10. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

„Stefnum fram af bjargbrúninni“. Af fundi LR og FAL

Læknafélag Reykjavíkur og Félag almennra lækna stóðu fyrir almennum félagsfundi fimmtudaginn 20. september þar sem rædd voru kjaramál lækna og var tilefnið launahækkun velferðarráðherra til handa forstjóra Landspítala. Fundinn sóttu um 50 manns og voru flutt fjögur framsöguerindi og síðan urðu almennar umræður og samþykkt ályktun til fjölmiðla.

u03-fig1
Um 50 manns sóttu fundinn og þótti sumum að fjöldinn mætti vera meiri.

Það dró óneitanlega mesta hitann úr fundarmönnum að daginn fyrir fundinn hafði velferðarráðherra dregið hina umdeildu launahækkun til baka en rétt fyrir fundinn kom ráðherrann hins vegar fram í Kastljósþætti Rúv og fullyrti þar að meðallaun sérfræðings á Landspítala væru í kringum 2 milljónir króna. Var mörgum fundarmönnum heitt í hamsi vegna þessa og urðu snörp skoðanaskipti á fundinum um hvort og hvernig bregðast skyldi við þessum ummælum sem menn vildu meina að væru hrein ósannindi.

Þrátt fyrir að launahækkunin margnefnda hefði verið dregin til baka var ljóst af framsöguerindum að tilefni til að ræða kjaramál lækna var ærið og þungur tónn í frummælendum og þeim er tóku til máls í kjölfarið.

Hættulegt að fá enga aðlögun

Gunnlaugur Sigurjónsson sérfræðingur í heimilislækningum ræddi vanda heilsugæslunnar og benti á að dagvinnulaun íslenskra heimilislækna eru um helmingi lakari en í Svíþjóð. „Í Noregi eru dagvinnulaunin 4-6 sinnum hærri en á Íslandi.” Hann gerði ennfremur samanburð á vinnuálagi, fjölda sjúklinga í samlagi hvers læknis, ræddi mönnunar- og nýliðunarvandann og setti í samhengi við vinnuaðstæður og launakjör í íslensku heilsugæslunni. Rekstrarform íslensku heilsugæslunnar væri þar takmarkandi þáttur en fjölbreytt rekstrarform í Svíþjóð hafa aukið ásókn í heimilislækningar meðal ungra lækna.

Gunnlaugur lauk máli sínu með þeim orðum að hægt sé að vinna helmingi minna í Noregi eða Svíþjóð fyrir helmingi hærri laun.

Næst tóku til máls fyrir hönd almennra lækna Hrönn Ólafsdóttir formaður hagsmunanefndar FAL og Ómar Sigurvin Gunnarsson formaður félagsins. Þau birtu launatöflur almennra lækna en þar kemur fram að grunnlaun þeirra eru rúmlega 300 þúsund krónur. Síðar á fundinum kom reyndar fram að við gerð síðustu kjarasamninga lækna við ríkið var tekin sú ákvörðun að „skilja almenna lækna eftir” og leggja áherslu á hækkun launa sérfræðinga. Við þetta voru almennir læknar mjög ósáttir en rök samninganefndar voru þau að ekki hefði verið hægt að ná fram hækkunum fyrir báða hópa í sama samningi. Formaður samninganefndar sagði það ákvörðun stjórna félaganna hverjar áherslur yrðu helstar við næstu kjarasamningagerð.

En þau Hrönn og Ómar bentu jafnframt á að til viðbótar hinum lágu launum þyrftu almennir læknar að standa í stöðugu stríði við yfirstjórn Landspítala um að fá samningsbundin réttindi sín virt og viðurkennd. „Það er mjög stirt að fá fram samningsbundnar launaflokkahækkanir og námsferðir, enda sjáum við að almennir læknar staldra mun styttra við í starfi nú en áður og reyna að koma sér sem fyrst í sérnám erlendis. Það eru mjög fáir sem eru lengur en tvö ár í starfi sem almennir læknar. Aðlögun í starfi og kennsla í námsstöðum er algerlega ófullnægjandi og almennir læknar eru notaðir sem vinnudýr á spítalanum til að halda hlutum gangandi. Þetta er auðvitað algerlega óásættanlegt. Það verður að tryggja tíma til kennslu. Skortur á aðlögun í starfi er ógn við öryggi sjúklinga og dregur úr afköstum og starfsánægju. Atvinnurekanda ber skýr lagaleg skylda til að tryggja starfsmönnum aðlögun í starfi og það sér hver maður hvað það getur þýtt þegar ungur læknir sem hefur aldrei komið í húsið er strax settur í vinnu á gólfinu. Þetta er hættulegt og ógnar öryggi sjúklinga. Vinnuveitandinn ætti að sýna þessu áhuga. Allar aðrar starfsstéttir innan spítalans fá greidda starfsaðlögun nema unglæknar. Mikilvægt er einnig að skilgreina mönnunarþörfina en stjórn spítalans hefur aldrei fengist til þess. Ástæða þess að Félag almennra lækna fór að vinna í þessum málum er mikil óánægja meðal félagsmanna með starfsaðstöðu og kjör sín og það er mjög óeðlilegt að þeir sem eru að byrja feril sinn séu strax orðnir óánægðir með hlutskipti sitt. Óánægjan nær einnig til sérfræðinga og þetta er sannarlega eitthvað sem stjórn stofnunarinnar ætti að hafa áhyggjur af og einbeita sér að úrbótum.“

u03-fig2
Hrönn Ólafsdóttir og Ómar Sigurvin Gunnarsson frá FAL kynntu afstöðu almennra lækna.

Ekkert útlit fyrir samninga

Næstur tók til máls Kristján Guðmundsson á Læknastöðinni í Glæsibæ. Hann benti á að sérfræðingar hafa verið að vinna á sama einingaverði í krónum talið í fjögur ár. „Á sama tíma hefur allur kostnaður hækkað, þannig að staðan er einfaldlega sú að í dag eru færri krónur eftir þegar búið er að greiða allan kostnað en var áður. Við áttum fund með stjórn Sjúkratrygginga á dögunum þar sem við fórum fram á hækkun einingaverðsins. Við bentum á að ef einingaverðið hefði fylgt lögbundnum hækkunum væri hækkunin nokkurn veginn sú sama og fyrirhuguð launahækkun forstjórans, eða um 25%. Við höfum verið mjög þolinmóð í kreppunni en nú eru liðin fjögur ár.”

Kristján varpaði síðan þeirri spurningu út í salinn hvort þar væri einhver sérfræðimenntaður sem hefði komið heim til starfa frá 2008 og fékk engin viðbrögð. Kristján sagði að lokum að í vetur stefndi í að sérfræðilæknar yrðu að brýna sig og seilast enn frekar í vasa sjúklinga. „Einsog það er nú skemmtilegt, en það er því miður ekkert útlit fyrir að bryddað verði upp á samningum við okkur í bráð.”

Sigurður Guðmundsson sérfræðingur á lyflækningadeild Landspítala og fyrrverandi landlæknir og forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ var síðastur frummælanda. Hann ræddi um forgangsröðun í heilbrigðismálum og í ríkisfjármálum almennt og varpaði fram nokkrum spurningum í upphafi máls síns. „Er niðurskurður grunnstoða samfélagsins í heilbrigðismálum og menntamálum orðinn slíkur að við erum orðin hættuleg sjúklingunum? Er öryggi veiks fólks stefnt í hættu þegar sífellt er klipið af framlögum til þessara mála og áhugi, fórnfýsi, verkfýsi og kraftur fólksins sem í þjónustunni starfar er léttvægur fundinn? Þetta er sú stemmning sem núna ríkir í okkar röðum. Fólki finnst mörgu að tiltekið traust hafi verið rofið og ef við erum ekki þegar komin fram á bjargbrúnina er ég hræddur um að við stefnum hraðbyri þangað.“

Sigurður benti ennfremur á að eftirspurn eftir þjónustu heilbrigðiskerfisins hefði aukist á árunum eftir hrunið og þá sérstaklega hvað varðaði geð- og sálfélagslega þjónustu. „Vandamál barnmargra fjölskyldna, atvinnulausra og aldraðra hafa einnig aukist og þessu finnur fólk fyrir sem starfar í heilbrigðisþjónustunni um allt land. Á sama tíma hefur fagfólk í heilbrigðisgeiranum leitað í auknum mæli eftir vinnu erlendis, sérstaklega læknar og hjúkrunarfræðingar, en þessar stéttir eru ekki bara gjaldgengar á alþjóðlegum atvinnumarkaði heldur eru þær líka mjög eftirsóttar.”

Sigurður sagði að ákvörðun velferðarráðherra um að hækka laun forstjóra Landspítala hefði verið algerlega laus við tilfinningu fyrir aðstæðum og leitt til rofs á trausti, trúnaði og heilindum sem mikinn tíma tekur að afla aftur. „Fyrstu viðbrögð við þeirri ákvörðun að draga hækkunina til baka benda ekki til þess.”

Heitar umræður

Í kjölfar framsöguerinda hófust almennar umræður og var fundarmönnum heitt í hamsi vegna ummæla velferðarráðherra um launakjör lækna á spítalanum og veltu fyrir sér hvernig bregðast skyldi við. Stjórn LR dró sig afsíðis og samdi ályktun fyrir fundinn að samþykkja og var hún samþykkt svohljóðandi:

„Almennur félagsfundur í Læknafélagi Reykjavíkur og Félagi almennra lækna lýsir áhyggjum af versnandi ástandi á Landspítalanum og í heilbrigðisþjónustunni í landinu. Við vaxandi álag, erfiðar vinnuaðstæður og vanmat á störfum fagfólks er auðvelt að skilja hvers vegna straumur heilbrigðisstarfsmanna hefur verið úr landi. Rof hefur orðið á trausti, trúnaði og heilindum milli heilbrigðisstarfsmanna og yfirstjórnar heilbrigðismála. Niðurskurður á fjárframlögum til heilbrigðismála er komin út yfir þolmörk. Ábyrgð heilbrigðisyfirvalda er mikil. Læknasamtökin hvetja því yfirvöld til tafarlausra úrbóta áður en óbætanlegur skaði hlýst af.”

Ýmsum fundarmönnum þótti ályktunin ekki nægilega harðorð og að þar vantaði nokkuð á að fram kæmi hversu mikil reiði væri meðal lækna um ástand mála. Að lokum var þó fallist á ofangreinda tillögu með þeim rökum að skynsamlegast væri fyrir samtök lækna að halda sig við málefnalega og yfirvegaða umræðu. Nokkrar umræður urðu einnig um hvort semja skyldi sérstaka ályktun sem lýsti skoðun fundarins á ummælum ráðherrans í Kastljósþættinum en fallið var frá þeirri hugmynd með sömu rökum um yfirvegun og málefnalega afstöðu.

Nokkrir lýstu furðu sinni á því að ekki væri fullt útúr dyrum á fundinum og hvort læknar væru ekki áhugasamari um kjör sín en raun bæri vitni. Var þá á það bent að læknar héldu ekki fundi um kjaramál í vinnutíma sínum einsog aðrar heilbrigðisstéttir og það gæti verið hluti skýringarinnar. Engum blöðum var þó um það að fletta að læknum er heitt í hamsi og langlundargeði þeirra takmörk sett. Einn fundarmanna orðaði afstöðu sína með svofelldum hætti: „Það er gott að búa í Noregi.”



Þetta vefsvæði byggir á Eplica