12. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Ekkert tóbak á EM 2012 - Frétt frá WHO

u09-fig1

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur ákveðið að banna alla notkun tóbaks á leikjum Evrópukeppninnar, EM, í knattspyrnu sem fer fram í Póllandi og Úkraínu í júní 2012. Ákvörðunin er tekin í samráði við Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og undirstrikar svo ekki verður um villst hversu mikla áherslu knattspyrnuyfirvöld leggja á að skapa alþjóðaknattspyrnunni ímynd heilbrigði og hreysti.

Bannið felur í sér að engar auglýsingar, sala eða notkun á tóbaki verða leyfð á knattspyrnuleikvöngum keppninnar. Gildir bannið bæði innan- og utandyra, á áhorfendasvæðum sem og á vellinum sjálfum. Hefur tekist víðtækt samstarf um að framfylgja banninu meðal alþjóðaheilbrigðisstofnana á borð við WHO, World Heart Federation, European Healthy Stadia Network og heilbrigðisyfirvalda í Póllandi og Úkraínu.

„Tóbakslaus Evrópukeppni í knattspyrnu 2012 sýnir virðingu okkar fyrir heilsu áhorfenda og keppenda,“ segir Michel Platini forseti UEFA. „Við viljum setja heilsu, öryggi og þægindi allra í efsta sæti og tóbak á þar ekki heima.“

Talsmenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninnar í Evrópu segja þetta mikilvægan áfanga í tóbaksvörnum á heimsvísu þar sem augu alls heimsins munu beinast að keppninni. „Forvarnargildið er gríðarlegt og sem fyrirmynd fyrir ungt fólk er þetta ómetanlegt,“ segir Zsuzsanna Jakab forstjóri WHO í Evrópu.

Ewa Kopacz heilbrigðisráðherra Póllands tekur í sama streng og segir þetta mikilvægan áfanga í baráttu heilbrigðisyfirvalda í Póllandi gegn tóbaki. „Árlega deyja 60 þúsund Pólverjar vegna tóbaksreykinga og þetta hefur gríðarlegt forvarnargildi.“

Heilbrigðisyfirvöld í Úkraínu eru á sama máli en þar eru tóbaksreykingar karla með því mesta sem gerist í heiminum og ein helsta ástæða ótímabærra dauðsfalla. Yfirvöld binda vonir við að tóbaksbannið á EM hjálpi til við að snúa þeirri þróun við.

Tóbaksbannið á EM 2012 er til marks um stefnu UEFA þar sem öll áhersla í framtíðinni verður lögð á að knattspyrnuiðkun sé eftirsóknarverður hluti af heilbrigðum lífsstíl.Þetta vefsvæði byggir á Eplica