02. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Málþing um framhaldsmenntun í lyflækningum

Þingið var haldið í desember til heiðurs þeim Steini Jónssyni, Runólfi Pálssyni og Friðbirni R. Sigurðssyni sem hafa skipulagt og byggt upp formlegt sérnám í lyflækningum síðastliðin ár. 

Kristján Erlendsson framkvæmdastjóri skrifstofu vísinda, mennta og nýsköpunar ávarpaði samkomuna og síðan rakti Már Kristjánsson framhaldsmenntunarstjóri sögu námsins og stöðu í dag. Fram kom að 91 sérnámslæknir hefur verið skráður í framhaldsmenntunarnámið á tímabilinu 2003-2011. Úr hópnum hafa 67 horfið til frekara sérnáms, þorri þeirra erlendis. Alls hafa 26 sérnámslæknar lokið öllum þremur árum námsins á Landspítala. Spítalinn getur verið stoltur af þjálfun ungu læknanna, frammistaða þeirra í alþjóðlegum prófum er góð og þeir fá vist til frekara náms á viðurkenndum námsstöðum erlendis.

u05-fig1
Á málþingi í Hringsal Landspítala 15. desember síðastliðinn. Vilhelmína Haraldsdóttir tók þessa
mynd af kollegum sínum þar: Sveini Magnússyni, Guðmundi Þorgeirssyni, Má Kristjánssyni,
Hugrúnu Ríkharðsdóttur, Gerði Helgadóttur, Steini Jónssyni og Gunnari Valtýssyni.

Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga fjallaði um fagmennsku í framhaldsnámi og Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu um gerð laga og reglna um sérnám og viðurkenningar á því. Í gildi er reglugerð frá 1997 um sérfræðiviðurkenningar en læknalög eru lagastoð reglugerðarinnar. Endurskoðun er í farvatninu og er gríðarlegt verkefni. Þróun evrópska efnahagssvæðisins á frjálsu flæði vinnuafls gerir kröfu um samræmingu laga og reglna um sérnám í lyflækningum.

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir sérfræðilæknir fjallaði um afrakstur vísindastarfa sérnámslækna árin 2003-2011. Vísindavinna er nauðsyn á þroskabraut í sérnámi og fjöldi birtra vísindagreina sérnámslækna kom á óvart. Níutíu og sex greinar eftir þá og samverkamenn þeirra hafa birst í ritrýndum tímaritum innlendum og erlendum. Á árinu 2011 hafa nú þegar birst 22 vísindagreinar sérnámslækna.

Síðastur talaði Hilmar Kjartansson sem lauk sérnámi hér og fór til Nýja-Sjálands í nám í bráðalækningum og fjallaði um hvernig framhaldsnám í lyflækningum hefði nýst honum á erlendri grund.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica