11. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Lögfræði 1. pistill. Að leita ráða
Í hverri viku leita læknar til Læknafélags Íslands með úrlausnarefni af ýmsum toga. Flest snúa þau að réttindum samkvæmt kjarasamningi félagsins og ríkisins. Það er starfsmönnum LÍ mikilvægt að fá slík mál til skoðunar, því þess eru dæmi að fyrirspurnir varðandi kjaramál hafa leitt í ljós að framkvæmd kjarasamnings er ekki rétt, oftast með þeim afleiðingum að læknar hafa verið hlunnfarnir í launagreiðslum. Kjarasamningsfyrirspurnir urðu til þess að síðastliðið haust kom í ljós að á þriðja tug lækna á Landspítala, 55 ára og eldri, höfðu verið hlunnfarnir um launaflokk. Læknarnir höfðu fengið 6% lægri grunnlaun en þeim bar í lengri eða skemmri tíma. Í einhverjum tilvikum reyndist hluti endurkröfunnar fyrndur þar sem launakröfur fyrnast á fjórum árum.
Það skiptir því miklu að læknar fari mánaðarlega yfir launaseðla sína og gangi úr skugga um að þeir séu réttir varðandi launaflokk, launaþrep, greiðslur fyrir vaktir, yfirvinnu og uppsafnaðan frítökurétt. Ef spurningar vakna er mikilvægt að læknar leiti til félagsins þannig að unnt sé að skoða hvort réttilega hafi verið staðið að málum.
„Þú tryggir ekki eftir á“ er þekkt slagorð sem notað var af tryggingafélagi í auglýsingaherferð. Þó slagorðið hafi orðið til í öðru samhengi á það vel við um svo margt í lífinu. Það skiptir miklu máli að hafa réttarstöðu sína á hreinu undir öllum kringumstæðum. Það er margs að gæta áður en ráðningarsamningur er undirritaður. Eru ráðningarsamningsdrögin í samræmi við gildandi kjarasamning læknafélagsins og ríkisins? Að enn fleiri atriðum þarf að gæta ef læknir hyggst taka að sér störf sem verktaki. Þó tímagjaldið sem samið er um kunni að virðast mjög hátt við fyrstu sýn, getur raunin orðið sú, þegar alls er gætt, að það nái varla tímakaupi í dagvinnu samkvæmt kjarasamningi félagsins. Í verktakasamningi þarf einnig að vera skýrt hver ber ábyrgð á störfum verktakans, læknisins. Er það verkkaupi, heilbrigðisstofnunin sem vill gera verktakasamninginn, eða er það verktaki, læknirinn? Ef það er læknirinn, þá skiptir miklu að hann hafi öll tryggingamál í lagi og að tryggingafélagið hans viti af því að tryggingin á ekki eingöngu að ná til starfa á starfstofu læknisins heldur einnig til starfa hans sem verktaki hjá tilgreindri heilbrigðisstofnun.
- - - -
Læknalög nr. 53/1988 með síðari breytingum falla úr gildi 1. janúar 2013 og lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 ganga í gildi. Með lögunum eru reglur um 33 löggiltar heilbrigðisstéttir settar í eina rammalöggjöf. Velferðarráðuneytið mun samhliða gildistöku hinna nýju laga gefa út reglugerðir um hverja og eina heilbrigðisstétt, þar á meðal lækna, um veitingu leyfa og sérfræðileyfa.
Lög um heilbrigðisstarfsmenn eru að miklu leyti byggð á gildandi læknalögum en mikilvægt er að benda læknum á tvennt sem breytist við gildistöku laga um heilbrigðisstarfsmenn. Annars vegar reglur sem hingað til hafa gilt um rekstur starfstofu lækna eftir 70 ára aldur. Hins vegar reglur um auglýsingar lækna á starfsemi sinni.
Skv. 26. gr. læknalaga er lækni óheimilt að reka lækningastofu eftir 75 ára aldur, en landlæknir getur, að fenginni umsókn viðkomandi læknis, veitt undanþágu frá þessu ákvæði til eins árs í senn. Í 26. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn segir að heilbrigðisstarfsmönnum samkvæmt lögunum (þar með talið læknum) sé óheimilt að reka eigin starfsstofur eftir að þeir ná 70 ára aldri, en landlækni er þó heimilt, að fenginni umsókn, að framlengja leyfi til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar. Hér verður því veruleg breyting á gildandi reglum. Afla þarf samþykkis landlæknis fyrir áframhaldandi rekstri lækningastofu strax frá 70 ára aldri og eftir að 76 ára aldri er náð verður lækni óheimilt að reka eigin lækningastofu.
Í 1. mgr. 17. gr. læknalaga segir að lækni sé einungis heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Þá er lækni samkvæmt ákvæðinu, heimilt að auðkenna sig með nafni, sérgrein, aðsetri, síma og viðtalstíma á dyraspjöldum, nafnspjöldum og lyfseðlum. Í 24. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn er fjallað um kynningar og auglýsingar. Þar kemur fram að við kynningu heilbrigðisþjónustu og auglýsingar skuli ávallt gætt málefnalegra sjónarmiða og fyllstu ábyrgðar, nákvæmni og sanngirni. Fleiri skilyrði eru ekki sett, en í 2. mgr. 24. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett í reglugerð nánari ákvæði um kynningu og auglýsingar heilbrigðisþjónustu, svo sem bann við ákveðinni aðferð við kynningu eða auglýsingar. Ekki liggur fyrir hvort velferðarráðherra muni setja nánari ákvæði um kynningu og auglýsingar. Hvað sem því líður er ljóst að ný ákvæði eru mun rýmri en gildandi ákvæði og opna læknum möguleika á að kynna starfsemi sína í meira mæli en nú er leyfilegt. Í þessu sambandi er þó mikilvægt að hyggja að þeim takmörkunum sem leiða kunna af ákvæðum III. kafla siðareglna lækna.