10. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Frá aðalfundi LÍ: Á að breyta LÍ – og þá hvernig?

Málþing á aðalfundi LÍ sammála um að ýmsu þurfi að breyta en að málið sé ekki nógu þroskað enn

Á aðalfundi Læknafélags Íslands sem haldinn var 22.-23. september var haldið málþing um skipulag læknasamtakanna og er það hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem það mál er á dagskrá félagsins. Tilefnið var að þessu sinni álit nefndar sem skipuð var haustið 2014 til þess að gera tillögur um hvort ástæða sé til þess að breyta skipulaginu frá því sem nú er. Svarið sem nefndin gefur við því er eiginlega já, það er ástæða til að breyta – en með hvaða hætti er ekki alveg ljóst.


Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ávarpaði fundinn og slapp svo ekki frá púltinu næsta
einn og hálfan tímann, - læknar spurðu hann spjörunum úr, skömmuðu hann og hældu honum líka á hvert reipi.


Það kom fram í máli Björns Gunnarssonar fundarstjóra að þetta væri ekki fyrsta álitið þar sem spurningunni um breytt skipulag hefði verið svarað á jákvæðan hátt en hingað til hefði lítið orðið úr róttækum breytingum. Svo gaf hann formanni nefndarinnar, Magnúsi Páli Albertssyni, orðið.

Í máli Magnúsar Páls kom fram að nefndin komst að þeirra niðurstöðu að viðfangsefnið væri fjórþætt. Í fyrsta lagi þyrfti að huga að heildarskipulagi læknasamtakanna, í öðru lagi stöðu aðildarfélaganna, í þriðja lagi fyrirkomulagi aðalfundar og síðast en ekki síst kosningum til stjórnar og annarra embætta. Í stuttu máli sagt varð nefndin sammála um tvennt: Læknafélag Íslands verði áfram aðalfélag íslenskra lækna og að í kosningum innan þess gildi reglan einn maður – eitt atkvæði.

En þótt þetta sé að sínu leyti nokkuð skýr afstaða kallar hún á töluverðar breytingar sem að mati nefndarmanna þarf að ræða vel og vandlega á vettvangi samtakanna áður en ákvarðanir verða teknar. Og þar er að ýmsu að hyggja.


Orri Þór Ormarsson og Þorbjörn Jónsson formaður á fremsta bekk,  - Sigurveig Pétursdóttir
bæklunarlæknir, Ragnar Jónsson tryggingalæknir og Magnús Páll Albertsson bæklunarlæknir.
Myndir Védís.

Það fyrsta sem kemur upp er staða aðildarfélaga LÍ en hún er æði misjöfn. Aðild að LÍ eiga annars vegar svæðafélög og hins vegar sérgreinafélög. Af þessum félögum er eitt sem ber ægishjálm yfir öll hin. Læknafélag Reykjavíkur er langfjölmennasta svæðisfélagið innan LÍ og raunar elsta félagið, eldra en Læknafélag Íslands. Sérgreinafélögin eru yfirleitt mun yngri og misjöfn að gerð og uppbyggingu. Félög heimilislækna og lyflækna eru væntanlega þau stærstu en þau eru eingöngu fagfélög og framselja vald sitt til að gera kjarasamninga til Læknafélags Íslands. Það gera raunar flest sérgreinafélögin, að undantöldu Skurðlæknafélaginu sem tók samningsvaldið í sínar hendur fyrir nokkrum árum.


Læknar hlýddu stilltir hver á annan, fundurinn stóð í fjóra tíma á fimmtudeginum og í átta á
föstudeginum.

Rafrænt jafnvægi atkvæða?

LR er eins og áður segir langfjölmennasta aðildarfélag LÍ og hefur meðal annarra verkefna á sinni könnu að semja við ríkisvaldið um verðskrá þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Fjölmennið tryggir félaginu líka úrslitavald á aðalfundi LÍ og þar með yfir stjórnarkjöri í heildarsamtökum lækna. Eða eins og Magnús Páll orðaði það í ræðu sinni: „Við gætum í raun látið LR um að afgreiða aðalfund LÍ.“

Þar með barst umræðan að hinu atriðinu sem nefndin varð sammála um sem er að stefna að því að allir læknar hafi eitt atkvæði í stjórnarkjöri samtakanna. Samkvæmt núgildandi skipulagi er viðhaft fulltrúalýðræði á aðalfundi. Þar eiga vissulega allir læknar seturétt og geta tjáð sig, en í kosningum hafa bara 70 kjörnir fulltrúar aðildarfélaganna atkvæðisrétt. Í þeim hópi eru tveir af hverjum þremur fulltrúar LR.

Þessu er greinilegur vilji til þess að breyta eins og sést á því að langflestir þeirra sem til máls tóku á málþinginu lýstu stuðningi við meginregluna einn maður – eitt atkvæði. Það gerðu líka allir þrír umræðuhóparnir sem störfuðu á málþinginu og í framhaldi af því vildu menn gjarnan færa stjórnarkjörið til nútímans með því að hafa það rafrænt þannig að allir læknar hvar sem er á landinu gætu greitt atkvæði við tölvuna sína.


Kristófer Þorleifsson geðlæknir og Stefán Yngvason bæklunarlæknir.

En . . .

Þá vaknar spurningin sem flest ef ekki öll stéttarfélög landsins hafa velt fyrir sér undanfarin ár. Hver nennir að mæta á aðalfund ef hann getur greitt atkvæði um það mikilvægasta við tölvuskjáinn á skrifstofunni eða jafnvel heima í stofu? Núverandi skipulag tryggir þó að allvænum hópi félagsmanna ber skylda til að mæta og fylgja fram stefnu síns aðildarfélags. Vitnað var til fámennra aðalfunda í aðildarfélögum, jafnvel í hinu fjölmenna LR. Yrðu örlög aðalfundar LÍ ekki þau sömu?

Ein þeirra sem sæti átti í nefndinni, Hrönn Garðarsdóttir á Egilsstöðum, benti á reynslu síns félags og fleiri landsbyggðarfélaga af notkun netsins og fjarfundarbúnaðar til að halda fundi. Greinilegt væri að læknar í höfuðborginni hefðu ekki mikla reynslu af slíku svo LÍ þyrfti að kynna málin vel fyrir aðalfundi.


Jón Baldursson bráðalæknir fór sér að engu óðslega og Björn Gunnarsson svæfingalæknir á
Akranesi stýrði málþingi um breytingar á innviðum LÍ og LR af mikilli festu.

Hvað um lággróðurinn?

Staða aðildarfélaganna var töluvert rædd á málþinginu, enda verða þau eflaust fyrir áhrifum af því ef hróflað verður við fulltrúalýðræðinu og hverjum félagsmanni afhent eitt atkvæði. Eins og er getur hver maður í raun haft tvöfalda aðild að LÍ, það er í gegnum svæðisfélag sitt og sérgreinafélag. Jón Baldursson talaði fyrir Félag bráðalækna sem sótt hefur um aðild að LÍ og spurði hvort menn ættu að ganga úr svæðisfélagi í þetta sérgreinafélag eða hafa áfram tvöfalda aðild.

Á þessu máli er fjárhagsleg hlið því samkvæmt lögum LÍ fá aðildarfélögin tíund af félagsgjöldum sem læknar greiða til LÍ. Tíu af hundraði félagsgjaldanna renna með öðrum orðum til aðildarfélaganna og standa undir kostnaði við rekstur þeirra. Runólfur Pálsson nefndi að með vaxandi sérhæfingu ykist þörf sérgreinafélaganna fyrir erlend samskipti og þeim væri oft þröngur stakkur sniðinn vegna fjárskorts félaganna.

Þá vaknar spurningin hvort ekki þurfi að setja einhverjar reglur um uppbyggingu og umfang aðildarfélaganna. Margir orðuðu það að þeim fyndist tíminn vera á nokkrum hlaupum frá svæðafélögunum. Sú hugmynd heyrðist hvort ekki væri rétt að endurskipuleggja þau þannig að í stað margra svæðafélaga sem sum hver eru örsmá, yrðu þau sameinuð eftir heilbrigðisumdæmum. 

En hvað um sérgreinafélögin, þarf ekki að skilgreina þau? Úr einum umræðuhópnum heyrðist spurningin hvort örvfættir læknar í íþróttum gætu stofnað með sér félag og fengið aðild að LÍ. Eiga allir lyflæknar að vera í sama félagi eða skipta sér upp í undirsérgreinar?


Hildur Svavarsdóttir fráfarandi stjórnarkona í LÍ stýrði umræðum í einum af hópunum um innra
starf og skýrði frá niðurstöðum hópsins.

Eitt andlit eða fleiri?

Eitt voru menn sammála um og það var að nauðsyn væri á einu sterku aðalfélagi, regnhlífarsamtökum þar sem lággróðurinn fyndi skjól. Því félagi þyrfti hins vegar hugsanlega að skipta í tvær eða fleiri deildir. Kjörin og fagið ættu stundum erfitt með að samræma hagsmuni sína. Magnús Páll var til dæmis þeirrar skoðunar að það kæmi oft óþægilega við hann að sjá sama andlitið svara um kjaramál lækna einn daginn og fagleg mál læknisfræðinnar hinn daginn. Samnefndarmaður hans, Tryggvi Helgason, var honum hins vegar ekki sammála um þetta heldur fannst það í lagi að stéttin hefði bara eitt andlit, ef svo má segja.

Önnur spurning sem brennur mjög á læknum varðar kjarasamninga: Hvernig á að haga samningum um kaup og kjör lækna? Á það að vera á hendi einnar samninganefndar LÍ eða á hver hópur að semja fyrir sig? Það var vitnað í Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sem tilkynnti í ávarpi sínu á aðalfundinum að það yrði aldrei aftur gerður samningur á borð við þann sem LR og Sjúkratryggingar hafa gert um verðskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Nefnt var að ríkið vildi breyta þeim samningum í verktakasamninga við einstök fyrirtæki lækna og það leist mönnum misvel á.

Eins og áður var nefnt rufu skurðlæknar sig út úr samninganefnd LÍ fyrir nokkrum árum og af og til hafa komið upp óánægjuraddir hjá einstökum hópum lækna með að þeim sé ekki sinnt sem skyldi í heildarsamningum LÍ. Nægir að nefna unglækna í síðustu samningum.


Kristinn Tómasson geðlæknir situr kannski hjá í atkvæðagreiðslu en hann rekur alltaf sína
skoðun á hverju málefni.Birna Jónsdóttir röntgenlæknir og fyrrum formaður LÍ.

Tíminn líður

Þannig gengu umræðurnar fram og aftur án þess að niðurstaða fengist í málin eða afdráttarlaust svar við spurninginni um það hvort og þá hverju bæri að breyta í skipulagi læknasamtakanna. Magnús Páll sagði nefndina ekki hafa gert ráð fyrir því að niðurstaða fengist, til þess væri málið of lítið rætt meðal almennra lækna. Nú væri verkefnið að ýta undir þá umræðu og laða fram skoðanir sem flestra lækna, ekki síst þeirra yngri. Menn mættu ekki gleyma því að á hverju ári kæmi fjölmennur hópur ungra lækna inn í félagið og þeir hefðu eflaust aðrar og ferskari hugmyndir um skipulag félagsins en þeir sem hafa verið það lengi.

Það verður því enn einhver bið á því að framtíðarskipulag læknasamtakanna verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. En tíminn líður, trúðu mér, eins og segir í kvæðinu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica