12. tbl. 97. árg. 2011
Fræðigrein
Vanræktir sjúkdómar þróunarlanda – yfirlit
Ágrip
Vanræktir sjúkdómar þróunarlanda er eins konar samheiti fyrir fjölbreyttan hóp smitsjúkdóma. Þetta yfirlit lýsir stuttlega helstu smitleiðum, faraldsfræði og áhrifum þeirra ásamt helstu forvörnum og meðferð. Þeir sem helst smitast búa við lakar þjóðfélagsaðstæður og hafa sjaldan aðgang að viðunandi heilbrigðisþjónustu. Vanræktu sjúkdómarnir eru algengir og valda mikilli sjúkdómsbyrði. Í samanburði við HIV, malaríu og berkla má í raun kalla sjúkdómahópinn vanræktan en ákveðnir sjúkdómar innan hópsins eru vanræktari en aðrir. Fjármagn sem veitt er til rannsókna virðist ekki vera ákvarðað í hlutfalli við sjúkdómsbyrði og mikill ávinningur væri af útrýmingu þeirra. Lausn vandans felst í samþættingu eflingar lífskjara og baráttu við sjúkdómana. Ísland hefur þar hlutverki að gegna.
Skilgreining
Vanræktir sjúkdómar þróunarlanda (neglected tropical diseases; VSÞ) er samnefnari fyrir fjölbreyttan hóp smitsjúkdóma sem algengari eru í hitabeltislöndum. Það er ekki til ein alþjóðleg skilgreining á því hvaða sjúkdómum skuli skipa í þann hóp, en þeir sjúkdómar sem um ræðir eru oftast mun algengari og alvarlegra vandamál í þróunarlöndum en á Vesturlöndum.1-3 Þeir eiga það einnig flestir sameiginlegt að valda frekar langvinnum sýkingum og varanlegri örorku smitaðra, en síður dauðsföllum, þó bráð lífshætta geti verið raunin í kjölfar smits. Inn í hópinn falla því ekki sjúkdómar eins og HIV, malaría og berklar.4,5 Sjúkdómarnir kallast vanræktir vegna þess að þeir þykja fá minni athygli vestræns vísindasamfélags og minna fjármagn til rannsókna, forvarna og meðferða ef miðað er við sambærilega sjúkdóma.6,7 Í þessari grein er leitast við að kynna stuttlega hvaða sjúkdómar skipa þennan hóp, mismunandi birtingarmyndir þeirra, faraldsfræði, forvarnir og meðferð. Einnig eru upplýsingar um sjúkdómsbyrði og fjárframlög til sjúkdómanna sem hóps teknar saman og bornar saman við HIV, malaríu og berkla. Reynt er að svara því hvort um vanrækslu er í raun að ræða og af hverju hún gæti stafað. Ef svo er, hvað er til bóta og hvers vegna kemur það okkur á Íslandi við?
Helstu sjúkdómar og birtingarmyndir
Í flokki VSÞ eru sjúkdómar sem orsakast af bakteríum, veirum, ormum og frumdýrum (tafla I).
Af algengustu sjúkdómunum má sem dæmi nefna árblindu (onchocerciasis) og þráðormasýki (filariasis) af völdum þráðorma. Fullorðinn ormur getur lifað innan líkama manns í allt að 15 ár og framleiðir á þeim tíma mörg hundruð lirfur, en lirfurnar valda einkennum í manninum, svo sem blindu og sogæðastíflu. Algengi er að minnsta kosti 150 milljónir í 83 löndum.3,8-10 Aðrir ættbálkar þráðorma, svo sem ascaris og necator, smitast með því að manneskja borðar þroskuð egg eða þá að ormar skríða í gegnum húðina. Þeir valda ýmiss konar meltingaróþægindum, en mun hættulegra er fyrir börn að smitast en fullorðna vegna meðfylgjandi næringarskorts. Algengi þráðormasýkinga samanlagt er um 2,5 milljarðar, en einn einstaklingur getur verið smitaður af nokkrum mismunandi þráðormum á sama tíma.11,12
Schistosomaer agða sem syndir um í ferskvatni og smýgur í gegnum húð inn í blóðrásina. Þær þroskast í lifrinni og framleiða lirfur sem skiljast út með saur eða þvagi. Líkt og þráðormarnir geta fullorðnu lirfurnar lifað í allt að 15 ár. Þær geta valdið krabbameini í lifur, görnum og þvagblöðru, auk vitsmunaskerðingar. Algengi er að minnsta kosti 200 milljónir, um 120 milljónir einstaklinga eru með einkenni og 20 milljónir alvarlega veikir. Um 97% sýktra búa í Afríku.13-15 Aðrar gerðir schistosomasýkja aðeins dýr en geta valdið sundmannakláða í mönnum og hafa meðal annars fundist hérlendis.16
Augnyrja (trachoma) er bólga í hornhimnu og slímhúð augans. Hún stafar af síendurteknum smitum af bakteríunni Chlamydia trachomatis, gerðum A–C, í umhverfi þar sem hreinlæti er ábótavant. Algengi er um 85 milljónir og um 1,3 milljónir manna verða blindir á hverju ári, mest megnis í Afríku og Mið-Austurlöndum.9,17
Leishmaniasiser sjúkdómur af völdum nauðbundins innanfrumu frumdýrs (obligate intracellular protozoa) sem smitast með biti sandflugna. Sársaukalaus sár myndast á húð, slímhúð og innyflum. Algengi er um 12 milljónir, dánartíðni um 70.000 á ári. Sjúkdómurinn er nú tíður sem tækifærissýking með HIV í Suður-Evrópu. Hann finnst í 88 löndum, þar af eru 72 þróunarlönd.18,19
Annað frumdýr, Trypanosoma cruzi, smitast með biti blóðsjúgandi skordýra og veldur Chagas-sjúkdómi (Chagas disease) sem einkennist af langvinnum hjartavöðvakvillum og maga- og garnasjúkdómum í um 30% smitaðra. Algengi er um 15 milljónir og dánartíðni um 20.000 á ári, hæst í Suður-Ameríku.3,20
Beinbrunasótt (dengue fever) af völdum dengue-veiru veldur blæðingum í sinni svæsnustu mynd. Rannsóknir benda til að almennt skipi sjúkdómurinn sama sess og berklar og malaría hvað varðar samfélagsleg áhrif. Nýgengi er að aukast og eru nú um 100 milljón tilfelli á hverju ári, þar af eru 500 þúsund tilfelli alvarlegra fylgikvilla og um 20 þúsund dauðsföll. Líklegast má rekja þá aukningu til fólksfjölgunar, þéttbýlismyndunar og bættra skilyrða fyrir smitbera (vector), sem í flestum tilvikum er moskítóflugan Aedes aegypti. Beinbrunasótt er algengust í Suður-Ameríku og Suðaustur-Asíu, en auk áhrifa sinna þar er hún líka orðin einn algengasti sjúkdómurinn í alþjóðlegum ferðalöngum.5,21
Niðurgangssjúkdómar eru oftast af völdum veira, en geta líka verið af völdum baktería og frumdýra. Þeir valda frekar dauða en aðrir VSÞ vegna meðfylgjandi salt- og vatnstaps, þá sérstaklega hjá börnum. Talið er að 2,5 milljónir manna látist á hverju ári úr niðurgangi sem er nú í fimmta sæti yfir helstu orsakavalda dauða í heiminum. Niðurgangur er þriðja algengasta dánarorsök barna yngri en fimm ára í heiminum, en 600 sinnum fleiri börn deyja í þróunarríkjum en á Vesturlöndum.3,22-24
Buruli-sár, holdsveiki, dracunculiasis, mýgulusótt (yellow fever), himberjasótt (yaws) og höfgasótt af völdum Trypanosoma brucei (african sleeping sickness) eru dæmi um sjaldgæfari VSÞ. Þeir valda engu að síður miklum sjúkdómseinkennum, oft á tíðum örkumlum, án þess að valda dauða. Algengi þessara sjúkdóma er frá nokkrum þúsundum upp í hundruð þúsunda, en oft er algengi þeirra óþekkt stærð.9,25-27
Af þessu stutta yfirliti er ljóst að um afar fjölbreyttan hóp sjúkdóma er að ræða og faraldsfræði innan hópsins er misjöfn. Hins vegar eiga þeir svo margt sameiginlegt að það er auðveldara en ekki að fjalla um þá sem hóp.
Faraldsfræði og sjúkdómsbyrði
Talið er að minnst milljarður manna séu sýktir af umræddum sjúkdómum í dag.3 Algengi, nýgengi og dánartíðni eru þó afar misjöfn milli sjúkdóma en einnig vantar upplýsingar um faraldsfræði nokkurra þeirra. Þá skal einnig bent á að tölur um algengi VSÞ eru taldar vanmetnar sökum ófullnægjandi skráninga.4,9 Sumir sjúkdómanna eru að hverfa, þökk sé skipulögðu átaki og heppilegum lífsferlum sýkils. Aðrir eru að aukast á ný eftir að hafa verið í lægð í mörg ár, enn aðrir eru stöðugir sem endranær.11,28,29 Sem hópur valda sjúkdómarnir tæpum þremur milljónum dauðsfalla á ári og sjúkdómsbyrði þeirra er metin allt að 94 milljónir heilbrigðra ára sem tapast af lífi smitaðra einstaklinga (disability-adjusted life years, DALY).3 DALY-kerfið magngreinir sjúkdómsbyrði út frá reikniformúlu þar sem meðal annars er notast við lífslíkur í samfélagi, nýgengi ákveðins sjúkdóms og fjölda dauðsfalla smitaðra.30 Vegna þess að sjúkdómarnir valda, bæði beint og óbeint, örorku og skerðingu lífsgæða þeirra sem smitast miklu frekar en dauða, hefur DALY-kerfið ekki þótt nægilega gott matstæki fyrir þess háttar króníska sjúkdóma í fátækum samfélögum þar sem lífslíkur eru lágar. Engu að síður er sjúkdómsbyrði vanræktra sjúkdóma, reiknuð í DALY, í einstaka tilvikum hærri en HIV, malaríu og berkla.3 Lífsgæðaskali (quality-adjusted life years; QALY) sem byggist á viðtölum við smitaða hópa, spurningalistum og sjónrænum skölum (visual analog scale) er talinn geta metið betur áhrif sjúkdóma eins og VSÞ, jafnt bein sem óbein, en er mun erfiðari og dýrari í framkvæmd.4
Einn stærsti sameiginlegi þáttur sjúkdómanna er sjúklingahópurinn. Algengi smita er hæst í fátækum hitabeltislöndum sem falla í flokk þróunarlanda hjá Alþjóðabankanum. Flest þeirra eru í Afríku en mörg eru einnig í öðrum heimsálfum, svo sem Suður-Ameríku, Suðaustur-Asíu og í Mið-Austurlöndum. Þar myndast kjöraðstæður fyrir framgang helstu smitbera og þroskun sníkla. Þó er VSÞ einnig að finna í ríkjum utan hitabeltis, svo sem í Mið-Asíu og Suður-Evrópu, og eru þar vaxandi vandamál.19,31 Það eru langoftast þeir sem búa við hvað verstar félagshagfræðilegar aðstæður sem smitast. Sá hópur býr við lélegt aðgengi að hreinu vatni, óviðunandi hreinlætisaðstöðu og litla heilsugæslu, auk slæms húsakosts. Allir þessir þættir gera smituðum erfiðara um vik að leita sér lækninga og auka verulega smithættu. Því geta margir einstaklingar verið smitaðir af fleiri en einum sjúkdómi í einu.2,4,11,17
Þessi sjúklingahópur á síður kost á að borga fyrir helstu forvarnir eða meðferð. Jafnvel þeir tekjuhæstu í samfélaginu geta átt erfitt með að standa straum af kostnaði, búi þeir í þróunarríki. Þar má nefna að í Ghana árið 2003 kostaði meðferð við Buruli-sárum 242% af meðalárstekjum fátækasta hóps samfélagsins og 94% af meðalárstekjum þess ríkasta.2 En aðrir þættir en beinharðir peningar skipta máli þegar kemur að því að leita sér meðferðar. Sem dæmi má nefna langar vegalengdir frá heimili að heilsugæslu eða spítala, tímalengd meðferðar, meðferðarmáta og fjölda skipta. Ef þessir þættir eru óhagstæðir, geta þeir valdið því að sjúklingurinn getur eða vill ekki ljúka meðferð að fullu. Það viðheldur smithættu í samfélaginu og eykur líkur á viðnámi gegn lyfi sem er fyrsta val (first-line).19 Einnig hefur verið sýnt fram á verri árangur og mætingu smitaðra barna í skóla og neikvæð áhrif á efnahagslega afkastagetu smitaðra fullorðinna einstaklinga. Þar að auki geta nokkrir sjúkdómanna lagst á húsdýr (zoonosis).11,29 Þannig geta sjúkdómarnir haft langtímaáhrif á afkomu smitaðra og fjölskyldur þeirra.5 Þar fyrir utan geta smitaðir átt á hættu að missa vinnu vegna örkumla af völdum sjúkdómsins eða útskúfunar úr samfélaginu.18 Því er um töluverðan fjárhagslegan ávinning samfélaga að ræða af því að uppræta smit þessara sjúkdóma, bæði vegna minnkaðs vinnutaps smitaðra og tiltölulega lágs kostnaðar við upprætingu vissra sjúkdóma.2
Forvarnir og meðferðir
Margir sjúkdómsvaldar, jafnt bakteríur, veirur og sníkjudýr, berast manna á milli með biti skordýra sem sjúga blóð. Lækka má nýgengi þess háttar smita með forvörnum eins og netum, fælum og eitri.10,19,21,27,32 Vatn mengað af sýklum veldur smiti niðurgangssjúkdóma, auk agða og orma. Skortur á viðunandi salernisaðstöðu veldur einnig smiti niðurgangssjúkdóma og fjölgun flugna sem bera bakteríur og sníkla. Brunnar, kamrar og fræðsla til íbúa á svæðum þar sem sjúkdómarnir eru landlægir geta því haft mikil áhrif á nýgengi smita ýmissa VSÞ.11,17,33,34 Bóluefni eru ekki til nema gegn sárafáum sjúkdómum innan hópsins, og ef þau eru til á annað borð, standa þau stærsta sjúklingahópnum sjaldan til boða.35 Þá getur einnig verið að smitleið sé óþekkt eða að birtingarmynd sjúkdóms sé það lengi að koma fram að ábatasamar forvarnir séu ekki þekktar. Því hefur eftirspurn aukist eftir greiningaraðferðum sem gætu greint sjúkdóm á frumstigi áður en alvarlegar afleiðingar hans koma fram.20,36,37
Meðferð fer oftast fram með fjöldalyfjagjöf sem gefin er heilum samfélögum í einu til að spara tíma og peninga, en einnig til forvarna. Þau lyf sem þykja henta til fjöldameðferðar hafa fáar og mildar aukaverkanir, eru gefin um munn, skammtar eru tilbúnir eða auðvelt að reikna þá út, ónæmi gegn lyfjunum er lítið eða óþekkt auk þess sem sum lyf virka einnig gegn öðrum tegundum svipaðra sýkla. Dæmi um slík lyf eru ivermectín og albendazól sem notuð eru gegn árblindu annars vegar og þráðormasýki hins vegar.8 En ekki henta öll lyf til fjöldameðferðar, til dæmis vegna mikilla aukaverkana eða kostnaðar.19,37 Sumar rannsóknir segja fjöldalyfjagjafir ekki skila tilætluðum árangri. Til dæmis er erfitt að meðhönda ormasýkingar þar sem lyfin drepa ekki fullorðna orma og þarf því að veita lyfjameðferð í allt að 15 ár, eins og á við um ivermectín-gjöf. Einnig er ekki sjálfsagt að allir sem smitast taki lyfin inn þó þau standi þeim til boða, oftast vegna þess hve birtingarmynd sjúkdómsins er lengi að koma fram.37,38
Fjárframlög og vísindagreinar
Tekið hefur verið saman hve miklu fjármagni var varið á árinu 2007 til rannsókna og þróunar á greiningu, forvörnum og meðferð margra sjúkdóma sem teljast til VSÞ (tafla II).6,39 Í töflunni er einnig samantekt á DALY, dánartíðni, algengi og nýgengi sjúkdómanna, auk sömu upplýsinga um HIV, malaríu og berkla.3,5,8-15,17-20,22-26,40 Í ljós kom að til VSÞ sem hóps var veitt minna fjármagni en til hvers einstaks sjúkdóms hinna þriggja áðurnefndu, eða samtals um 382 milljónum Bandaríkjadala. Vanræktu sjúkdómarnir hafa mikla samanlagða sjúkdómsbyrði samkvæmt DALY-kerfinu, þó niðurgangssjúkdómar séu þar atkvæðamestir með tæplega 73 milljónir DALY. Aðrir sjúkdómar hafa ekki nærri eins mikla sjúkdómsbyrði og HIV, malaría og berklar. Dánartíðni VSÞ er almennt ekki há fyrir utan niðurgangssjúkdóma. Algengi og nýgengi þeirra er hins vegar hátt og einstaka sinnum hærra en hinna sjúkdómanna þriggja. Þá skal bent á þá staðreynd að margir geta verið smitaðir af nokkrum sjúkdómum í einu, bæði innan hóps vanræktra sjúkdóma og af hinum þremur.
Ef miðað er við sjúkdómsbyrði samkvæmt DALY-kerfinu, fá VSÞ sem hópur 3-4,5 sinnum minna fjármagn til rannsókna og þróunar en hver hinna sjúkdómanna fyrir sig (tafla III). Fjármagn sem veitt var til VSÞ er einnig tvisvar til fjórum sinnum minna ef miðað er við dánartíðni. Fjármagn miðað við algengi er minna en einn Bandaríkjadalur á hvert tilfelli, en HIV, malaría og berklar fá 30-106 Bandaríkjadali á tilfelli. Í nokkrum tilvikum fá ákveðnir sjúkdómar innan hóps VSÞ hærra hlutfall fjármagns en samanburðarsjúkdómarnir og er hlutfallið í raun afar misjafnt innan hópsins. Beinbrunasótt fær hlutfallslega mest fjármagn miðað við DALY og dánartíðni, hvort sem miðað er við VSÞ eða samanburðarsjúkdóma. Beinbrunasótt, holdsveiki og kinetoplastid (Leishamania og Trypanosoma cruzi og brucei) eru oftast með hæst hlutfall, en ormar og ögður, niðurgangssjúkdómar og augnyrja eru oftast lægst. Tölur um fjármagn og faraldsfræði allra sjúkdómanna liggja þó ekki alltaf fyrir.
Fimm til átta sinnum fleiri greinar eru birtar á PubMed og Web of Science um aðra sjúkdóma sem hafa þó svipað hátt DALY og VSÞ. Má þar til dæmis nefna sjúkdóma eins og mýlisskaða (multiple sclerosis), lifrarbólgu B, botnlangabólgu, stífkrampa, þvagblöðrukrabbamein og Parkinson sjúkdóm. Hefur hlutfallið aukist undanfarin ár á kostnað VSÞ. Það sama gildir um yfirlitsgreinar, séu þær skoðaðar sérstaklega.1
Umræður
Af samanburði fjárframlaga og fjölda birtra vísindagreina má draga þá ályktun að sjúkdómahópurinn sem hér um ræðir sé í raun vanræktur. Ef áætluð fjárframlög til sjúkdóma væru einungis metin eftir DALY eða dánartíðni, ættu hlutföll milli VSÞ og HIV, malaríu eða berkla að vera nokkuð jöfn. Því má draga þá ályktun að DALY, eða í raun hvaða breyta sem er, skipti ekki máli þegar gefendur ákvarða hvert skuli veita fjármagni. Tölur um faraldsfræði VSÞ eru taldar vanmetnar og DALY þykir ekki nægilega gott matstæki fyrir sjúkdómana. Því má leiða líkur að því að sjúkdómsbyrði VSÞ sé vanmetin og að þeir séu jafnvel enn vanræktari en tiltækar upplýsingar gefa til kynna. Af samanburði fjármagns má enn fremur draga þá ályktun að ákveðnir sjúkdómar innan hópsins séu meira vanræktir en aðrir, allt eftir því hvaða breyta er til samanburðar.
Erfitt er að benda á ástæður þessarar vanrækslu með vísindalegum aðferðum, en ýmsar getgátur hafa litið dagsins ljós. Þar á meðal sú einfalda staðreynd að VSÞ draga færra fólk til dauða á ári hverju en HIV, malaría og berklar og hljóti þannig minna umtal og þá jafnframt minna fjármagn – í heild og hlutfallslega. Fæstir VSÞ finnast í tempruðu loftslagi, en HIV og berklar eru vaxandi vandi á Vesturlöndum og Austur-Evrópu. Lítill áhugi vestrænna vísindamanna á sjúkdómum fjarri heimaslóðum er því ein kenning.41 Einnig er talinn vera lítill fjárhagslegur hvati til staðar fyrir lyfjafyrirtæki að framleiða vöru fyrir markað sem er lítils virði, þar sem flestir sem smitast af vanræktum sjúkdómum hafa ekki mikið lausafé. Engu að síður má þó nefna að um helmingur fjármagns sem veitt er til vanræktra sjúkdóma kemur alfarið frá einkareknum lyfjafyrirtækjum.42 Til eru dæmi þess að komið sé til móts við kostnað smitaðra einstaklinga með því að veita gjaldfrjálsa lyfjameðferð til dæmis gegn holdsveiki og árblindu.10,43 Nú eru starfrækt nokkur verkefni af hálfu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) auk alþjóðlegra sjóða, lyfjafyrirtækja og þróunarstofnana sem stuðla eiga að eyðingu eða útrýmingu ákveðinna vanræktra sjúkdóma. Sum þeirra, eins og verkefni gegndracunculiasis, augnyrju og sogæðaþráðormum, hafa sýnt fram á til hversu mikils er að vinna á vettvangi þessara sjúkdóma með einföldum aðgerðum.17,28,44
Einnig er mögulegt að yfirvöld á svæðum þar sem sjúkdómarnir eru landlægir vanræki vandamálið. Almennt skipulagsleysi og skortur á eftirliti yfirvalda gætu viðhaldið háu nýgengi smita. Jafnframt geta fordómar íbúa þessara svæða gegn vestrænum áhrifum eða fræðum hindrað upptöku nýrrar tækni við greiningu, forvarnir eða meðferð. Þar að auki gæti ný tækni einfaldlega verið verðlögð allt of hátt miðað við fjárhagslega stöðu smitaðra og/eða samfélaga, en heilbrigðiskerfi margra landa þar sem vanræktir sjúkdómar eru landlægir ráða ekki við þann kostnað sem þeim fylgir.19,45 Gjaldfrjálsar fjöldalyfjagjafir koma þannig ekki einungis til móts við einstaklinga heldur heil ríki.
Athygli vísindasamfélagsins virðist ekki hafa beinst sterklega að VSÞ þó sjúkdómsbyrði þeirra sé mikil. Með aukinni meðvitund um byrði sjúkdómanna á heiminn verður að fylgja meiri áhugi vísindamanna á að ráða niðurlögum þeirra. Sjúkdómarnir bjóða í rauninni upp á möguleika til að skapa nýja þekkingu, en á mörgum sviðum eru jafnvel grunnrannsóknir enn á byrjunarreit. Bættar upplýsingar um eðli sjúkdómanna og betri greiningaraðferðir og lyfjameðferðir vantar.41 Einnig vantar bóluefni gegn langflestum VSÞ, ekki síður en gegn þeim sjúkdómum sem hafa hærri dánartíðni. En þó bóluefni væru til staðar, er ekki þar með sagt að innviðir svæða þar sem VSÞ eru landlægir ráði við dreifingu, flutninga eða geymslu viðeigandi bóluefna – hvað þá kostnað.35 Lyf til fjöldameðferða gegn vissum sjúkdómum eru ódýr. Þó ekki sé einhugur um núverandi gagnsemi fjöldalyfjagjafa gegn VSÞ má benda á að með bættum lyfjum og aukinni fræðslu má nýta þá þekkingu og úrræði sem skapast hafa til enn frekari ávinninga.2,37,46 Vegna þeirra aðstæðna sem sjúkdómarnir þurfa til að breiðast út, er ljóst að margt má vinna með einföldum forvarnaraðgerðum, til dæmis byggingu kamra, greftri brunna, dreifingu flugnaneta og fræðslu til íbúa.10,11,17,19,21,27,32,34 Ekki er víst hvort fátæktin á svæðunum þar sem þeir eru landlægir er orsök sjúkdómanna eða afleiðing. En víst er að þetta eru sjúkdómar sem unnt er að koma í veg fyrir og það að ráða niðurlögum þeirra skilar miklu til samfélagsins.2,17,19,44 Samþætting almennrar eflingar lífskjara með þróunaraðstoð, á forsendum þeirra sem búa á vanþróuðum svæðum, og beinnar baráttu við sjúkdóma, svo sem með lyfjameðferð, hlýtur að gefa mestan ávinning.2,11,32
Ísland
Sýnt hefur verið fram á slæm efnahagsleg áhrif VSÞ og að barátta gegn þeim borgi sig. Hvað Íslendinga varðar felst okkar framlag til baráttunnar að langstærstum hluta í þróunaraðstoð og þá mun frekar í eflingu almennra lífsskilyrða en beinni baráttu við sjúkdóma. Markmið Sameinuðu þjóðanna frá 1970 er að ríkari þjóðir gefi sem samsvarar 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu (VÞF) til þróunaraðstoðar.47 Árið 2009 veittum við Íslendingar um þremur milljörðum króna af opinberum fjármunum til þróunaraðstoðar, eða sem samsvarar 0,23% af VÞF.48 Yfirlýst markmið núverandi stjórnvalda er að árið 2020 verði hlutfallið komið upp í 0,7%. Eftirtektarvert er að eitt það fyrsta sem skorið var niður í utanríkisþjónustu Íslendinga eftir efnahagshrunið var framlag til þróunarsamvinnu. Færa má rök fyrir því að eitt af meginverkefnum utanríkisþjónustu ríkis á borð við Ísland, hvort sem það hefur orðið fyrir tímabundnum skakkaföllum eða ekki, sé þróunarsamvinna.
Einfaldar forvarnir eins og þær sem framkvæma má með þróunaraðstoð krefjast augljóslega ekki sérhæfðrar læknisfræðilegrar kunnáttu. Þær forvarnaraðgerðir má telja til almennrar baráttu gegn fátækt í heiminum. Fjöldalyfjagjafir hafa einnig þann kost að vera einfaldar í framkvæmd, svo sérfræðikunnáttu er ekki þörf við dreifingu lyfja. Því er það ekki svo að læknar þurfi að vera staddir á vettvangi til að hafa áhrif á framvindu sjúkdómanna sem um ræðir. Hins vegar koma gefendur fjármuna til VSÞ úr ýmsum áttum og hafa ekki alltaf forsendur til að meta í hvers konar verkefni fjármagn vantar helst. Læknar, bæði hérlendis og erlendis, þurfa því að nýta áhrif sín og þekkingu til að leiðbeina gefendum og vera málsvari smitaðra, svo þessi vanrækti sjúklingahópur fái viðunandi greiningu, forvarnir og meðferð. Íslendingar hafa allar forsendur til að vera mun virkari á þessum sviðum en nú. Við höfum mannafla, þekkingu, fjármuni og síðast en ekki síst áhuga. Fátt væri okkur verðugra en að nýta hann betur.
Heimildir
- Vanderelst D, Speybroeck N. Quantifying the lack of scientific interest in neglected tropical diseases. PLoS neglected tropical diseases 2010;4:e576.
- Conteh L, Engels T, Molyneux DH. Socioeconomic aspects of neglected tropical diseases. Lancet 2010; 375: 239-47.
- WHO. The global burden of disease: 2004 update; 2008.
- King CH, Bertino AM. Asymmetries of poverty: why global burden of disease valuations underestimate the burden of neglected tropical diseases. PLoS neglected tropical diseases 2008;2:e209.
- Gubler DJ. Epidemic dengue/dengue hemorrhagic fever as a public health, social and economic problem in the 21st century. Trends Microbiol 2002; 10: 100-3.
- Moran M, Guzman J, Ropars AL, et al. Neglected disease research and development: how much are we really spending? PLoS Med 2009;6:e30.
- Neglected tropical diseases. 2009. who.int/neglected_diseases/faq/en/index5.html. - júlí 2011.
- Mendoza N, Li A, Gill A, Tyring S. Filariasis: diagnosis and treatment. Dermatol Ther 2009; 22: 475-90.
- Mathers CD, Ezzati M, Lopez AD. Measuring the burden of neglected tropical diseases: the global burden of disease framework. PLoS Negl Trop Dis 2007; 1:e114.
- Enk CD. Onchocerciasis--river blindness. Clin Dermatol 2006; 24: 176-80.
- Bethony J, Brooker S, Albonico M, et al. Soil-transmitted helminth infections: ascariasis, trichuriasis, and hookworm. Lancet 2006; 367: 1521-32.
- Soil-transmitted helminths. 2010. who.int/intestinal_worms/en/ - júlí 2011.
- Steinmann P, Keiser J, Bos R, Tanner M, Utzinger J. Schistosomiasis and water resources development: systematic review, meta-analysis, and estimates of people at risk. The Lancet Infect Dis 2006; 6: 411-25.
- Parkin DM. The global health burden of infection-associated cancers in the year 2002. Int J Cancer 2006; 118: 3030-44.
- Jukes MC, Nokes CA, Alcock KJ, et al. Heavy schistosomiasis associated with poor short-term memory and slower reaction times in Tanzanian schoolchildren. Trop Med Int Health 2002; 7: 104-17.
- Skírnisson K, Kolarova L. Sundmannakláði í Landmannalaugum. Læknablaðið 2005; 91: 729-36.
- Wright HR, Turner A, Taylor HR. Trachoma. Lancet 2008; 371: 1945-54.
- David CV, Craft N. Cutaneous and mucocutaneous leishmaniasis. Dermatol Ther 2009; 22: 491-502.
- Desjeux P. Leishmaniasis: current situation and new per-spectives. Comp Immunol Microbiol Infect Dis 2004; 27: 305-18.
- Tarleton RL, Reithinger R, Urbina JA, Kitron U, Gürtler RE. The Challenges of Chagas Disease - Grim Outlook or Glimmer of Hope? PLoS Med 2007; 4: 1852-7.
- Webster DP, Farrar J, Rowland-Jones S. Progress towards a dengue vaccine. Lancet Infect Dis 2009; 9: 678-87.
- Mandeville KL, Krabshuis J, Ladep NG, Mulder CJ, Quigley EM, Khan SA. Gastroenterology in developing countries: issues and advances. World J Gastroenterol 2009; 15: 2839-54.
- Stanley SL, Jr. Amoebiasis. Lancet 2003; 361: 1025-34.
- Marcos LA, DuPont HL. Advances in defining etiology and new therapeutic approaches in acute diarrhea. J Infect 2007; 55: 385-93.
- Portaels F, Silva MT, Meyers WM. Buruli ulcer. Clin Dermatol 2009; 27: 291-305.
- Barnett ED. Yellow fever: epidemiology and prevention. Clin Infect Dis 2007; 44: 850-6.
- Brun R, Blum J, Chappuis F, Burri C. Human African trypanosomiasis. Lancet 2010; 375: 148-59.
- Hopkins DR, Ruiz-Tiben E, Downs P, Withers PC, Jr., Roy S. Dracunculiasis Eradication: Neglected No Longer. Am J Trop Med Hyg 2008; 79: 474-9.
- Simarro PP, Jannin J, Cattand P. Eliminating human African trypanosomiasis: where do we stand and what comes next? PLoS Med 2008; 5: e55.
- Metrics: Disability-Adjusted Life Year (DALY). 2010. who.int/healthinfo/global_burden_disease/metrics_daly/en/ - maí 2010.
- Hotez PJ, Alibek K. Central Asia‘s Hidden Burden of Neglected Tropical Diseases. PLoS Negl Trop Dis 2011; 5: e1224.
- Burkot TR, Durrheim DN, Melrose WD, Speare R, Ichimori K. The argument for integrating vector control with multiple drug administration campaigns to ensure elimination of lymphatic filariasis. Filaria J 2006; 5: 10.
- Wang LD, Chen HG, Guo JG, et al. A strategy to control transmission of Schistosoma japonicum in China. N Engl J Med 2009; 360: 121-8.
- CfDCaP. Progress toward global eradication of dracunculiasis, January 2008-June 2009. Morb Mortal Wkly Rep 2009; 58: 1123-5.
- Lob-Levyt J, Affolder R, Rizzo I, Burgess C, Bchir A. A prescription for drug delivery. Nature 2007; 449: 170-2.
- Jauréguiberry S, Paris L, Caumes E. Acute schistosomiasis, a diagnostic and therapeutic challenge. Clin Microbiol Infect 2010; 16: 225-31.
- Hopkins AD. Ivermectin and onchocerciasis: is it all solved? Eye (Lond) 2005; 19: 1057-66.
- Parker M, Allen T. Does mass drug administration for the integrated treatment of neglected tropical diseases really work? Assessing evidence for the control of schistosomiasis and soil-transmitted helminths in Uganda. Health research policy and systems / BioMed Central 2011; 9: 3.
- Enserink M. Global health. Some neglected diseases are more neglected than others. Science 2009; 323: 700.
- WHO. World Malaria Report 2009; 2009.
- Butler D. Lost in translation. Nature 2007; 449: 158-9.
- Hopkins AL, Witty MJ, Nwaka S. Mission possible. Nature 2007; 449: 166-9.
- WHO. Leprosy fact sheet. Wkly Epidemiol Rec 2010; 85: 46-8.
- Ottesen EA, Hooper PJ, Bradley M, Biswas G. The global programme to eliminate lymphatic filariasis: health impact after 8 years. PLoS Negl Trop Dis 2008; 2: e317.
- Singer PA, Berndtson K, Tracy CS, et al. A tough transition. Nature 2007; 449:1 60-3.
- Wolfson LJ, Gasse F, Lee-Martin SP, et al. Estimating the costs of achieving the WHO-UNICEF Global Immunization Vision and Strategy, 2006-2015. Bull World Health Organ 2008; 86: 27-39.
- The 0.7% target: An in-depth look. 2006. unmillennium-project.org/press/07.htm - júlí 2011.
- Þjóðhagsreikningar. 2010. hagstofa.is/Hagtolur/Thjod-hags-reikn-ingar/Thjodhagsreikningar - júlí 2011.