07/08. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Mentoranámskeið á Siglufirði - Lærimeistarar læra meira

Dagana 26.-28. maí tóku um 40 sérfræðingar í heimilislækningum þátt í námskeiði á Siglufirði fyrir lærimeistara, mentora, í sérgreininni, því fyrsta sem haldið er eftir að ný reglugerð um sérnám í læknisfræði og kandídatanám tók gildi fyrir rúmu ári. Margir þeirra sem tóku þátt í námskeiðinu hafa setið slík námskeið áður svo segja má að þarna hafi lærimeistararnir verið að auka við kunnáttu sína.


Hópurinn allur fyrir utan nýja hótelið á Sigló. Myndirnar tók Sigurður Ægisson.

„Marklýsing fyrir sérnám í heimilislækningum hefur verið til staðar um árabil, sú fyrsta reyndar í nokkurri sérgrein læknisfræði sem kennd er á Íslandi,“ segir Valþór Stefánsson yfirlæknir fyrir Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð (Siglufjörður og Ólafsfjörður). „Á sínum tíma var unnin gríðarlega góð og mikil vinna við marklýsinguna  og við njótum þess nú eftir að  ný reglugerð um sérnám í læknisfræði tók gildi fyrir rúmu ári en þurfum að uppfæra marklýsinguna með tilliti til nýju reglugerðarinnar. Við höfum haldið reglulega námskeið fyrir lærimeistara, mentora, en þetta var hið fyrsta eftir að nýja reglugerðin tók gildi. Í reglugerðinni er kveðið á um að sérstök mats- og hæfisnefnd skuli meta hvort sérnám tiltekinnar greinar læknisfræðinnar stenst kröfur og formaður nefndarinnar, Reynir Tómas Geirsson, kom og kynnti starf nefndarinnar og kynnti sér kennsluaðferðir okkar.“

Aðspurður um ástæðu þess að námskeiðið var haldið á Siglufirði segir Valþór að staðurinn sé í dag uppspretta mikillar framkvæmdaorku og nýsköpunar á mörgum sviðum og því hafi þótt tilvalið að velja námskeiðinu þessa umgjörð eins og einnig átti við árið 2014 þegar síðasta námskeið þar á undan var haldið á Siglufirði.


Þátttakendur slaka á eftir langan dag.

40 læknar í sérnámi

Skortur hefur verið á heimilislæknum undanfarin ár og því hefur stjórn heilsugæslunnar og Félag íslenskra heimilislækna lagt sérstaka áherslu á sérnámið með þeim árangri að nú eru um 40 sérnámslæknar í heimilislæknasérnámi og í haust verða væntanlega 19 sérfræðingar útskrifaðir á heimilislæknaþingi. Að sögn Valþórs veitir ekki af þar sem mikil þörf er á endurnýjun í stéttinni. „Námskeiðinu hér var meðal annars ætlað að fjölga lærimeisturum á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni svo sérnámslæknar og kandídatar gætu hlotið þjálfun við ýmsar aðstæður. Nýja reglugerðin kveður á um ákveðnar gæðakröfur, meðal annars að heilsugæslustöðvar séu í stakk búnar að veita sérnámslæknum tiltekna starfsþjálfun og að læknar sem annast leiðsögn sérnámslækna öðlist réttindi til kennslunnar. Reglugerðin er að vissu leyti stefnumarkandi og það mun væntanlega taka nokkur ár fyrir heilsugæsluna að aðlagast auknum kröfum. Það hefur sýnt sig að námslæknar sem koma til starfa á landsbyggðinni eru líklegri til að setjast þar að en þeir sem hafa alið allan sinn aldur á stærstu þéttbýlisstöðunum. Engu að síður hefur uppbygging sérnámsins átt sér stað í Reykjavík undir handleiðslu þeirra Ölmu Eirar Svavarsdóttur kennslustjóra og prófessors Jóhanns Ágústs Sigurðssonar en sannarlega hafa margir fleiri komið þar að verki,“ segir Valþór Stefánsson.


Prófessorinn og kennslustjórinn á góðri stund, Jóhann Ágúst og Alma.

Á Landspítala hefur sérgreinakennsla tekið miklum stakkaskiptum á undanförnu ári með sérnám í lyflækningum í fararbroddi þar sem ný marklýsing lá strax fyrir síðastliðið haust og hefur verið kennt eftir henni í vetur. Læknablaðið hefur í vetur kynnt sérnám í ýmsum greinum og ljóst að á næstu misserum gefst unglæknum kostur á fjölbreyttu framhaldsnámi hérlendis áður en þeir halda utan til að fullnuma sig í viðkomandi sérgrein.Þetta vefsvæði byggir á Eplica