05. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Útskrift frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 1958

u04-fig1

Kennarar og prófdómarar, aftasta röð frá vinstri: Kristján Sveinsson, Hannes Guðmundsson, Níels Dungal, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Samúelsson, Pétur H.J. Jakobsson, Hjalti Þórarinsson, Stefán Ólafsson, Snorri Hallgrímsson, Guðmundur Thoroddsen, Haukur Kristjánsson, Theodór Skúlason, Bjarni Jónsson og Jón Steffensen.
Kandídatar, frá vinstri
aftari röð: Lárus Helgason, Bergþóra Sigurðardóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Jónas Hallgrímsson, Árni Ingólfsson og Per Lyngaas. Fremri röð:
Guðmundur Þórðarson, Guðmundur Bjarnason, Grétar Ólafsson, Sverrir Haraldsson og Daníel Guðnason.
Kennarar og prófdómarar fjarverandi:
Arinbjörn Kolbeinsson, Bjarni Konráðsson, Björn Sigurðsson, Davíð Davíðsson, Friðrik Einarsson, Júlíus Sigurjónsson, Kristinn Stefánsson, Ólafur Bjarnason, Trausti Ólafsson og Valtýr Albertsson.

Myndina tók Sigurður Haukur Sigurðsson, bróðir Bergþóru kandídats.Tilefni birtingar þessarar myndar er það að ég sýndi hana í fyrirlestri um prófessor Níels Dungal á Læknadögum í Hörpu í janúar síðastliðnum. Sveinn Magnússon og Páll Ásmundsson hvöttu mig til þess að senda hana Læknablaðinu til birtingar.

Myndin er tekin framan við anddyri hátíðasals Háskóla Íslands 12. júní 1958 en þann dag voru nýútskrifaðir kandídatar boðnir til formlegrar útskriftarathafnar. Athöfnin sem var haldin í þáverandi kennarastofu skólans fór þannig fram að Snorri Hallgrímsson deildarforseti flutti ávarp og bauð okkur velkomin í íslenska læknastétt og þakkaði okkur samveruna í deildinni undanfarin ár. Ég flutti síðan nokkur þakkarorð fyrir okkar hönd. Okkur voru afhent prófskírteini og síðan undirrituðum við læknaeiðinn (Hippókratesareiðinn) og skálað var í sherry öllu til staðfestingar.

Þetta var líklega fyrsta formlega útskrifarathöfn úr læknadeild þessara ára og kannski frá upphafi. Að vísu fóru fram einhverjar athafnir við útskriftir vorið 1957 og í janúar 1958 en þær munu ekki hafa verið með slíkum formlegum hætti. Hef ég kannað það hjá læknum sem útskrifuðust þá því til staðfestingar. Fram að þessu munu útskrifaðir kandídatar einungis hafa vitjað skírteina sinna á skrifstofu háskólaritara einhvern tíma síðar, ef þá nokkurn tíma.

Ég efast um að til sé önnur mynd af svo mörgum kennurum læknadeildar samankomnum. Mér finnst einnig að rétt sé að telja upp aðra kennara læknadeildar sem kenndu okkur og voru ekki viðstaddir athöfnina.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica