10. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Sérgrein. Frá Félagi íslenskra lyflækna. Lyflækningar á krossgötum

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Félag íslenskra lyflækna var stofnað árið 1946. Meginverkefni lyflækninga eru sem fyrr greining og meðferð bráðra og langvinnra sjúkdóma meðal fullorðinna, bæði á sjúkrahúsum og úti í samfélaginu. En starfsemi lyflækna hefur breyst mikið á undanförnum áratugum vegna geysilegrar framþróunar og sérhæfingar, sem getið hefur af sér margar undirsérgreinar eröðlast hafa sjálfstæði. Segja má að lyflækningar í dag séu fyrst og fremst grunnur og samnefnari fyrir þessar sérgreinar.Ýmsir eru þó þeirrar skoðunar að mikilvægi almennra lyflækninga sé síst minna nú en áður og helgast það af þörfum sístækkandi hóps aldraðra sem stríðir oft við fjölþætt heilsufarsvandamál er krefjast víðtækrar þjónustu fremur en sérhæfðrar. Er það afleiðing stóraukins algengis langvinnra sjúkdóma sem teljast nú vera stærsta verkefni heilbrigðisþjónustu vestrænna þjóða.   

Þróun lyflækninga á Íslandi hefur um margt verið athyglisverð. Meðal þess sember hæst er stór hlutdeild í uppbyggingu sjálfstæðrar lækningastarfsemi sem er ein af meginstoðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þá hafa lyflæknar verið í fararbroddi við vísindarannsóknir. Mikilvægt skref var stigið með sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík og leiddi  það til markvissrar uppbyggingar sérgreina lyflækninga, auk þess sem sett var á laggirnar metnaðarfullt  framhaldsnám í almennum lyflækningum. Því mætti álykta að framtíð lyflækninga sé björt hér á landi en því miður eru blikur á lofti, ekki síst á Landspítala.

Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu,sem má að miklu leyti rekja til viðbragða við vaxandi kostnaði. Rík áhersla hefur verið lögð á að fækka innlögnum á sjúkrahús og auka ferliþjónustu. Legutími hefur styst og sjúklingaflæði aukist. Á sama tíma er aukin krafa um gæði þjónustu og öryggi sjúklinga. Samhliða þessari þróun hefur vinnutímatilskipun Evrópusambandsins leitt til löngu tímabærrar fækkunar yfirvinnustunda lækna. Mönnunarþörf hefur því aukist. Á Landspítala hefur ekki verið brugðist við þessari þróun. Vinnuálag lyflækna hefur aukist úr hófiog hefur það ásamt ófullnægjandi starfsaðstöðu komið verulega niður á akademísku starfi. Mönnun læknisstarfa á Landspítala er óhjákvæmilega frábrugðin því sem þekkist á öðrum háskólasjúkrahúsum á Vesturlöndum. Meðalaldur sérfræðilækna er hár og meginskýringin er súað íslenskir læknar þurfa að stunda framhaldsnám erlendis, gjarnan í 5-10 ár. Það vantar því á hverjum tíma marga árganga lækna sem jafnan gegna veigamiklu hlutverki í læknisþjónustu háskólasjúkrahúsa og setur þetta miklar skorður við skipulagi starfseminnar. Reyndir sérfræðilæknar sem leiða hásérhæfð verkefni eru bundnir við almenn læknisstörf samtímis. Utan dagvinnutíma reiðum við okkur mjög á unga og lítt reynda lækna. Á erlendum háskólasjúkrahúsum er algengt að sérfræðilæknar þrói starfsferil sinn eftir brautum þar sem áhersla er ýmist á klíníska starfsemi, kennslu eða vísindi. Hér hefur slík tækifæri skort og fyrir vikið verður oft lítið úr þróun starfsferils. Óhætt er að segja að lyflækningar á Landspítala standi að mörgu leyti höllum fæti í samanburði við háskólasjúkrahús í nágrannalöndum okkar.Afleiðingin er brotthvarf reyndra lyflækna og auk þess gengur erfiðlega að laða unga lækna hingað til starfaað loknu sérfræðinámi.

Að mínu mati er nauðsynlegt að bregðast strax við þessari neikvæðu þróun. En hvað er til ráða? Engin einföld lausn er í sjónmáli en ýmis tækifæri eru til úrbóta. Þótt kostnaðarauki muni líklega hljótast af, eru fyrir hendi sóknarfæri sem gætu leitt til aukinnar hagkvæmni, en þau felast í bættu skipulagi, verklagi og starfsaðstöðu, ekki aðeins á Landspítala heldur í heilbrigðisþjónustunni í heild. Á Landspítala er mikilvægt að aðgreina betur almenn og sérhæfð verkefni lyflækna. Leggja mætti aukna áherslu á almennar lyflækningarí þjónustu við bráðveika sjúklinga, líkt og í Bretlandi og Bandaríkjunum. Skilgreina þarf mönnunarlíkan fyrir lyflækna þar sem tekið er tillit til akademískra starfa. Þá þarf að styðja við störf lækna með því að nýta betur krafta og hæfni hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ritara sérgreina. Ennfremur er nauðsynlegt að standa betur að nýliðun lækna vegna samkeppni við erlend sjúkrahús um íslenska sérfræðilækna. Loks tel ég brýntað efla framhaldsmenntun í almennum lyflækningum, meðal annars í því skyni að fjölga ungumlæknum sem starfa við lyflækningar.  Hér ættiað vera unnt að bjóða þriggja ára grunnnám og frekara nám í undirsérgreinum lyflækninga færi svo fram erlendis eins ogáður. 

Sé rétt á málum haldið hef ég trú á að lyflækningar á Íslandi geti haldið velli og jafnvel komist á bekk með fremstu þjóðum. En það mun ekki verða án þess að lyflæknar taki höndum saman og hafi hag sjúklinga að leiðarljósi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica