05. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Mönnunarvandi á landsbyggðinni til umræðu á formannafundi LÍ


Arna, Jörundur, Katrín, Þorbjörn, Hrönn, Björn og Kristín Huld voru skipulögð og kappsfull á fundinum,
en gáfu sér eitt augnablik til að líta framan í myndavélina.

Árlegur formannafundur Læknafélags Íslands var haldinn í húsakynnum LÍ þann 15. apríl. Fundurinn er mikilvægur samráðsvettvangur allra aðildar- og svæðafélaga innan LÍ að sögn formannsins, Þorbjörns Jónssonar. Formenn aðildarfélaganna fluttu skýrslu um starf og viðfangsefni undangengins árs og gerð var grein fyrir starfsemi á vegum nefnda og stofnana innan LÍ. Þorbjörn sagði að í sem stystu máli mætti segja að starfsemin hefði gengið vel á flestum póstum en þó brynnu mönnunarmál á svæðafélögunum á landsbyggðinni. Læknadagar væru traustir í sessi og þátttaka í þeim hefði verið mjög góð undanfarin ár. Orlofshús og íbúðir félagsins nytu vinsælda og kallaði sá rekstur á talsvert utanumhald af hálfu félagsins.

Fundinn sátu fyrir hönd stjórnar LÍ Þorbjörn Jónsson, Björn Gunnarsson og Tinna H. Arnardóttir. Frá nefndum á vegum LÍ voru mættir þeir Jörundur Kristinsson formaður OSL, Gunnar Bjarni Ragnarsson formaður Fræðslustofnunar LÍ og Engilbert Sigurðsson ritstjóri Læknablaðsins. Frá aðildarfélögum LÍ voru mætt Arna Guðmundsdóttir formaður Læknafélags Reykjavíkur, Andrés Magnússon formaður Læknafélags Norðurlands vestra, Hrönn Garðarsdóttir formaður Læknafélags Austurlands, Hjalti Kristjánsson formaður Læknafélags Vestmannaeyja, Kristín Huld Haraldsdóttir formaður SKÍ og Tinna H. Arnardóttir formaður FAL. Aðrir gestir fundarins voru Katrín Fjeldsted formaður CPME, Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri LÍ, Dögg Pálsdóttir lögfræðingur LÍ og Védís Skarphéðinsdóttir ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica