06. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Fæðing „Heklu“ árið 1960. Kjartan Magnússon

Það var komið haust árið 1960, kvöld og myrkur úti. Ég var sjúkrahúslæknir á Selfossi og sat áhyggjulaus inni í stofu. Síminn hringdi og á línunni var héraðslæknirinn á Hellu. Hann var staddur á bænum Hólum efst á Rangárvöllum. Heimasætan hafði misst fóstur en fylgjan vildi ekki koma. Gæti ég skroppið uppeftir og hjálpað? Það var auðvitað sjálfsagt mál.

Ég hringdi í lögregluna á Selfossi sem sá um sjúkraflutninga og strax var lagt af stað með áhöld og nokkra blóðpoka. Ég man hvað myrkið var mikið þegar við keyrðum upp Rangárvellina í áttina að Heklu á gamla niðurgrafna veginum framhjá Koti. Um miðnætti komum við í hlaðið á Hólum.


Bærinn Hólar á Rangárvöllum. Hekla gægist upp fyrir Næfurholtsfjöllin í baksýn. Myndin er tekin stuttu
eftir að sagan gerðist. Ljósmyndari óþekktur.

Sama myrkrið hvíldi yfir bænum, ekkert rafmagn heldur olíulampar sem lýstu upp herbergin. Rækilega hafði verið kynt, það var eins og í gufubaði. Sængurkonunni átti greinilega ekki að verða kalt.

Stuttar kveðjur og síðan var strax hafist handa, fylgjan sótt upp í leg og allt gekk vel og snurðulaust, konunni var borgið og hún var sæmilega hress en döpur. Boðið var uppá kaffi í vel heitu eldhúsinu, allir kátir og ánægðir. Ég þakkaði fyrir kaffið og búist var til heimferðar og kvatt.

„En hvað á að gera við barnið?“ spyr þá bóndinn á bænum.

Barnið! Ég áttaði mig nægilega fljótt til að tala ekki af mér því konan var aðeins komin 6 mánuði á leið og mér skildist í símanum að um fósturlát hefði verið að ræða og ekki hafði verið minnst á neitt barn eftir að ég kom. Lítill dívan var inni í herberginu og þar úti í horni var stór og mikill bómullarvafningur og þangað var mér vísað. Og viti menn. Þegar ég vafði ofan af honum kom í ljós eldrauð, grettin og pínulítil telpa með lífsmarki sem ekkert heyrðist í en andaði greinilega. Nú voru góð ráð dýr. Ekki var hægt að skilja barnið eftir og sjálfsagt að taka það með til Selfoss. En hvernig átti að flytja stúlkuna? Fundinn var skókassi númer 43, barninu pakkað inn í bómullina aftur og það sett í kassann sem passaði mátulega.

Nú var ekki til setunnar boðið, brunað til baka á spítalann á Selfossi og hélt ég á skókassanum með framréttar hendur svo hnjaskið yrði sem minnst. Vegurinn var vondur, holóttur moldar- og malarvegur alla leið. Eitt lítið sjúkraherbergi var rýmt, hreint lak sett á fullorðinsrúm þar sem enginn fyrirburakassi var á sjúkrahúsinu á þeim tíma. Gamall þriggja strengja rafmagnsofn var settur í gang til þess að fá góðan hita í herbergið og hraðsuðuketill sóttur í eldhúsið til þess að fá góðan raka. Stúlkan var viktuð og var rétt um fjórar merkur eða 1000 grömm og sett allsber á mitt rúmið. Fyrirburðareinkennin voru mjög greinileg, neglur langt frá því að vera vaxnar fram og skapabarmar gapandi. Þótt lífshorfur væru litlar var strax í fullri alvöru allt gert sem hægt var, við frumstæðar aðstæður, að fleyta barninu áfram.

Á þriggja klukkustunda fresti allan sólarhringinn setti ég granna slöngu, minnstu gerð af þvaglegg, niður í magann og sprautaði nokkrum millilítrum af brjóstamjólk sem fékkst að láni hjá konu sem nýbúin var að fæða á spítalanum. Eftir nokkra sólarhringa var litla stúlkan enn spræk og virtist dafna vel. Hún fór vel niður fyrir 1000 grömm í þyngd, sem er eðlilegt, en þyngdist síðan dag frá degi. Áfram héldum við sondugjöf með móðurmjólk sem safnað var á Selfossi og síðan eftir að hún gat farið að drekka sjálf af pela.

Frá byrjun var öllum bannað að koma inn í herbergið nema nauðsynlegu hjúkrunarliði svo allt væri gert til að koma í veg fyrir sýkingar en ónæmiskerfi fyrirbura er ekki vel þroskað. Þetta heppnaðist, engar sýkingar urðu og tíminn leið hægt og rólega. Litla stúlkan dafnaði og þyngdist eðlilega og spenningurinn og gleðin jókst með hverjum deginum hjá öllum.

Var þetta virkilega að heppnast? Eftir um það bil þrjá mánuði sóttu foreldrar Heklu dóttur sína en þá var hún komin í eðlilega fæðingarþyngd og virtist alheilbrigð.

Heklunafnið fékk hún strax við komuna á spítalann sem gælunafn okkar sem önnuðumst hana og var hún síðan skírð Elín Hekla.

Örlögin höguðu því þannig að stuttu seinna annaðist ég húsfreyjuna á Hólum sem hafði farið úr axlarlið eftir að hafa fallið af hestbaki.

Uppfrá því urðu báðir synir mínir sveitastrákar á Hólum svo og fleiri drengir í fjölskyldunni og dóttir mín sveitastelpa á næsta bæ, Næfurholti, mörg, mörg næstu ár.

Þau hlutu þar gott uppeldi og upp frá því á ég þarna marga af mínum bestu vinum enn þann dag í dag. Ég gat líka fylgst með hvernig Heklu farnaðist til fullorðinsára, hraust og vel gerð í alla staði.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica