12. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Janusar-aðferðafræðin. Ný nálgun í læknisfræðilegri geðendurhæfingu
Lög sem samþykkt voru á Alþingi í sumar um atvinnutengda starfsendurhæfingu geta hugsanlega komið í veg fyrir að einstaklingar með flókin vandamál sem þarfnast langtíma starfsendurhæfingar fái notið þessarar þjónustu. Starfsendurhæfingarstöðvar út um allt land hafa sinnt þessum hópi eftir bestu getu.
Janus endurhæfing var stofnuð fyrir 12 árum. Aðferðafræðin hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi og er frábrugðin annarri endurhæfingu, enda hefur hún vakið athygli út fyrir landsteinana. Hún byggist á mikilvægi þess að bjóða einstaklingum með fjölþætt vandamál viðeigandi samþætta og samfellda þjónustu. Allt á sama stað. Þétt þverfagleg teymisvinna með læknisfræðilegri nálgun er grunnurinn. Markmiðið er að þátttakandinn fari í atvinnu og/eða nám.
Starfsmenn eru 25 og menntaðir í heilbrigðis-, félags- og menntavísindum. Vegna sífellt þyngri vanda þátttakenda, sem eru rúmlega 200, eru sérfræðilæknar fastir starfsmenn. Þeir eru fyrst og fremst ráðgefandi en veita einnig læknisfræðilega þjónustu sem er nauðsynleg vegna endurhæfingarinnar en taka ekki yfir meðhöndlun þátttakenda.
Vandamál þátttakendanna eru fjölbreytt og fjölþætt og starfsemi Janusar endurhæfingar er byggð upp með það að markmiði að úrræðin komi á móts við þessar þarfir. Starfsemin byggist á 5 brautum: iðjubraut, skólabraut, heilsubraut, einstaklingsbraut og vinnubraut. Áhersla og nálgun brautanna er ólík og aðlöguð að þeim þunga sem heilsuvandinn er. Á öllum brautum nema vinnubraut fer fram starfsendurhæfing sem felur í sér þjálfun til einhverskonar starfs. Á vinnubraut fer fram atvinnuendurhæfing, sem er þjálfun til launaðs starfs.
Frá upphafi hefur Janus verið í góðri samvinnu við Tækniskólann við að gefa fólki með heilsubrest og brotna skólagöngu möguleika á að snúa aftur til náms. Samvinna heilbrigðismenntaðra sérfræðinga við framhaldsskóla, eins og Janus hefur náð að móta, er engan veginn sjálfsagt mál. Þetta er einstakt og ólíklegt er að það verði endurtekið í bráð verði Janus lagt niður.
Frá árinu 2000 til og með október 2012 hafa 59% þátttakenda farið í atvinnu, nám eða eru í atvinnuleit. Af þeim þátttakendum sem byrjuðu á tímabilinu ágúst 2009 til febrúar 2012 voru aðeins 8,6% þátttakanda sem byrjuðu í endurhæfingu á atvinnuleysisbótum, sjúkradagpeningum, sjúkrasjóði stéttarfélags eða á launum. Allir aðrir þátttakendur voru á endurhæfingarlífeyri, örorkulífeyri eða félagslegum bótum og því er ljóst að langstærstur hluti þeirra hefur verið lengi frá vinnumarkaði og þarfnast langrar og oft flókinnar endurhæfingar.
Samvinna Landspítala og Janusar hefur byggst upp með velferð þátttakenda í huga vegna mikils skorts á samfelldri og heildstæðri endurhæfingu fyrir einstaklinga með geðræn vandamál. Mikilvægt er að ekki verði rof í endurhæfingu þátttakenda og fjármunir nýtist sem best. Í dag eru 95 einstaklingar á biðlista eftir endurhæfingu í Janus.
Engin önnur starfsemi hér á landi býður upp á eins sérhæfða endurhæfingu úti í samfélaginu fyrir einstaklinga með geðræn vandamál eins og Janus. 55% þeirra sem voru á endurhæfingarlífeyri hafa útskrifast í vinnu eða í nám og 42% af þeim sem voru á örorkulífeyri en 68% af öðrum bótum. Sé hagnaðurinn reiknaður út samkvæmt útreikningum sem starfsendurhæfingasjóðurinn VIRK birtir á heimasíðu sinni virk.is/news/hagnadur-starfsendurhaefingar/ má reikna með að fjárhagslegur heildarávinningur sé 105 milljónir króna fyrir hvern 30 ára einstakling sem væri með meðallaun 250 þúsund krónur á mánuði. Því miður er ekki möguleiki á að athuga hvort umræddir þátttakendur okkar sem farnir eru í vinnu eða nám hafi hætt á bótum. Gefum við okkur hins vegar að aðeins einn fjórði þeirra hafi gert það þá er samt sem áður um verulegan fjárhagslegan ávinning að ræða, eða rúmlega 2,7 milljarðar króna. Reikna má með að stór hluti einstaklinganna lifi við betri heilsu, sem skilar sér einnig til þjóðarbúsins.
Mikilvægt er að við stöndum vörð um þjónustu þeim til handa sem minnst mega sín. Okkur ber skylda til að sjá til þess að hluti þeirra fjármuna sem ætlaður er til starfsendurhæfingar nýtist einnig þeim þjóðfélagsþegnum sem þarfnast langvinnrar og flókinnar endurhæfingar með aðkomu heilbrigðisþjónustunnar til þess að eiga afturkvæmt á vinnumarkaðinn.