaðarlega en síðar vikulega.  

Þess má geta að örfáir læknar voru starfandi hverju sinni á landinu fram um 1870. Þannig voru einungis 6 læknar hér árið 1800, 40 árum eftir stofnun landlæknisembættisins 1760. Árið 1850 voru hér 8 læknisumdæmi. Hlutskipti hinna fyrri lækna var bágborið: Umkomuleysi, takmörkuð þekking miðað við það sem síðar varð, ekkert sjúkrahús, engir möguleikar á nákvæmri sjúkdómsgreiningu, engin lyf með markvissa verkun, fátækt, léleg og köld húsakynni. Læknisumdæmi voru víðáttumikil, allar ár óbrúaðar, engir vegir.

Þessara lækna ætti að minnast með umburðarlyndi og virðingu.

Save



Þetta vefsvæði byggir á Eplica