02. tbl. 102. árg. 2016

Fræðigrein

Árangur aðgerða vegna bráðrar ósæðarflysjunar af gerð A á Íslandi

Outcomes of acute type A aortic dissection repairs in Iceland

doi: 10.17992/lbl.2016.02.64

Ágrip

Inngangur: Ósæðarflysjun í brjóstholshluta ósæðar er lífshættulegur sjúkdómur sem krefst flókinnar meðferðar þar sem tíðni fylgikvilla er há. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur skurðaðgerða sem framkvæmdar hafa verið á Íslandi vegna bráðrar ósæðarflysjunar af Stanford-gerð A en slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 45 sjúklingum (meðalaldur 68,8, 68,9% karlar) sem gengust undir aðgerð vegna bráðrar ósæðarflysjunar af gerð A á Landspítala frá 1992 til 2014. Úr sjúkraskrám var safnað saman breytum sem tengdust heilsufarssögu, aðgerðartengdum þáttum og fylgikvillum. Heildarlifun var reiknuð með aðferð Kaplan-Meier en meðaltal eftirfylgdar var 55,6 mánuðir.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 45 aðgerðir á tímabilinu þar sem tæplega þrír fjórðu aðgerða (73,3%) var framkvæmdur á seinni hluta rannsóknartímabilsins. Tæplega helmingur (46,7%) sjúklinga voru í losti við komu á sjúkrahús og 26,7% höfðu blóðþurrðareinkenni til líffæra. Fjölskyldusaga um ósæðarflysjun var til staðar hjá 15,5% sjúklinga. Ósæðinni var skipt út með Dacron®-gerviæð í 86,7% tilfella, hjá tæplega þriðjungi sjúklinga þurfti að skipta út ósæðarrót og hjá 31,1% sjúklinga var blóðrás stöðvuð í kælingu. Meiriháttar fylgikvillar greindust eftir aðgerð hjá 60,1% sjúklinga þar sem enduraðgerð vegna blæðingar (29,3%) og heilablóðfall (14,6%) voru algengastir. Tíu sjúklingar létust innan 30 daga frá aðgerð (22,2%). Lifun 5 og 10 árum frá aðgerð var 71,4% ± 8,2%  og 65,4% ± 9,4%.

Ályktun: Aðgerðum vegna ósæðarflysjunar í rishluta ósæðar hefur fjölgað umtalsvert á síðastliðnum áratug hér á landi. Fylgikvillar eru tíðir, sérstaklega enduraðgerðir en dánartíðni skemmri 30 daga og langtímalifun eru sambærilegar við erlendar rannsóknir.


 

Inngangur

Ósæðarflysjun er lífshættulegur sjúkdómur þar sem dánartíðni er há og tíðni fylgikvilla umtalsverð.Við bráða ósæðarflysjun verður rof á innsta lagi ósæðar (intima) þannig að blóðið klýfur sig á milli laga og myndar aukahólf (false lumen) milli innsta og ysta lag æðarinnar. Flysjun í brjóstholshluta ósæðar er oftast skipt í tvennt samkvæmt svokallaðri Stanford-flokkun: í gerð A sem felur í sér flysjun í rishluta ósæðar, og gerð B sem tekur til fallhluta ósæðar en þá eru upptökin handan við vinstri viðbeinsslagæð (subclavian artery).2

Helstu áhættuþættir ósæðarflysjunar eru háþrýst-ingur og ósæðargúlpar en einnig bandvefssjúk-dómar eins og Marfans-heilkenni, æðakölkun og tvíblöðku ósæðarloka.Veikleiki í stoðvef ósæðarveggjar er talinn auka líkur einstaklings á að fá ósæðarflysjun. Flysjun getur orðið án undanfarandi einkenna en stundum er hún tengd skyndilegri hækkun á blóðþrýstingi.Algengustu einkenni og teikn flysjunar eru skyndilegur brjóstverkur sem leiðir aftur í bak, yfirlið og lágur blóðþrýstingur. Einnig má nefna einkenni sem rekja má til blóðþurrðar til líffæra, til dæmis ef flysjun truflar blóðflæði í gegnum æðar til líffæra (malperfusion) og veldur þannig heilaáfalli, hjartabilun eða kvið- og útlimaverkjum.4

Meðferð ósæðarflysjunar ræðst af því hvort um gerð A eða B er að ræða. Sjúklingar með gerð A eru nær alltaf teknir í bráðaskurðaðgerð vegna hættu á rofi á ósæð sem getur leitt til skyndidauða vegna blæðingarlosts eða losts sem stafar af blæðingu í gollurshús sem veldur hjartaþröng (cardiac tamponade).Einnig er hætta á blóðþurrð til hjarta ef kransæðaop lokast eða bráðum ósæðarlokuleka, nái flysjunin að ósæðarrótinni. Skurðaðgerðir hjá þessum sjúklingum eru flóknar og umfangsmiklar. Fylgikvillar eru því tíðir, eins og blæðingar, nýrnaskaði, öndunar- og fjöllíffærabilun sem auka legutíma og kostnað.6-8

Tilgangur rannsóknarinnar var því að kanna árangur aðgerða vegna bráðrar ósæðarflysjunar af gerð A á Íslandi, bæði með tilliti til snemmkominna fylgikvilla, dánartíðni innan 30 daga (skurðdauða) og langtímalifunar.

 

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir aðgerð vegna bráðrar ósæðarflysjunar af gerð A á Landspítala á tímabilinu frá 1. janúar 1992 til 31. desember 2014. Leitað var í sjúkraskrá Landspítala að ICD 9 og ICD 10 grein-ingarkóðum fyrir ósæðarflysjun, ósæðarvíkkun og flysjun á slagæð. Einnig var leitað að kóðum í aðgerðaskrá hjarta- og lungnaskurðdeildar spítalans sem vísuðu á einhvers konar aðgerð á ósæð í brjóstholi. Alls gengust 45 manns undir aðgerð á þessu 23 ára tímabili og voru allir teknir með í rannsóknina. Fjórir skurðlæknar framkvæmdu aðgerðirnar.

Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru skráðar samtals 146 breytur, þar á meðal aldur, kyn, áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma, saga um kransæðasjúkdóm, langvinna lungnateppu, langvinna nýrnabilun, hjartaaðgerðir, fjölskyldusaga um ósæðarflysjun, hvort um tvíblöðku ósæðarloku var að ræða og hvort bandvefssjúkdómar eins og Marfan- og Ehlers-Danlos-heilkenni hefðu áður greinst. Einnig voru skráð einkenni við komu á sjúkrahús, tímalengd frá greiningu til aðgerðar, einkenni blóðþurrðar frá helstu líffærakerfum ásamt myndgreiningaraðferð sem leiddir til greiningar flysjunar. Blóðþurrðareinkenni voru skilgreind út frá klínískum einkennum og teiknum sem bentu til skerts blóðflæðis til viðkomandi líffærakerfis. Þar má nefna ST-breytingar á hjartalínuriti eða hækkun á  hjartavakanum CK-MB, heilablóðfall, veika eða upphafna púlsa og skert skyn eða styrk í útlimum, nýja hækkun á kreatíníni í blóði eða engan þvagútskilnað við komu á sjúkrahús, lömun í neðri útlimum, kviðverki eða hækkun á laktati í sermi.

Til að staðfesta að þessi einkenni væru vegna blóðþurrðar þurfti að sýna fram á flysjun til viðkomandi æðagreina með myndgreiningarrannsókn fyrir aðgerð eða við beina skoðun æðagreina í aðgerðinni sjálfri. Hæð og þyngd var skráð samkvæmt svæfingarblöðum og út frá þeim upplýsingum reiknaður líkamsþyngdarstuðull (body mass index, BMI). Einnig var EuroSCORE II reiknað út fyrir alla sjúklinga, en það er áhættulíkan til að meta dánarlíkur innan 30 daga frá hjartaskurðaðgerð.9

Af aðgerðartengdum breytum var skráð hvernig sjúklingur var tengdur við hjarta- og lungnavél (canylation), hversu stórum hluta ósæðar var skipt út eða hvort hægt var að gera við ósæðarlokuna. Einnig var safnað upplýsingum um hvort notuð var blóðrásarstöðvun í djúpri kælingu (hypothermic circulatory arrest), tími í hjarta- og lungnavél, tangar- (aortic cross clamp time) og aðgerðartími (skin-to-skin). Skráð var hversu mikil blæðing kom í brjósthols-kera fyrstu 24 klukkustundirnar eftir aðgerð, tími í öndunarvél í klukkustundum og magn blóðhlutagjafa.

Skráðir voru fylgikvillar eftir aðgerð allt til útskriftar af sjúkrahúsi, eða fram að andláti ef sjúklingur lést fyrir útskrift. Fylgikvillarnir voru flokkaðir í alvarlega og minniháttar. Alvarlegir fylgikvillar voru enduraðgerð vegna blæðingar, aðrar enduraðgerðir á hjarta, djúp sýking í bringubeinsskurði, bráður nýrnaskaði sem þarfnaðist blóðskilunar, öndunarbilun sem krafðist barkaraufunar (tracheostomy), heilaáfall og hjartadrep tengt aðgerð sem var skilgreint sem hækkun á hjartaensíminu CK-MB yfir 70 µg/L eftir aðgerð. Nýrnaáverki eftir aðgerð var flokkaður eftir RIFLE-skilmerkjum í RISK, INJURY, FAILURE eða LOSS.10 Til minniháttar fylgikvilla töldust hjartsláttartruflanir, yfirborðssýking í skurðsári, þvagfærasýking, lungnabólga, aftöppun á fleiðruvökva og afturkræf blóðþurrð í heila (transient ischemic attack, TIA). Legutími var skráður í dögum, bæði á gjörgæslu og legudeild. Loks var athugað hversu margir létust innan 30 daga frá aðgerð, sem er hefðbundin skilgreining á skurðdauða (operative mortality).

Tölfræði

Upplýsingar voru skráðar í forritið Microsoft Excel® (Microsoft, Redmond WA) og forritið SPSS® (IBM, Armonk, NY) var notað í tölfræðilega útreikninga. Aðferð Kaplan-Meier var notuð til að áætla heildarlifun (overall survival) og miðast útreikningar við 31. desember 2014. Dánardagur var skráður samkvæmt upplýsingum frá Dánarmeinaskrá landlæknis sem skráð er í Sögukerfi. Meðaltal eftirfylgdar var 4,6 ár (bil: 0-22,7 ár), eða samtals 208 sjúklingaár. Áður en rannsóknin hófst fengust tilskilin leyfi frá Persónuvernd, Vísindasiðanefnd og framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala.

 

Niðurstöður

Að meðaltali voru framkvæmdar tvær aðgerðir á ári á þeim 23 árum sem rannsóknin náði til. Aðgerðum fjölgaði marktækt úr 12 aðgerðum (26,7%) á fyrri hluta tímabilsins (1992-2002) í 33 (73,3%) á því síðara (2003-2014) (p=0,02), en þá voru framkvæmdar að meðaltali 2,8 aðgerðir á hverju ári (mynd 1).

Yfirlit yfir sjúklinga má sjá í töflu I. Karlmenn voru 31 talsins (68,9%) og meðalaldur var 60,8 ± 13,9 ár þar sem yngsti sjúklingurinn var 21 árs og sá elsti 80 ára. Rúmlega helmingur sjúklinga 23/45 (56,4%) höfðu þekkta greiningu um háþrýsting samkvæmt upplýsingum úr sjúkraskrá en af þeim tóku 9/23 (39,1%) engin blóðþrýstingslækkandi lyf. Alls höfðu 56,4% sjúklinga einhvern tíma reykt. Fjölskyldusaga um ósæðarflysjun var til staðar hjá 7 (15,6%) sjúklingum og jafnstórt hlutfall var með þekktan ósæðargúlp í ósæðarrót. Þessir tveir áhættuþættir fóru þó ekki saman nema hjá tveimur sjúklingum.

Einkenni og rannsóknir til greiningar eru sýnd í töflu II. Allir, að tveimur sjúklingum undanskildum (95,6%), voru með brjóstverk við komu, tæpur þriðjungur (28,9%) hafði sögu um yfirlið, 46,7% sjúklinga voru með slagbilsblóðþrýsting <90 mmHg við komu á sjúkrahús og 31,1% voru með hjartaþröng sem annaðhvort var greind í aðgerð eða fyrir aðgerð á hjartaómun. Blóðþurrðareinkenni til líffæra voru til staðar hjá 26,7% sjúklinga og var blóðþurrð vegna flysjunar algengust í útlimum (11,1%) og hjarta (11,1%).

Oft var stuðst við fleiri en eina myndgreiningarrannsókn til að staðfesta flysjun en tölvusneiðmynd var gerð í 93,3% tilfella og hjartaómun í 66,7% tilfella. Mesta þvermál rishluta ósæðar við greiningu með myndrannsóknum (tölvusneiðmynd og hjartaómun) var að meðaltali 53,3 ± 10,8 mm í þvermál (bil: 39-87). Bráð kransæðaþræðing fyrir aðgerð var gerð hjá 13 sjúklingum (28,9%) en ástæða þræðingar var grunur um kransæðastíflu hjá 6 sjúklingum en í öðrum 5 tilfellum var hjartaþræðing gerð til að kanna ástand kransæða fyrir aðgerð. Hjá tveimur sjúklingum varð ósæðarflysjun í kjölfar hjartaþræðingar (iatrogenic).

Miðgildi tíma frá innlögn á Landspítala þar til aðgerð var framkvæmd var 7,3 klst, en að meðaltali 147 ± 143 klst. Munurinn á miðgildi og meðaltali skýrist aðallega af tveimur sjúklingum sem við innlögn voru taldir of veikir fyrir aðgerð en gengust undir aðgerð 14 og 37 dögum síðar.

Aðgerðatengdir þættir eru sýndir í töflu III. Upphafsstaður flysjunar (primary tear) var í rishluta ósæðar hjá 18 (40,0%) sjúklingum, við ósæðarrót hjá 10 (22,2%) og í ósæðarboga í 7 (15,6%) tilfellum. Óljóst var hvar upphafsstaður flysjunar væri hjá 10 sjúklingum (22,2%). Rótarskipti (aortic root replacement) voru gerð hjá 14 (31,1%) sjúklingum og hjá 10 þeirra þurfti einnig að skipta um ósæðarloku en hjá fjórum var lokan varðveitt (valve sparing root replacement). Ósæðinni var skipt út með Dacron®-gerviæð í 86,7% tilfella en hjá fjórum einstaklingum var komið fyrir stífri innæðagerviæð (intraluminal ring graft) í flysjaða rishluta ósæðar í opinni aðgerð. Síðarnefndu aðgerðirnar voru allar gerðar á nokkurra ára tímabili á fyrri hluta tímabilsins og þessi tækni hefur ekki verið notuð á Íslandi síðan 1995. Í einu tilfelli var ekki notast við gerviæð heldur voru lög ósæðar saumuð saman. Fimm sjúklingar (11,1%) gengust undir kransæðahjáveitu samtímis aðgerð á ósæð. Notuð var blóðrásarstöðvun í djúpri kælingu hjá 14 (31,1%) sjúklingum og var meðallengd blóðrásarstöðvunar 30 ± 18 mínútur. Notkun á blóðrásarstöðvun í djúpri kælingu jókst marktækt á rannsóknartímabilinu og síðustu 6 árin (2009-2014) voru 47,8% aðgerða framkvæmdar á þann hátt, miðað við 13,6% fyrir 2008 (p=0,04). Aðgerðirnar tóku að meðaltali 394 ± 162 mínútur (bil: 207-944), þar af var tími í hjarta- og lungnavél  213 ± 87 mínútur (bil: 75-477) og meðaltangartími 114 ± 58 mínútur (bil: 18-327).

Blæðing eftir aðgerð og notkun blóðhluta hjá sjúklingum sem lifðu aðgerðina og lögðust inn á gjörgæslu er sýnd í töflu IV. Allir sjúklingarnir fengu bæði rauðkornaþykkni og blóðvökva eftir aðgerð og öllum nema fjórum voru gefnar blóðflögur (91,1%). Fíbrínógen fengu 27 einstaklingar (60,0%), tranexam-sýra var gefin í 29 tilfellum (64,4%) og virkjaður faktor VII í 11 (24,4%) tilfellum.  

Fylgikvillar eftir aðgerð eru sýndir í töflu V. Alvarlegir fylgikvillar greindust hjá 60,1% sjúklinga. Algengastir voru enduraðgerð vegna blæðinga (29,3%), en tveir sjúklingar fóru í slíka enduraðgerð oftar en einu sinni og hjá 7 (17,1%) þurfti að skilja brjóstholið eftir opið vegna mikilla blæðinga. Aðrir alvarlegir fylgikvillar voru hjartadrep eftir aðgerð (20,0%) og heilaáfall (14,6%). Minniháttar fylgikvillar greindust hjá 87,8% sjúklinga og var meðferð í öndunarvél lengur en 48 klukkustundir algengust (63,4%) ásamt nýkomnu gáttatifi/flökti (63,4%) og aftöppun á fleiðruvökva (36,6%). Tími í öndunarvél eftir aðgerð var að meðaltali 68 klukkustundir (± 393, bil: 13-2477). Upplýsingar um kreatínín-mælingu lágu fyrir hjá 40 sjúklingum. Nýrnaskaði samkvæmt skilmerkjum RIFLE greindist hjá 19 þeirra (47,5%), þar af voru 9 (22,5%) í RISK-flokki, 3 (7,5%) í INJURY- og 7 í FAILURE-flokki (17,5%).10

Þörf var á nýrnaskilun eftir aðgerð hjá fjórum sjúklingum en enginn þeirra fékk langvarandi nýrnabilun. Tveir sjúklingar þurftu að gangast undir endurteknar aðgerðir á neðri útlimum vegna blóðþurrðar í ganglimum en í hvorugu tilfellinu þurfti að grípa til aflimunar. Miðgildi legutíma á gjörgæslu voru 5 dagar (bil: 1-61) en heildarlegutími á sjúkrahúsi voru 17 dagar (bil: 1-125).

Tíu sjúklingar (22,2%) létust innan 30 daga eftir aðgerð, þar af fjórir á skurðstofu. Ekki var marktækur munur á dánartíðni á milli fyrri og síðari hluta rannsóknartímabilsins (25% á móti 21%, p=0,79). Heildarlifun var 71,4% ± 8,2% eftir 5 ár og 65,4% ± 9,4% 10 árum eftir aðgerð.

 

Umræða

Ósæðarflysjun er tiltölulega sjaldgæfur en lífshættulegur sjúkdómur sem er bæði erfitt að greina og meðhöndla. Þetta er fyrsta rannsóknin þar sem árangur aðgerða vegna ósæðarflysjunar af gerð A á Íslandi er kannaður en aðgerðirnar voru allar fram-kvæmdar á einni stofnun af aðeins fjórum skurðlæknum.

Á fyrri hluta tímabilsins var gerð um það bil ein aðgerð á ári en þeim fjölgaði verulega á síðari hluta tímabilsins, og á árunum 2012-2014 voru þær rúmlega 5 á ári. Ástæða þessarar fjölgunar er ekki augljós en í erlendum rannsóknum hefur verið lýst aukinni tíðni bæði gúlpa í brjóstholshluta ósæðar og flysjunar.11Hugsanlega getur bætt aðgengi að myndgreiningu og vitundarvakning um sjúkdóminn hin síðari ár skýrt hluta af þessari aukningu. Einnig er hugsanlegt að í byrjun rannsóknartímabilsins hafi sjúklingum ekki alltaf verið boðið upp á aðgerð þar sem reynsla af slíkum aðgerðum hér á landi var takmörkuð þá. Á næstu árum verður vonandi hægt að svara þessum vangaveltum, en í gangi er rannsókn á nýgengi ósæðarflysjunar á Íslandi þar sem einnig er litið á sjúklinga sem ekki gengust undir aðgerð, meðal annars með því að fara yfir krufningaskýrslur og allar sjúkrahúslegur á Íslandi sem tengjast ósæðarflysjun.   

Sjúklingar voru margir alvarlega veikir við komu á sjúkrahús, til dæmis var nær helmingur þeirra í losti (með lágan blóðþrýsting) og þriðjungur hafði einkenni um hjartaþröng. Einnig hafði fjórðungur sjúklinga einkenni blóðþurrðar til líffæra, sem er svipað hlutfall og í erlendum rannsóknum þar sem því er lýst í 25-31% tilfella.4,12,13 Ástand sjúklings við komu á sjúkrahús hefur verulegt forspárgildi um skammtímalifun, en sjúklingar með bæði hjartaöng og blóðþurrðareinkenni við komu eru í rúmlega áttfaldri hættu á dauða eftir aðgerð borið saman við þá sem eru án slíkra einkenna.14

Tölvusneiðmyndataka var langalgengasta myndgreiningar-aðferðin sem leiddi til greiningar flysjunar. Hún er fljótleg og tiltölulega einföld í framkvæmd en krefst þó gjafar skuggaefnis sem getur valdið nýrnaskaða.15 Um fjórðungur sjúklinga fór í hjartaþræðingu fyrir skurðaðgerð; annaðhvort sem hluta af uppvinnslu brjóstverkja eða til að meta ástand kransæða. Í dag er ekki mælt með kransæðamyndatöku ef greining flysjunar liggur fyrir þar sem tíðni alvarlegs kransæðasjúkdóms er lág og kransæðaþrengsli hafa sjaldan áhrif á árangur aðgerðar. Einnig getur kransæðaþræðing valdið rofi á flysjaðri ósæð.4,16

Aðgerðartækni var mjög breytileg eftir tímabilum og fór eftir skurðlæknum en breyttist jafnvel hjá sama skurðlækni á þeim 23 árum sem rannsóknin náði til. Breytingar á aðgerðartækni hér á landi hefur fylgt eftir þróuninni erlendis.7,17-23 Það á ekki síst við um aukna notkun blóðrásarstöðvunar í kælingu eftir því sem leið á rannsóknartímabilið.18

Tíðni fylgikvilla var há, sérstaklega tíðni enduraðgerðar vegna blæðinga. Tæplega þriðjungur sjúklinga (29,3%) þurfti enduraðgerð, þar af tveir sem þurftu fleiri en eina enduraðgerð. Hjá 7 af 12 þessara sjúklinga þurfti að skilja brjóstholið eftir opið til að minnka líkur á hjartaþröng, og þeim síðan lokað þegar blæðing hafði stöðvast. Í flestum erlendum rannsóknum er hlutfall enduraðgerða vegna blæðinga nokkru lægra, eða á bilinu 6-19%.4,24 Ástæða tíðra enduraðgerða vegna blæðinga er ekki ljós en tíðni enduraðgerða hefur einnig verið há eftir aðrar hjartaaðgerðir á Íslandi.25 Það getur verið að sá þröskuldur sem notast er við til að taka sjúkling í enduraðgerð sé lægri hér á landi en erlendis, til dæmis viðmið um magn blæðingar fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð. Hér er þó sóknarfæri til að bæta árangur og fækka enduraðgerðum vegna blæðinga. Tíðni annarra fylgikvilla eins og heilablóðfalls, nýrnabilunar sem krafðist blóðskilunar og alvarlegrar öndunarbilunar var svipuð og í erlendum rannsóknum.4

Dánarhlutfall innan 30 daga var 22,2% sem er sambærilegt og í IRAD-rannsókninni (International Registry of Aortic Dissection) sem er ein sú stærsta sinnar tegundar, en þar var 30 daga dánartíðni 26%.1,8 Á stærri sjúkrahúsum erlendis sem sérhæfa sig í meðferð ósæðarflysjunar er 30 daga dánartíðni lægri en hér á landi, eða allt niður í 3% en oftar á bilinu 10-13%.7,26 Þó verður að varast beinan samanburð þar sem sjúklingaþýði í rannsóknum getur verið mismunandi. Þannig er hugsanlegt að á sérhæfðustu sjúkrahúsum erlendis séu veikustu sjúklingarnir látnir áður en þeir ná á sjúkrahús, enda flutningstími lengri en hér á landi. Einnig sýna rannsóknir að reynsla bæði skurðlækna og sjúkrahúsa af þessum aðgerðum skiptir verulegu máli, til dæmis er 30 daga dánartíðni eftir skurðaðgerð lægri hjá skurðlæknum sem gera fleiri en 5 aðgerðir á ári og á sjúkrahúsum þar sem framkvæmdar eru fleiri en 13 aðgerðir á ári.27 Þetta á því ekki við hér á landi þar sem árlegur fjöldi aðgerða er undir þessum mörkum.  

Í þessari rannsókn mældist 5 ára lifun 71,4 og 10 ára lifun 65,4 sem er sambærilegt við erlendar rannsóknir, þar sem 5 ára lifun er á bilinu 72-77% og 10 ára lifun 53-56%.7,21,28

Styrkleiki þessarar rannsóknar er að hún nær til heillar þjóðar. Sjúklingarnir voru meðhöndlaðir á sömu stofnun af fjórum skurðlæknum. Auk þess var eftirfylgd sjúklinga hvað varðar lifun nánast 100%. Veikleiki við rannsóknina er að sjúklingaþýðið er frekar lítið. Einnig tók aðgerðartækni nokkrum breytingum á tímabilinu sem gerir erfiðara að leggja mat á árangur mismunandi aðgerða eða bera árangur okkar saman við erlendar rannsóknir.  

Þetta er fyrsta rannsókn á ósæðarflysjun af gerð A sem gerð er á Íslandi. Aðgerðum hefur fjölgað umtalsvert á síðasta áratug án þess að skýringin sé þekkt. Ekki sást marktæk breyting á lífslíkum þessara sjúklinga á rannsóknartímabilinu, enda um fá tilfelli að ræða. Fylgikvillar eru tíðir en árangur þessara flóknu aðgerða er í megindráttum sambærilegur við erlendar rannsóknir. Það verður að teljast jákvætt, ekki síst þegar litið er til þess hversu fá tilfelli greinast árlega hér á landi.

 

Þakkir

Þakkir fær Gunnhildur Jóhannsdóttir skrifstofustjóri á skurðsviði Landspítala fyrir aðstoð við öflun sjúkraskráa.

 

Heimildir

1. Hagan PG, Nienaber CA, Isselbacher EM, Bruckman D, Karavite DJ, Russman PL, et al. The International Registry of Acute Aortic Dissection (IRAD): New Insights Into an Old Disease. JAMA 2000; 283: 897-903.
http://dx.doi.org/10.1001/jama.283.7.897

PMid:10685714

 
2. Daily PO, Trueblood HW, Stinson EB, Wuerflein RD, Shumway NE. Managment of acute aortic dissections. Ann Thor Surg 1970; 10: 237-47.
http://dx.doi.org/10.1016/S0003-4975(10)65594-4
 
3. Hatzaras IS, Bible JE, Koullias GJ, Tranquilli M, Singh M, Elefteriades JA. Role of exertion or emotions as inciting events for acute aortic dissection. Am J Cardiol 2007; 100: 1470-2.
http://dx.doi.org/10.1016/j.amjcard.2007.06.039

PMid:17950810

 
4. Geirsson A, Szeto WY, Pochettino A, McGarvey ML, Keane MG, Woo YJ, et al. Significance of malperfusion syndromes prior to contemporary surgical repair for acute type A dissection: outcomes and need for additional revascularizations. Eur J Cardiothorac Surg 2007; 32: 255-62.
http://dx.doi.org/10.1016/j.ejcts.2007.04.012

PMid:17500002

 
5. Anagnopoulos C, Prabhakar M, Kittle C. Aortic dissections and dissecting aneurysm. Am J Cardiol 1972; 30: 263-73.
http://dx.doi.org/10.1016/0002-9149(72)90070-7
 
6. Sabik J, Lytle BW, Blackstone E, McCarthy P, Loop F, Cosgrove D. Long-term effectiveness of operations for ascending aortic dissections. J Thorac Cardiovasc Surg 2000; 119: 946-62.
http://dx.doi.org/10.1016/S0022-5223(00)70090-0
 
7. Geirsson A, Bavaria JE, Swarr D, Keane MG, Woo YJ, Szeto WY, et al. Fate of the residual distal and proximal aorta after acute type A dissection repair using a contemporary surgical reconstruction algorithm. Ann Thorac Surg 2007; 84: 1955-64.
http://dx.doi.org/10.1016/j.athoracsur.2007.07.017

PMid:18036916

 
8. Tsai T, Trimarchi S and Nienaber CA. Acute Aortic Dissection: Perspective from the internationl registry of acute aortic dissection (IRAD). Eur J Vasc Endovasc Surg 2009; 37: 149-59.
http://dx.doi.org/10.1016/j.ejvs.2008.11.032

PMid:19097813

 
9. Nashef SA, Roques F, Sharples LD, Nilsson J, Smith C, Goldstone AR, et al. EuroSCORE II. Eur J Cardiothoracic Surg 2012; 41: 734-44.
http://dx.doi.org/10.1093/ejcts/ezs043

PMid:22378855

 
10. Bellomo R, Ronco C, Kellum JA, Mehta RL, Palevsky P, Acute Dialysis Quality Initiative workgroup. Acute renal failure - definition, outcome measures, animal models, fluid therapy and information technology needs: the Second International Consensus Conference of the Acute Dialysis Quality Initiative (ADQI) Group. Crit Care 2004; 8: R204-12.
http://dx.doi.org/10.1186/cc2671
http://dx.doi.org/10.1186/cc2872

PMid:15312219


PMCid:PMC522841

 
11. Olsson C, Thelin S, Stahle E, Ekbom A, Granath F. Thoracic aortic aneurysm and dissection. Increasing prevalence and improved outcomes reported in a nationwide population-based study of more than 14000 cases from 1987-2002. Circulation 2006; 114: 2611-8.
http://dx.doi.org/10.1161/CIRCULATIONAHA.106.630400

PMid:17145990

 
12. Fann J, Smith J, Miller D, Mitchell R, Moore K, Grunkemeier G, et al. Surgical management of aortic dissection during a 30-year period. Circulation 1995; 92: II113-II121.
http://dx.doi.org/10.1161/01.CIR.92.9.113

PMid:7586393

 
13. Girardi L, Krieger K, Lee L, Mack C, Tortolani A, Isom O. Management strategies for type A disseciton complicated by peripheral vascular malperfusion. Ann Thorac Surg 2004; 77: 1309-14.
http://dx.doi.org/10.1016/j.athoracsur.2003.09.056

PMid:15063257

 
14. Augoustides JG, Geirsson A, Szeto WY, Walsh EK, Cornelius B, Pochettino AE, et al. Observational study of mortality risk stratification by ischemic presentation in patients with acute type A aortic dissection: the Penn classification. Nat Clin Pract Cardiovasc Med 2009; 6: 1-7.
 
15. Aspelin P, Aubry P, Fransson SG, Strasser R, Willenbrock R, Berg KJ. Nephrotoxic effects in high-risk patients undergoing angiography. N Engl J M 2003; 348: 91-9.
http://dx.doi.org/10.1056/NEJMoa021833

PMid:12571256

 
16. Creswell L, Kouchoukos NT, Cox J, Rosenbloom M. Coronary artery disease in patients with type A aortic dissection. Ann Thorac Surg 1995; 59: 585-90.
http://dx.doi.org/10.1016/0003-4975(94)00880-9
 
17. Moon MR, Sundt III TM, Pasque MK, Barner HB, Huddleston CB, Damiano RJ, et al. Does the extent of proximal or distal resection influence outcome for type A dissection. Ann Thorac Surg 2001; 1: 1244-50.
http://dx.doi.org/10.1016/S0003-4975(00)02610-2
 
18. Lai DT, Robbins RC, Mitchell RS, Moore KA, Oyer PE, Shumway NE, et al. Does Profound hypothermic circulatory arrest improve survival in patients with acute type A aortic dissection? Circulation 2002; 106: I218-I228.

PMid:12354737

 
19. Ohtsubo S, Itoh T, Takarabe K, Rikitake K, Furukawa K, Suda H, et al. Surgical results of hemiarch replacement for acute type A dissection. Ann Thorac Surg 2002; 74: S1853-S1856.
http://dx.doi.org/10.1016/S0003-4975(02)04133-4
 
20. Erasmi A, Stierle U, Bechtel J, Schmidtke C, Sievers H, Kraatz E. Up to 7 years' experience with valve-sparing aortic root remodeling/reimplantation for acute type A aortic dissection. Ann Thorac Surg 2003; 76: 99-104.
http://dx.doi.org/10.1016/S0003-4975(03)00262-5
 
21. Halstead JC, Meier M, Etz C, Spielvogel D, Bodian C, Wurm M, et al. The fate of the distal aorta after repair of acute type A aortic dissection. J Thorac Cardiovasc Surg 2007; 133: 127-35.
http://dx.doi.org/10.1016/j.jtcvs.2006.07.043

PMid:17198797

 
22. Golledge J, Eagle KA. Acute aortic dissection. Lancet 2008; 372: 55-66.
http://dx.doi.org/10.1016/S0140-6736(08)60994-0
 
23. Uchida N, Shibamura H, Katayama A, Shimada N, Sutoh M, Ishihara H. Operative strategy for acute type A aortic dissection: ascending aortic or hemiarch versus total arch replacement with frozen elephant trunk. Ann Thorac Surg 2009; 87: 773-7.
http://dx.doi.org/10.1016/j.athoracsur.2008.11.061

PMid:19231387

 
24. Olsson C, Franco-Cereceda A. Impact of organ failure and major complications on outcome in acute Type A aortic dissection. Scand Cardiovasc J 2013; 47: 52-8.
http://dx.doi.org/10.3109/14017431.2013.845307
 
25. Smárason NV, Sigurjónsson H, Hreinsson K, Arnórsson Þ, Guðbjartsson T. Enduraðgerðir vegna blæðinga eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi. Læknablaðið 2009; 95: 567-53.

PMid:19738291

 
26. Andersen ND, Ganapathi AM, Hanna JM, Williams JB, Gaca JG, Hughes GC. Outcomes of acute type a dissection repair before and after implementation of a multidisciplinary thoracic aortic surgery program. J Am Coll Cardiol 2014; 63: 1796-803.
http://dx.doi.org/10.1016/j.jacc.2013.10.085

PMid:24412454


PMCid:PMC4159705

 
27. Chikwe J, Cavallaro P, Itagaki S, Seigerman M, DiLuozzo G, Adams DH. National outcomes in acute aortic dissection: Influence of surgeon and institutional volume on operative mortality. Ann Thorac Surg 2013; 95: 1563-9.
http://dx.doi.org/10.1016/j.athoracsur.2013.02.039

PMid:23562465

 
28. Zierer A, Voeller RK, Hills KE, Kouchoukos NT, Damiano RJ, Moon MR. Aortic enlargement and late reoperation after repair fo acute type A aortic dissection. Ann Thorac Surg 2007; 84: 479-87.
http://dx.doi.org/10.1016/j.athoracsur.2007.03.084

PMid:17643619
Þetta vefsvæði byggir á Eplica