10. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Rólegt yfir samningamálum. Steinn Jónsson

Þegar þessi grein er skrifuð er liðið nærri eitt og hálft ár frá því samningur Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga Íslands um sérfræðilæknisþjónustu rann út, 1. apríl 2011. Í aðdraganda samningsslitanna hafði LR boðið SÍ að samið yrði um 9,4% hækkun á einingaverði í áföngum á þriggja ára tímabili en það var nákvæmlega sama prósentuhækkun og LR hafði gefið eftir án skilyrða árið 2009 þegar afleiðingar bankahrunsins voru hvað erfiðastar. Þeir sem fylgdust grannt með þessu máli vissu að SÍ vildi gjarnan semja en ríkisstjórnin stæði í vegi fyrir því. Skýringin var sú að ekki væri hægt að semja við lækna um meiri hækkun en samið yrði um á almennum vinnumarkaði. Þegar til kom var samið við sjúkrahúslækna til 2014 um hækkun á bilinu 12-15% eftir starfshlutfalli. Ætla má að stjórnvöld hafi hlaupið alvarlega á sig þegar þessu tilboði var hafnað og ólíklegt að annað eins tilboð frá sérfræðilæknum líti dagsins ljós.

Eins og gert er ráð fyrir í lögum og fordæmi voru fyrir, gaf velferðarráðherra út reglugerð sem hefur gilt frá 1. apríl 2011 um heimild til endurgreiðslu til sjúklinga sem leita til sérfræðilækna á grundvelli þess samnings sem gilti fyrir samningsslitin. Reglugerðin hefur síðan verið framlengd í þrígang og gildir nú til loka júní 2013. Engar raunverulegar samningaviðræður hafa átt sér stað milli LR og SÍ, þó að í lögum segi að endurgreiðsluheimild sé aðeins tímabundin.

Þrátt fyrir samningsslitin hafa læknar haldið áfram að sinna sjúklingum og samstarfi sínu við SÍ með margvíslegum hætti. Unnið er eftir fyrirliggjandi gjaldskrá um læknisverk og yfirgnæfandi meirihluti sérfræðilækna sendir reikninga rafrænt til SÍ. Þetta hefur í för með sér að sjúklingar geta greitt sinn hluta af kostnaði við komu til læknis og þurfa ekki að leita eftir endurgreiðslu sjálfir. SÍ greiðir hlut sjúkratrygginga samkvæmt eldri samningi beint til lækna eins og verið hefur um árabil. Í þessu felst mikið hagræði fyrir sjúklinga og SÍ og má ætla að mikið ófremdarástand hefði skapast ef hver sjúklingur hefði þurft að leita eftir endurgreiðslu sjálfur. Sérfræðilæknar hafa lagt á komugjöld sem í flestum tilfellum eru hófleg. Starfsemi sérfræðilækna hefur því haldið áfram óbreytt og litlar kvartanir hafa komið fram frá sjúklingum.

Starfsemi sérfræðilækna utan sjúkrahúsa er löngu orðinn mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfi landsins. Komur til sérfræðilækna eru nú um 500.000 á ári, eða hátt í þriðjungur allra læknisverka í landinu, álíka margar og allar komur til lækna í heilsugæslunni. Þrátt fyrir þetta er kostnaður við sérfræðiþjónustu aðeins 6-8% af kostnaði við heilbrigðisþjónustuna og eru þá allar aðgerðir og rannsóknir með taldar. Margar hagfræðilegar úttektir hafa sýnt að kostnaður við komu til sérfræðilæknis hefur hingað til verið svipaður og kostnaður við komu til heilsugæslulæknis og umtalsvert lægri en kostnaður við komu á göngudeild Landspítala.

Við samningsslitin losnuðu læknar undan ýmsum íþyngjandi ákvæðum samningsins, svo sem ákvæðum um afslætti og skerðingar þegar unnið var umfram ákveðið magn eininga. Erfitt er að ímynda sér að læknar muni aftur semja slík ákvæði yfir sig enda einsdæmi að þeir sem eftirsóttastir eru og vinna mest gefi afslátt af vinnu sinni. Nú er komin nokkur reynsla á nýja fyrirkomulagið og eru læknar nokkuð sáttir við þetta kerfi. Ókosturinn er sá að ennþá hefur SÍ ekki hækkað endurgreiðsluhlutfall sitt og bitnar drjúgur hluti hækkana því á sjúklingum. Hætt er við því að þetta bil aukist ef ekki verða gerðir nýir samingar og SÍ hækkar ekki endurgreiðsluhlutfallið.

Nú er að störfum nefnd á vegum velferðarráðuneytis til að skoða svokallaða þjónustustýringu. Þetta er annað og nýtískulegra orð yfir tilvísanakerfi. Vitað er að ráðuneytið hefur lengi haft slíkt kerfi í athugun í samræmi við þá stefnu að heilsugæslan eigi að öllu jöfnu að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Fulltrúar LR í þessu nefndarstarfi hafa verið Magni S. Jónsson fyrrum formaður LR og Kristján Guðmundsson formaður samninganefndar LR. LR hefur aldrei stutt tilvísanakerfi og ávallt haft þá stefnu að sjúklingar eigi að hafa frelsi til að velja sér lækni. Í störfum nefndarinnar hefur mest verið rætt um vandann í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en eins og vitað er þyrfti að fjölga heilsugæslulæknum verulega ef taka ætti upp tilvísanakerfi. Ekki virðist því blása byrlega fyrir þessum hugmyndum nú frekar en endranær.

Læknar eru orðnir ýmsu vanir frá hendi stjórnmálamanna en þó held ég að ekkert hafi ennþá slegið út nýlega samþykkt flokksráðsfundar VG þar sem gert er ráð fyrir að starfsemi einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustunni verði bönnuð. Þessi fáheyrða ályktun var samþykkt þarna með tilheyrandi fúkyrðaflaumi í garð lækna. Engu skiptir þótt slík ákvörðun kynni að brjóta í bága við stjórnarskrárvarin réttindi lækna til að stunda sín störf á sjálfstæðum læknastofum. Ef VG fengju að ráða yrðu sjálfsagt engir samningar gerðir við sérfræðilækna. Spyrja má hvað mundi þá taka við með heilsugæsluna og Landspítala á hnjánum vegna fjárskorts og stjórnunarvanda. Mundu þeir 6-8 milljarðar króna sem nú fara til sérfræðiþjónustunnar nægja til að taka við 500.000 komum til lækna hjá þessum aðilum?



Þetta vefsvæði byggir á Eplica