11. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Líflegur aðalfundur Læknafélags Íslands

„Innistæðan fyrir útgjöldum áranna 2006 og 2007 var mjög veik og þó við komum hjólum atvinnulífsins aftur af stað og náum fullum kröftum að nýju þá munum við ekki snúa aftur til eyðslu þessara ára,“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra í upphafi ræðu sinnar við setningu aðalfundar Læknafélags Íslands þann 20. október síðastliðinn.

u03-fig1
Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum. Um sumar voru fundarmenn samhljóða
sammála.

Ráðherra bætti því við að honum fyndist þjóðin eiga mjög erfitt með skilja þetta. Fjárlög ársins 2012 tækju mið af þeim staðreyndum í efnahagslífinu sem blasi við, og breytingar sem verið er að gera á heilbrigðiskerfinu í gegnum fjárlögin séu hugsaðar útfrá sömu forsendum.

Ráðherra kastaði ýmsum spurningum um heilbrigðisþjónustuna yfir til viðstaddra og kvað lækna verða að taka þátt í að svara þeim. „Er öll þjónusta jafnmikilvæg? Eigum við að taka upp þjónustustýringu? Er aðgengi að sérfræðilæknum of mikið? Erum við að gera réttu hlutina? Eigum við að stýra þjónustunni með verðlagningu eða með beinni tilvísun? Erum við að nýta fagþekkingu heilbrigðisstarfsfólks á sem hagkvæmastan hátt? Er raunhæft að tala um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu alls staðar á landinu?“ spurði ráðherrann og bauð ekki upp á svör en sagði að umræða um þessar spurningar yrði að fara fram. Hann sagði hina endanlegu ábyrgð á afleiðingum niðurskurðar í kerfinu liggja hjá sér sem ráðherra. „En ég get ekki tekið ákvarðanir í tómarúmi. Þið læknar verðið að þora að taka slaginn með mér og koma með tillögur. Ég ber svo ábyrgð á niðurstöðunni,” sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Í fyrirspurnum var því fagnað að ráðherra leitaði samráðs við læknastéttina en hann var einnig spurður hvernig hann hygðist bregðast við vaxandi brottflutningi sérfræðilækna til starfa erlendis og hvort eiga mætti von á því að nothæf rafræn sjúkraskrá liti dagsins ljós. Ráðherra sagði að skoða þyrfti alla þætti þess að ungir sérfræðilæknar frestuðu heimkomu eftir sérnám. „Það eru ekki bara launin sem ráða úrslitum, heldur einnig aðstaðan og fagleg ögrun. Við þurfum að hyggja að þessu öllu.” Hann sagði rafræna sjúkraskrá eina af meginforsendunum nútímaheilbrigðiskerfis. „Þar er þetta spurning um forgangsröðun á tímum niðurskurðar.”

f03-fig2
Þorbjörn Jónsson nýkjörinn formaður Læknafélags Íslands þakkar
fundarmönnum traustið.

Siðfræði erfðarannsókna

Á föstudagsmorgninum var haldið málþing um siðfræði erfðarannsókna og þar höfðu framsögu Eva Nilsson Bågenholm fyrrverandi formaður sænska læknafélagsins, Magnús Karl Magnússon prófessor í lyfjafræði við læknadeild HÍ og Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki.

Eva kynnti siðareglur WMA og hverjar væru helstu áherslur í siðfræði við rannsóknir í læknisfræði. Hún tók þó fram að siðareglur WMA væru ekki lög eða reglur heldur tilmæli sem í áranna rás hefðu tekið breytingum en væru helsta viðmiðun við læknis- og lyfjarannsóknir um heim allan.

Magnús Karl fjallaði um þær gríðarlegu framfarir og breytingar sem orðið hefðu á erfðafræðirannsóknum og hvert líklegt væri að þær stefndu á næstu árum. Hann sagði að umræða um erfðafræðirannsóknir hefði koðnað niður í kjölfar deilna um Íslenska erfðagreiningu um síðustu aldamót en nú væri tímabært að taka umræðuna upp aftur, þar sem staða Íslands sem viðfangsefnis erfðafræðirannsókna væri einstök og mikilvægt að ræða hvernig framtíðarskipan þessara mála yrði. „Hvergi í heiminum finnst sambærilegur hópur við íslensku þjóðina þar sem til eru jafnmiklar erfðafræðilegar upplýsingar um einstaklingana og hér. Hvernig við förum með þessar upplýsingar við rannsóknir í framtíðinni þarf að ræða málefnalega og af ábyrgð.”

Vilhjálmur Árnason ræddi hagsmuni einstaklingsins við rannsóknir og hvernig þær geta bæði gagnast einstaklingnum og skaðað hann. Hann ræddi hvernig hin ítarlega erfðafræðiþekking á íslensku þjóðinni gæti gagnast við skimanir fyrir ýmsum alvarlegum sjúkdómum, þar sem ekki þyrfti að kalla alla til skimunar heldur einungis þá sem væru í skilgreindum áhættuhópi. „Við vitum í rauninni hverjir eru í áhættu og hverjir ekki. Hins vegar getur alltaf gerst að einstaklingur sem ekki er í áhættuhópnum fái sjúkdóminn engu að síður og eftir á mætti segja að skimun hefði getað hindrað frekari framgang hans.” Þá ræddi hann einnig hvernig erfðafræðilegar upplýsingar til einstaklings gætu bæði aukið og minnkað lífsgæði hans eftir ástæðum hverju sinni. „Þetta þarf því að athuga vandlega og ræða til hlítar áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.”

u03-fig3
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra óskaði eftir samráði við lækna um forgangsröðun í
niðurskurði fjárveitinga til heilbrigðismála.

Nýr formaður

Síðast en ekki síst fór fram formannskjör á aðalfundinum og voru tveir í framboði; Ragnar Jónsson og Þorbjörn Jónsson. Báðir héldu þeir snöfurmannlegar framboðsræður en Þorbjörn fór með sigur af hólmi í atkvæðagreiðslu. Birna Jónsdóttir fráfarandi formaður tilkynnti um úrslit kosninganna og óskaði nýjum formanni velfarnaðar í embættinu. Fjórir nýir buðu sig fram til stjórnarsetu og jafnmargir hurfu úr stjórn, þannig að þar var sjálfkjörið. Í stjórn Læknafélags Íslands sitja nú auk formannsins, Þórey Steinarsdóttir, Árdís Ármannsdóttir, Steinn Jónsson, Orri Þór Ormarsson, Salome Arnardóttir, Magnús Baldvinsson féhirðir, Valgerður Rúnarsdóttir varaformaður og Anna Kr. Jóhannsdóttir ritari.

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á fundinum. Þar er meðal annars lýst yfir stuðningi við að byggður verði nýr sameinaður Landspítali á einum stað, skorað er á stjórnvöld að skilgreina hvaða heilbrigðisþjónusta falli undir sjúkratryggingahugtak almannatrygginga og skorað er á stjórnvöld að gera íslenskt heilbrigðiskerfi á ný að fýsilegum starfsvettvangi fyrir lækna. Þá samþykkti fundurinn tvær ályktanir um tóbaksvarnir. Allar ályktanir fundarins má lesa í heild á heimasíðu Læknafélags Íslands, www.lis.is.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica