11. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Sjúkratryggingar Íslands veita upplýsingar um réttindastöðu sjúklinga rafrænt

Á síðustu misserum hafa áfangar náðst í þjónustu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til hagsbóta fyrir almenning og veitendur heilbrigðisþjónustu. Stofnunin hefur hafið rafræna miðlun upplýsinga til þessara hópa. Veitendur heilbrigðisþjónustu geta nú nálgast rafrænt upplýsingar til að ákvarða rétta kostnaðarþátttöku sjúklinga, án frekari staðfestingar eða framvísunar afsláttarskírteina. Almenningur getur skoðað eigin réttindi, sótt afsláttarkort og skoðað reikningsyfirlit og endurgreiðslur vegna heilbrigðisþjónustu.

Læknisþjónusta

Upplýsingum um réttindastöðu vegna læknisþjónustu er miðlað með tvennum hætti til heilbrigðisstofnana og læknastöðva:

  • Með beinum rafrænum samskiptum við upplýsingakerfi heilbrigðisstofnana og læknastöðva.
  • Í gegnum þjónustusíðu SÍ fyrir veitendur heilbrigðisþjónustu, Gagnagátt (mínar síður rekstraraðila) á www.sjukra.is.

Upplýsingar um réttindastöðu eru þrenns konar:

  • Er sjúklingur sjúkratryggður eða ekki?
  • Er sjúklingurinn öryrki eða ellilífeyrisþegi?
  • Er sjúklingur með afsláttarkort?

Sjúklingur greiðir því ávallt verð miðað við þá greiðsluþátttöku sem hann á rétt á og þarf ekki að framvísa afsláttarkorti frá SÍ eða örorkukorti frá TR.

Nú þegar er þessi tenging komin við allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, auk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Domus Medica. Fleiri aðilar munu tengjast á næstunni. Önnur leið til að fletta upp réttindastöðunni er að tengjast ofangreindri Gagnagátt sem krefst innskráningar á lokað svæði á vefnum www.sjukra.is sem miðlar lykilorði í netbanka. Aðilar eins og Læknasetrið í Mjódd, Læknisfræðileg myndgreining, Læknavaktin og fleiri hafa hafið notkun á gáttinni og er stofnunin nú að kynna hana fyrir fleiri aðilum í heilbrigðisþjónustu.

Kaup á lyfjum

43 apótek tengd

Rafræn tenging er við 43 apótek af þeim 63 sem starfrækt eru á landinu og er áætlað að síðustu apótekin tengist fyrir árslok. Þau sem nú eru tengd og réttindastöðu er miðlað til eru öll útibú Lyfju, Lyfja og heilsu, og apótek Lyfjavers. 

SÍ miðlar til apóteka svipuðum upplýsingum og til aðila í læknisþjónustu, þ.e. upplýsingum um sjúkratryggingu og stöðu, en einnig hvort einstaklingur sé með lyfjaskírteini sem gefur aukinn afslátt af einstökum lyfjum.

Rétt eins og gagnvart læknisþjónustu greiðir einstaklingur ávallt verð miðað við þá greiðsluþátttöku sem hann á rétt á og þarf ekki að framvísa afsláttarskírteinum.

Sjúklingar geta séð réttindastöðu sína

Sjúklingar geta fengið upplýsingar um eigin réttindastöðu í gegnum Réttindagátt (mínar síður einstaklinga)á www.sjukra.is. Í gáttinni er hægt að sjá stöðu afsláttarkorts og lyfjaskírteinis og prenta þau út, hægt er að skoða yfirlit yfir reikninga sem greiddir hafa verið vegna heilbrigðisþjónustu, sem og mögulegar endurgreiðslur á kostnaði.

Hver er ávinningurinn?

Ávinningur af rafrænni miðlun réttindastöðu er margháttaður:

  1. Óþarfi er fyrir sjúkling að hafa með sér afsláttarskírteini til að sýna fram á aukin réttindi til heilbrigðisþjónustu. Þetta sparar sjúklingum sporin, til dæmis að sækja afsláttarkort og endurgreiðslu ef afsláttarkort gleymist.
  2. Reikningagerð og uppgjör aðila í heilbrigðisþjónustu verður nákvæmari og minni hætta er á villum og leiðréttingum.
  3. Umsýsla SÍ við að sannreyna reikninga og uppgjör við aðila í heilbrigðisþjónustu verður minni, réttari og öruggari, og meira svigrúm skapast til að veita almenningi og veitendum heilbrigðisþjónustu betri þjónustu.

Allt þetta leiðir til þess að viðskiptakostnaður í kerfinu lækkar og hagkvæmni eykst hjá öllum ofangreindum aðilum.

Veitendur heilbrigðisþjónustu hvattir til að tengjast

Veitendur heilbrigðisþjónustu eru hvattir til að notfæra sér þjónustu SÍ, hvort sem þeir vilja sækja um tengingu við kerfin eða byrja strax með því að skrá sig inn í Gagnagátt. Upplýsingar um aðgang má finna undir Gagnagátt á forsíðu www.sjukra.is. Einnig er hægt að hafa samband við SÍ í síma 515-0070 eða með tölvupósti á gatt@sjukra.is.

Miðlun á réttindastöðu sjúklinga er öllum til hagsbóta: sjúklingum, veitendum heilbrigðisþjónustu og ríkinu. 

 

Fréttatilkynning



Þetta vefsvæði byggir á Eplica