11. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Söguslóðir í Borgarfirði og Dalasýslu. Páll Ásmundsson

u09-fig1

Í Hvammi í Dölum. Ljósm. P.Á.

 

Förin var farin undir leiðsögn sagnameistarans Magnúsar Jónssonar. Ferðalangarnir voru 36 auk hans.

Fyrsta daginn lá leiðin um Borgarfjörð. Var fyrst haldið að Bæ í Bæjarsveit. Þar gerði Rúðólfur biskup garðinn frægan á fyrstu öld kristni hér á landi.

Í Skáney í Reykholtsdal var rifjuð upp sagan um Gunnlaug ormstungu, Helgu hina fögru og Hrafn Önundarson. Á leiðinni í Reykholt hlustuðum við á góða hugleiðingu um endalok Snorra Sturlusonar. Eftir hádegisverð þar var ekið að Gilsbakka. Þar var Gunnlaugur ormstunga fæddur. Í kirkjugarði hvíla skáldin Guðmundur Böðvarsson og Jón Helgason. Á leið um Hvítársíðuna var rifjuð upp Heiðarvígasaga sem gerist á þeim slóðum.

Nú var ekið í Dali um Bröttubrekku og stansað á Eiríksstöðum í Haukadal. Í eftirlíkingu skála Eiríks rauða hlýddum við á skemmtilegan fyrirlestur við langeld. Síðan var haldið að Laugum í Sælingsdal. Þar gistum við í tvær nætur við ágætan viðurgjörning.

Morguninn eftir var ekið í Laxárdal. Þar var komið við á Höskuldsstöðum og skoðuð brekkan þar sem Höskuldur uppgötvaði að ambáttin Melkorka gat talað. Þá var ekið að Goddastöðum hinum megin dalsins og þaðan að Hjarðarholti sömu leið og búsmali Ólafs pá var rekinn í óslitinni röð. Þarna skoðuðum við kirkjuna, fallega prófraun Rögnvalds Ólafssonar arkitekts. 

Í för okkar um þessar slóðir var Laxdæla rifjuð upp og þá ekki síst ljúfsár saga þeirra fóstbræðra Kjartans og Bolla og Guðrúnar Ósvífursdóttur. Á Laugum hefur verið endurbyggð Guðrúnarlaug þar sem hún hreif þá pilta með tungutaki sínu og fegurð. Við glímdum við spurninguna hver það var sem hún unni mest. Var það Kjartan eða Bolli eða kannske hún sjálf?

Fyrir hádegisverð í Leifsbúð í Búðardal skruppum við að Hvammi. Hér bjó landnámskonan Auður djúpúðga og meðal merkra höfðingja er þar bjuggu voru Þórður gellir, langömmubarn Auðar, og Hvamms-Sturla. Á leið þaðan var komið við á Krosshólaborg þar sem Auður lét reisa krossa og gerði bænir sínar. Þar hafa byggðarkonur látið reisa myndarlegan steinkross.

Síðdegis var ekið um Svínadal áleiðis í Saurbæ. Á leiðinni var áð og farið í góðan göngutúr að Kjartanssteini þar sem Kjartan Ólafsson var veginn. Þetta er fallegur steinn og jafnvel hægt að sjá í honum mannsandlit. Kjartan eða kannske Guðrún? Úr Saurbæ var ekið um Skarðsströnd og Fellsströnd í náttstað. Komið var við á hinu forna höfuðbóli Skarði og var kirkjan þar skoðuð. Hér var rifjuð upp saga þeirra Ólafar ríku Loftsdóttur og Bjarnar Þorleifssonar hirðstjóra, ríkustu hjóna landsins á 15. öld. Björn var drepinn í Rifi af Englendingum og allir kunna tilsvör Ólafar er hún frétti lát hans.

Þessi nálægt 100 km ferð „fyrir Strandir” var hin ánægjulegasta og lá um marga fallega og sögufræga staði.

Þriðja daginn var lagt af stað heimleiðis. Lá leið okkar um Heydal í Hnappadal. Var þaðan ekið niður í Hítarnes þar sem bjó Þórður Kolbeinsson sá sem með svikum komst yfir Oddnýju eykyndil sem heitin hafði verið Birni Hítdælakappa.

Þaðan var ekið upp í Hítardal að samnefndum bæ. Á leiðinni var rifjuð upp saga Björns og dvöl Grettis í Grettisbæli. Einnig heilsuðum við tröllunum Hít og Bárði Snæfellsás sem dagaði uppi við Hítardalsbæinn.

Var nú ekið að Borg, gengið þar í kirkju og skoðaður legsteinn Kjartans Ólafssonar sem prýddur er torskildum rúnum. Rýnt var í listaverk Ásmundar Sveinssonar, Sonatorrek, og rifjuð upp tilurð ljóðsins.

Eftir hádegisverð í Borgarnesi var ekið út á Álftanes á Mýrum og var gaman að koma á þessa útjörð Skallagríms.

Héldum við síðan heim, hæstánægð með ferðina.

Tvær limrur urðu til í þessari ferð:

 

Við réðumst í reisu langa

í rútu með Sagna-Manga.

Dagana þrjá

var dámargt að sjá

og dæluna Mangi lét ganga.

 

Boðskapur byggðina flaug um:

Baðdagur Gunnu á Laugum!

Tveir skelltu á skeið

í skyndi á leið

bera að berj'ana augum.

                                   P.Á.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica