02. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

In memoriam - Tómas Árni Jónasson

5. október 1923 – 5. nóvember 2016

Foreldrar Tómasar voru Jónas Tómasson, bóksali, organisti og tónskáld á Ísafirði (1881-1967) og Anna Ingvarsdóttir húsfreyja (1900-1943). Tómas fæddist og ólst upp á Ísafirði og var elstur þriggja bræðra, en hinir voru Ingvar víóluleikari og hljómsveitarstjóri (1927-2014) og Gunnlaugur Friðrik bóksali (1930).

                                                                                                       

Tómas kvæntist 14. júlí 1946 Önnu Jóhannesdóttur f. á Seyðisfirði 30. október 1924. Börn þeirra eru 1) Jónas tónskáld, f. 21. nóvember 1946, maki Sigríður Ragnarsdóttir tónlistarskólastjóri, f. 31. október 1949. Börn þeirra a) Ragnar Torfi, maki Tinna Þorsteinsdóttir og eiga þau tvö börn, b) Herdís Anna, c) Tómas Árni. 2) Jóhannes upplýsingafulltrúi, f. 28. febrúar 1952, maki Málfríður Finnbogadóttir verkefnastjóri, f. 21. janúar 1954. Börn þeirra a) Helgi, sambýliskona Hildur Bjarnadóttir, barn þeirra Elsa María, og fyrir átti Helgi Jóhannes, b) Anna, maki Ragnar Björn Ragnarsson (þau skildu), börn þeirra Sara Björk og Einar Björn, c) Þórdís, maki Brynjar Valþórsson, sonur þeirra Valþór Hrafnkell, fyrir átti Þórdís Ísar Ágúst og Salvöru Móeiði, 3) Haukur tónskáld, f. 9. janúar 1960, maki Ragnheiður Elísdóttir læknir, f. 22. nóvember 1966. Börn þeirra a) Hulda Kristín, b) Anna Soffía. 4) Guðrún Anna píanókennari, f. 20. mars 1962, maki Leon van Mil tónlistarkennari, f. 5. júlí 1960.

Tómas Árni varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1943 og lauk kandídatsprófi frá læknadeild HÍ 1951 og hlaut sérfræðileyfi í lyflækningum, sérstaklega meltingarsjúkdómum 1957. Að loknu kandídatsári og starfi sem héraðslæknir í Súðavíkurlæknishéraði 1953 hélt hann til sérfræðináms í Bandaríkjunum. Var hann fyrsta árið aðstoðarlæknir á lyflækningadeild Duke University Hospital í Durham í Norður-Karólínu og síðan á lyflækninga- og meltingarfræðadeild Henry Ford Hospital í Detroit í Michigan árin 1954-1957. Var sérfræðingur á Landakotsspítala 1957 til 1993 og heimilislæknir í Reykjavík 1957 til 1962. Einnig stundaði hann sérfræðistörf á eigin stofu til 1996. Hann var prófdómari í lyflæknisfræði við embættispróf við læknadeild HÍ 1966-1974 og lektor og síðar dósent í meltingarfræðum árin 1973 til 1989. Árið 1962 hóf hann að kynna sér nýjungar í meltingarlæknisfræðum með námsdvöl í Kaupmannahöfn, Gautaborg, á Englandi og síðar Erlangen í Þýskalandi og var meðal fyrstu lækna hér á landi til að rannsaka og greina meltingarsjúkdóma með myndatökum í meltingarvegi.

Tómas Árni var virkur í félags- og trúnaðarstörfum á sviði heilbrigðismála, var formaður Læknafélagsins Eirar, gjaldkeri og formaður Læknafélags Reykjavíkur, Félags íslenskra lyflækna, Félags meltingarfræðinga. Þá sat hann í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur 1973-1988, var formaður 1978-1988 og var varaformaður Krabbameinsfélags Íslands 1980-1988. Hann var félagi í alþjóðafélagi meltingarsérfræðinga, Bockus International Society of Gastroenterology frá 1972 og sat í stjórn þess árin 1980-1984. Einnig sinnti hann ýmsum nefndarstörfum fyrir Landakotsspítala, læknasamtökin, læknadeild HÍ og heilbrigðisráðuneytið. Þá skrifaði hann greinar varðandi sérgrein sína í innlend og erlend tímarit. Tómas Árni sat í heiðursráði Krabbameinsfélags Íslands frá 1990, var kjörinn heiðursfélagi Krabbameinsfélags Reykjavíkur 1994. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1990. Hann var formaður fræðslunefndar Landakotsspítala 1968-1970, fræðslu- og námskeiðsnefndar Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur og hann var formaður Læknafélags Íslands árin 1974-1978. Hann vann ásamt vini sínum Povl Riis og fleiri dönskum læknum að uppbyggingu framhaldsmenntunar íslenzkra lækna og endurreisn útgáfustarfsemi læknafélaganna og verður gerð grein fyrir því síðar, í tengslum við aldarafmæli Dansk-Islandsk Samfund. Sjötugur að aldri var Tómas Árni kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Íslands.

Önnu, börnum og barnabörnum þeirra Tómasar Árna, sendi ég samúðarkveðjur okkar Áslaugar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica