05. tbl. 102. árg. 2016
Umræða og fréttir
Reynir Tómas heiðursfélagi Samtaka um endómetríósu
Reynir Tómas Geirsson prófessor var gerður að heiðursfélaga Samtaka um endómetríósu á afmælishátíð þeirra þann 9. apríl síðastliðinn.
Reynir Tómas Geirsson prófessor og Silja Ástþórsdóttir formaður Samtaka um endómetríósu voru hæstánægð þegar Reynir Tómas var gerður að heiðursfélaga samtakanna, þann 9. apríl síðastliðinn. Ljósmynd: Stefán Karlsson.
Samtök um endómetríósu voru stofnuð á haustmánuðum 2006 og fagna 10 ára afmæli í ár og var af því tilefni efnt til afmælishátíðar í Norræna húsinu og mættu rúmlega 110 manns. Á dagskrá voru ræður, tónlistaratriði og reynslusögur kvenna með endómetríósu.
Reynir Tómas Geirsson prófessor var einn upphafsmanna þess að Samtök um endómetríósu voru stofnuð og á afmælishátíðinni hélt hann ræðu um aðdraganda þess. Í framhaldinu afhenti Silja Ástþórsdóttir formaður samtakanna Reyni Tómasi viðurkenningarskjal fyrir einstakt framlag hans til eflingar Samtaka um endómetríósu og stuðning við konur með endómetríósu undanfarna áratugi.
Við þetta tækifæri sagði formaður tvær sögur af samskiptum þeirra Reynis:
„Þegar við stjórnin vorum á kafi í undirbúningi ráðstefnu um endómetríósu árið 2012, var Reynir ávallt reiðubúinn til aðstoðar. Svo boðinn og búinn var hann til að hjálpa, að eina helgina þegar hann og frúin voru á leið í sumarbústað hringdi hann sérstaklega í mig til að láta mig fá símanúmer eiginkonu sinnar. Hann vildi þannig tryggja að ég myndi geta náð í hann, jafnvel þótt hann væri úti í garði að vinna og heyrði ekki í símanum.
Sömuleiðis hef ég ekki tölu á þeim skiptum sem ég hringdi í Reyni við undirbúning Hvatningargöngu Samtaka um endómetríósu árið 2014. Þegar ég enn einu sinni hringdi í Reyni Tómas vegna margvíslegra snúninga, orðin hálf afsakandi yfir öllu snattinu, stoppaði hann mig af og sagði: Nei nei, ég geri bara það sem þú biður mig um.“
Af ofangreindu má ljóst vera hve ötull stuðningsmaður samtakanna Reynir hefur ávallt verið og eru þá ekki meðtaldir allir aðalfundirnir og kaffihúsahittingarnir sem hann hefur setið og hjálpað til við.
Reynir Tómas hefur starfað sem sérfræðingur, yfirlæknir og prófessor á sviði fæðinga- og kvensjúkdómalækninga við kvennadeild Landspítalans við Hringbraut í áratugi. Hann lauk sérnámi í Bretlandi og doktorsprófi frá Háskóla Íslands og er einnig kjörfélagi í Félagi breskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FRCOG, Fellow of the Royal College of Obstetricians & Gynaecologists).
Meginmarkmið Samtaka um endómetríósu er fræðsla og aukin vitundarvakning um sjúkdóminn, en fyrst og fremst að veita konum með endómetríósu stuðning. Baráttumál samtakanna er að stofnuð verði göngudeild fyrir konur með endómetríósu og að klínískar leiðbeiningar varðandi greiningu og meðferð sjúkdómsins, lagaðar að íslensku heilbrigðiskerfi, verði þróaðar.
Stefnt er að því að haldin verði á Íslandi Norræn ráðstefna um endómetríósu (Nordic Endometriosis Congress) seinni part næsta árs.