03. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Hvers vegna játa menn á sig afbrot sem þeir frömdu ekki?
Jón Friðrik Sigurðsson hefur, ásamt samstarfsfólki sínu, rannsakað falskar játningar í aldarfjórðung
Falskar játningar hafa oft verið til umræðu að undanförnu eftir úrskurðinn um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Í því máli liggur fyrir mat sérfræðinga á því að framburður sakborninganna hafi verið óáreiðanlegur vegna ýmisskonar harðræðis sem þeir voru beittir í gæsluvarðhaldinu og sem beinlínis olli því að nokkrir sakborninganna hættu að treysta á eigið minni og játuðu á sig afbrot sem þeir höfðu áður ekki viljað gangast við. En falskar játningar koma mun víðar við sögu í íslensku samfélagi eins og fram kom í erindi Jóns Friðriks Sigurðssonar réttarsálfræðings á Læknadögum í janúar.
Erindi Jóns Friðriks fjallaði um þær rannsóknir sem gerðar hafa verið meðal íslenskra fanga og ungmenna, en þær eru reyndar fleiri en gengur og gerist í öðrum löndum. Þar hefur Jón Friðrik verið að verki ásamt kollega sínum Gísla Guðjónssyni og fleira samstarfsfólki, en rannsóknir þeirra hafa staðið yfir í rúman aldarfjórðung og meðal annars náð til tæplega 600 íslenskra fanga.
Áttundi hver fangi …
Samstarf þeirra hófst þegar Gísli var leiðbeinandi Jóns Friðriks í doktorsverkefni hans við King‘s College í London. Þá hafði sá síðarnefndi starfað um nokkurra ára skeið hjá Fangelsismálastofnun og fengið leyfi til að gera viðamikla könnun á lífi og högum íslenskra fanga. – Sú rannsókn hófst árið 1990 og náði til um 500 fanga. Þátttaka var mikil því 96% fanganna féllust á að taka þátt. Þeir þekktu mig því ég var sennilega eini starfsmaður stofnunarinnar á þeim tíma sem hitti alla fanga sem komu til afplánunar. Rannsóknin byggðist á löngum spurningalista þar sem spurt var um fjölmargt í lífi fanganna. Meðal spurninganna var ein sem snerist um falskar játningar og ef þátttakendur könnuðust við þær spurði ég meira út í þær í viðtölum, segir Jón Friðrik.
Meginniðurstaða rannsóknarinnar var sú að af 509 föngum kváðust 62, eða 12%, hafa gert falskar játningar, játað á sig afbrot sem þeir höfðu ekki framið. – Afbrotin voru margskonar, allt frá smáþjófnaði upp í morð, segir Jón Friðrik og rifjar upp sögu af ungum manni sem tók upp á því að játa á sig morð.
– Hann var í partíi á höttunum eftir ungri konu þegar lögreglar mætti á staðinn og handtók hann fyrir eitthvern smáglæp. Við þetta reiddist hann lögreglunni og til þess að hefna sín lét hann kalla á lögreglumann sem hann kannaðist við og sagðist luma á upplýsingum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Lögreglumaðurinn hlustaði á hann en aðhafðist ekkert því hann þekkti málið nógu vel til þess að heyra að ungi maðurinn fór með eintómt fleipur. Þá reiddist fanginn enn meir og lét kalla til sín annan lögreglumann. Þegar hann kom spurði fanginn hvort hann muni ekki eftir öldruðum manni sem fannst látinn í Vesturbænum. Jú, lögreglumaðurinn man eftir honum og þá segist fanginn hafa myrt hann. Hann var settur í gæsluvarðhald meðan þetta var kannað en fljótlega kom í ljós að hann vissi ekkert um þetta mál.
… eða kannski fjórði hver?
Þetta var á tíunda áratug síðustu aldar en á árunum 2005-2008 gerði Jón Friðrik aðra rannsókn ásamt Önnu Kristínu Newton, Emil Einarssyni, Ólafi Bragasyni og Gísla Guðjónssyni, þar sem rætt var við 90 íslenska fanga. Þá kom í ljós að af þeim hafði tæpur fjórðungur, 24%, játað á sig afbrot sem þeir höfðu ekki framið. – Í millitíðinni hafði samsetning fangahópsins breyst verulega, ekki síst með tilkomu samfélagsþjónustu. Í fyrri rannsókninni var stór hluti fanganna að afplána refsingu fyrir umferðarlagabrot eins og ölvunarakstur og fleira, en þeir hafa á seinni árum fengið að gegna samfélagsþjónustu í stað þess að fara í fangelsi. Fangarnir í seinni könnuninni voru því flestir síbrotamenn eða aðrir með dóma fyrir alvarlegri brot, sagði Jón Friðrik.
En hvað rekur menn til þess að gera falskar játningar? Fyrir því eru í raun fjölbreyttar ástæður. – Um það bil helmingur er að hylma yfir með öðrum, taka á sig sakir annarra, segir Jón Friðrik. – Það eru ekki síst ungir afbrotamenn sem taka sakir eldri félaga sinna á sig. Með því vinna þeir sér traust í hópnum. Ég man eftir einum sem hitti eldri félaga sem bað hann að koma með sér í innbrot í fyrirtæki þar sem hann vissi að voru tölvur. Sá ungi var eitthvað vant við látinn svo sá eldri fór einn. Morguninn eftir hringir hann í þann yngri og segist hafa skilið eftir sig fótspor í snjónum sem hægt væri að rekja til hans. Hvort sá ungi væri ekki til í að fara niður á stöð og taka á sig glæpinn? Jú, hann gerði það og málið endaði fyrir dómara. Við yfirheyrslur var ungi maðurinn spurður hvað hann hefði gert við fenginn og hann fór að skálda, sagði tölvuna hafa verið svo þunga að hann hefði skilið hana eftir einhvers staðar. – Jæja já, sagði dómarinn, en þetta var bara lítil reiknivél. Þá fóru viðstaddir að hlægja, unga manninum var sleppt og ég held að málinu hafi verið vísað frá.
Ekki sleppa þó allir svo vel því að sögn Jóns Friðriks er um þriðjungi þeirra sem gefa falskar játningar refsað fyrir brotin.
Óttinn við gæsluvarðhald
Þeir sem ekki eru að hylma yfir með öðrum skiptast í tvo hópa. – Annars vegar eru þeir sem játa vegna þrýstings við yfirheyrslur hjá lögreglu. Þá er ég ekki að meina að þeir séu beittir ofbeldi heldur eru þeir bornir sökum og eru það illa á sig komnir að þeir játa hvað sem er.
Hins vegar eru þeir sem óttast að þeir verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Það var þó miklu algengara í fyrri rannsókninni því á þeim tíma voru reglur um gæsluvarðhald miklu meira á valdi lögreglu en nú er. Þeir sem lentu í gæsluvarðhaldi eða var hótað því vissu ekki hvort það stæði í dagpart eða í lengri tíma og það fannst þeim mjög ógnvekjandi. Lögreglan gat hneppt menn í svonefnda síbrotagæslu og þá gátu menn þurft að dúsa lengi í Síðumúlanum. Nú hefur þetta breyst, komið skýrara regluverk í kringum gæsluvarðhaldið. Það verður að bera úrskurð um varðhald undir dómara, það er tímabundið og reynt hefur verið að stytta varðhaldið, segir Jón Friðrik.
Hann bætir því við að þeir hópar sem helst rata í fréttir eða jafnvel bíómyndir séu mjög fámennir hér á landi þó þeir eigi sína fulltrúa hér. – Þar á ég við fólk sem kemur ótilkvatt og tekur á sig sök í einhverju máli sem hefur verið á síðum blaðanna. Í þeim tilvikum er ástæðan yfirleitt annaðhvort geðtruflanir eða athyglisþörf.
Engar afsakanir
Hann vísar því á bug að í fangelsum séu allir fangar saklausir að eigin sögn. – Þeir eru yfirleitt ekki að afsaka sig neitt. Þeir sem hafa gefið falskar játningar eiga það langflestir sameiginlegt að hafa verið í félagsskap síbrotamanna frá ungum aldri.
Eins og hér hefur komið fram notar Jón Friðrik oftar en ekki orðin „drengur“ eða „ungur maður“ um þá sem hann rannsakaði. Hvað um konurnar? Jú, þær komu við sögu en voru mjög fáar, 8% í fyrri rannsókninni. Þær voru að einu leyti frábrugðnar drengjunum því þær voru oftar en ekki að hylma yfir og taka á sig sök sambýlismanna, ekki síst ef þeir voru á skilorði.
Jón Friðrik og samstarfsfólk hans hefur gert fleiri rannsóknir þar sem meðal annars er borinn saman bakgrunnur þeirra sem segjast hafa gefið falskar játningar við lögregluyfirheyrslu og annarra ungmenna sem ekki segjast hafa gert slíkt. Hann vísar líka til erlendra rannsókna þar sem reynt hefur verið að greina einkenni á fyrrnefnda hópnum. Niðurstöður fjölmargra rannsókna hafa sýnt að eftirfarandi áhrifaþættir eru líklegir til þess að ýta undir falskar játningar:
- Þeir eiga sér gjarnan sögu um langa afbrota- eða andfélagslega hegðun.
- Þeir eru undanlátssamir og leiðitamir.
- Þeir glíma við geðræna erfiðleika (kvíða og þunglyndi).
- Sjálfsmynd þeirra er léleg.
- Vímuefnaneysla er algeng.
- Geðraskanir og námserfiðleikar
eru algengir. - Ofvirkni og athyglisbrestur.
Eins og á fleiri sviðum er þörf á frekari rannsóknum á stöðu fanga og þeirra sem gefa falskar játningar. Með aukinni þekkingu er hægt að efla og bæta menntun þeirra sem starfa í réttarkerfinu – lögreglumanna, saksóknara og dómara. Ef til vill þarf að semja verklagsreglur um yfirheyrslur fyrir lögreglu og dómstóla um hvernig er tekið á einstaklingum sem eiga við geðræn vandamál að stríða, eru viðkvæmir fyrir streitu eða eiga sögu um ofvirkni/athyglisbrest. Þá má nota niðurstöður þessara rannsókna til að aðstoða þá sem eru í áhættu að gefa falskar játningar.
Það hlýtur að teljast mikilvægt að koma í veg fyrir að menn séu dæmdir á grundvelli falskra játninga en þær eru að sjálfsögðu afdrifaríkar fyrir viðkomandi sakborninga og fjölskyldur þeirra og raunar allt samfélagið. Þegar rangur maður er dæmdur þýðir það að sá seki gengur laus.