12. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Frá formanni Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar

Ritstjórn er sífellt á höttunum eftir því að halda Læknablaðinu lifandi og láta það ekki festast í farinu. Liður í því er að hleypa að nýjum og ferskum pennum, og fá fleiri raddir kolleganna til að hljóma. Í þessu skyni hefur Læknablaðið kallað eftir pistlum frá formönnum hinna ýmsu sérgreinafélaga og undirdeilda Læknafélags Íslands og Reykjavíkur þar sem þeir reifi það sem efst er á baugi í þeirra félagi og meðal félagsmanna. Fyrstur til að skrifa slíkan pistil er Óttar Guðmundsson formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar.


Frá formanni Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar heldur upp á 57 ára afmæli sitt þann 18. desember næstkomandi. Á þessum degi árið 1964 kallaði Jón heitinn Steffensen prófessor saman tæplega fimmtíu manns sem komu á stofnfundinn. Jón reifaði þau verkefni sem hann taldi að félagið ætti að standa að, en þar bar hæst útgáfu Nordisk Historisk Årsbok auk heimildarrits um sögu læknisfræðinnar og varðveislu minja. Á stofnfundinum viðraði Jón þá skoðun sína að félagið ætti að efla þekkingu á sögu læknisfræðinnar sem var honum mikið hjartans mál.

u07-fig1
Óttar Guðmundsson, geðlæknir og formaður félagsins

Jón var formaður félagsins til æviloka 1991 en síðan hafa þeir Gunnlaugur Snædal, Halldór Baldursson, Atli Þór Ólason og Óttar Guðmundsson setið á þeim stóli.

Fæstir halda upp á 57 ára afmælið sitt með lúðraþyt og söng en oft sest afmælisbarnið niður og veltir fyrir sér ævi sinni og hvert stefni. Margir fyllast eldmóði og þegar þeir líta yfir farinn veg en aðrir vonleysi og finnst eins og lítið hafi áunnist.

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar getur að mörgu leyti vel við unað enda hefur félagið haldið uppi öflugri starfsemi um árabil. Eitt helsta baráttumál Jóns Steffensens var að koma upp safni um sögu lækningasögu enda ánafnaði hann Læknafélagi Íslands miklum hluta eigna sinna og skyldi féð renna til byggingar lækningaminjasafns í Nesi. Ef við Jón Steffensen eigum eftir að hittast einhvern tíma í framtíðinni annaðhvort í efra eða neðra get ég glatt hann með því að segja honum að nú sé búið að byggja eitt glæsilegasta safnhús í heimi úti á Seltjarnarnesi undir þessa sögu.

Byggingin er reyndar í hléi þessa mánuðina sakir fjárskorts en enginn vafi leikur á að fyrr eða síðar mun safnið taka fullbúið til starfa og mun verða íslenskri lækningasögu til mikils framdráttar. Nesstofa er komin í vörslu Þjóðminjasafnsins og mun sömuleiðis hýsa safn um sögu fyrsta landlæknisins á Íslandi auk eigin byggingarsögu. Jón sjálfur safnaði miklum fjölda muna sem nú eru í geymslu og bíða þess að salir safnsins verði opnaðir og almenningur fái litið þá augum. Félagið stóð í fylkingarbrjósti í áratugalangri meðgöngu og byggingu þessa glæsilega safnhúss.

u07-fig2

Jón Steffensen 1905-1991.
Um Jón segir í Læknatali: „Gaf húseign
sína og bókasafn (um 6000 bindi) til
Háskólabókasafns og aðrar eigur skv.
erfðaskrá til Læknafélags Íslands, sem
verja skyldi andvirði þeirra til uppbyggingar
Nesstofusafnsins.“

Ef Jón spyrði mig hvernig gengi að efla áhuga íslenskra lækna á eigin sögu vefðist mér tunga um tönn. Margir íslenskir læknar hafa þá skoðun að saga læknisfræðinnar hafi hafist þegar þeir sjálfir settust í læknadeild og sögunni ljúki þegar þeir skelli hurðum spítalans á eftir sér í síðasta sinn. Menn sýna starfi fyrirrennara litla virðingu og líta oft á allar þeirra lækningar sem hið mesta kukl. Hetjur gærdagsins eru fljótar að falla í gleymsku og dá og ég yrði að hryggja Jón með því að segja honum að nú muni engir aðrir eftir honum lengur en gamlir nemendur hans og bráðlega muni þeir hætta störfum fyrir aldurs sakir.

En ég gæti kætt minn gamla kennara með því að segja honum að sumir fundir félagsins séu ágætlega sóttir þótt aðrir mættu vera fjölsóttari. Varðandi útgáfu rita um sögu læknisfræðinnar gæti ég bent Jóni á nokkrar ágætar bækur um þetta efni sem ritaðar hafa verið á síðustu árum þótt enn megi bæta í þá hillu. Enginn læknir kemst þó með tærnar þar sem Jón hafði hælana í rannsóknum og skrifum um sögu læknisfræðinnar.

Félagið hefur um árabil gengist fyrir því að hingað komi einn norrænn fyrirlesari árlega til svokallaðs Egils Snorrasonar fyrirlestrar. Núverandi stjórn félagsins hefur lagt meiri áherslu á nútímasögu læknisfræðinnar en áður hefur verið gert. Okkur hefur fundist skipta miklu að læknar átti sig á því að þeir eru hluti af þeirri sögu sem er sífellt í mótun. Í fyrra kom til landsins Öivind Larsson prófessor frá Osló (gamall kunningi prófessor Jóns) og ræddi um mótun sögu  læknisfræðinnar. Auk hans komu fram þeir prófessorarnir Sigurður Guðmundsson (gamall nemandi Jóns) og Vilhjálmur Árnason og fjölluðu um afleiðingar hrunsins á heilsufar og siðfræði landsmanna. Þessir fyrirlestar voru haldnir í samráði við Háskóla Íslands í tilefni af aldarafmæli skólans. Öivind lagði þunga áherslu á það að sagan væri alltaf í mótun og við værum öll að skrifa þessa sögu.

Anna Löcke prófessor frá Danmörku var gestur félagsins á Egils Snorarsonar fyrirlestri í október síðastliðnum. Hún fjallaði um ýmsar ráðleggingar lækna til almennings á liðinni öld og afleiðingar þeirra. Hún gerði sér tíðrætt um margs konar algildan sannleika sem læknar í krafti áhrifa sinna hefðu boðað án þess að hafa nægilegar forsendur til þess. Í þessu sambandi nefndi hún þá ráðleggingu að ungabörn skyldu sofa á maganum til að koma í veg fyrir skyndidauða. Þetta taldi hún hina mestu firru sem hefði í raun gert mun meiri skaða en gagn. Læknar ráðlögðu konum ákveðnar reglur varðandi brjóstagjöf sem urðu til þess að mjög dró úr brjóstagjöfinni og konur gáfust upp. Í þessum tilvikum snerust ráðleggingarnar upp í andhverfu sína og afleiðingarnar urðu fremur dapurlegar. Auk þess ræddi hún um baráttu lækna gegn offitu þar sem menn hefðu boðað fagnaðarerindi tískublaða og líkamsræktarstöðva án þess að hafa neinar vísindalegar sannanir fyrir málflutningi sínum. Margir fundarmanna hættu að draga inn ístru sína eftir að hafa hlustað á erindi Önnu og slökuðu á og leyfðu sér eina örstund að trúa því að BMI yfir 25 væri ekki dauðasynd.

Prófessor Jóhann Ágúst Sigurðsson (gamall uppáhaldsnemandi Jóns) ræddi um mæligildin í nútímalækningum og þá ofurtrú sem margir læknar hefðu á þeim. Menn litu oftsinnis framhjá klínískri mynd en einblíndu á mæligildin eins og þau hefðu verið hoggin í stein.

Þessir fyrirlestrar færðu mönnum heim sanninn um það að sannleikurinn er jafn erfiður viðskiptis og forðum þegar Pílatus velti fyrir sér sannleikshugtakinu. Það sem menn trúa á í dag er skilgreint sem bull og hindurvitni á morgun. Saga læknisfræðinnar er eins og hver önnur saga sem stekkur stundum kollhnís þegar minnst varir. 

Ekki veit ég hvort Jón væri ánægður með þessar áherslur núverandi stjórnar á nútímasögu læknisfræðinnar en mestu skiptir að þessari sögu sé haldið til haga og hún gleymist ekki. Læknar þurfa að sætta sig við það að sagnfræðingar framtíðar munu grandskoða störf þeirra á sama hátt og við horfum til fortíðar og veltum fyrir okkur þeim ákvörðunum og þeim ráðleggingum sem þá voru gefnar. Kannski er það mönnum hvatning til dáða að vita af þessum dómi sögunnar sem bíður okkar allra.

Ég held að félagið geti á 57 ára afmælinu sínu horft um öxl með sigurbros á vör og þá sérstaklega þegar glæsibyggingin úti á Nesi er skoðuð. Hún mun halda nafni Jóns Steffenssens á lofti um ókomin ár og aldir þegar aðrir formenn félagsins eru löngu gleymdir bæði eigin afkomendum og öllum kollegum sínum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica