10. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Norrænar læknablaðaritstjórnir þinguðu í Reykjavík

Það er orðin alllöng hefð fyrir því að ritstjórnir og starfsfólk norrænu læknablaðanna haldi með sér árlega fundi. Þetta árið var röðin komin að Læknablaðinu að gegna starfi gestgjafa og í byrjun september komu hingað um tveir tugir gesta frá norrænu systurblöðunum fjórum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku til skrafs og ráðagerða.


Hér eru samankomnir fulltrúar 5 norrænna læknablaða: Läkartidningen, Ugeskrift for læger,
Tidsskrift for Den norske legeforening, Læknablaðsins og Lääkärilehti. Einmuna blíða og gróður-
húsaáhrif léku við fundargesti á bryggjusporðinum á Ægisgarði í Reykjavíkurhöfn.
Myndir: Sigdís Þóra Sigþórsdóttir.

Fundurinn var að þessu sinni haldinn á Hótel Marina í gamla slippnum við Reykjavíkurhöfn og tókst afar vel. Gestirnir komu að kvöldi fimmtudagsins 1. september, daginn eftir var fundardagurinn en svo fór hluti gestanna í skoðunarferð um Suðurland um helgina.

Fundir þessir eru oftast með því sniði að fyrir hádegi gefa löndin skýrslu um starfsemina á árinu og svo er rætt um rekstrarhorfur blaðanna, stöðuna á auglýsingamarkaði, nýjungar í útgáfunni, ekki síst netútgáfu blaðanna, og síðast en ekki síst samskipti ritstjórnanna við eigendur og útgefendur blaðanna, samtök lækna á Norðurlöndunum. Eftir hádegi er svo efnt til málþings þar sem gestgjafarnir leggja til frummælendur um það sem þeir telja mikilvægt að miðla til gesta sinna.


Góð fundaaðstaða í Slippbíóinu á hótel Marina og einbeitingin ósvikin.

Völd og heilbrigði

Læknablaðið bauð að þessu sinni upp á tvö erindi. Í því fyrra fjallaði Birgir Jakobsson landlæknir um stöðuna í íslensku heilbrigðiskerfi og bar það saman við það sænska sem hann hefur kynnst vel í störfum sínum í Svíþjóð, síðast sem forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Kjarni þess erindis var byggður á skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Mc-Kinsey gerði fyrir velferðarráðuneytið.

Hitt erindið vakti ekki síður eftirtekt gesta jafnt sem heimamanna. Það flutti Torfi Magnússon taugalæknir og var það að verulegu leyti samhljóða ritstjórnargrein sem hann skrifaði fyrir Læknablaðið í vor og birtist í 5. tölublaði þessa árs. Í þeirri grein fjallar Torfi um völd og valdafíkn.

Ekki verður farið í saumana á erindi Torfa hér en það fór ekki milli mála að það snart ýmsa kunnuglega strengi í hugum áheyrenda, í það minnsta þeirra sem eitthvað hafa fylgst með gangi mála í íslenskum stjórnmálum undanfarnar vikur og mánuði. Torfi tók dæmi af tveimur mönnum sem ótvírætt hafa orðið fyrir því að skapferli þeirra og framferði allt breyttist við það að þeir komust til valda. Þessir menn voru Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og Jónas Jónsson frá Hriflu sem meðal annars átti í útistöðum við íslenska geðlækna meðan hann gegndi embætti dómsmálaráðherra árið 1930. Þær hugsanir sem kviknuðu í huga undirritaðs voru þó um öllu nýrri atburði í íslenskum stjórnmálum sem sumir hverjir eru tæpast til lykta leiddir þegar þetta er ritað.

En hvað sem því líður þá var gerður góður rómur að málflutningi gestanna og raunar fundinum öllum og fóru hinir norrænu gestir brosandi heim úr síðsumarblíðunni, ögn fróðari um íslenska pólitík og heilbrigðismál.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica