03. tbl. 102. árg. 2016
Umræða og fréttir
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands. Nýtt íðorðasafn í lífvísindum
Það vakti nokkra athygli á dögunum þegar íslenskuneminn Einar Lövdahl Gunnlaugsson var tilnefndur til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands fyrir verkefni sitt er sneri að íðorðasöfnun og myndun nýrra íðorða í lífvísindum.
Íslenskuneminn Einar Lövdahl Gunnlaugsson safnaði saman 600 nýjum íðorðum í lífvísindum.
Alls voru tilnefnd fjögur verkefni sem unnin voru á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna sumarið 2015 og áttu það öll sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem Nýsköpunarsjóðurinn veitir styrki til. Verkefnin fjögur voru:
- Innigarður: Heimaræktunarkerfi fyrir kryddjurtir byggt á vatnsgeli unnu úr brúnþörungum.
- Íðorðasafn og myndun nýrra íðorða í lífvísindum.
- Náttúrutúlkun á grænum svæðum í Reykjavík: Stöðumat og nýjar lausnir fyrir ferðamenn og íbúa.
- Þekkirðu fuglinn? Rannsókn á fuglafræðiþekkingu barna og þróun og gerð spils sem gerir þeim kleift að læra í gegnum leik.
Síðasttalda verkefnið varð svo hlutskarpast og voru verðlaunin afhent af forseta Íslands á Bessastöðum þann 26. janúar síðastliðinn.
Áhugi okkar á Læknablaðinu beinist þó frekar að söfnun nýrra íðorða í lífvísindum enda teljum við málið okkur nokkuð skylt og lék forvitni á að fregna nánar af þessu verkefni.
Í formlegri kynningu á verkefninu segir eftirfarandi: „Verkefnið fólst í megindráttum í söfnun íðorða sem lúta að erfðafræði, frumulíffræði, þroskunarfræði og þróunarfræði og skipulagðri skrásetningu þeirra. Söfnun orða var unnin í samvinnu við helstu sérfræðinga á umræddum fræðasviðum og afrakstur þess var íðorðasafn með 600 nýjum flettum sem hefur verið bætt við Líforðasafn (1997) og gert aðgengilegt á vefnum (ordabanki.hi.is).“
Einar var að útskrifast núna í febrúar með BA-gráðu í íslensku og segir að þetta verkefni hafi verið kærkomið sem sumarvinna síðastliðið sumar en hafi ekki verið hluti af náminu heldur algerlega óháð því. „Þetta verkefni var í rauninni hugmynd Ernu Magnúsdóttur líffræðings og rannsóknarsérfræðings við læknadeild HÍ. Þegar hún sneri aftur heim eftir doktorsnám erlendis uppgötvaði hún sér til ama að skortur væri á ýmsum íslenskum orðum sem tengjast fræðunum sem hún fæst við. Hún setti sig því í samband við mig í fyrravetur og sagði að þau hefðu hug á að ráðast í orðasafnsgerð en slíkt hefur ekki verið gert í tæp 20 ár eða síðan 1997. Það var því tímabært að safna saman þeim orðum og hugtökum sem orðið hafa til síðan enda gríðarlega hröð þróun í þessum greinum og mikilvægt að við eigum orð yfir þessi fyrirbæri öll svo hægt sé að tala og skrifa um þau á íslensku. Ágústa Þorbergsdóttir umsjónarmaður íðorðastarfs við Stofnun Árna Magnússonar var síðan annar leiðbeinandi minn við verkefnið.“
Sterk tengsl við læknastéttina
Einar tengist reyndar læknastéttinni sjálfur með ýmsum hætti, faðir hans Gunnlaugur Sigfússon er sérfræðingur í barnahjartalækningum, bróðir hans Sigfús Kristinn er einnig læknir í sérnámi erlendis og móðurafi Einars og nafni, Einar Lövdahl, er barnalæknir en hættur störfum. „Ég hef stundum fengið þá spurningu hvað hafi komið fyrir mig fyrst ég er ekki að læra læknisfræði! En það var hrein tilviljun að haft var samband við mig frá læknadeildinni og ég beðinn að taka þetta verkefni að mér. Það hafði ekkert að gera með alla læknana í fjölskyldunni.“
Einar segir verkefnið hafa verið fólgið í söfnun nýrra íðorða og skipulegri skráningu þeirra en Hálfdan Ómar Hálfdanarson og Þuríður Þorbjarnardóttir stóðu að söfnun líforðasafns fyrir allmörgum árum en síðan hafi lítið verið aðhafst í þessum fræðum. „Það var samt alls ekki eins og ég væri koma að óplægðum akri, því mikið og gott starf hefur verið unnið á þessu sviði. Það sem vantaði var skipulögð skráning þeirra orða sem komið hafa fram síðan 1997. Hlutverk mitt fólst mikið í að nálgast þessi orð og hafa samband við þá sérfræðinga sem nota orðin og hugtökin daglega við rannsóknir og kennslu. Það er auðvitað mikilvægt að fólk noti sömu orðin. Við gerðum þetta þannig að við skönnuðum inn orðalista í nýjum og nýlegum kennslubókum á ensku í lífvísindum og keyrðum þau síðan saman við Líforðasafnið og þau orð sem stóðu útaf urðu þá okkar úrvinnsluskjal. Síðan leitaði ég til allra helstu sérfræðinga á þessum sviðum, erfðafræði, frumulíffræði, þróunarfræði og þroskunarfræði og leitaði eftir þýðingum á þessum orðum. Þetta þjónaði í rauninni tvennum tilgangi, annars vegar að komast að því hvort þýðingar orðanna væru til og einnig að gera sérfræðingana meðvitaða um þessa vinnu og hvetja þá til að nýta sér íðorðasafnið þegar það lá fyrir.“
Einar segir að sér hafi komið á óvart hversu mörg orð hafi þegar verið til í þýðingum og í almennri notkun þó ekki væri búið að skrá þau formlega. „Það var í rauninni aðalmarkmiðið að skrá þau orð sem þegar eru í notkun en hafa ekki verið skráð formlega. Við héldum nokkra orðafundi þar sem sérfræðingarnir komu saman og veltu vöngum yfir þessu. Þar var ég nánast eins og fluga á vegg og skráði niður það sem frá þeim kom. Sumir eru mjög áhugasamir um þetta og leggja mikla áherslu á að nota íslensk orð og eru margir mjög hugmyndaríkir í orðasmíðinni. Við tókum reyndar þann pólinn í hæðina að skrá öll orð sem notuð hafa verið en völdum þó alltaf aðalorð en létum hin fylgja í kjölfarið. Mitt hlutverk var því alls ekki að smíða ný íðorð heldur að skrá þau sem þegar eru í notkun eða þau nýyrði sem sérfræðingarnir gátu komið sér saman um. Þar hafði ég stundum skoðun á því hvað væri gagnsærra eða hvernig rithátturinn skyldi vera. Ég var því fyrst og fremst ritstjóri þessa orðasafns sem til varð úr þessari vinnu.“
600 orða safn
Afrakstur þessarar sumarvinnu Einars er síðan hvorki meira né minna en 600 orða safn nýrra íðorða í þessum fjórum greinum lífvísinda og þau má finna á vef Árnastofnunar www.ordabanki.hi.is, sem Einar segir reyndar að sé því miður ekki mjög aðgengilegur vefur. „Þetta orðasafn mitt er þar inni sem sérstakt aðgreint safn en er þó engu að síður hugsað sem viðbót við Líforðasafnið sem þar er fyrir. Heiti safnsins er Líforðasafn 2. Ókosturinn við þetta safn er að leitarvélarnar eru ófullkomnar og stundum dálítið tafsamt að finna það sem leitað er að. Sérstaklega þar sem við erum svo góðu vön þegar notaðar eru við stóru leitarvélarnar hjá Google og Yahoo. Ég veit að þeir sem unnið hafa að þessum vef hafa lengi óskað eftir að fá fjármagn til að uppfæra hann og endurnýja. Vonandi tekst það.“
Einar segir þetta verkefni sitt vera lítinn hluta af miklu stærri umræðu sem snýst um framtíð íslenskrar tungu og notkun hennar í síbreytilegum heimi vísindanna. „Margir eru starfandi í alþjóðlegu samhengi og nota mikið ensku til að eiga samskipti á sínum fræðasviðum. Engu að síður þarf að vera mögulegt að tala og skrifa um fræðin á íslensku því ef orðaforðinn er ekki til staðar hverfur sá möguleiki. Það er stór sneið af okkar vísindasamfélagi ef lífvísindageirinn hættir að tala íslensku sín á milli um fræðin. Það má ekki gerast.“