01. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Sérgrein. Frá formanni Skurðlæknafélags Íslands

Skurðlæknafélag Íslands (SKÍ) var stofnað þann 19. mars 1957 og er því ríflega 50 ára gamalt. Við stofnun var tilgangur félagsins aðallega sá að tryggja að skurðlæknar ættu sér sameiginlegan vettvang og gætu unnið að og fylgst með framfaramálum er vörðuðu starfið. Samskipti við skurðlækna erlendis og þá einkum félaga á hinum Norðurlöndunum var stór þáttur af tilgangi félagsins.

Talsverð gróska hefur einkennt starf félagsins í gegnum áratugina en eins og vænta má hefur eðli starfseminar breyst. Með aukinni sérhæfingu hafa hin ýmsu sérgreinafélög verið stofnuð og tekið yfir hluta starfsins og önnur störf bæst við. Á hálfrar aldar afmæli félagsins minntist stjórn SKÍ tímamótanna með því að gefa út Gjörðabók með fundargerðum félagsins frá 1957-1980. Mikill fjöldi mynda frá starfi skurðlækna á þessu tímabili prýðir bókina.

Árið 2006 öðlaðist Skurðlæknafélagið sjálfstæðan kjarasamningsrétt og hefur farið með eigin kjarasamninga síðan. Í litlu félagi, sem rétt losar 100 félaga og þar sem enginn stjórnarmanna þiggur laun, fylgir mikil vinna gerð kjarasamninga. Margir sameiginlegir snertifletir eru þó á kjaramálum Skurðlæknafélagsins og Læknafélags Íslands (LÍ). Samstarf stjórna þessara félaga er gott enda er SKÍ aðildarfélag innan raða LÍ og skrifstofa félaganna er sameiginleg. Róstur síðustu mánaða hafa ekki farið framhjá neinum og væri óskandi að slíkt þurfi ekki að endurtaka sig. Baráttan heldur þó áfram og góð samstaða félaga er undirstaða framfara og betri vinnuumhverfis allrar læknastéttarinnar.

Samhliða breytingum á samningamálum varð staða SKÍ sem aðildarfélags innan LÍ sterkara. Fjöldi félagsmanna hefur nú flutt atkvæðisrétt sinn á aðalfundi LÍ yfir til SKÍ og á félagið nú þrjá fulltrúa á aðalfundi LÍ. Með þessu geta skurðlæknar betur tekið þátt í störfum og stefnumótun LÍ en áður.

Samstarf við önnur Norðurlönd er umtalsvert og fer vaxandi með hverju ári. SKÍ er aðildarfélag elsta alþjóðlega skurðlæknafélags í heimi, Nordisk Kirurgisk Förening (NKF), en það var stofnað árið 1893. Starfsemi NKF hefur verið misvirk í tímans rás eins og gengur með forn félög með mikla sögu. Félagið stóð áður fyrir sameiginlegum vísindaþingum en í byrjun þessa áratugar var starfsemin orðin lítil og þær raddir urðu háværari sem vildu leggja félagið niður. Stjórn SKÍ var þessu mótfallin enda hefur samstarf þetta verið félaginu og íslenskum skurðlæknum til mikilla hagsbóta. Með það að augnamiði lögðum við áherslu á að þróa samstarf við NKF inn á nýjar brautir og styrkja enn frekar tengsl SKÍ við NKF. Það var meðal annars gert með því að auka áherslu á endurmenntun og samstarf einstakra skurðlækna þvert á landamæri. Sú afstaða varð ofan á og hafa fundir nú verið haldnir tvisvar á ári undanfarið þar sem unnið hefur verið að lagabreytingum. Þannig mun hvert skurðlæknafélag bjóða upp á staði fyrir félaga innan NKF þar sem boðið verður upp á sérhæfða endurmenntun í viku í senn. Enn er unnið að málum en sem dæmi má nefna að sænska skurðlæknafélagið getur nú þegar boðið upp á 9 sérhæfðar deildir sem hægt er að heimsækja. Framtíð NKF virðist þannig tryggð og ber að fagna því.

Snar þáttur í starfsemi félagsins hefur snúist um veglegt vísindaþing sem haldið er árlega. Markmið þingsins er í anda stofnenda félagsins, að rækta félagsskap íslenskra skurðlækna og um leið að skapa vettvang fyrir þá til að afla sér nýrrar þekkingar og miðla af reynslu sinni til annarra skurðlækna. Á hverju ári er fjölda erlendra fyrirlesara boðið á þingið og yngri samstarfsmönnum gefst færi á að kynna vísindaverkefni sín og treysta þannig grunn þekkingar sinnar í skurðlækningum. Fjöldi erinda er kynntur á hverju ári og ber það vitni um mikla grósku í vísindastöfum félagsmanna hversu margir leggja hönd á plóg við að gera þingið sem best úr garði. Fyrirlestrar undanfarinna ára hafa fyllt tvo daga og endar þingið með sameiginlegum hátíðarkvöldverði sem að öðrum þáttum ólöstuðum er jafnan hápunktur vel heppnaðs þings. Þingið hefur verið haldið í samstarfi við félag svæfinga- og gjörgæslulækna og sum árin með félagi fæðinga- og kvensjúkdómalækna. Þinginu hefur vaxið ásmegin með hverju ári og 18. þingið verður haldið í vor í samstarfi við framangreind félög ásamt félögum skurð- og svæfingahjúkrunarfræðinga. Vænta má að það verði það stærsta til þessa og fjöldi félagsmanna hefur lagt mikla vinnu í undirbúning – og vonandi verður áframhaldandi gróska í starfi SKÍ félagsmönnum okkar til hagsbóta um ókomna tíð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica