05. tbl. 98. árg. 2012

Fræðigrein

Holdafar, úthald, hreyfing og efnaskiptasnið meðal 18 ára íslenskra framhaldsskólanema

Body Composition, Aerobic Fitness, Physical Activity and Metabolic Profile among 18 Year Old Icelandic High-School Students

doi: 10.17992/lbl.2012.05.432

Ágrip

Tilgangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhættuþætti efnaskiptasjúkdóma meðal 18 ára framhaldsskólanema og bera saman nemendur í bók- og verknámi.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur (147 drengir og 130 stúlkur) voru valdir með slembiúrtaki. Dagleg hreyfing þeirra var mæld með skrefamæli og úthald með hámarkssúrefnisupptökuprófi á hlaupabretti. Holdafari var lýst með mælingum á hæð, þyngd, mittismáli og líkamsþyngdarstuðli (body mass index, BMI) og hlutfall líkamsfitu var mælt með tvíorku röntgengeislagleypnimælingu. Blóðþrýstingur í hvíld og blóðfitur og blóðsykur í sermi voru mæld.

Niðurstöður: Samkvæmt BMI-stuðli voru 23% nemenda of þungir/feitir, 20% höfðu of mikið mittismál og 51% greindust með of hátt hlutfall líkamsfitu. Einnig mældust 11% nemenda með óæskilega lág háþéttni-fituprótein, 8% með of há lágþéttnifituprótein, 9% með of há þríglýseríð og 10% þátttakenda voru með jaðar- eða háan slagþrýsting. Flestir nemendanna (84%) höfðu sæmilegt úthald eða  betra, þrátt fyrir að einungis 34% næðu ráðlagðri hreyfingu dag hvern. Samkvæmt hlutfalli líkamsfitu flokkuðust hlutfallslega fleiri drengir (33%) en stúlkur (22%) of feitir (p=0,042) en jafnframt var hlutfall drengja (57%) með mjög gott úthald hærra en stúlkna (24%, p<0,001). Nemendur í verknámi hreyfðu sig minna (Cohen´s d (Cd)=0,7), reyndust með slakasta úthaldið (Cd=0,7), hæst hlutfall líkamsfitu (Cd=0,5), mesta mittismálið (Cd=0,3) og hæsta blóðþrýstinginn (Cd=0,6, p<0,05).

Ályktun: Úthald 18 ára framhaldsskólanema virðist að jafnaði gott en hreyfingu þeirra er verulega ábótavant og hlutfall líkamsfitu of hátt. Einnig fannst hækkaður slagþrýstingur og blóðfitur hjá um 10% unglinganna. Líkamsástand er verra hjá verknáms- en bóknámsnemum.

Inngangur

Kyrrseta er eitt helsta heilbrigðisvandamál iðnríkja í dag, þar sem hægt er að tengja hana við ýmsa lífsstílssjúkdóma.1 Samhliða aukinni kyrrsetu eru ofþyngd og offita vaxandi alheimsvandamál og fara Íslendingar ekki varhluta af því. Á milli 17 og 22% níu og 15 ára íslenskra barna eru yfir kjörþyngd2 en nýjustu kannanir sýna samt að heldur dragi úr ofþyngd/offitu í þessum aldurshópi.3 Mun hærra hlutfall (53-65%) íslenskra karla og kvenna eru yfir kjörþyngd og hefur farið mjög fjölgandi í þessum hópi síðan 1990.4 Rannsóknir hafa auk þess sýnt að offita á unglingsárunum eykur dánartíðni meira en ofþyngd á fullorðinsárum og að unga kynslóðin í dag verður líklega sú fyrsta sem mun hafa styttri lífslíkur en fyrri kynslóðir vegna sívaxandi tíðni offitutengdra sjúkdóma.5 Þessi aukna kyrrseta og líkamsfita ýta undir algengustu orsakir ótímabærs heilsubrests og dauðsfalla á Vesturlöndum, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, háþrýsting, sykursýki af tegund tvö og krabbamein.6 Aftur á móti hefur mikil hreyfing, gott úthald og minni líkamsfita verið tengd betra heilsufari barna og unglinga.1,7

Þrátt fyrir að nokkuð hafi verið birt af rannsóknum um líkamsástand íslenskra barna2,7,8 hefur lítið sem ekkert verið birt um líkamsástand ungmenna á framhaldsskólaaldri. Nokkrar meistara- eða BS-ritgerðir finnast, en það litla sem hefur verið birt í ritrýndum tímaritum hefur verið byggt á spurningalistakönnunum en ekki beinum hlutlægum mælingum á holdafari, úthaldi, hreyfingu og áhættuþáttum efnaskiptasjúkdóma í blóði. Hugsanlega er það vegna þess að oft er erfitt að fá þennan aldurshóp til þátttöku, enda mikið um að vera og margar breytingar í lífi þeirra á þessum aldri.

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna líkamlega heilsu 18 ára framhaldsskólanema með því að mæla alla helstu áhættuþætti fyrir lífsstílssjúkdóma, svo sem holdafar, úthald, hreyfingu, blóðþrýsting, blóðfitu og blóðsykur og setja fram tölur um hversu margir í þessum hópi væru yfir hættumörkum hvað varðar þessa þætti. Undirmarkmið var að bera saman líkamlega heilsu bóknáms- og verknámsnemenda.

Efniviður og aðferðir

Þátttakendur voru 18 ára (eða á 18. ári) framhaldsskólanemendur úr þremur skólum í Reykjavík, skóla eitt (bóknámsskóla með áfangakerfi), skóla tvö (bóknámsskóla með bekkjakerfi) og skóla þrjú (verknámsskóla). Úrtakið var valið af handahófi af nemendalistum skólanna og alls var 426 nemendum boðin þátttaka en 295 (69,3%) þáðu boðið (143 stúlkur og 152 strákar). Af þeim hættu 18 þátttöku. Í holdafars- og blóðþrýstingsmælingunum tóku 275 nemendur þátt, 252 undirgengust mælingu á líkamssamsetningu, 251 leyfði blóðsýnatöku, 243 tóku þátt í úthaldsprófinu og hreyfing var mæld hjá 212 þátttakendum. Allir þátttakendur skrifuðu undir upplýst samþykki, sem og forráðamenn ef þátttakendur höfðu ekki náð 18 ára aldri. Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd (VSNb2007110010/03-1).

Mælingarnar fóru fram í skólunum sjálfum, nema mælingin á líkamssamsetningu (body composition) sem fór fram í Hjartavernd og úthaldsmælingin sem var gerð á Rannsóknarstofu í Hreyfivísindum. Hæð og þyngd voru mældar þrívegis með nákvæmni upp á einn millimetra og 100 g með hæðarmæli (Seca 206) og vog (Seca 703) og líkamsþyngdarstuðullinn (body mass index, BMI) reiknaður út. Mittismál var mælt þrisvar í láréttu plani með óteygjanlegu málbandi (Gulick) með nákvæmni upp á einn millimetra þar sem mittið er grennst á milli neðstu rifja og mjaðmarkambs. Líkamssamsetning var mæld með tvíorku-röntgengeislagleypnimælingu (dual energy X-ray absorptiometry, DXA) með Lunar beinþéttnimæli eftir að þátttakendur höfðu fjarlægt allt skart. Með DXA-mælingu er hægt að ákvarða fitumassa, massa fitulauss mjúkvefs og beinmassa líkamans í heild eða ákveðinna líkamshluta, sem og hlutfall líkamsfitu og fitudreifingu. Unglingarnir voru léttklæddir og skólausir við holdafarsmælingarnar.

Blóðþrýstingur var mældur þrívegis með blóðþrýstingsmæli (ADC Advantage 6013) á hægri handlegg eftir að þátttakandi hafði setið rólegur í 10 mínútur. Tekin var fastandi blóðprufa og styrkur heildarkólesteróls, háþéttnifitupróteina (HDL), þríglýseríða og glúkósa var mældur á Landspítala. Styrkur lágþéttnifitupróteina (LDL) var reiknaður út með jöfnu Friedewald.9

Til að meta úthald var hámarkssúrefnisupptaka (maximal oxygen uptake, VO2max) mæld  (Parvomedics Trumax 2400) með stigvaxandi hámarksáreynsluprófi á hlaupabretti.10 Unglingarnir hlupu á stöðugum hraða (2,2-3,6 m/sek, 8-13 km/klst) eftir líkamsástandi og hallinn var aukinn á tveggja mínútna fresti þangað til viðkomandi gat ekki meira og stöðvaði hlaupabrettið eða gaf á annan hátt til kynna að hann/hún vildi hætta. Á meðan prófið fór fram voru unglingarnir hvattir áfram til að gera sitt besta en jafnframt minntir á að þeir gætu hætt hvenær sem var. Útöndunarlofti var safnað (30 sekúndna meðaltöl) og súrefnisupptaka (VO2) og koltvísýringsframleiðsla (VCO2) mæld og notuð til að reikna út öndunarhlutfallið (respiratory exchange ratio, RER). Hjartsláttur var mældur með púlsmæli (Polar) meðan á prófinu stóð og í lok hvers þreps (á tveggja mínútna fresti) gáfu unglingarnir skynjaða áreynslu sína til kynna (ratings of perceived exertion, RPE).11

Aðeins þeir þátttakendur sem náðu VO2max samkvæmt hefðbundnu viðmiði10 voru notaðir við tölfræðilega úrvinnslu. Ef þátttakandi náði ekki fyrrnefndu viðmiði taldist hann samt hafa reynt á sig til fullnustu og hafa náð VO2max ef hann náði að minnsta kosti tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðum:10

RER >1,1

RPE >19 (mjög, mjög erfitt)

Hjartsláttur innan við 10 slög af aldursreiknuðum hámarkshjartslætti
(207-0,7*aldur)

Hreyfing var mæld með skrefamæli (Yamax-SW-200) í 6 daga allan daginn, nema þegar þátttakendur sváfu eða fóru í sturtu/bað eða í sund. Af þessum 6 dögum þurftu þátttakendur að bera mælinn á sér í það minnsta þrjá virka daga og einn helgardag og að minnsta kosti 8 klukkustundir á dag til þess að gögnin yrðu notuð við tölfræðilega úrvinnslu. Áreiðanleiki og réttmæti skrefamæla (Yamax-SW-200) hefur verið staðfest og er skrefamælirinn sem hér var notaður jafnframt sá algengasti í rannsóknum sem notast við þessa tækni.12

Unnið var úr gögnunum með tölfræðiforritinu SPSS (Statistical Package for the Social Sciences, útgáfa 15.0). Því næst voru gögnin skoðuð með tilliti til normaldreifingar og útlagar (outliers, >3 staðalfrávik frá meðaltali) fjarlægðir við samanburð á milli skóla og kynja. Þegar flokkun hópsins á breytunum (holdafari, líkamssamsetningu, blóðþrýstingi, blóðbreytum, úthaldi og hreyfingu) miðað við alþjóðleg viðmiðunargildi13-18 var skoðuð voru allir þátttakendur hins vegar notaðir. Tvíbreytudreifigreining (Two-Way ANOVA) með Bonferroni-leiðréttingarprófi var notuð til að bera saman kyn og skóla, sem og til að meta víxlverkun (interaction) á milli þessara breyta. Cohen´s d (Cd) var notað til að meta áhrifsstærðir á mun milli skóla. Krosstöflur (crosstabs) voru notaðar til að skoða dreifingu kynjanna í flokka viðmiðunargildanna og kí-kvaðrat (chi-square) notað til að meta hvort marktækur munur væri á hlutfalli kynjanna í mismunandi flokkum. Gögnin eru birt sem meðaltöl og staðalfrávik og tölfræðileg marktækni var sett við p<0,05.

Niðurstöður

Niðurstöður úr mælingunum settar fram eftir skólum má sjá í töflu I. Engin marktæk víxlverkun fannst á milli skóla og kyns. Marktækur munur (p<0,05) var á milli kynja á öllum breytum nema BMI, þanþrýstingi, hreyfingu, LDL og þríglýseríðum (p>0,05). Drengir voru hærri, þyngri, úthalds- og mittismeiri, og með lægra hlutfall líkamsfitu og HDL eins og við mátti búast. Þeir höfðu einnig hærri slagþrýsting, lægra heildarkólesteról og hærri blóðsykur. Marktækur munur var á milli skóla í hæð, mittismáli, hlutfalli líkamsfitu, slag- og þanþrýstingi, VO2max, hreyfingu og LDL (p<0,05). Nemendur úr skóla þrjú skáru sig yfirleitt úr og voru lægri (Cd=0,2), feitari (Cd=0,5), úthaldsminni (Cd=0,7), mittismeiri (Cd=0,3), með hærri slag- (Cd=0,5) og þanþrýsting (Cd=0,7) og hreyfðu sig minna (Cd=0,7). Undantekningin var sú að nemendur skóla tvö höfðu lægra LDL (Cd=0,4) heldur en nemendur hinna skólanna.

Flokkun þátttakendanna í holdafarsflokka samkvæmt viðmiðunargildum er í töflu II. Í heildina voru 23,3% þeirra skilgreindir of þungir eða of feitir. Heldur hærra hlutfall drengja flokkaðist sem of feitir meðan mun stærri hópur stúlkna var talinn of léttur (p=0,049). Sams konar greining eftir hlutfalli líkamsfitu gaf mun verra ástand til kynna, því 50,8% nemenda höfðu hátt hlutfall líkamsfitu (23,0%) eða offitu (27,8%).13 Eins og samkvæmt BMI-flokkuninni reyndust hlutfallslega fleiri drengir of feitir meðan hlutfall stúlkna með lágt eða of lágt hlutfall líkamsfitu var hærra (p=0,042). Þegar mælingar á kviðfitu samkvæmt mittismáli voru skoðaðar kom í ljós að um 8 af hverjum 10 (79,6%) nemendum höfðu viðunandi mittismál (<80 sm stúlkur og <94 sm drengir).14 Hins vegar flokkuðust 20,2% stúlkna með meðaláhættu (80-88 sm) og 7,8% með mikla áhættu (>88 sm) á offitutengdum sjúkdómum miðað við mittismál. Sömu tölur hjá drengjum voru 8,2% (94-102 sm) og 5,5% (>102 sm). Hærra hlutfall drengja mældist með ásættanlegt mittismál en hærra hlutfall stúlkna hafði mittismál tengt meðaláhættu á offitutengdum sjúkdómum (p=0,009).

Niðurstöður blóðþrýstingsmælinganna sýna að 89,8% nemenda höfðu kjör- eða eðlilegan slagþrýsting og aðeins 10,2% voru skil-greind með jaðar- eða háan slagþrýsting (tafla III). Þrátt fyrir það var hærra hlutfall drengja með jaðar- eða háan slagþrýsting (p<0,001). Meginþorri nemenda (265 af 274) hafði  kjör- eða eðlilegan þanþrýsting og hlutföll drengja og stúlkna í flokkum þanþrýstings voru svipuð (p=0,139).

Samkvæmt flokkun American College of Sport Medicine (ACSM)15 mældist VO2max 84,4% nemenda sæmilegt eða betra (tafla IV). Hærra hlutfall drengja hafði mjög gott úthald en stúlkur með  sæmilegt eða slakt úthald reyndust hlutfallslega fleiri en drengir í sömu flokkum (p<0,001). Lítill munur reyndist hins vegar á hreyfingu drengja og stúlkna og hlutfall kynjanna var nokkuð áþekkt í hverjum viðmiðunarflokki (p=0,706). Þrátt fyrir að innan við 20 nemendur hafi talist lifa kyrrsetulífi, náðu að jafnaði 139 (65,6%) nemendur ekki æskilegri hreyfingu (>10.000 skref) á degi hverjum.16

Hlutfall nemenda sem var yfir/undir ráðlögðum mörkum hvað varðar blóðfitu og blóðsykur má sjá á mynd 1. Að jafnaði mældust ~5-10% þátttakenda með blóðfitur utan æskilegra marka en sárafáir reyndust hafa óeðlilegan blóðsykur. Heldur hærra hlutfall stúlkna hafði of hátt (>6,0 mmol/L)17 heildarkólesteról (p=0,014) en ekki var hlutfallslegur munur á fjölda drengja og stúlkna utan æskilegra marka hvað varðar LDL (>3,35 mmol/L17, p=0,293), HDL (<1,30 mmol/L stúlkur, <1,05 mmol/L drengir17, p=0,901), þríglýseríð (>1,7 mmol/L17, p=0,508) og blóðsykur (>5,6 mmol/L18, p=0,357).

Umræða

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að íslenskir 18 ára nemendur í framhaldsskólum eru mjög illa á sig komnir hvað holdafar varðar, hvort heldur sem þeir eru skoðaðir út frá BMI- eða hlutfalli líkamsfitu. Einnig höfðu 11% nemenda óæskilega lágt HDL, 8% mældust með of hátt LDL, 10% voru skilgreind með jaðar- eða háan slagþrýsting og 9% þátttakenda höfðu þríglýseríð yfir ráðlögðum mörkum.17 Hvað úthald varðar, flokkuðust aðeins 16% nemenda með slakt eða mjög slakt úthald15 og þar af voru stúlkur í miklum meirihluta. Þrátt fyrir að stúlkurnar hefðu að meðaltali gott úthald og strákarnir mjög gott úthald náðu nemendur að jafnaði ekki að hreyfa sig daglega eins og mælt er með í hreyfiráðleggingum (>10.000 skref).16 Aðeins þriðjungur nemenda náði ráðlagðri hreyfingu.

Marktækur munur á milli skóla kom oftast fram á milli skóla þrjú (verknámsskóli) og hinna skólanna (bóknámsskólar). Skóli þrjú var skilgreindur sem verknámsskóli þó að nemendurnir þar væru bæði bók- og verknámsnemar. Þessir nemendur höfðu slakasta úthaldið, hreyfðu sig minnst, mældust með hæst hlutfall líkamsfitu, mesta mittismálið og hæsta blóðþrýstinginn. Niðurstöður úr norskri rannsókn á úthaldi 18 ára drengja sem kallaðir voru til herþjónustu á árunum 1980-85 og 2002, sýndu einnig að verknámsnemar höfðu marktækt lakara úthald en bóknámsnemar.19 Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að verknámsnemar eru ólíklegri til að taka þátt í íþróttum,20 sem gæti gefið til kynna almennt minni áhuga á hreyfingu meðal þeirra. Minni hreyfing gæti einmitt útskýrt að hluta til muninn á áhættuþáttunum (úthaldi, hlutfalli líkamsfitu, mittismáli, blóðþrýstingi) sem fannst á milli skólanna. Stúlkur úr skóla þrjú gengu að jafnaði um 1300-1800 færri skref og drengirnir um 1900-2800 færri skref daglega samanborið við kynsystkin þeirra úr hinum skólunum tveimur. Hins vegar komu of fáir nemendur eingöngu úr hefðbundnu verknámi til þess að gera óyggjandi samanburð á verk- og bóknámsnemum.

Hlutfall of þungra nemenda hér var nánast það sama og í rannsókn Kára Jónssonar21 á 18-19 ára framhaldsskólanemum. Í þessari rannsókn var hlutfall of feitra hins vegar talsvert hærra en þau 3% sem Kári greindi frá. Í símakönnun á meðal 15-24 ára Íslendinga flokkuðust 15% kvenna og 25% karla yfir kjörþyngd22 og hlutfall níu og 15 ára Íslendinga yfir kjörþyngd var á bilinu 17-22%2. Því virðist sem hlutfall of þungra hafi staðið í stað en hlutfall of feitra sé að aukast. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna aukinheldur að nánast sami fjöldi nemenda mældist í mikilli hættu á að þróa með sér offitutengda sjúkdóma samkvæmt mittismælingunni (n=18, stúlkur >88 sm, drengir >102 sm) og voru skilgreindir með offitu samkvæmt BMI-stuðli (n=19). 

Einhverra hluta vegna hafa viðmiðunargildi BMI-stuðulsins verið sett fram sem lýsing á holdafari (kjörþyngd, ofþyngd og offita) fremur en lýsing á auknum líkum á offitutengdum sjúkdómum og ótímabærum dauða. Tengsl BMI og hlutfalls líkamsfitu eru auk þess kúrflínuleg og sýnt hefur verið fram á að viðmið BMI fyrir offitu vanmeta offitu sem metin er út frá hlutfalli líkamsfitu mældri með nákvæmari aðferðum (DXA).23 Á hinn bóginn hefur hlutfall líkamsfitu ekki verið tengt sjúkdómum á sama hátt og BMI og því hafa ekki verið gefin út viðmið fyrir það hlutfall líkamsfitu sem eykur líkur á sjúkdómum og ótímabærum dauða.23

Í þessari rannsókn höfðu 118 stúlkur og 133 strákar mæligildi bæði frá BMI og DXA. Ef BMI-viðmiðið fyrir offitu (>30 kg/m2) er notað í þessum undirhópi eru fjórar stúlkur og 12 strákar skilgreind sem of feit en sé notast við offituskilgreiningu samkvæmt hlutfalli líkamsfitu13 frá DXA (>35% stúlkur, >22% drengir) eru 26 stúlkur og 44 strákar of feit. Því eru 22 af 26 of feitum stúlkum ranglega flokkaðar sem lausar við offitu samkvæmt BMI og 33 af 44 of feitum strákum (mynd 2A og B). Á hinn bóginn er einn strákur sem ekki er of feitur flokkaður sem slíkur samkvæmt BMI en engin stúlka.

Wellens og félagar23 áætluðu að þau BMI-viðmið sem best myndu lýsa offitu mældri með DXA væru 25 kg/m2 hjá körlum og 23 kg/m2 hjá konum á aldrinum 20-45 ára. Ef þau viðmið eru notuð fyrir offitu á BMI-stuðli í ofangreindum undirhópi væru 41 stúlka og 35 strákar skilgreind sem of feit. Þetta leiðréttir talsvert þá mynd sem BMI gefur af offitu hjá strákunum en ofmetur offitu töluvert hjá stúlkunum. Með þessum BMI-viðmiðum fyrir offitu væru einungis fjórar af 26 of feitum stúlkum ranglega flokkaðar sem lausar við offitu og 16 af 44 strákum. Hins vegar yrðu sjö strákar af 89 ranglega flokkaðir of feitir og 20 stúlkur af 92 sem ekki eru of feitar skilgreindar sem slíkar. Ástæður þess að BMI-viðmið Wellens og félaga23 ofmeta offitu hjá stúlkunum og vanmeta hjá strákunum eru sennilega þær að sú rannsókn notaði 33% hlutfall líkamsfitu sem viðmið fyrir offitu hjá konum og 25% hjá körlum, sem eru aðeins lægri (konur) og hærri (karlar) viðmið en notuð voru í þessari rannsókn. Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja því fyrri niðurstöður23 um að BMI-flokkunin lýsi líkamssamsetningu ekki vel og að frekar ætti að lýsa auknum líkum á offitutengdum sjúkdómum og ótímabærum dauða. Ákveðið hlutfall líkamsfitu hefur hins vegar ekki verið tengt sjúkdómum og ótímabærum dauða með óyggjandi hætti, þó svo að það hafi verið skilgreint eins og í töflu II.

Úthald þátttakenda var gott samkvæmt nýjustu viðmiðunargildum frá ACSM15 sem miðast reyndar við aldurshópinn 20-29 ára en byggja á gríðarlega stóru úrtaki. Ef miðað væri við 15-20 árum eldri viðmiðunargildi, annars vegar fyrir 13-19 ára unglinga24 og hins vegar fyrir 18-23 ára25 ungt fólk, myndi lægra25 eða hærra24 hlutfall stúlkna flokkast með sæmilegt úthald eða betra, en samkvæmt ACSM-viðmiðunargildunum.15 Þau viðmiðunargildi gætu þó verið ívið of lág þar sem fólk nær hámarkssúrefnisupptöku á unglingsárunum við lok kynþroskans, stúlkur um 15 ára aldur og piltar 17-18 ára.25, 26 Það gæti hugsanlega einnig útskýrt að hærra hlutfall drengja en stúlkna hafði mjög gott úthald, vegna þess að úthaldi stúlknanna gæti hafa hrakað eftir hafa náð hámarki við lok kynþroskans meðan strákarnir voru sennilega, miðað við aldur, að ná sínu hámarksúthaldi. Þessu til stuðnings hefur dönsk rannsókn26 sýnt að úthald drengja breytist lítið á aldursbilinu 16-19 ára en úthaldi stúlkna hrakar lítillega á sama tíma.

Erfitt getur verið að bera saman rannsóknir sem fjalla um daglega hreyfingu þar sem tæki til mælinga eru misjöfn. Séu skrefmælar notaðir er einnig misjafnt hvað rannsakendur á þessu sviði telja æskileg viðmiðunargildi fyrir skrefafjölda. Viðmiðunargildin sem notuð voru byggja á því að jákvæð heilsufarsleg áhrif náist með því að ganga um 10.000 skref á dag16 en um tveir þriðju þátttakenda náðu ekki þessu viðmiði. Þetta er áhyggjuefni þar sem sumar rannsóknir hafa bent á að við 13-16 ára aldur dragi úr hreyfingu barna og að svo dragi áfram úr hreyfingunni fram á fullorðinsár.27 Engar rannsóknir sýna hins vegar að unglingar auki hreyfinguna þegar þeir eldast, þannig að mjög líklegt er að stór hópur þessara 18 ára framhaldsskólanema muni alls ekki ná daglegum hreyfiráðleggingum þegar þau verða komin á fullorðinsaldur, með öllum þeim fylgikvillum sem fylgja ónógri hreyfingu.1

Kyrrseta meðal unglinga er algeng í vestrænum heimi og hefur hreyfing barna í Bandaríkjunum og Ástralíu almennt farið minnkandi á síðustu áratugum.28 Á árunum 2001-2002 var gerð könnun í ríkjum Evrópusambandsins á hreyfingu barna og unglinga (11, 13 og 15 ára) sem leiddi í ljós að 34% þátttakanda náðu að uppfylla hreyfiráðleggingar.29 Á Íslandi er sömu sögu að segja en einungis 2-15% níu og 15 ára barna uppfylla hreyfiráðleggingar Lýðheilsustöðvar.8 Hugsanlega má rekja þessa þróun til aukins sjónvarpsáhorfs, aukinnar tölvuleikjanotkunar og breyttra ferðahátta.

Rétt um tíundi hluti þátttakendanna hafði óæskilega hátt LDL og þríglýseríð og lágt HDL. Þessar niðurstöður hjá svo ungu fólki valda óneitanlega áhyggjum, því hátt LDL og lágt HDL auka líkurnar á æðakölkun. Að jafnaði var HDL hærra hjá stúlkunum og má skýra það með auknu estrógeni hjá konum sem eykur HDL. Aukið HDL stúlknanna skýrir svo hærra heildarkólesteról hjá stúlkunum í þessari rannsókn, þar sem ekki reyndist munur á LDL né þríglýseríðum milli kynja. Mjög fáir höfðu hækkaðan blóðsykur og einungis einn framhaldsskólanemandi mældist með blóðsykur yfir mörkunum sem notuð eru til að skilgreina sykursýki (>7 mmól/L). Það er í samræmi við að algengi sykursýki hér á landi mælist með því lægsta í Evrópu.30

Styrkleikar rannsóknarinnar liggja fyrst og fremst í fjölda þátttakenda og nákvæmra mælinga sem í sumum tilfellum voru þær bestu sem völ er á, svo sem hámarkssúrefnisupptökumælingin og DXA-mælingin á líkamssamsetningu. Veikleikarnir felast hins vegar helst í því að þrátt fyrir að þátttakendur væru valdir af handahófi gátu þeir afþakkað þátttöku. Líklegt er að líkamsástand og hreyfing þeirra sem afþökkuðu þátttöku sé verra en hinna og niðurstöður þessarar rannsóknar fegri því raunveruleikann meðal 18 ára ungmenna. Einnig voru allir þátttakendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknin endurspeglar því frekar ástandið þar heldur en á Íslandi öllu. Að auki voru nemendur skóla þrjú ekki allir hefðbundnir verknámsnemendur og samanburðurinn á milli skóla gefur því ekki alveg raunsanna mynd af muninum  á verk- og bóknámsnemum.

Ályktun

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að þó svo að úthald 18 ára framhaldsskólanema sé að jafnaði gott, er hreyfingu þeirra verulega ábótavant. Að sama skapi er hlutfall líkamsfitu þeirra alltof hátt og of hátt hlutfall yfir kjörþyngd. Einnig fannst hækkaður slagþrýstingur, LDL og þríglýseríð og lækkað HDL hjá um 10% unglinganna. Unglingar í verknámsskóla virðast auk þess vera heldur verr á sig komnir en jafnaldrar þeirra í bóknámsskólum. Aðgerða er því þörf til að auka hreyfingu og minnka líkamsfitu og fylgikvilla hjá þessum aldurshópi.

Þakkir

Höfundar vilja þakka Andrési Þórarni Eyjólfssyni, Ágústu Tryggvadóttur, Gunnari Axel Davíðssyni og Stefáni Guðmundssyni alla hjálpina við gagnaöflunina. Einnig vilja höfundar þakka styrktaraðilum rannsóknarinnar: Íþróttasjóði menntamálaráðuneytisins, Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Rannsóknarsjóði Kennaraháskóla Íslands, Forverkefnasjóði RANNÍS, Íslenskri getspá og World Class.

Heimildir

  1. Kasa-Vubu JZ, Lee CC, Rosenthal A, Singer K, Halter JB. Cardiovascular fitness and exercise as determinants of insulin resistance in postpubertal adolescent females. J Clin Endocrinol Metab 2005; 90: 849-54.
  2. Johannsson E, Arngrimsson SA, Thorsdottir I, Sveinsson T. Tracking of overweight from early childhood to adolescence in cohorts born in 1988 and 1994: overweight in a high birth weight population. Int J Obes 2006; 30: 1265-71.
  3. Jónsson SH, Héðinsdóttir M, Erlendsdóttir RÓ, Guð-laugsson JÓ. Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður: Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/04-2009/10. Landlæknisembættið og Heilsugæsla höfðuborgarsvæðisins, Reykjavík 2011.
  4. Valdimarsdóttir M, Jónsson SH, Þorgeirsdóttir H, Gísla-dóttir E, Guðlaugsson J Ó, Þórlindsson, Þ. Líkams-þyngd og holdafar fullorðinna Íslendinga frá 1990 til 2007. Lýðheilsustöð, Reykjavík 2009.
  5. Olshansky SJ, Passaro DJ, Hershow RC, Layden J, Carnes BA, Brody J, et al. A potential decline in life expectancy in the United States in the 21st century. N Engl J Med 2005; 352: 1138-45.
  6. Mokdad AH, Marks JS, Stroup DF, Gerberding JL. Actual causes of death in the United States, 2000. JAMA-J Am Med Assoc 2004; 291: 1238-45.
  7. Arngrimsson SA, Sveinsson T, Gunnarsdottir I, Palsson GI, Johannsson E, Thorsdottir I. The relation of fatness to insulin is independent of fitness in 9 but not 15 yr-olds. Med Sci Sports Exerc 2008; 40: 43-49.
  8. Magnusson KT, Arngrimsson SA, Sveinsson T, Johannsson E. Líkamshreyfing 9 og 15 ára íslenskra barna í ljósi lýðheilsumarkmiða. Læknablaðið 2011; 97: 75-81.
  9. Friedewald W, Levy RI, Fredrickson DS. Estimation of the concentration of low-density lipoprotein cholesterol in plasma, without the use of the preparative ultracentrifuge. Clin Chem 1972; 18: 499-502.
  10. Arngrimsson SA, Petitt DS, Borrani F, Skinner KA, Cureton KJ. Hyperthermia and maximal oxygen uptake in men and women. Eur J Appl Physiol 2004; 92: 524-32.
  11. Borg GA. Psychophysical bases of perceived exertion. Med Sci Sports Exerc 1982; 14: 377-81.
  12. Crouter SE, Schneider PL, Karabulut M, Bassett DR. Validity of 10 electronic pedometers for measuring steps, distance, and energy cost. Med Sci Sports Exerc 2003; 35: 1455-60.
  13. Lohman TG, Houtkooper LB, Going SB. Body fat measurements goes hi-tech: Not all are created equal. ACSM‘s Health Fitness J 1997; 1: 30-5.
  14. Alberti KGMM, Zimmet P, Shaw J. The metabolic syndrome - a new worldwide definition. Lancet 2005; 366: 1059-62.
  15. ACSM´s Guidelines for Exercise Testing and Prescription.Thompson WR, Gordon NF, Pescatello LS, editors. ACSM´s Guidelines for Exercise Testing and Prescription. 8 ed. Philadelphia: Wolters Kluwer and Lippincott Williams & Wilkins, 2009.
  16. Tudor-Locke C, Bassett DRJr. How many steps/day are enough? Preliminary pedometer indices for public health. Sports Med 2004; 34: 1-8.
  17. American Heart Association. What your cholesterol levels mean. heart.org/HEARTORG/Conditions/What-Your-CholestrolLevels-Mean_UCM_305562_Article.jsp október 2011.
  18. American Diabetes Association. How to tell if you have prediabetes. diabetes.org/diabetes-basics/prevention/pre-diabetes/how-to-tell-if-you-have.html október 2011.
  19. Dyrstad SM, Aandstad A, Hallen J. Aerobic fitness in young Norwegian men: a comparison between 1980 and 2002. Scand J Med Sci Sports 2005; 15: 298-303.
  20. Alricsson M, Domalewski D, Romild U, Asplund R. Physical activity, health, body mass index, sleeping habits and body complaints in Australian senior high school students. Int J Adolesc Med Health 2008; 20: 501-12.
  21. Jónsson K. Holdafar, þrek og lífsstíll 18 og 19 ára framhaldsskólanema. Meistaraprófsritgerð, Háskóli Íslands 2008.
  22. Steingrímsdóttir, L., Þorgeirsdóttir, H., and Ólafsdóttir, A. S. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslend-inga 2002. Helstu niðurstöður. Manneldisráð Íslands, Reykja-vík 2003.
  23. Wellens RI, Roche AF, Khamis HJ, Jackson AS, Pollock ML, Siervogel RM. Relationships between the body mass index and body composition. Obes Res 1996; 4: 35-44.
  24. Cooper Institute for Aerobics Research. The fitness specialist certification manual. Dallas: Cooper Institute for Aerobics Research, 1997.
  25. Shvartz E, Reibold RC. Aerobic Fitness Norms for Males and Females Aged 6 Years to 75 Years - A Review. Aviat Space Environ Med 1990; 61: 3-11.
  26. Andersen LB, Henckel P, Saltin B. Maximal Oxygen-Uptake in Danish Adolescents 16-19 Years of Age. Eur J Appl Physiol Occup Physiol 1987; 56: 74-82.
  27. Sallis JF. Age-related decline in physical activity: a synthesis of human and animal studies. Med Sci Sports Exerc 2000; 32: 1598-600.
  28. Dollman J, Norton K, Norton L. Evidence for secular trends in children‘s physical activity behaviour. Br J Sports Med 2005; 39: 892-7.
  29. Currie C, Roberts C, Morgan A, Smith R, Settertobulte W, Samdal O, Rasmussen VB. Young people‘s health in context. Health behaviour in school-aged children (HBSC) study: International report from the 2001/2002 survey. WHO Europe, Denmark 2004.
  30. Bergsveinsson J, Aspelund T, Gudnason V, Benediktsson R. Algengi sykursýki af tegund tvö á Íslandi 1967-2002. Læknablaðið 2007; 93: 397-402.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica