12. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Rafræn skilríki – lykill að lausnum Embættis landlæknis

landlaeknirHjá Embætti landlæknis er nú unnið að fjölmörgum nýjum rafrænum lausnum handa læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum til einföldunar og þæginda í starfi. Í mars 2012 fluttist umsjón með þróun rafrænnar sjúkraskrár til embættisins. Með lagasetningu í vor fékkst heimild til að opna beinan aðgang lækna að upplýsingum um lyfjanotkun einstaklinga. Mörg ný verkefni hafa verið undirbúin til úrlausnar rafrænt og því leitar Embætti landlæknis nú til lækna eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í prófunarteymi á nýjum lausnum þess. Rafræn skilríki verða lykillinn til notkunar á þessum lausnum og verður þeim dreift til allra lækna. Umsóknarferli vegna þeirra mun hefjast á næstu vikum og verða þau afhent ýmist í gegnum banka, á Læknadögum 2013 eða með vinnustaðaheimsóknum á stærstu vinnustaði. Áhugasamir læknar eru hvattir til að fylgjast með því þegar opnast fyrir umsóknir.

Áformað er að læknar geti skoðað lyfjasögu sjúklinga sinna síðustu þrjú ár rafrænt. Upplýsingar um útgefna rafræna lyfseðla og afgreidda lyfseðla munu fléttast saman til að gefa yfirlit yfir lyfjasöguna. Læknar munu þá geta séð hvort rafrænir lyfseðlar hafa verið afgreiddir, þar með taldir fjölnota seðlar, og hægt verður að ógilda seðla sem ekki falla að núverandi lyfjagjöf sjúklingsins. Unnið er að því að hægt verði að senda undanþágulyfseðla gegnum lyfseðlagátt eins og aðra rafræna lyfseðla með tengingu við Lyfjastofnun til samþykktar. Þeir sem ekki hafa aðstöðu til að gefa út rafræna lyfseðla munu geta fyllt þá út á vef embættisins.

Embættið er að ljúka vinnu við rafrænt umhverfi fyrir dánarvottorð. Læknar munu geta fyllt út rafræn dánarvottorð í gegnum vefinn og sjúkraskrárkerfi sín sem skila sér beint inn í dánarmeinaskrá. Ætlunin er að nota rafræn skilríki til að tryggja öryggi og fyrir rafrænar undirskriftir. Einnig er unnið að nýjum rafrænum ökuleyfisvottorðum í samræmi við EB-tilskipun með sömu aðferðafræði.

Landlæknir vinnur að nýrri starfsleyfaskrá þar sem þeir sem þurfa að sækja um starfsleyfi munu geta fyllt út umsóknir á vefnum og síðan fylgst með stöðu og afgreiðslu umsóknar sinnar. Einnig er unnið að nýrri skrá fyrir rekstraraðila í heilbrigðiskerfinu. Þar er gert ráð fyrir að þeir sem hyggjast hefja rekstur á leyfisskyldum rekstri, læknastofum, sjúkraþjálfunarstofum og þessháttar, geti sótt um slík rekstrarleyfi á vefnum og síðan viðhaldið áfram upplýsingum um sinn rekstur á sama hátt.

Unnið er að því að opna rafrænan aðgang heilbrigðisstarfsfólks að aðgangsstýrðum vefsíðum hjá landlækni. Þar munu notendur geta sótt sér aðgang að skýrslum embættisins, miðlægri veitu heilbrigðisupplýsinga sem byggir á heilbrigðisskrám landlæknis. Þar munu fagaðilar geta séð sín gögn, til dæmis starfsemisupplýsingar og borið þau saman við gögn sambærilegra fagaðila eða stofnana.

Embætti landlæknis leitar að sjálfboðaliðum úr röðum lækna. Settur verður saman hópur 30-50 lækna til að prófa og þróa verkefnin áfram. Áhugasamir sendi tölvupóst til Inga Steinars Ingasonar með upplýsingum um sérgrein og vinnustað. Gert er ráð fyrir að almenn notkun geti hefjist í lok janúar 2013.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica