01. tbl. 102. árg. 2016

Umræða og fréttir

Erfðafræðikennsla fyrir lækna og annað fagfólk í grunnþjónustu

Erfðafræði er  sífellt mikilvægari þáttur í allri heilbrigðisþjónustu og þó hún sé kennd í grunnnámi lækna, er hún ekki mjög fyrirferðarmikill hluti námsins. Í daglegum praxís kemur oft upp spurning um hvort rétt sé að skoða frekar erfðaþætti og þá getur verið gott að hafa aðgengilegar upplýsingar.

Í ársbyrjun 2014 fékk hópur fagfólks í erfðafræði frá 6 Evrópulöndum (Bretlandi, Hollandi, Tékklandi, Íslandi, Ítalíu og Spáni) Erasmus-styrk til að búa til fræðslu- og kennsluefni í erfðafræði. Stjórnandi verkefnisins af hálfu

Plymouth-háskóla er Heather Skirton, formaður European Board of Medical Genetics. Með henni eru þeir Jackson Leigh kennari í lífvísindum og Peter Lunt sem hefur áratuga reynslu í erfðafræði, kennslu, rannsóknum og klíník. Frá Hollandi koma Isa Houwink heimilislæknir og Martina Cornel í VU University Medical Centre í Amsterdam. Frá Tékklandi koma Vaclava Curtisova sem er barna- og erfðalæknir og Milan Macek sem er reyndur vísindamaður, stjórnandi erfðarannsóknarstofu og erfðalæknir. Frá Íslandi kemur undirrituð, Vigdís Stefánsdóttir erfðaráðgjafi og formaður Mannerfðafræðifélags Íslands. Frá Ítalíu er Daniela Turchetti erfðafræðingur með sérþekkingu á erfðafræði krabbameina og frá Portúgal Milena Paneque erfðaráðgjafi og sálfræðingur.


Á vefinn primarycaregenetics.org er þegar komið talsvert fræðsluefni og bætist stöðugt við. Það sem þegar er komið er á ensku en verður á öllum tungumálunum sex og staðfært fyrir hvert land. Þar er einnig vísun í kennsluefni og próf sem vistað er hjá Plymouth-háskóla. Kennsluefnið er einkum ætlað læknum í grunnþjónustu en einnig hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum og öðrum sem áhuga hafa á að kynna sér erfðafræði betur. Þessi próf gefa endurmenntunareiningar eftir lengd, stysta eining gefur eina klukkustund og lengsta prófið tvær.

Fræðslu- og kennslueiningarnar fjalla um meðgöngutengd vandamál, hugsanlegt arfgengi krabbameina, hjartasjúkdóma, erfðasjúkdóma hjá börnum og efnaskiptasjúkdóma, svo eitthvað sé nefnt.

Kennsluefnið byggir á ákveðnum tilfellum en einnig eru tiltekin rauð flögg eða atriði sem gott er að hafa í huga þegar verið er að meta sjúkling og leiðir til greiningar á hans vandamálum. Von þeirra sem standa að verkefninu er að sem flestir nýti sér þessa ókeypis fræðslu og endurmenntun.

Slóðir í kennsluefnið verða á primarycaregenetics.org, vef Mannerfðafræðifélags Íslands – mannis.is og gen.is.


Fræðsluefni um krabbamein – opið öllum. Á ensku eins og er en verður einnig á íslensku.

Aðeins þarf að skrá sig (ókeypis).

https://open.plymouth.ac.uk/course/view.php?id=4



Þetta vefsvæði byggir á Eplica