02. tbl. 102. árg. 2016

Ritstjórnargrein

Brýnasta verkefni lækna

Arna Guðmundsdóttir innkirtlalæknir á Landspítala og formaður Læknafélags Reykjavíkur

doi: 10.17992/lbl.2016.02.63

Íslensk þjóð virðist einhuga um að brýnasta verkefni næstu missera og ára sé endurreisn heilbrigðiskerfisins. Í þeim efnum skiptir Landspítalinn miklu máli – en langt í frá öllu. Styrking hans í húsnæði, tækjabúnaði, mannafla, vísindastörfum og kennslu er afar mikilvæg og verðskuldar allt það kastljós sem nauðsynlegt er til að knýja á um breytingar. En gríðarleg tækifæri eru jafnframt fólgin í breyttu rekstrarfyrirkomulagi og stóraukinni þjónustu heilsugæslunnar, eflingu smærri sjúkrahúsa og auknu framlagi einkarekinnar þjónustu sérfræðilækna.

Fráflæðisvandi spítalans hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Engum dylst mikilvægi þess bæði fyrir spítalann og skjólstæðinga hans að sjúkrarúmin séu ekki upptekin vegna fólks sem ekki er lengur bráðveikt. Hin hliðin á peningnum, það er aðflæðið, fær minni athygli. Þeim megin má þó ef til vill finna rót vandans eða að minnsta kosti leiðir til að draga verulega úr honum. Það er full ástæða til að skoða það vandlega hvernig draga megi úr innlögnum á Landspítalann, heimsóknum á bráðamóttöku hans og eftirspurn eftir þjónustu á göngudeildum. Ekki er ólíklegt að leysa megi talsverðan hluta fráflæðisvandans með minnkandi aðflæði og ekki er heldur ólíklegt að með því gætu sparast umtalsverðir fjármunir. Það dæmi þarf að reikna til enda.

Efling heilsugæslunnar er augljós valkostur. Fjölgun heimilislækna og aukið svigrúm þeirra til þess að þjóna skjólstæðingum sínum gæti í þessum efnum skipt miklu máli. Önnur þjónusta á heilsugæslu, svo sem barnalækna og annarra sérfræðilækna, sálfræðinga og fleiri, gæti dregið úr álagi á spítalann og sama gildir að sjálfsögðu ef starfsemi minni sjúkrahúsanna, sem svo mjög hefur verið tónuð niður eða jafnvel lögð af á undanförnum árum, verður efld á nýjan leik. Sömuleiðis er enginn vafi á því að aukin verkefni sjálfstætt starfandi sérfræðilækna gæti létt talsvert á álaginu. Með stöðlun gæða og eðlilegu gæðaeftirliti verkkaupans, það er ríkisins, er engum vandkvæðum bundið að tryggja afburða þjónustu hvar sem hún er innt af hendi.

Lokun á nýliðun lækna á rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands skýtur því skökku við á þessum tímum þegar ástandið er eins og að ofan er lýst. Eðlilegra hefði talist að Embætti landlæknis sinnti lögbundnu hlutverki sínu með hraði til að tefja ekki fyrir nauðsynlegri nýliðun og að Sjúkratryggingar myndu að sama skapi fjölga sérfræðilæknum á samningi þar sem þörfin fyrir þjónustu er mest og biðlistar jafnvel svo mánuðum skiptir. Nærtækt er að nefna bið eftir tíma hjá innkirtlalækni sem nú er um fjórir mánuðir og það jafnvel þó lokað hafi verið fyrir tímabókanir án tilvísunar frá öðrum læknum fyrir mörgum árum síðan. Þessi bið endurspeglar ánægju almennings með þjónustuna enda er þriðjungi af öllum komum til lækna á Íslandi í dag sinnt af sérfræðilæknum á stofu, 1900 læknisheimsóknir á hverjum virkum degi.

Fyrsta skrefið til að bregðast hratt við bráðum vanda er að eyða tortryggni í garð einkareksturs og um leið að eyða þeim misskilningi að hann sé undanfari einhverskonar einkavæðingar innan heilbrigðiskerfisins. Íslendingar vilja byggja heilbrigðisþjónustu sína á félagslegum grunni rétt eins og Norðurlandaþjóðirnar. Læknar eru þar engin undantekning. Svokallaðir stofulæknar í einkarekstri eru það ekki heldur. Þeir vilja áfram sinna störfum sínum innan rammasamningsins við ríkisvaldið og leggja þannig sitt af mörkum til hagræðingar í heilbrigðiskerfinu annars vegar og jafns aðgengis landsmanna að fyrsta flokks læknisþjónustu hins vegar.

Einkavæðing með sjúkratryggingum að vali hvers og eins (til dæmis í Bandaríkjunum) eða með skyldutryggingum (til dæmis í Þýskalandi og Hollandi) er allt annað kerfi en það sem við kjósum okkur. Einkavæðing er líka allt annað hugtak en einkarekstur enda þótt fjölmargir, og þá ekki síst ákveðinn hópur stjórnmálamanna, kjósi að rugla þessu tvennu saman.

Læknar geta ekki lengur vikið sér undan því að taka sem heild þátt í umræðum og verkefnum um þróun heilbrigðisþjónustunnar. Með yfirlýsingunni sem stjórnvöld og Læknafélag Íslands undirrituðu í tengslum við gerð nýrra kjarasamninga fyrir ári síðan sneru aðilar bökum saman og lýstu yfir eindregnum vilja til samstarfs um framfarir í heilbrigðiskerfinu. Í kjölfarið skipaði velferðarráðuneytið verkefnisstjórn undir forystu Björns Zoëga til að skila tillögum um betri heilbrigðisþjónustu. Höfundur þessara lína tók þátt í því starfi sem fulltrúi lækna. Nefndin skilaði tillögum sínum um miðjan desember síðastliðinn og vonandi verða einhverjar þeirra  að veruleika í náinni framtíð.

Baráttu lækna fyrir fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Íslandi lýkur aldrei. Þar verða læknar sem ein heild að leggja sitt af mörkum með margvíslegri þátttöku og hvatningu. Þeir gera mest gagn og láta best af sér leiða sem öflug liðsheild og óþreytandi málsvarar endurheimtar alþjóðlegrar samkeppnishæfni heilbrigðiskerfisins. Þar reynir á forystusveitina en einnig á samstöðu og úthald baklandsins. Þarna liggur brýnasta verkefni okkar á næstu árum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica