06. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Kynningarfundur um kandídatsár á Íslandi fyrir læknanema í Debrecen


Á myndinni eru Inga Sif Ólafsdóttir, Bjartur Sæmundsson, Gróa Björk Jóhannesdóttir og Alma Eir Svavarsdóttir.

Nýlega fóru fjórir fulltrúar úr nefnd velferðarráðuneytis um skipulag námsblokka læknakandídata og kynntu sér læknanám í Ungverjalandi og héldu kynningarfund um kandídatsárið á Íslandi fyrir læknanema í Debrecen. Fulltrúarnir voru styrktir af velferðarráðuneytinu, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sjúkrahúss Akureyrar. Þetta voru: Alma Eir Svavarsdóttir (kennslustjóri kandídata við Heilsugæsluna), Bjartur Sæmundsson (deildarlæknir á skurðdeild Landspítala), Gróa Björk Jóhannesdóttir (Akureyri) og Inga Sif Ólafsdóttir (kennslustjóri kandídata á Landspítala).

Dagskrá fundarins var:

1.  Kynning á kandídatsári á Íslandi, nýja reglugerðin, nýja marklýsingin, reglulegt fræðsluprógram og uppbygging spítalahluta kandídatsársins og að lokum um móttökudaga í júní.

2.  Kynning á umsóknarferlinu.

3.  Kynning á heilsugæsluhluta kandídatsárs og sérnámi í heimilislækningum á Íslandi.

4.  Kynning á sérnámi í lyflækningum og öðrum sérgreinum við
Landspítala.

Læknanemarnir voru spenntir, spurðu mikið og voru jákvæðir í garð kandídatsárs á Íslandi. Fundurinn átti að standa í tvo tíma en varð að fjögurra tíma fundi sem var vel sóttur. Læknanemarnir lýstu endurtekið ánægju og þakklæti yfir komu fulltrúanna og voru ánægð með kynninguna. Þau höfðu mörg verið á kynningu annarra Norðurlandaþjóða um kandídatsár þar og gátum við leiðrétt margan misskilning og bent á þá fjölmörgu kosti sem kandídatsár á Íslandi hefur fram að bjóða. Þau sýndu bæði kandídatsárinu sem og sérnámi á Íslandi mikinn áhuga.

Við teljum heimsóknina hafa verið ómetanlega, margir sögðu að fundurinn hefði breytt skoðun þeirra á kandídatsári á Íslandi og sáum við glögglega hvers virði þessi heimsókn var. Það var einnig mikilvægt fyrir nefndarmenn að koma til Debrecen og kynnast uppbyggingu læknanámsins þar, fá að skoða aðstöðuna og fræðast um námið í Ungverjalandi. Við teljum að rétt sé að stefna á að fara í svona kynningu annað hvert ár og fara til bæði Ungverjalands og Slóvakíu 2018, þaðan sem fyrstu læknanemarnir útskrifast 2019.

 

Inga Sif Ólafsdóttir, formaður nefndar um kandídatablokkir og kennslustjóri kandídata á Landspítala.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica