02. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Um öryggismál, gæðamál og íslenskt mál. Magnús Baldvinsson

Við sem vinnum í heilbrigðiskerfinu verðum í auknum mæli vör við vaxandi umræðu um aukið öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu.

Á Íslandi liggjum við enn talsvert á eftir nágrannalöndunum í þessum málum þó að sjálfsögðu finnist undantekningar á því. Hér þykir til að mynda ekki neitt tiltökumál þó læknar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafi ekki íslenskt mál á valdi sínu.

Í vinnu minni við myndgreiningu hef ég margoft rekið mig á þetta. Þegar beiðni um rannsókn berst á ensku frá erlendum lækni og ég sendi síðan svar til baka á íslensku getur maður spurt sig hvort fullur skilningur sé til staðar, bæði á túlkun minni á sjúkrasögu á beiðni (þar sem hvorugur okkar hefur ensku að móðurmáli) og svo við túlkun hans á niðurstöðu.

Sömu spurningar má svo sem spyrja um samskipti læknis og sjúklings í þessu tilviki.

Á síðustu árum hefur þeim læknum sem starfa á Íslandi en hafa ekki íslensku að móðurmáli farið fjölgandi.

Á Íslandi eru kröfur um tungumálakunnáttu mjög lausbundnar. Í raun má segja að það gildi „þetta reddast bara“ lögmálið. (Sama sjónarmið er reyndar gjarnan haft þegar talið berst gæðamálum almennt.)

Það að Ísland er innan EES-svæðisins gefur samkvæmt lögum (tilskipun 2005/36/ESB) læknum innan þess sjálfkrafa starfsréttindi hér á landi og ekki er gerð krafa um tungumálakunnáttu við veitingu þeirra. Forstjóra hverrar heilbrigðisstofnunar er veitt það vald að ákveða hvort viðkomandi læknir ráði yfir nægjanlegri tungumálakunnáttu þegar ráðið er í störf svo öryggi sjúklinga sé ekki ógnað. Að mínu mati er athyglisvert að það skuli þá ekki vera í höndum lækningaforstjóra, þar sem ritun sjúkraskrár og gagna heyrir undir læknisverk og kemur inn á hæfi viðkomandi læknis. Reglugerð nr. 461/2011 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum innleiðir tilskipun Evrópusambandsins 2005/36/ESB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Í 53. gr. tilskipunarinnar er sett fram krafa um tungumálakunnáttu sem hljóðar svo:

Einstaklingar, sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, skulu búa yfir þeirri tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er til að geta lagt stund á starfsgreinina í gistiaðildarríkinu. Hverju aðildarríki er heimilt að setja kröfur um tungumálakunnáttu sem talin er nauðsynleg. Ísland sem EES-ríki hefur innleitt tilskipunina með framangreindri reglugerð, en lætur þeim sem ráða starfsmenn til vinnu „vinnuveitendum“ eftir að meta hvort tungumálakunnátta þess heilbrigðisstarfsmanns sem hann hefur í hyggju að ráða til starfa sé fullnægjandi, þannig að hagsmunir og öryggi sjúklinga sé tryggt.

Er hér einkum haft til hliðsjónar ákvæði 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, en þar kemur fram að forstjórar heilbrigðisstofnana bera ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir. Þeir ráða og starfslið heilbrigðisstofnana.

Samkvæmt lögum um sjúkraskrá var gerð krafa um að hún væri rituð á íslensku en því var breytt með eftirfarandi greinargerð.
Í 5. mgr. 5. gr. laga um sjúkraskrár kemur fram að:

Færslu sjúkraskrárupplýsinga skal haga þannig að þær séu aðgengilegar og að ritað mál sé skýrt og skiljanlegt.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um sjúkraskrár sem lagt var fram á Alþingi og er lögskýringagagn þegar túlka þarf ákvæði laganna kemur fram að:

haga skuli færslu sjúkraskrárupplýsinga þannig að þær séu aðgengilegar og að ritað mál sé skýrt og skiljanlegt. Sambærilegt ákvæði er í núgildandi reglugerð um sjúkraskrár en þar er þó jafnframt áskilnaður um að sjúkraskrár séu ávallt færðar á íslensku. Rétt þykir að falla frá þessu skilyrði nú enda getur það reynst óframkvæmanlegt í þeim tilvikum þar sem erlendir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem hér starfa færa sjúkraskrá eins og þeim er skylt að gera, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Ávallt verður þó að gera þá kröfu að sjúkraskrárupplýsingar séu skiljanlegar þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem koma að meðferð sjúklings enda getur sjúkraskrá ekki þjónað þeim megintilgangi sínum að vera vinnutæki við veitingu meðferðar nema svo sé. Þá er sú krafa jafnframt gerð að sjúkraskrá sé þannig færð að sjúklingur geti skilið hana eftir atvikum með aðstoð heilbrigðisstarfsmanna á sama sviði og þeir heilbrigðisstarfsmenn sem veittu meðferðina. Þá þurfa upplýsingar sem færðar eru í sjúkraskrá að vera aðgengilegar eigi þær að geta þjónað hlutverki sínu.

Komi læknar hins vegar frá landi utan EES er gerð krafa um íslenskukunnáttu og ennfremur próf við læknadeild. Sem dæmi um hve öfugsnúið þetta getur verið, er hægt að benda á að sú merkilega staða gæti komið upp að læknir sem kæmi frá landi utan EES og legði á sig að læra íslensku myndi kannski ekki skilja eldri sjúkraskrá sem gæti verið rituð á ensku nú eða jafnvel dönsku! Ef að viðkomandi „forstjóra“ hefði þótt það ásættanlegt.

Það hlýtur að vera mikilvægt öryggismál og gæðamál að gerð sé krafa um íslenskt mál.Þetta vefsvæði byggir á Eplica