11. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Mér finnst gaman að slást. Viðtal við Birnu Jónsdóttur

„Þessi ár mín sem formaður Læknafélags Íslands urðu einfaldlega allt öðruvísi en ég bjóst við,“ segir Birna Jónsdóttir sem hætti formennsku á aðalfundi félagsins 20.-21 október. Birna var kjörin formaður LÍ á aðalfundi haustið 2007 og hefur því gegnt formennskunni í fjögur ár. Hún varð jafnframt fyrsta konan til að gegna embættinu.

 u02-fig1
„Til að halda þeirri hugmynd á lofti að hér sé eitt besta heilbrigðiskerfi
í heimi þurfum við að gefa íslenskum læknum svigrúm til að starfa að
hluta erlendis,“ segir Birna Jónsdóttir fráfarandi formaður Læknafélags
Íslands.

Sérgrein Birnu er röngtenlækningar og hún hefur starfað sem sérfræðingur og starfsmannastjóri Röntgen Domus, sem hún stofnaði í félagi við aðra röntgenlækna fyrir 20 árum. Áður hafði hún starfað sem sérfræðingur á röntgendeild Landakotsspítala.

„Ég var búin að sitja í stjórn LÍ í sex ár sem gjaldkeri og þar að auki höfðu nánustu samstarfsmenn mínir verið í stjórn félagsins um árabil þar á undan, þannig að ég hafði fylgst náið með félaginu og starfsemi þess var í mínum huga í föstum skorðum og nokkuð skýr. Svo fengum við þetta blessaða hrun svo ég náði tæpu ári þar sem allt var eins og ég hafði búist við. Hrunið gerbreytti öllu hér sem annars staðar. Læknafélagið er málsvari lækna gagnvart stjórnsýslunni og framkvæmdavaldinu. Hvort tveggja var í rúst eftir hrunið. Mér hefur þótt einstaklega sorglegt að horfa upp á þessa vanmáttugu íslensku stjórnsýslu. Úrræðaleysi og skortur á fagmennsku eru helstu einkennin sem blasa við manni í stjórnsýslunni.“

Birna segir þetta eiga sér skýringar í stefnuleysi stjórnmálamanna í heilbrigðismálum og rifjar upp að fyrir alþingiskosningarnar vorið 2009 hafi hún farið á kosningafundi allra stjórnmálaflokka og borið upp spurninguna: Hver er stefna þíns flokks í heilbrigðismálum? Fátt hafi orðið um svör.

„Ég átti von á því að Samfylkingin yrði ráðandi afl eftir þessar kosningar og lagði mig því sérstaklega fram við að lesa stefnuskrá flokksins, og þá gerði ég mér grein fyrir því að orðið heilbrigðismál var ekki lengur til. Það hét núna Velferð. Og það var ekki hægt að tala við frambjóðendurna um heilbrigðismál. Við fengum bara eitthvað velferðarkjaftæði í hausinn. Niðurskurður í heilbrigðismálum hefur síðan verið falinn innan þessa óljósa hugtaks: velferðarmál,“ segir hún.

Kjarabaráttan

Birna segir að sér hafi fljótt orðið ljóst eftir hrunið hversu mikilvægt félagið var læknum og að stjórn félagsins hafi orðið að bregðast hratt við breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.

„Stjórn LÍ er sá vettvangur sem læknar leita til með áhyggjur sínar og óöryggi, bæði sem einstaklingar og starfsmenn. Læknahópurinn íslenski fylltist óöryggi, sem eðlilegt var; ráðningarsamningum stórra hópa lækna var sagt upp um áramótin 2008-2009. Strax um vorið 2009, þegar breytingar á kjörum lækna tóku gildi, gerðum við okkur grein fyrir því að við myndum missa þá úr landi. Þetta gekk eftir og hefur litað alla okkar vinnu síðan. Við sáum strax að við þyrftum að halda vel utan um töluna yfir lækna í landinu svo við hefðum óhrekjanleg gögn í höndunum um fækkunina. Þessu varð að koma ráðamönnum í skilning um, til að þeim væri ljós sérstaða læknastéttarinnar þegar kæmi að gerð nýrra kjarasamninga. Samningurinn yrði að taka mið af því að læknaskortur er staðreynd í þessu landi. Ég tel þetta hafa tekist með samningnum sem undirritaður var og samþykktur af læknum núna í september. Ég er mjög sátt við samninginn og mjög ánægð með hversu mikill meirihluti lækna samþykkti hann.“

Kjarabaráttan eftir hrunið hefur tekið á sig ýmsar myndir og stjórn LÍ á stundum verið á þönum við að slökkva elda sem blossa upp á óvæntum stöðum. Birna rifjar upp að Álfheiður Ingadóttir, sem gegndi embætti heilbrigðisráðherra um hríð, hafi haft þá yfirlýstu stefnu að lækka laun lækna. Á móti því hafi þurft að berjast.

„Vorið 2010 var svo skipulega gengið fram á stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum, við að breyta ráðningarkjörum ungra lækna og þeir gengu út. Ég átti ekki von á því fyrir fjórum árum að ég yrði í svona harðri vörn fyrir stéttina. Lögbundið hlutverk LÍ er að standa vörð um kjarasamninga. Það hefur verið meginverkefni stjórnar LÍ þessi þrjú ár sem liðin eru frá hruni. Mér hefur svo sem ekki leiðst þetta, mér finnst gaman að slást. Mér fallast ekki hendur þó ég fái verkefni af þessu tagi í fangið. En svarið við upphaflegu spurningunni er að ég átti alls ekki von á svona harðri baráttu við stjórnvöld þegar ég tók að mér formennskuna fyrir fjórum árum.“


u02-fig2
Síðasta stjórnarfund Birnu sátu Anna K. Jóhannsdóttir ritari, Ásdís Björk Ármannsdóttir, Ragnar
Victor Gunnarsson, Valgerður Rúnarsdóttir varaformaður og Orri Þór Ormarsson, auk Daggar
Pálsdóttur lögfræðings LÍ.
Mynd: Védís

Virðing og skilningur

Birna segir að eitt af meginatriðunum í starfi hennar sem formanns hafi verið að þjappa læknum saman um sameiginlega, hagsmuni þeirra. „Mér er í fersku minni hin harðvítuga deila um tilvísanakerfið í tíð Sighvats Björgvinssonar heilbrigðisráðherra, sem atti læknahópum saman og tætti félagið. Ég segi að 90% af hagsmunum lækna séu sameiginlegir, og við skulum því ekki láta deilur um 10% sundra okkur. Þetta hefur ekki verið neitt erfitt því satt best að segja finnst mér ríkja miklu meiri gagnkvæm virðing og skilningur á milli lækna í ólíkum sérgreinum heldur en sumir vilja láta í veðri vaka. Ég upplifi ekki innbyrðis átök innan læknastéttarinnar í heild. Mér finnst einfaldlega að þessi rúmlega 1000 manna læknahópur hér á Íslandi sjái sig í einu liði. 

Þetta kom mér reyndar ekkert á óvart því það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir þessu. Hins vegar hefur komið mér á óvart hversu margir læknar vinna mikið og óeigingjarnt starf fyrir Læknafélagið. Þar vil ég sérstaklega nefna áherslu Læknafélagsins á tóbaksvarnir, en haustið 2009 var haldið fyrsta Tóbaksvarnaþingið á vegum félagsins, sem hafði meðal annars þau áhrif að í fyrravetur kom fram þingsályktunartillaga á alþingi um bann við almennri sölu á tóbaki. Tóbaksreykingar eru einn alvarlegasti faraldur okkar tíma og sker sig úr öðrum að því leyti að tóbaksframleiðendur beita öllum brögðum og leggja milljarða í auglýsingar á eitri sem sannanlega drepur fólk úr krabbameini og hjarta- og æðasjúdómum. Allt er þetta gert í gróðaskyni. Markmið Læknafélags Íslands er tóbakslaust land innan tíu ára.“

Rafræn sjúkraskrá

Birna hlær þegar spurt er hvað hún hafi sjálf tekið sér fyrir hendur á innri vettvangi félagsins. Hún hafi einfaldlega snúið sér að því sem hún er best í. „Að taka til!“

„Ég er mjög góð í að taka til og skipuleggja. Mér þótti húsnæðið fremur illa nýtt og breytti notkuninni á því. Rafræn skjalavarsla var í ólestri en meðferð pappírsgagna var viðunandi skulum við segja. Nú er skjalasafn félagsins komið á Þjóðskjalasafn og rafræn skjalastjórnun er komin í viðunandi horf. Þetta var mikil vinna en gríðarlega mikilvæg til að halda yfirsýn og gagnsæi fyrir stjórnendur félagsins. Það er mér mikið hjartans mál að koma allri skjalaskráningu af pappír yfir á rafrænt form. Og ég er ekki að tala eingöngu um skjalavörslu Læknafélags Íslands, heldur er ég að lýsa áhuga mínum á að öll sjúkraskrárgögn komist í rafræna samræmda sjúkraskrá á landsvísu. Það er verkefni sem ég er ekki tilbúin að skilja við. Mig langaði að beita mér sem formaður LÍ til að hafa áhrif á þetta, en kjarabaráttan tók mestan tímann. Ég var á sínum tíma formaður nefndar sem vann að því að samræma alla röntgenmyndagrunna á landinu í eina rafræna skrá. Ég vil gjarnan halda áfram að vinna að samtengingu rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu þó ég sé hætt sem formaður LÍ.“

Fjárhagur félagsins

Hrunið hafði sín áhrif á fjárhag Læknafélags Íslands. Töluverður hluti af hreinni peningalegri eign hafði verið festur í hlutabréfum og Birna segir að félagið hafi tapað talsverðum fjármunum í hruninu en staða þess fyrir hrun hafi verið mjög góð og því hafi tekist að standa þetta af sér. Ýmislegt hafi þó verið gert til að hagræða og spara.

 „Peningaleg eign félagsins í hlutabréfum rýrnaði um þriðjung við hrunið. Félagið lagði í mikinn kostnað árið 2007 við endurnýjun bókhalds- og félagatalskerfis. Þetta var nauðsynlegt þó það væri dýrt. Á árinu 2009 fórum við í nákvæma skoðun á rekstrar-og útgjaldaliðum og ýmis kostnaður var skorinn niður. Við drógum einnig úr þátttöku félagsins á alþjóðlegum vettvangi í sparnaðarskyni og allt hefur þetta orðið til þess að félagið stendur ágætlega fjárhagslega. Við gerðum könnun meðal félagsmanna árið 2009 þar sem kom skýrt fram hjá þeim sem svöruðu að meirihlutinn er sáttur við félagið sitt eins og það er. Þar kom einnig fram að um 90% telja mikilvægt að félagið standi að útgáfu Læknablaðsins. Mér finnst þetta mjög góð niðurstaða. Úrtölumennirnir sem blogga hvað mest á vef félagsins eru í miklum minnihluta.“

Nýr Landspítali

Landspítalinn er stærsti vinnustaður landsins og langstærsti vinnuveitandi lækna. Það er því eðlilegt að Læknafélag Íslands láti sig málefni Landspítalans miklu varða og formaðurinn hafi skoðun á honum. „Það kom mér ekki á óvart að forstjóri spítalans skuli hafa lýst vonbrigðum sínum með fjárveitingar til stofnunarinnar á næsta ári. Þær eru enn minni en í ár og forstjórinn segir að það muni bitna á þjónustu við sjúklinga. Ég held að hann hafi misskilið hrapallega hvernig hlutirnir gerast og talið að hann yrði verðlaunaður fyrir að hafa hagrætt og skorið niður undanfarin ár með góðum árangri. Misskilningurinn felst í því að hann bjóst við að ráðamenn myndu hlusta á hann þegar hann segði: hingað og ekki lengra. Það er líka eðlilegt að fólk spyrji hvernig hægt sé að byggja nýjan spítala fyrir tugi milljarða þegar ekki eru til peningar til að reka stofnunina. Svarið felst í reikningskúnstum í kringum fjárlögin.“

Birna segist sammála þeirri grundvallarskoðun að starfsemi Landspítalans eigi að vera á einum stað. „Það er óumdeilanlegt frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Það kemur hins vegar læknisfræði lítið við hvar hann er settur niður. Á hinn bóginn er það stór galli á vinnumhverfi íslenskra lækna að hér sé einn svona risastór spítali. En til að geta búið við það og um leið haldið þeirri hugmynd á lofti að hér sé eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi þurfum við að gefa íslenskum læknum svigrúm til að starfa að hluta erlendis. Annars lendum við þar sem við erum landfræðilega í heiminum, mitt á milli Grænlands og Færeyja. Ísland er útnári í Evrópu. Þrjú hundruð þúsund manns er mjög lítið undirlag fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu á 21. öldinni. Þess vegna verðum við að leyfa læknunum okkar að vera í hlutastarfi erlendis. Forstjóri Landspítalans hefur gert sér grein fyrir þessu og leyfir læknunum að fara á milli. Annars væri einfaldlega fátæklegra um að litast meðal starfandi sérfræðilækna á Íslandi.“

Birna liggur ekki á þeirri skoðun sinni að vandi Landspítalans í dag liggi í sameiningarsögu Reykjavíkurspítalanna þriggja. „Það er í rauninni hreint hneyksli að spítalinn sé ekki löngu kominn undir eitt þak á þessum 20 árum sem liðin eru frá því byrjað var að sameina þá. Mín skoðun er sú að það væri hagkvæmast til lengri tíma litið að byggja algjörlega nýjan spítala á nýjum stað.“

Einkaspítalar

Vandi Landspítalans er þó ekki eini vandi heilbrigðisþjónustunnar að mati Birnu. „Það hafa ýmsar hugmyndir verið á lofti um einkaspítala. Að mínu mati mun það stranda á tvennu. Til að hægt sé að bjóða fullkomna þjónustu á einkaspítala, til dæmis við liðskipti, þarf að vera til staðar alþjóðlega vottuð bráðaþjónusta. Hún er ekki til hér. Íslenska heilbrigðiskerfið hefur ekki fengið þessa vottun. Ekkert tryggingafélag í Evrópu eða Bandaríkjunum mun samþykkja að greiða fyrir aðgerð á einkaspítala á Íslandi nema vottuð bráðaþjónusta sé fyrir hendi. Í annan stað er það reynsla allra sem rekið hafa heilbrigðisþjónustu að fólk vill fá hana heima hjá sér. Það vill ekki fara á milli landa til þess. Þetta hefur komið skýrt fram innan landa Evrópusambandsins þar sem sjúkraskrárgrunnar hafa verið sameinaðir og fólki býðst að fara yfir landamæri til að sækja þjónustuna. Niðurstaðan er að í kringum 1% sjúklinga notfæra sér slíkt. Þetta segir okkur að ef við fáum ekki þjónustuna heima hjá okkur þá fáum við hana ekki. Og það undirstrikar enn frekar hversu mikilvægt er að hafa gott heilbrigðiskerfi og standa vörð um það.“

Að blómstra

Birna segir að reynsla hennar af  rekstri sjálfstæðs fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu í tvo áratugi hafi sannfært sig um að þar sem því verður við komið sé heppilegra að þeir sem veiti þjónustuna reki hana sjálfir. Hún segir að skoðanakannanir meðal lækna bendi eindregið til þess að þeim sem eru í eigin rekstri líði betur í vinnunni. „Ástæðan er einföld, þeir ráða meiru um starf sitt og starfsumhverfi. Hér á landi er um þriðjungur lækna að einhverju leyti í sjálfstæðum rekstri. Það segir sitt. Eflaust eru fleiri sem myndu vilja það ef þeir gætu. En sannarlega er ekki allt fólk eins, og því finnst mér að hvort tveggja eigi að vera í boði og fólk geti valið sér starfsumhverfi eftir því sem því hentar best. Við hvaða aðstæður blómstrar fólk? Það hlýtur að vera mikilvæg spurning,“ segir Birna Jónsdóttir sem stendur uppúr formannsstóli Læknafélags Íslands sátt við sinn hlut en hefur þó engan veginn lagt niður vopnin í baráttunni fyrir bættum kjörum og betri þjónustu. „Og þá er ég að tala um bæði lækna og sjúklinga.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica