09. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

60 ára kandídatar útskrifaðir 31. janúar 1952

u07-fig1.b
Mynd tekin 31. janúar 1952. Sitjandi frá vinstri: Einar, Baldur, Magnús. Standandi frá vinstri: Olav,
Páll, Guðjón, Arvid, Kjartan.


Þess var minnst fyrr í vetur þegar kennarar og kandídatar komu fyrst saman við próflok og nú nýlega lýst hvernig Læknafélag Íslands fagnar nýjum læknaefnum. Mér datt í hug af þessu tilefni að lýsa því hvernig þessu var háttað fyrir 60 árum. Þá luku læknanemar kandídatsprófi bæði í janúar og júní. Í janúar 1952 voru óvenju margir sem luku prófi. Við vorum 8 sem hófum próf og allir luku því.

Þessir luku prófinu: norsku tvíburabræðurnir Arvid Johan Knutsen f. 1925, d. 1959 og Olav Thorvald Knudsen, f. 1925, d. 2009, stúdentar í Noregi 1944. Baldur Jónsson f. 1923, stúdent frá MA 1944, Einar Eiríksson f. 1923, stúdent frá MA 1944, Guðjón Guðnason f. 1923, d. 1998, stúdent frá MR 1944, Kjartan Ólafsson f. 1919, d. 1973, stúdent frá MR 1942, Magnús H. Ágústsson f. 1924, stúdent frá MR 1946, Páll Sigurðsson f. 1925, stúdent frá MR 1946. Eins og fram kemur vorum við Magnús samstúdentar og lukum náminu á 5 ½ ári.

Það var engin hátíðleg útskrift. Júlíus Sigurjónsson var forseti læknadeildar. Hann bauð okkur heim á heimili sitt 31. janúar upp á kaffi og meðlæti og lét okkur undirrita læknaeiðinn. Eftir boð Júlíusar höfðum við pantað myndatöku hjá Lofti ljósmyndara og því er til mynd af okkur saman.

Við höfum aldrei allir hist eftir þessa útskrift. Fjórir störfuðu erlendis mest af starfsævinni, Olaf, Arvid og Einar á Norðurlöndum en Magnús í Bandaríkjunum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica