07/08. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Íslenskan er svo ríkt mál

Ný ljóðabók, Í úteyjum, eftir Ferdinand Jónsson kom út á vordögum og hefur vakið verðskuldaða athygli. Ferdinand hefur verið búsettur í London í tæp 20 ár og starfar í austurhluta Lundúna við geðhjálp heimilislausra.


„Íslenskan er eins konar sparimál fyrir mig, eins konar tungumál minna persónulegu tilfinninga,"
segir geðlæknirinn og ljóðskáldið Ferdinand Jónsson sem býr og starfar í London.

Það gekk ekki alveg þrautalaust fyrir okkur að ná saman í síma vegna hamagangs undangenginnar viku í Evrópumótinu í knattspyrnu og þegar færið gafst loksins sat Ferdinand límdur við sjónvarpið og fylgdist með fréttum af niðurstöðum kosninga Breta um áframhaldandi veru þeirra í Evrópusambandinu eða ekki.

„Það væri hryllingur ef þeir gengju úr ESB,“ segir hann. „Bretar eru ein mest siðmenntaða þjóðin í Evrópu þó hlutar hennar séu sannarlega frumstæðir og grimmir. Cameron forsætisráðherra hefði aldrei átt að kalla þetta moldviðri yfir bresku þjóðina. Vonandi fer þetta nú samt allt á besta veg.“ Því miður fyrir Ferdinand og skoðanabræður hans fóru úrslit kosninganna á annan veg en það er önnur saga.

Við ætluðum að tala um ljóðagerðina þína, ekki pólitík. Hefurðu alltaf verið að yrkja?

„Ansi lengi, já. Ég byrjaði að fikta við þetta um tvítugt eða jafnvel eitthvað fyrr og hef alltaf haft ánægju af ljóðum og lagði mig fram um að læra uppáhaldsljóðin utanað og fara með þau. Það hefur líka þann kost að maður áttar sig betur á hljómfalli ljóðanna þegar þau eru mælt fram.“

Áttu þér uppáhaldsskáld?

„Snorri Hjartarson finnst mér alveg stórkostlegur. Hvernig hann leikur sér að málinu, hversu sterk tilfinning er í ljóðunum hans fyrir náttúrunni. Það höfðar mjög sterkt til mín.“

Þú býrð og starfar í London. Það þýðir að enska er þitt daglega tungumál en ekki íslenskan. Áttu ekkert erfitt með að skilja þarna á milli?

„Nei, veistu það er ekki vandamál. Íslenskan er eins konar sparimál fyrir mig, eins konar tungumál minna persónulegu tilfinninga. Ég næ ekki sams konar djúpri tilfinningatjáningu á ensku og ég næ á íslenskunni, móðurmálinu. Að skipta á milli tungumálanna verður því nánast eðlilegt eftir því hvað ég er fást við og hvað ég er að tjá. Ég er líka mjög sterkt tengdur Íslandi og fer heim í öllum fríum og hefði líklega aldrei átt að fara frá Íslandi. Alltaf þegar ég kem heim og sit í bílnum á leiðinni til Reykjavíkur frá Keflavík hreinsa ég hugann. Tek út enskuna og set íslenskuna í staðinn. Ég held að ég sé óþolandi fyrir yngri kynslóðir fjölskyldu minnar þar sem ég er stundum að leiðrétta þau og læt pirra mig þegar þau sletta enskunni. Ég er algjör ajatolla íslenskunnar og reyni að vanda mig við að sletta alls ekki ensku. Íslenskan er svo ríkt mál og orðin eru svo gagnsæ og hrein. Það er því hægt að ná mikilli dýpt með mjög fáum orðum og stundum er dýptin margræð. Íslenskan er í mínum huga nánast fullkomið tungumál til yrkja á.“

Ertu alltaf að yrkja eða tekurðu tíma frá fyrir ljóðagerðina?

„Ég er oft að velta fyrir mér orðum og fallegum setningum og skrifa þær þá hjá mér. Ég er mikið að leita eftir hljómfalli, eins konar laglínu tilfinninganna, og finna orðin sem gefa réttu tilfinningatengslin. Þetta er auðvitað mjög misjafnt, stundum er ég mjög lengi að velta orðaröð og orðavali fyrir mér og stundum kemur það nánast eins og af sjálfu sér. Pabbi minn, Jón Ferdinandsson, var málari og velti mikið fyrir sér samspili birtu og lita. Ég er í rauninni að fást við það sama, bara með orðum en ekki pensli. Litir og birta

eru lykilatriði í ljóðagerð minni, ég leita að stemmningu sem er að finna í augnablikinu og þögninni en þögn í ljóði eins og í náttúrunni sjálfri er dásamlegt fyrirbrigði.“

Samdirðu ljóðin með ljóðabók í huga eða er þetta val sem á sér stað eftir á?

„Ég samdi ljóðin án þess að hugsa um væntanlega ljóðabók. Það er val sem á sér stað eftir á í samráði við ritstjóra útgáfunnar, Bjarna Þorsteinsson, og einnig var Valgerður Benediktsdóttir ómetanlegur ráðgjafi og gagnrýnandi við undirbúning útgáfunnar. Hún sagði mér óhikað til syndanna og leiðrétti miskunnarlaust. Vinur er sá er til vamms segir og í því stóð hún sig frábærlega.“

Hvernig myndirðu sjálfur lýsa ljóðabókinni?

„Hún er eins og ferðalag í gegnum árstíðirnar þar sem náttúrustemmingar koma við sögu. Þarna eru líka hugleiðingar um tímann, um sorgina og dauðann. Um eins konar upprisu og ekki síst jarðtengingu tilfinninganna sem eru svo mikilvægar og ekki má gleyma ástinni og gleðinni sem brýst fram eins og sólargeisli í gegnum skýjaþykkni. Birtan, skýin og tíminn eru samofin í íslensku náttúrunni og kallast á við tilfinningarnar á einhvern hátt sem varla er hægt að lýsa.“

Nema í ljóði?

„Einmitt. Og það er kannski hálf undarlegt að reyna að lýsa ljóðum sínum með öðrum orðum en eru í ljóðinu sjálfu. Best er auðvitað að lesa þau og upplifa áhrifin milliliðalaust.“  Ljóð úr bókinni sem er leiðarvísir inn í sumarið:


Sumar


þokan geymir

huldufé

á himbrimakvöldi
 

lægir

kvíða

í landi

konungs
 

koma himintíðir

háar

bláarÞetta vefsvæði byggir á Eplica