10. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Heilbrigðismál á kosningahausti

Stjórnmálaflokkarnir svöruðu spurningum Læknablaðsins sem spruttu af McKinsey-skýrslunni

Þessi mynd úr nýútkominni úttekt alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins McKinsey á starfsemi Landspítalans sýnir hver þróunin hefur verið í fjárveitingum til heilbrigðismála allt frá 1971, mældar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (mynd 1, bls. 6). Hér sést að rétt fyrir aldamót kemst Ísland upp í efsta fjórðung aðildarríkja OECD en árið 2003 fer þetta hlutfall ört lækkandi fram að hruni. Síðan hefur Ísland verið í næstneðsta fjórðungi.

Í ljósi þess að boðað hefur verið til Alþingiskosninga í lok október ákvað Læknablaðið að leggja eftirfarandi spurningar fyrir þau stjórnmálaöfl sem hyggjast bjóða fram við kosningarnar og hafa fengið nægt fylgi í skoðanakönnunum til þess að koma að mönnum.


1. Á Íslandi er varið lægra hlutfalli þjóðartekna til heilbrigðismála en á Norðurlöndum, að Finnlandi undanskildu, þrátt fyrir dreifða byggð og óhagkvæmni stærðarinnar. Hlutfallið hefur lækkað frá árinu 2003 og er lægra nú en um aldamótin. Telur þitt framboð rétt að miða við að næstu árin verði hlutfallið óbreytt eða að það þurfi að hækka? Við hvaða hlutfall er rétt að miða?

2. Húsakostur Landspítalans er úr sér genginn og stenst ekki gæðakröfur, hvorki fyrir sjúklinga né starfsfólk. Ekki hefur verið staðið við áform um uppbyggingu spítalans. Nú nálgast nýting sjúkrarúma 100%, álag fer stöðugt vaxandi vegna aukinnar aðsóknar og kallar á tafarlausar aðgerðir. Vill þinn flokkur bregðast við þessu bráðavandamáli og þá hvernig og hvenær?

3. Mönnun sérfræðilækna á sjúkrahúsum landsins er ófullnægjandi, þrátt fyrir nýlega kjarasamninga. Umtalsverðum hluta heilbrigðisþjónustu landsmanna er sinnt af nemum sem ekki hafa lokið grunnþjálfun og lélegar vinnuaðstæður freista ekki lækna með sérmenntun. Þetta hefur bein áhrif á gæði þjónustu og öryggi sjúklinga. Hvernig telur þinn flokkur eðlilegt að bregðast við þessu?

 

Björt framtíð

1. Útgjöld til heilbrigðismála þurfa að miðast við þarfir þjóðarinnar hverju sinni sem þarf að byggja á faglegu mati á hverjum tíma. Sannarlega þarf að auka fé til heilbrigðismála til tryggja réttlæti og öryggi heilbrigðisþjónustu. Tryggja þarf nægt fé til heilbrigðisþjónustu hverju sinni og besti mælikvarðinn þar er ekki endilega hlutfall þjóðartekna enda geta þjóðartekjur lækkað en þarfir einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu minnka ekki þar með.

2.
Mikilvægt er að gera áætlun um mönnun, húsakost, tækjabúnað og starfsumhverfi Landspítalans til langs tíma. Áætlanir um fullnægjandi mönnun sem tryggir gæði þjónustu og öryggi sjúklinga eru jafnmikilvægar og áætlanir um bættan húsakost. Tækjabúnað þarf að tryggja og einnig þarf að bæta verulega starfsumhverfi spítalans þar með talið þverfaglegt samstarf faghópa þar sem nýting mannafla endurspeglar menntun og þjálfun hvers faghóps. Sömuleiðis þarf að bæta samskipti og stjórnun með áherslu á vellíðan starfsfólks og tækifæri til að þróast í starfi. Allur aðbúnaður starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda þarf að auka tækifæri einstaklinganna til að líða vel á spítalanum, andlega, félagslega og líkamlega.

3.
Grípa þarf til aðgerða sem allra fyrsta og gera langtíma-áætlun um leiðir til að laða til starfa hér á landi vel menntaða og hæfa lækna. Hér þarf að nýta þekkingu og innsýn sem flestra þar með talið ungir læknar, læknar sem búa og starfa erlendis, læknar sem hafa langa reynslu af starfi hér og síðast en ekki síst þarf að nýta þekkingu einstaklinga með sérþekkingu á starfsumhverfi og líðan starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni. Taka þarf mið af viðhorfum þessara einstaklinga til starfsumhverfis lækna með áherslu á mannasæmandi aðstæður í vinnu þar sem virðing er borin fyrir þekkingu og reynslu einstaklinganna og þeirri sjálfsögðu kröfu að mögulegt sé að njóta fjölskyldulífs og góðra lífsgæða samhliða starfi í heilbrigðisþjónustu.  Með því að flétta saman þekkingu og viðhorf allra þessara aðila má búa til áætlun sem tryggir að læknar líti á það sem aðlaðandi kost að búa og starfa hér á landi.

 

Framsóknarflokkur

1.
Framsóknarflokkurinn vill nýta það svigrúm sem skapast hefur í ríkisfjármálum, m.a. til uppbyggingar í heilbrigðismálum en til að nýta fjármuni sem best þarf skýra stefnumótun í heilbrigðismálum. Því þarf að vinna Heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þar þarf að greina hvaða heilbrigðisþjónustu eigi að veita víða um landið. Meta þarf þjónustuþörf út frá íbúaþróun, aldurssamsetningu íbúa, samgöngum og fjarlægðum. Út frá þeirri þjónustuþörf sjáum við hvaða fjármuni þurfi í málaflokkinn.

2. Framsóknarmenn vilja að nýr Landspítali verði tilbúinn sem fyrst. Spítali þar sem allar deildir fá rými í nýrri byggingu. Byggingu þar sem það verður góð aðstaða, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Stór hluti framsóknarmanna vill að nýr Landspítali rísi annars staðar en við Hringbraut og telja að sú uppbygging muni taka styttri tíma og valda minni óþægindum fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk spítalans. Mæta má bráðavanda Landspítala með að nýta auðar deildir á þeim heilbrigðisstofnunum sem eru í nágrenni Reykjavíkur.

3. Koma þarf fram með skýra og tímasetta áætlun um uppbyggingu á nýjum Landspítala. Með bættri vinnuaðstöðu og betra vinnuumhverfi eigum við meiri möguleika á að fá sérfræðilækna inn á spítalann. Auk þessa þarf að vinna að ívilnandi byggðaáætlun fyrir Ísland og sú vinna er hafin. Þar er m.a. unnið að því að hægt sé að nýta námslánakerfið á þann hátt að m.a. heilbrigðisstarfsfólk sem ræður sig til starfa á heilbrigðissstofnanir á landsbyggðinni, fái afslátt af námslánum. Það væri hvati og þetta kerfi hefur gefist vel í nágrannalöndum okkar.

 

Píratar

1. Endurreist og gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta er stefna Pírata í heilbrigðismálum. Eftir samtal við landlækni, forstjóra Landspítalans og aðra fagaðila er ljóst að það kostar meira að tryggja sama öryggi og gæði heilbrigðisþjóðnustu á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir að við erum yngri þjóð, af því við erum fámennari þjóð. Við náum ekki sömu stærðarhagkvæmni. Meðaltalið á Norðurlöndum er 10% af landsframleiðslu og hærra hjá Bretum og Frökkum. Til að gera jafnvel þurfum við að forgangsraða hærra hlutfalli. Stærsta undirskriftasöfnun Íslands kallar eftir 11% í heilbrigðismál til að endurreisa heilbrigðiskerfið. Það er góð byrjun til að miða við. Lykilatriðið í fjárveitingum til heilbrigðismála í dag er að setja frekar of mikið en of lítið.

2. Píratar vilja endurreisa heilbrigðisþjónustuna án tafar. Forgangsröðun fjámagns í endurreisnina um land allt er lykilatriði ásamt uppbygging Landspítalans án tafar. Í þrjú ár hafa kannanir Gallups fyrir þingflokk Pírata sýnt að 90% landsmanna vilja forgangsraða í heilbrigðismál á fjárlögum, óháð aldri eða efnahag, búsetu eða flokki. Fjárlög fyrir síðasta ár voru hallalaus upp á 3,4 milljarða þó forsvarsmenn allra heilbrigðisstofnanna á Íslandi segðu 3 milljarða vanta til að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Lykilatriðið í fjárveitingum til heilbrigðismála í dag er að setja frekar of mikið en of lítið. Samhliða því þarf að hlusta á landlækni og innleiða ferla svo fjármagnið nýtist sem best. Lykilatriðið er að heilbrigðiskerfið í dag er sjúklingur sem þarf meira blóð strax, meira fjármagn strax, samhliða vinnum við í því að það nýtist sjúklinginum sem best til að ná fullum bata.

3. Landlæknir segir lykilatriði að fjölga stöðugildum sérfræðinga um 70 til 100. Samhliða væri hægt að skilyrða að hluta launanna sæki þeir með því að veita heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Forstjóri Landspítalans segir mönnun forgangsatriði. Lykilatriði til að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa og halda í það eru bætt starfsskilyrði. Betri aðbúnaður til að sinna sjúklingum. Minna vaktaálag til að eiga líf utan vinnu. Og hærri laun. Með fyrsta læknaverkfalli í sögu Íslands fengu læknar viðunandi hækkun. Aðrar heilbrigðisstéttir sitja enn eftir. Þetta fæst allt með því að forgangsraða á fjárlögum í endurreisn heilbrigðiskerfisins eins og landsmenn vilja.

 

Samfylking

1. Við í Samfylkingunni ætlum að efla opinbera hluta heilbrigðiskerfisins. Við erum sammála þeim rúmlega 86.000 manns sem undirrituðu áskorun til stjórnvalda um að 11% af landframleiðslu verði varið til heilbrigðismála.

Það verður að reisa nýjan Landspítala strax og heilsugæslan verður að fá peninga til að sinna verkefnum sínum. Heilsugæslan á að taka  á móti öllum sem kenna sér meins og við ætlum henni veigamikið hlutverk í að stórefla sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu. Við ætlum að stytta biðlista þannig að enginn þurfi að bíða lengur en þrjá mánuði eftir viðeigandi aðgerð eða þjónustu. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og þar eru fyrstu skrefin að lækka kostnað þeirra sem eru alvarlega veikir og langveikir og gera geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu aðgengilega fyrir alla. Við ætlum ekki að rukka fólk þegar það stendur veikast fyrir og þarf helst á stuðningi að halda.

2. Þetta er okkar hjartans mál. Við í Samfylkingjuna viljum hraða uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Nýju byggingarnar eru nauðsynlegar fyrir nútíma sjúkrahús og þegar starfsemin flyst í þær mun öryggi sjúklinga aukast, aðstæður starfsfólks batna með byltingarkenndum hætti og vísindastarfið eflast. Við ætlum að byggja hjúkrunarheimili til að bæta þjónustu við elstu borgarana og til að auðvelda útskrift sjúklinga af Landspítala.

3. Við viljum efla sérfræðilæknaþjónustu í hinu opinbera heilbrigðiskerfi og skapa heilbrigðisstarfsfólki starfsaðstæður sem standast samanburð við Norðurlöndin. Við viljum líka að sérfræðilæknar verði í fullu starfi á sjúkrahúsunum því það er hagkvæmara og bætir heilbrigðisþjónustuna og öryggi sjúklinga. Landspítalinn er sjúkrahús allrar þjóðarinnar. Þar er flóknasta þjónustan veitt öllum landsmönnum en sérfræðingarnir þar eiga líka að liðsinna heilbrigðisstofnunum um land allt því stundum er betra að þjónustan sé í boði þar sem fólkið býr. Öflugir ríkisreknir spítalar eru lykillinn að besta heilbrigðiskerfi í heimi.


Sjálfstæðisflokkur

1. Hlutfall af þjóðartekjum er tæplega besti mælikvarðinn á hver heilbrigðisútgjöld þurfi að vera. Þörf fólks á heilbrigðisþjónustu minnkar ekki í efnahagsáföllum, ekki frekar en hún eykst í góðæri. Sjálfstæðisflokkurinn jók heilbrigðisútgjöld um 16% á kjörtímabilinu, 38 milljarða króna, sem er gríðarleg breyting frá fyrra kjörtímabili og þannig hófumst við handa við endurreisn heilbrigðiskerfisins. — Á þessu kjörtímabili komum við ríkisfjármálunum í það lag að innistæða væri til frekari uppbyggingar á hinu næsta. Það tókst og þess vegna er uppbygging heilbrigðiskerfisins höfuðatriði kosningabaráttu okkar nú.

2. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt kapp á framkvæmdaáætlun um uppbyggingu Landspítalans og jafnframt tryggt fjármögnun hans. Á þessum tíma er viðbúið að talsvert álag verði á einstakar deildir spítalans, en við því verður brugðist á hverjum tíma. Mikilvægt er að  stytta legutíma sjúklinga meðal annars  með  bættari mönnun sérfræðinga á Landspítala, áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarrýma, öflugri heimahjúkrun og fjölgun endurhæfingarrýma. Þá verður að halda áfram að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og létta þannig álagi af LSH.

3. Þetta er langtímaverkefni sem snertir ekki einungis heilbrigðiskerfið. Við viljum efla þekkingargreinar og auka fjölbreytni í atvinnulífi, ekki aðeins til þess að bæta verðmætasköpun og nýtt mannauðinn betur, heldur til þess að gera Ísland betra til þess að búa og starfa í.  Byggja á undir faglegan metnað og sjálfstæði, góðan starfsanda og tryggja bestu mögulegu starfsaðstæður. Markmiðið er að tryggja samkeppnishæfni íslenskrar heilbrigðisþjónustu um starfsfólk.

 

Viðreisn

1. Fyrirsjáanlegt er að útgjöld munu aukast. Styrkja þarf heilsugæslu og öldrunarþjónustu vegna þess að nú færast stórir árgangar á efri ár.

Það er mjög erfitt að miða við fast hlutfall þjóðartekna þegar ákveðin eru útgjöld til málaflokka. Eðlilegt hlutfall í heilbrigðismálum ræðst af aldursskiptingu, dreifingu fólks um landið, breytilegum þjóðartekjum og mörgum fleiri þáttum. Ávallt þarf að gæta þess að nýta fjármagn sem best útfrá hagsmunum almennings. Eðlileg nálgun er að setja markmið um árangur sem heilbrigðiskerfið á að ná, til dæmis um styttingu biðlista og gæði þjónustunnar, og rétt almennings alls staðar á landinu til heilbrigðisþjónustu. Útgjöldin eru þá niðurstaða en ekki markmið.

2. Stefna Viðreisnar er að uppbyggingu Landspítala við -Hringbraut verði flýtt og lokið eigi síðar en árið 2022.

3. Með uppbyggingu Landspítala skapast mun betri aðstaða en nú og tækifæri til betra skipulags sem gerir spítalann að eftirsókarverðari vinnustað. Mikilvægt er að bæta þjónustuna út um land, t.d. með samvinnu sjúkrahúsa og fjárveitingum til þess að bæta sérfræðiþjónustuna í öllum landshlutum.

 

Vinstri hreyfingin grænt framboð

1. Vinstri græn vilja að árið 2020 verði heildarútgjöld til heilbrigðismála 10,6% af vergri landsframleiðslu sem er sama hlutfall og hjá Dönum árið 2015.

Vinstri græn munu leggja það til að fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verði að móta aðgerðaráætlun til næstu sex ára um það hvernig þessum markmiðum verður náð og sú aðgerðaráætlun liggi fyrir innan þriggja mánaða. Við þetta má bæta að innbyrðis skiptingu opinberra fjárveitinga þarf að breyta sbr. svör við 3. spurningu.

2. Vinstri græn telja það forgangsmál að byggja upp nýjan Landspítala við Hringbraut eins fljótt og kostur er. Hreyfingin hefur lagt fram tillögur um byggingasjóð Landspítala sem verði fjármagnaður með tímabundnum auðlegðarskatti og myndi tryggja öruggt fjármagn til að ljúka byggingu nýs meðferðarkjarna og búa hann tækjum og öðrum búnaði.

3. Miðað við mannfjölda og fjölda læknismenntaðra á Íslandi ætti ekki að vera almennur skortur á læknum. Hins vegar hefur fjölgun lækna fyrst og fremst orðið á einkastofum úti í bæ sem skýrist m.a. af því kerfi sem hefur verið byggt upp í kringum Sjúkratryggingar Íslands þar sem æ fleiri aðgerðir og læknisverk hafa færst frá sjúkrahúsum á einkastofur sérgreinalækna. Þessi þróun hefur verið gagnrýnd af ýmsum sérfræðingum, m.a. landlækni,  en hún hefur grafið undan sjúkrahúsunum sem hafa mætt niðurskurði allt frá 2003. Svarið hlýtur að vera að efla annars vegar sérgreinalækningar inni á sjúkrahúsunum og taka upp valfrjálst tilvísanakerfi samhliða styrkingu heilsugæslunnar þannig að heilsugæslan fari raunverulega að virka sem fyrsti valkostur. Að lokum má benda á að bygging nýs Landspítala með viðunandi vinnuaðstæðum fyrir lækna er auðvitað forsenda þess að hægt verði að bæta mönnunina á spítalanum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica