04. tbl. 102. árg. 2016
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Þverrandi traust. Magnús Baldvinsson
Þegar þessi grein er skrifuð hefur nýlega verið birt niðurstaða úr Þjóðarpúlsi Gallups þar sem fram kemur mikið fall á því trausti sem fólk hafði til heilbrigðiskerfisins, eða um 14%, og er það nú komið niður í 46%. Þetta mikla fall á trausti fólks á sér eflaust margar skýringar en neikvæð umfjöllun fjölmiðla síðustu misseri á líklega stóran þátt í því. Ekki er ólíklegt að neikvæðar fréttir af Landspítala, flaggskipi íslensks heilbrigðiskerfis, vegi þar þyngst. Þó að þar séu unnin þrekvirki og nánast kraftaverk á hverjum degi virðast nær eingöngu neikvæðar sögur þaðan rata í fréttirnar. Sögur af myglu í húsnæði og samanplástruðum tækjum.
Í lok árs 2013 var íslenski heilbrigðisstarfsmaðurinn valinn maður ársins á Bylgjunni. Eftir það hefur leiðin legið niður á við. Neikvæðar fréttir í tengslum við launabaráttu lækna og verkfall þeirra árið 2014 og barátta fyrir uppbyggingu nýs Landspítala nú uppá síðkastið eru atburðir sem virðast hafa snúið almenningsáliti til hins verra. Það má ætla að hlutur lækna vegi þungt í þessari umfjöllun. Margir læknar hafa verið viljugir til að tala niður ástandið til þess að ná fram hagsmunum sínum. Við þetta bætist ákveðin sundrung í læknastétt þar sem barist er um þá fjármuni sem veitt er til heilbrigðiskerfisins og þar hefur landlæknir nú nýlega lagt þung lóð sín á vogaskálarnar.
Á meðan við lesum fréttir af hörmulegu ástandi kerfisins er þó ef vel er að gáð hægt að finna eitthvað jákvætt, eins og til dæmis niðurstöðu úr nýrri skýrslu Health Consumer Powerhouse þar sem fram kemur að Ísland er með 8. besta heilbrigðiskerfi Evrópu. Noregur situr þar í 3. sæti, Danmörk í 7. sæti. og Svíþjóð í því 10. Þetta eru hin hefðbundnu samanburðarlönd okkar sem svo vinsælt er að vísa til þegar bent er á það sem betur má fara í okkar kerfi.
Ísland skorar hæst í flokknum árangur og meðferð í þessari sömu skýrslu.
Í áðurnefndum Þjóðarpúlsi Gallups skorar Landhelgisgæslan hæst, eða 96%. Það verður seint sagt að Gæslan búi við ríkan tækjakost, hún fékk ekki einu sinni að halda gömlum vopnum frá Noregi. Varla er hægt að tala um merkilegan húsakost eða annan aðbúnað. Þrátt fyrir það eru starfsmenn Landhelgisgæslunnar ekki reglulega í fjölmiðlum að tala niður störf sín, kvarta yfir launum eða aðbúnaði. Forstjóri Gæslunnar er ekki með yfirlýsingar um að öryggi íbúa landsins sé ógnað. Ég held að starfsmenn Landhelgisgæslunnar séu almennt stoltir af störfum sínum og það smitast út í þjóðfélagið.
Er ekki kominn tími til fyrir okkur að skipta um taktík? Er þessi aðferð ekki fullreynd, hver vill setja meiri peninga í að bjarga sökkvandi fleyi? Fyrir fjárveitingavaldið hlýtur þetta að vera niðurdrepandi. Þetta er eins og fyrir fólk að heyra að fermingarbarnið hafi keypt sér bland í poka fyrir allan peninginn í stað þess að safna sér fyrir innborgun í íbúð. Hvoru barninu er skemmtilegra að færa pening?
Læknafélag Íslands er nú að hefja undirbúning fyrir 100 ára afmæli félagsins sem er árið 2018. Þá stendur til að vera með ýmsar uppákomur og minnast sögu félagsins. Gaman væri að það yrði ekki í skugga talna um dvínandi traust fólks til kerfisins sem við viljum svo gjarnan fara með aðalhlutverkið í.